Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.

Þskj. 1043  —  707. mál.



Frumvarp til laga

um Flugmálastjórn Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.
Yfirstjórn o.fl.

    Flugmálastjórn Íslands fer með stjórnsýslu og eftirlit á sviði loftferða hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og lögum um loftferðir, svo og öðrum lögum og alþjóðasamningum.
    Flugmálastjórn Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir samgönguráðherra.

2.     gr.

Flugmálastjóri og starfsmenn.

    Ráðherra skipar flugmálastjóra til fimm ára í senn og stjórnar hann rekstri Flugmálastjórnar. Flugmálastjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
    Um sérstakt hæfi starfsmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

3.     gr.

Flugráð.

    Flugráð er ráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál.
    Flugráð er skipað sex mönnum og jafnmörgum til vara. Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
    Ráðherra skipar í ráðið. Tveir fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar og jafnmargir til vara. Skulu fulltrúar þessir hafa þekkingu á flugmálum. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi þeirra sem skipaðir eru án tilnefningar.
    Skipunartími flugráðs er fjögur ár, en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar.
    Verkefni flugráðs eru að:
     a.      fjalla um stefnumótun í flugmálum,
     b.      veita ráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs að samgönguáætlun, sbr. lög um samgönguáætlun,
     c.      veita umsögn um lög og reglur er varða flugmál,
     d.      fjalla um málefni sem ráðherra sendir flugráði til umfjöllunar,
     e.      fjalla um mál sem flugmálastjóri eða einstakir flugráðsmenn óska að fjallað verði um.
    Flugmálastjóri situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt ásamt þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir.

4.      gr.
Verkefni Flugmálastjórnar.

    Verkefni Flugmálastjórnar eru að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi.
    Flugmálastjórn skal m.a.:
     1.      Skrá loftför í íslenska loftfaraskrá.
     2.      Veita heimildir til hvers konar reksturs sem skilgreindur er í loftferðalögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra, eins og flugreksturs, reksturs viðhaldsstöðva, flugskóla, skóla fyrir flugleiðsöguþjónustu og flugvéltækna, flugleiðsöguþjónustu, reksturs flugvalla og flugstöðva, sem og að hafa samfellt eftirlit með þessari starfsemi.
     3.      Gefa út heimildir í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem grundvallast á þessum heimildum.
     4.      Gefa út skírteini til einstaklinga í samræmi við lög og reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja framkvæmd prófa.
     5.      Kveða á um skipulag loftrýmis og flugleiðsögu, eða gera tillögu um slíkt til samgönguráðherra.
     6.      Annast eftirlit með framkvæmd flugverndar í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði flugverndar.
     7.      Stuðla að því að hvers konar flugstarfsemi þróist hér á landi í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið á hverjum tíma.
     8.      Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem kveðið er á um í alþjóðasamningum eða samstarfi sem ríkisstjórnin felur Flugmálastjórn að taka þátt í.
     9.      Vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði loftferða og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum.
    Að auki skal Flugmálastjórn annast, eftir því sem við á, undirbúning að setningu laga og reglugerða og taka þátt í mótun þeirra, m.a. á erlendum vettvangi, og annast undirbúning samninga við erlend ríki og alþjóðastofnanir og eftir atvikum gerð slíkra samninga.

5. gr.
Eftirlit.

    Flugmálastjórn skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um loftferðastarfsemina gilda.
    Flugmálastjórn er heimilt að athuga rekstur eftirlitsskyldra aðila svo oft sem þurfa þykir. Flugmálastjórn skal í þeim tilgangi vera heimill aðgangur að starfsstöðvum leyfishafa og að loftförum og búnaði þeirra til að framkvæma vettvangsathuganir, úttektir og skoðanir.
    Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita Flugmálastjórn upplýsingar um starfsemina og aðgang að gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina sem Flugmálastjórn telur nauðsynleg.
    Eftirlitsskyldur aðili skal án fyrirvara geta sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði leyfisveitingar og, ef með þarf, gangast undir þau próf sem Flugmálastjórn er heimilt að krefjast að gengist sé undir.
    Flugmálastjórn getur krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra, ef slíkt er nauðsynlegt til að unnt sé að sinna lögbundnu eftirliti.
    Um eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum loftferðalaga, svo og annarra laga eftir því sem við á.

