Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 731. máls.
Þskj. 1067  —  731. mál.




Frumvarp til laga

um opinberan stuðning við tæknirannsóknir,
nýsköpun og atvinnuþróun.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
1. gr.
Stjórnsýsla.

    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.

2. gr.

Hlutverk og starfsemi.


    Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu. Í þessu felst að:
     a.      stuðla að framförum í atvinnulífinu, með þekkingarmiðlun og stuðningsþjónustu við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, m.a. með rekstri þjónustumiðstöðvar,
     b.      efla samstarf á milli rannsóknastofnana, háskóla og fyrirtækja og styrkja tengsl þeirra við atvinnuþróunarfélög,
     c.      stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir,
     d.      greina stöðu og þróun búsetuskilyrða og atvinnulífs í landinu og vinna áætlanir sem hafa það að markmiði að stuðla að samkeppnishæfni atvinnulífs og treysta byggð í landinu í samræmi við ályktanir Alþingis í byggðamálum,
     e.      fara með málefni sérstakra sjóða eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum,
     f.      fjármagna verkefni á grundvelli samninga, t.d. vaxtarsamninga til að ná tilteknum markmiðum í atvinnuþróun.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal enn fremur annast önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um framkvæmd skilgreindra verkefna skv. a–f-lið 1. mgr.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal í starfsemi sinni taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs.

3. gr.

Forstjóri og aðrir starfsmenn.


    Ráðherra skipar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar og daglegan rekstur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og ákveður starfssvið þeirra.

II. KAFLI

Þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki.

4. gr.

Verkefni.


    Hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal rekin þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Þar skulu veittar upplýsingar og leiðsögn er varðar stofnun og rekstur sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Í boði skal vera fjölbreytt þjónusta og stuðningsverkefni sem hvetja til vöruþróunar, nýsköpunar og mótunar viðskiptahugmynda. Greining á samkeppnisstöðu atvinnulífsins er hluti starfseminnar, svo og ráðgjöf til stjórnvalda um þróun og úrbætur á þeim sviðum.
    Þjónustumiðstöðin veitir þjónustu fyrir landið allt og skal í staðbundinni starfsemi hafa samráð við atvinnuþróunarfélög. Hún skal í starfsemi sinni vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Þjónustumiðstöðin skal sinna eftirfarandi verkefnum:
     a.      eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið,
     b.      móta sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja,
     c.      starfrækja frumkvöðlasetur í samræmi við reglur sem iðnaðarráðherra samþykkir,
     d.      annast miðlun hvers konar hagnýtrar þekkingar um stofnun og rekstur fyrirtækja,
     e.      vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu,
     f.      miðla þekkingu um innlendar og erlendar tækninýjungar og aðgerðir sem auka framleiðni,
     g.      beita sér fyrir hagnýtingu vísindalegrar þekkingar,
     h.      aðstoða við öflun framtaksfjármagns til verkefna sem stuðla að nýsköpun og aukinni verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi,
     i.      annast samstarf við innlendar og erlendar stofnanir sem gegna sambærilegu hlutverki.

III. KAFLI

Íslenskar tæknirannsóknir.

5. gr.

Verkefni.


    Rannsóknastarfsemi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skal starfrækt undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Starfsemin skal taka mið af ályktunum Vísinda- og nýsköpunarráðs en áhersla skal vera á hagnýtar rannsóknir og vöruþróun í þágu nýsköpunar atvinnulífsins og grunnrannsóknir á afmörkuðum sviðum sem hafa þjóðhagslega þýðingu. Starfsemin skal stuðla að tækniyfirfærslu og aðlögun þekkingar til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf.
    Íslenskar tæknirannsóknir skulu sinna eftirfarandi verkefnum:
     a.      tæknirannsóknum sem leitt geta til aukinnar nýsköpunar, aukinnar framleiðni og betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins,
     b.      tækniþróun, tækniyfirfærslu og aðlögun tækni í nánu samstarfi við fyrirtæki og atvinnugreinar,
     c.      hafa yfir að ráða aðstöðu og færni til að takast á við rannsóknir á nýjum fræðasviðum sem hafa eða munu hafa afgerandi áhrif á framþróun íslensks atvinnulífs,
     d.      ráðgjöf, mælingum, prófunum og vottunarstarfsemi á þeim sviðum sem atvinnulífið þarfnast og ekki er boðin á markaði.

IV. KAFLI

Byggðasjóður.

6. gr.

Hlutverk.


    Sérstakur sjóður, er nefnist Byggðasjóður, skal vistaður í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Umsýsla hans skal vera hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, samkvæmt sérstökum samningi þar um.
    Hlutverk Byggðasjóðs skal vera að veita ábyrgðir á lán til:
     a.      endurnýjunar, þróunar og nýsköpunar,
     b.      eigendaskipta,
     c.      stofnunar fyrirtækja,
     d.      fjárfestinga.
    Byggðasjóði er heimilt að veita ábyrgðir á lán með allt að 75% ábyrgðarþátttöku sjóðsins.
    Heimildir Byggðasjóðs til að veita ábyrgðir takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skal sjóðurinn einungis veita ábyrgðir til skilgreindrar starfsemi á þeim svæðum á landinu þar sem heimilt er að veita styrki í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um byggðakort fyrir Ísland.