6. gr.
Leyfissviptingar, þvingunarúrræði o.fl.

    Heimilt er Flugmálastjórn að fella úr gildi leyfi, sem veitt hefur verið, og afturkalla skírteini því til staðfestingar ef hún telur að leyfishafi fullnægi ekki lengur skilyrðum, sem kveðið er á um í leyfi, eða að leyfishafi hafi brotið í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglna sem um hina leyfisbundnu starfsemi gilda. Sama gildir ef leyfishafi telst ófær um að sinna þeirri starfsemi sem leyfið nær til.
    Leyfissvipting getur verið bundin við tiltekna hluta leyfisins.
    Um leyfissviptingar og þvingunarúrræði Flugmálastjórnar fer að öðru leyti eftir ákvæðum loftferðalaga, svo og annarra laga eftir því sem við á.

7. gr.
Þagnarskylda og veiting upplýsinga.

    Starfsmenn Flugmálastjórnar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um rekstur eða viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga sem starfa á vegum Flugmálastjórnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.
    Með gögn og aðrar upplýsingar, sem Flugmálastjórn aflar við eftirlit eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál.
    Flugmálastjórn er heimilt að safna saman, vinna úr og birta tölfræðilegar upplýsingar um loftferðir og skulu þeir sem reka leyfisbundna starfsemi skyldir til að láta í té slíkar upplýsingar ef eftir er leitað.
    Þrátt fyrir lagaákvæði um þagnarskyldu má veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja og eftirlitsaðilum á vegum viðurkenndra alþjóðasamtaka, sem Ísland er aðili að, upplýsingar sé það liður í samstarfi ríkja um eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila og slík upplýsingagjöf er nauðsynleg til að unnt sé að framfylgja eftirlitinu.

8. gr.
Athugasemdir vegna leyfishafa.

    Telji notandi loftferðaþjónustu eða aðrir að leyfisskyldur aðili brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt loftferðalögum eða reglum settum samkvæmt þeim eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í leyfi getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Flugmálastjórnar sem skal láta málið til sín taka ef við á.

9. gr.
Gjaldskrá o.fl.

    Flugmálastjórn er heimilt að innheimta gjöld vegna leyfisveitinga og eftirlits, svo og fyrir aðra þjónustu sem veitt er á vegum stofnunarinnar, í samræmi við gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra.
    Þá er Flugmálastjórn heimilt að hafa tekjur af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum.
    Kröfur Flugmálastjórnar vegna gjalda skv. 1. mgr. eru aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar.

10. gr.
Kæruheimild.

    Ákvarðanir Flugmálastjórnar sæta kæru til samgönguráðuneytis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

11. gr.
Skýrsla.

    Flugmálastjórn skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína.

12. gr.
Reglugerð.

    Nánar skal kveðið á um hlutverk Flugmálastjórnar Íslands í reglugerð. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsemi stofnunarinnar og framkvæmd laga þessara.
    Nánar skal kveðið á um hlutverk flugráðs í reglugerð.

13. gr.

Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.
    Jafnframt fellur úr gildi II. kafli laga nr. 60/1998, um loftferðir, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta er samið á vegum starfshóps sem samgönguráðherra skipaði hinn 2. ágúst 2005 til að undirbúa og gera drög að frumvörpum til laga um breytingu á starfsemi og skipulagi Flugmálastjórnar, sem fælu m.a. í sér stofnun hlutafélags um hluta af núverandi starfsemi Flugmálastjórnar, sem snýr að rekstri flugvalla og flugleiðsögu, en að stjórnsýslustarfsemi, þ.m.t. eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar, yrði sinnt af sérstakri stofnun, Flugmálastjórn Íslands.
    Í starfshópinn voru skipaðir þeir Ólafur Sveinsson hagverkfræðingur, sem var formaður hópsins, Gunnar Finnsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni, ICAO, Hilmar B. Baldursson, viðskiptafræðingur og flugstjóri, og Andri Árnason hæstaréttarlögmaður. Með starfshópnum störfuðu Karl Alvarsson og Jón Eðvald Malmquist, lögfræðingar í samgönguráðuneytinu.
    Af hálfu starfshópsins voru annars vegar unnin drög að lagafrumvarpi um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, sem lagt er fram samhliða þessu lagafrumvarpi, og hins vegar gerðar tillögur að sérstökum lögum um Flugmálastjórn Íslands sem kæmu í stað núgildandi II. kafla laga nr. 60/1998, um loftferðir. Lýtur frumvarp þetta að því síðarnefnda.
    Með þeim drögum sem hér liggja fyrir er lagt til að skipulagi flugmála hér á landi verði breytt. Skilið verði á milli þjónustu og reksturs annars vegar og stjórnsýslu og eftirlits hins vegar, til samræmis við alþjóðlega þróun á þessu sviði, m.a. annars staðar Norðurlöndum.

II.

    Ákvörðun samgönguráðherra um að gera tillögur um breytingar á skipulagi Flugmálastjórnar og að stofnað yrði sérstakt hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar, sem áður er getið, byggðist á vinnu stýrihóps um framtíðarskipan flugmála, en stýrihópurinn skilaði skýrslu til samgönguráðuneytisins í mars 2005.
    Í skýrslu stýrihópsins kemur fram að viðamiklar breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi flugsamgangna á undanförnum árum. Ástæður breytinganna séu margvíslegar en þar vegi þyngst öryggissjónarmið, kröfur um gagnsæjan og hagkvæman rekstur, samkeppnissjónarmið og það að greinin geti verið sjálfbær. Þróunin í þessa veru hafi verið hröð, bæði vegna tækniframfara og vegna þess að ný alþjóðleg viðhorf í flugmálum hafi rutt sér til rúms á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, og með stofnun JAA, Flugöryggissamtaka Evrópu, og EASA, Flugöryggisstofnunar Evrópu, sem mun taka við verkefnum JAA. Samhliða þessari þróun hafi mörg ríki endurskoðað fyrirkomulag flugmála sinna og ráðist í skipulagsbreytingar á því sviði. Íslensk stjórnvöld hafi fylgst með þessari þróun og hafi stýrihópurinn verið skipaður hinn 30. desember 2003 til þess að vinna að tillögum varðandi breytingar á fyrirkomulagi skipulags flugmála hér á landi. Markmið stýrihópsins var m.a. að fara yfir alla starfsemi, skipulag og verkefni Flugmálastjórnar og leggja mat á hvaða verkefni teldust til stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna og hvaða verkefni teldust vera þjónustuverkefni. Þá var hópnum ætlað að skilgreina hvaða rekstrarform mundi henta fyrir þá starfsemi Flugmálastjórnar sem lýtur að rekstri og þjónustu við flugið, og þá sérstaklega hvort hlutafélagaformið teldist henta til þeirrar starfsemi eða hluta hennar. Þá var hópnum ætlað að gera tilteknar athuganir á fjárhagslegum áhrifum aðgreiningar stjórnsýslu og eftirlitsverkefna annars vegar og þjónustuverkefna hins vegar, skilgreina áhrif breytinganna á flugöryggismál o.fl.

III.

    Í niðurstöðu stýrihópsins var m.a. vísað til þess að vegna þeirra breytinga sem orðið hefðu í umhverfi flugsamgangna, bæði hérlendis og erlendis, og vegna nýrra krafna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, og Evrópusambandsins um aðskilnað eftirlits og þjónustu, með tilliti til þess að samkeppni væri hafin í veitingu flugumferðarþjónustu milli landa og að teknu tilliti til þess að íslenskir flugrekendur hefðu aukið starfsemi sína verulega á erlendum mörkuðum, væri það mat stýrihópsins að bregðast þyrfti við og haga málum þannig að íslenskri flugumferðarþjónustu yrðu sköpuð skilyrði til að eflast enn frekar þannig að unnt yrði að takast á við aukna samkeppni og breyttar aðstæður. Í þessu sambandi var m.a. vísað til þess að til að uppfylla stefnumörkun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og reglur Evrópusambandsins um samevrópskt loftrými (Single European Sky-functional separation), reglugerð um flugvelli og til að viðhalda góðum stjórnsýsluháttum yrði að gera breytingar á skipulagi eftirlits og þjónustu Flugmálastjórnar, en hluti af eftirlitsverkefnum Flugmálastjórnar sé að veita starfsleyfi og hafa eftirlit með þjónustustarfsemi stofnunarinnar. Til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra var talið nauðsynlegt að aðskilja faglega yfirstjórn eftirlits annars vegar og þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar hins vegar.
    Að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem rakin voru í skýrslu stýrihóps um framtíðarskipan flugmála, sbr. framangreint, var það ákvörðun samgönguráðherra að rétt væri og nauðsynlegt að gerðar yrðu breytingar á skipulagi og öðru fyrirkomulagi á núverandi starfsemi Flugmálastjórnar Íslands, bæði með tilliti til nauðsynlegrar aðgreiningar á milli stjórnsýslu, þ.m.t. eftirlits, annars vegar og flugleiðsöguþjónustu og flugvallareksturs hins vegar, til að uppfylla fyrrgreindar kröfur sem fram hafa komið hjá ICAO og Evrópusambandinu. Þá var það mat samgönguráðherra að nauðsynlegt væri að gera það kleift að þjónustuþættir í starfsemi Flugmálastjórnar geti starfað í samkeppnisumhverfi og að sú starfsemi verði samkeppnishæf við þær breyttu aðstæður sem fyrirsjáanlegar eru taldar, auk þess sem nauðsynlegt sé að sá þáttur starfseminnar geti brugðist skjótt við í hröðu og breytilegu rekstrarumhverfi sem m.a. geti kallað á skjótar ákvarðanir í markaðslegu tilliti.
    Til að koma í kring framangreindum breytingum á skipan stjórnsýslu og þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar hefur samgönguráðherra ákveðið að leggja til, í samræmi við tillögu stýrihópsins, að ríkisstjórninni verði heimilað að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, sbr. sérstakt frumvarp þar að lútandi sem lagt er fram samhliða þessu lagafrumvarpi. Jafnframt er gert ráð fyrir að tilteknar breytingar verði gerðar á lagaumhverfi Flugmálastjórnar Íslands, svo sem greinir í frumvarpi þessu.

IV.

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að sérstök lög verði sett um Flugmálastjórn Íslands sem komi í stað núgildandi II. kafla laga um loftferðir, nr. 60/1998. Markmið frumvarpsins er því að styrkja Flugmálastjórn í breyttu umhverfi og skilgreina betur hlutverk og starfsemi stofnunarinnar en greinir í núgildandi loftferðalögum, auk þess sem talið er viðeigandi að um stofnunina gildi sérstök lög.
    Í frumvarpi þessu er fjallað um skipulag stofnunarinnar, yfirstjórn hennar og stöðu gagnvart samgönguráðuneytinu, auk þess sem kveðið er á um stöðu flugmálastjóra og heimildir hans til að ráða til stofnunarinnar annað starfsfólk. Þá er í frumvarpi þessu kveðið á um hlutverk flugráðs, sem skal vera skipað sex mönnum og sex til vara, en ráðinu er ætlað að vera ráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um tiltekin mál sem undir það falla og tilgreind eru í frumvarpi þessu. Er hlutverk flugráðs að nokkru takmarkað frá því sem nú er en gert er ráð fyrir að ráðið hafi eftir sem áður mikilvægu ráðgefandi hlutverki að gegna. Í frumvarpinu er gerð grein fyrir helstu verkefnum Flugmálastjórnar, m.a. á sviði skráningar loftfara og leyfisveitinga til reksturs og til starfa á hinum ýmsu sviðum flugmála. Þá er í frumvarpinu kveðið á um almennar eftirlitsheimildir stofnunarinnar, til viðbótar við slíkar heimildir í öðrum lögum, einkum loftferðalögum, og að auki er kveðið á um heimildir stofnunarinnar til leyfissviptinga, en það ákvæði er einnig almennt til viðbótar við tiltekin ákvæði loftferðalaga sem fjalla um slíkar leyfissviptingar og önnur þvingunarúrræði. Í frumvarpinu er einnig sérstakt þagnarskylduákvæði og ákvæði sem lýtur jafnframt að afhendingu gagna sem stofnunin aflar í starfsemi sinni. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að stofnunin geti tekið til athugunar athugasemdir og kvartanir frá notendum loftferðaþjónustu, en slíkt ákvæði er sett til að efla eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Í frumvarpinu er kveðið á um gjaldskrá stofnunarinnar og gjaldtökuheimildir, en miðað er við að ráðherra staðfesti gjaldskrána sem taki mið af kostnaði við að veita umrædda þjónustu (m.a. fyrir leyfi og eftirlit). Í niðurlagi frumvarpsins er gert ráð fyrir að stofnunin gefi út skýrslu um starfsemi sína og að ráðherra skuli setja reglugerð þar sem nánar sé kveðið á um hlutverk stofnunarinnar, auk þess sem þar er að finna almennar reglugerðarheimildir, m.a. varðandi flugráð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er mælt svo fyrir að Flugmálastjórn Íslands skuli vera sérstök stofnun sem heyri undir samgönguráðherra og fari með stjórnsýslu á sviði loftferða hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði og hafi með að gera eftirlit á því sviði, eftir því sem nánar er kveðið á um í frumvarpi þessu og öðrum lögum sem kveða á um stjórnsýslumálefni á sviði loftferða, einkum loftferðalögum. Þá er tekið fram í greininni að um stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk Flugmálastjórnar kunni að vera kveðið á um í alþjóðasamningum, en samkvæmt slíkum samningum hafa flugmálastjórnir tiltekinna ríkja einnig með að gera tiltekna stjórnsýslu vegna alþjóðlegra loftrýma. Er gert ráð fyrir að Flugmálastjórn fari með stjórnsýslu og eftirlit í samræmi við slíka samninga, eftir því sem við á, hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði eins og það er skilgreint á hverjum tíma.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir að flugmálastjóri sé skipaður til fimm ára í senn og að hann fari með stjórn stofnunarinnar. Í því sambandi er gert ráð fyrir því að flugmálastjóri ráði til stofnunarinnar annað starfsfólk, þar með talið yfirmenn einstakra sviða eða deilda, en í því felst breyting frá núgildandi lögum sem kveða á um að samgönguráðherra skuli ráða framkvæmdastjóra einstakra sviða að fenginni umsögn flugmálastjóra. Í 2. mgr. er tekið fram að um sérstakt hæfi starfsmanna Flugmálastjórnar fari samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga, m.a. varðandi vanhæfisástæður til meðferðar tiltekins máls.

Um 3. gr.

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að nokkur breyting verði á hlutverki flugráðs. Ráðið verður eftir sem áður skipað sex mönnum og ekki er gert ráð fyrir breytingu á tilnefningum í ráðið frá því sem nú er. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að núverandi tilnefningar vegna þriggja flugráðsmanna (og varamanna) haldist óraskaðar, en ekki verði gert ráð fyrir frekari bundnum tilnefningum til ráðsins. Samkvæmt greininni verður flugráð ráðgefandi fyrir ráðherra og flugmálastjóra og verða helstu verkefni ráðsins þau að fjalla um stefnumótun í flugmálum, veita ráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs um samgönguáætlun og veita umsögn um lagafrumvörp og tillögur að reglum er varða flugmál. Þá er gert ráð fyrir því að auki að ráðið fjalli um önnur mál sem ráðherra kýs að senda ráðinu til umsagnar og fjalla um mál sem flugmálastjóri og einstakir flugráðsmenn óska að fjallað verði um. Ráðið hefur því eingöngu það hlutverk að vera ráðgefandi en því er ekki ætlað að taka stjórnvaldsákvarðanir eða hafa t.d. afskipti af stjórnsýslu- eða eftirlitsverkefnum Flugmálastjórnar. Jafnframt er ekki gert ráð fyrir því að ráðið veiti lengur umsögn um rekstraráætlanir Flugmálastjórnar, gjaldskrártillögur eða því um líkt, en slíkt er ekki talið samræmast því umhverfi sem Flugmálastjórn er ætlað að starfa í. Jafnframt er felld niður núverandi heimild flugráðs til að leita álits flugmálastjóra. Er það talið fara gegn því ráðgefandi hlutverki sem ráðinu er markað í frumvarpi þessu. Þetta er í samræmi við önnur fagráð sem heyra undir samgönguráðuneyti.

Um 4. gr.

    Í greininni eru tiltekin helstu verkefni Flugmálastjórnar og meginhlutverki stofnunarinnar lýst. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að Flugmálastjórn fari með stjórnsýslu og eftirlit á sviði loftferða hér á landi og á íslensku yfirráðasvæði eftir því sem nánar er kveðið á um í frumvarpinu og lögum um loftferðir, svo og öðrum lögum og alþjóðasamningum. Ljóst er að meginverkefni Flugmálastjórnar eru tiltekin í lögum um loftferðir, nr. 60/1998, enda eru þau lög aðallöggjöfin sem gildir um loftferðir og loftferðastarfsemi hér á landi. Að auki er ljóst að verkefnum og viðfangsefnum stofnunarinnar er einnig lýst í ýmsum alþjóðlegum samningum á sviði flugmála. Í 2. mgr. greinarinnar er gerð nánari grein fyrir þessum verkefnum en ljóst er að hér er megintilvika getið en ekki er um neins konar tæmandi talningu að ræða.

Um 5. gr.

    Í grein þessari er fjallað almennt um eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, en ákvæðinu er ekki ætlað að raska sértækum heimildum sem stofnuninni eru veittar í öðrum lögum, einkum loftferðalögum, sbr. t.d. 21. gr., 27. gr., 4. mgr. 28. gr. og 1. mgr. 138. gr. loftferðalaga. Hér er kveðið almennt á um eftirlitsskyldu Flugmálastjórnar en eftirlit stofnunarinnar lýtur að því að fylgjast með því að starfsemi slíkra aðila sé á hverjum tíma í samræmi við lög og reglur sem um loftferðastarfsemina gilda. Þá er tekið fram að Flugmálastjórn sé í þeim tilgangi heimilt að kanna rekstur eftirlitsskyldra aðila svo oft sem þurfa þykir og að stofnuninni sé við það eftirlit heimill aðgangur að starfsstöðvum og loftförum og sé heimilt að framkvæma hvers konar vettvangsathuganir, úttektir og skoðanir. Þá er kveðið á um skyldu eftirlitsskyldra aðila til að veita upplýsingar um starfsemina og aðgang að gögnum sem nauðsynleg eru til að unnt sé að sinna eftirlitinu auk þess sem þeir verða að geta sýnt fram á að þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til leyfisveitingarinnar á hverjum tíma.
    Loks er kveðið á um það í grein þessari að Flugmálastjórn sé heimilt að krefja önnur stjórnvöld, óháð þagnarskyldu þeirra, um upplýsingar varðandi leyfisskylda aðila eða starfsemi þeirra, ef slíkt er nauðsynlegt til að sinna lögbundnu eftirliti.

Um 6. gr.

    Í grein þessari er fjallað almennt um heimildir Flugmálastjórnar til leyfissviptingar, en ákvæðinu er ekki ætlað að raska sértækum heimildum sem stofnuninni eru veittar í öðrum lögum, einkum loftferðalögum, eða þeim þvingunarúrræðum sem þar er mælt fyrir um, sbr. t.d. 28. gr., 3. mgr. 34. gr., 4. mgr. 56. gr., 4. mgr. 57. gr., 4. mgr. 57. gr. a og 84. gr. laganna. Í þessari grein er almennt mælt fyrir um að Flugmálastjórn sé heimilt að fella úr gildi leyfi ef stofnunin telur að leyfishafi fullnægi ekki lengur leyfisbundnum skilyrðum, hafi brotið með stórfelldum hætti gegn ákvæðum laga, reglugerða eða reglna, sem um starfsemina gilda, eða ljóst sé að viðkomandi sé ófær um að sinna þeirri starfsemi sem leyfi hans gengur út á. Heimilt er samhliða að afturkalla skírteini sem gefið hefur verið út leyfi til staðfestingar. Heimilt er að láta niðurfellingu leyfis ná til allrar hinnar leyfisbundnu starfsemi eða til hluta hennar.

Um 7. gr.

    Hér er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna Flugmálastjórnar. Er ákvæðið til viðbótar við almennt þagnarskylduákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Er í grein þessari sérstaklega tiltekið að starfsmenn Flugmálastjórnar skuli gæta þagmælsku gagnvart óviðkomandi um það sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, m.a. varðandi rekstur og viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þá er tekið fram að þagnarskylda nái ekki eingöngu til starfsmanna Flugmálastjórnar heldur einnig til þeirra sjálfstæðu sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir því, í samræmi við almennt ákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996, að þagnarskylda haldist þótt látið sé af störfum. Gildir það einnig um þá sérfræðinga sem starfað hafa fyrir stofnunina. Þá er sérstaklega kveðið á um það að með gögn og aðrar upplýsingar, sem aflað er af hálfu Flugmálastjórnar, skuli fara með sem trúnaðarmál.
    Í 3. mgr. greinarinnar er tekið fram að Flugmálastjórn sé heimilt að safna saman, vinna úr og birta tölfræðilegar upplýsingar um loftferðir og að heimilt sé að krefja þá sem stunda leyfisbundna starfsemi um slíkar upplýsingar. Er gert ráð fyrir að um meðferð slíkra upplýsinga og meðferð gagna, sem aflað er í þessum tilgangi, fari samkvæmt lögum um persónuvernd og vernd persónuupplýsinga, nr. 77/2000, eftir því sem við á.
    Í 4. mgr. greinarinnar er fjallað um heimild Flugmálastjórnar til að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja eða eftirlitsaðilum á vegum viðurkenndra alþjóðasamtaka, sem Ísland er aðili að, upplýsingar sem samkvæmt grein þessari kunna að vera háðar þagnarskyldu, enda sé slíkt liður í eftirlitssamstarfi ríkja og nauðsynlegt til að framfylgja lögmæltu eftirliti. Er ákvæði þetta sett til að tryggja alþjóðlegt eftirlit með leyfisskyldum aðilum, en ljóst er að það er mjög mikilvægt í því alþjóðlega umhverfi sem flugið er að samstarf eftirlitsaðila sé skilvirkt. Mætti eftir atvikum líta svo á að eftirlitsstjórnvöld annarra ríkja, sem eru í samstarfi við íslensk stjórnvöld að þessu leyti, séu ekki óviðkomandi aðilar í skilningi 1. mgr. greinarinnar, en málsgrein þessari er ætlað að taka þar af öll tvímæli.

Um 8. gr.

    Hér er tekið upp það nýmæli að kveða á um það sérstaklega í lögum að telji notandi loftferðaþjónustu eða aðrir að leyfisskyldur aðili brjóti eða hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt loftferðalögum, reglum settum samkvæmt þeim eða gegn starfsleyfum sínum geti viðkomandi beint athugasemdum eða kvörtunum til Flugmálastjórnar. Er gert ráð fyrir að slík athugasemd eða kvörtun fái viðeigandi rannsókn Flugmálastjórnar eftir því sem tilefni er til. Er ákvæðinu ætlað að styrkja eftirlit Flugmálastjórnar með leyfisbundnum aðilum.

Um 9. gr.

    Í grein þessari er kveðið á um að Flugmálastjórn sé heimilt að innheimta gjöld fyrir meginþætti í starfsemi sinni, svo sem fyrir að veita leyfi og halda uppi lögbundnu eftirliti. Er ákvæði þetta í samræmi við þá meginreglu að heimild til að taka gjöld fyrir opinbera þjónustu skuli vera lögbundin. Er hér gert ráð fyrir að þeir sem njóta leyfa og sæta eftirliti skuli að meginstefnu til greiða fyrir leyfisveitingar og lögbundið eftirlit. Sama gildi varðandi aðra þjónustu sem veitt er á vegum stofnunarinnar og jafnan tengist umræddum þáttum með einum eða öðrum hætti, svo sem þegar eftirlit fer fram utan Íslands eða þegar um önnur frávik er að ræða frá hefðbundinni stjórnsýslu hér á landi. Slík gjaldskrá tæki mið af kostnaði við að veita umrædd leyfi, sinna eftirliti eða veita viðkomandi þjónustu. Gjaldskráin yrði staðfest af ráðherra og nytu gjöld samkvæmt henni beinnar aðfararheimildar.
    Þá er kveðið á um það í 2. mgr. að Flugmálastjórn sé heimilt að hafa einnig tekjur af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum. Ekki er hér gert ráð fyrir sérstakri gjaldskrá, enda ekki um að ræða hefðbundin lögmælt stjórnsýsluverkefni. Þóknun fyrir slík verkefni yrði í samræmi við samninga í hverju tilviki.

Um 10. og 11. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.

    Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um hlutverk stofnunarinnar í reglugerð. Þá er og gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsemi Flugmálastjórnar og um framkvæmd laga þessara að öðru leyti. Loks er í greininni mælt svo fyrir að nánar skuli kveðið á um hlutverk flugráðs í reglugerð.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Flugmálastjórn Íslands.

    Markmiðið með frumvarpinu er að koma á breytingum í starfsemi Flugmálastjórnar, sem felur m.a. í sér að verkefni Flugmálastjórnar verði á sviði stjórnsýslu loftferða en önnur verkefni fari yfir í hlutafélag. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og er vísað til umsagnar um það frumvarp. Verkefni Flugmálastjórnar Íslands, sem þetta frumvarp snýr að, verður að fara með stjórnsýslu á sviði loftferða, hafa eftirlit með loftferðastarfsemi og stuðla að öryggi í flugi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að kostnaður Flugmálastjórnar Íslands vegna breytinga sem frumvarpið felur í sér verði 30,1 m.kr., sem falli til frá og með árinu 2007. Helsta ástæða kostnaðaraukans er launakostnaður vegna fjögurra nýrra stöðugilda þar sem stjórnsýsla á ákveðnum sviðum flyst til hlutafélagsins m.a. við fjármál, starfsmannastjórnun og eftirlit með hinu nýja fyrirtæki. Gert er ráð fyrir því að kostnaðinum verði mætt með forgangsröðun innan fjárlagaramma langtímaáætlunar samgönguráðuneytisins.