7. gr.

Stjórn.


    Með stjórn Byggðasjóðs fer fimm manna stjórn sem iðnaðarráðherra skipar til þriggja ára í senn og skulu tveir stjórnarmenn tilnefndir af fjármálaráðherra.
    Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Iðnaðarráðherra velur formann og varaformann sjóðsstjórnar úr hópi stjórnarmanna og ákveður þóknun stjórnarmanna.
    Stjórn Byggðasjóðs tekur ákvarðanir um veitingu lánsábyrgða. Stjórninni er heimilt að taka skammtímalán til að jafna sveiflur í greiðslustreymi sjóðsins.
    Stjórn sjóðsins skal setja reglur um starfsemi sjóðsins sem háðar eru samþykki fjármálaráðherra. Í reglunum skal mæla fyrir um ábyrgðargjöld og önnur skilyrði fyrir veitingu ábyrgða. Þar skal m.a. kveðið á um upphæð lána sem ábyrgð getur tekið til, árlegt ábyrgðargjald og aðra gjaldtöku, mögulega nýtingu láns með ábyrgð og aðra skilmála ábyrgðar. Þá skal einnig kveðið á um afskriftasjóð og reikningshald.
    Heildarumfang lánsábyrgða Byggðasjóðs getur að hámarki numið fimmföldu eigin fé sjóðsins.
    Ríkissjóður ábyrgist skuldbindingar sjóðsins. Sjóðurinn er undanþeginn gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

8. gr.

Tekjur.


    Tekjur Byggðasjóðs eru:
     a.      tekjur af ábyrgðargjöldum,
     b.      fjármagnstekjur og önnur framlög.

V. KAFLI

Tækniþróunarsjóður.

9. gr.

Hlutverk.


    Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem skal vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Fagleg umsýsla Tækniþróunarsjóðs skal falin óháðum aðila samkvæmt samningi.
    Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóði er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs með því að:
     a.      styrkja tækniþróun og tengdar rannsóknir í þágu nýsköpunar atvinnulífsins, m.a. í samstarfi við stofnanir, háskóla og fyrirtæki,
     b.      styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar,
     c.      fjármagna átaksverkefni og markáætlanir á einstökum tæknisviðum til að treysta tæknilegar undirstöður atvinnuveganna, einstakar greinar þeirra eða þvert á greinaskiptingu þeirra,
     d.      styrkja lítil verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að verða atvinnu- og tekjuskapandi og arðbær þrátt fyrir áhættu í upphafi,
     e.      greiða kostnað við greiningu á stöðu nýsköpunar og gerð áætlana til styrktar henni.

10. gr.

Tekjur.


    Tekjur Tækniþróunarsjóðs eru:
     a.      fjárveitingar í fjárlögum,
     b.      tekjur af sölu hlutdeildar í sprotafyrirtækjum sem sjóðurinn hefur eignast aðild að,
     c.      framlög frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum,
     d.      önnur framlög.

11. gr.

Stjórn.


    Í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitja sjö menn sem iðnaðarráðherra skipar til þriggja ára í senn. Tveir þeirra skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu nýsköpunarnefndar Vísinda- og nýsköpunarráðs, einn samkvæmt tilnefningu landbúnaðarráðherra, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, en ráðherra skipar einn án tilnefningar.
    Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Iðnaðarráðherra velur formann og varaformann sjóðsstjórnar úr hópi stjórnarmanna.

12. gr.

Hlutverk stjórnar og fagráða Tækniþróunarsjóðs.


    Stjórn Tækniþróunarsjóðs ákveður áherslur sjóðsins samkvæmt skilgreindu hlutverki hans, sbr. 9. gr. Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum umsögnum fagráða sem nýsköpunarnefnd Vísinda- og nýsköpunarráðs skipar til tveggja ára í senn. Fagráðin eru ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Jafnframt eru fagráðin ráðgefandi fyrir Vísinda- og nýsköpunarráð og undirnefndir þess eftir því sem óskað er.
    Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef henni þykir þurfa. Þeir sem skipaðir eru í fagráð skulu hafa víðtæka reynslu af tækniþróun og nýsköpun. Þeir skulu hvorki sitja í Vísinda- og nýsköpunarráði né stjórn Tækniþróunarsjóðs.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Tækniþróunarsjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur sjóðsins skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins.

13. gr.

Úthlutunarreglur.


    Úthlutunarstefna Tækniþróunarsjóðs skal fylgja áherslum Vísinda- og nýsköpunarráðs. Stjórn Tækniþróunarsjóðs setur reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og nýsköpunarráðs.

14. gr.

Reglugerð.


    Iðnaðarráðherra er heimilt að kveða nánar á um starfsemi Tækniþróunarsjóðs í reglugerð, þ.m.t. um vörslu sjóðsins, umsýslu og rekstur.

VI. KAFLI

Tryggingarsjóður útflutnings.

15. gr.

Hlutverk.


    Tryggingarsjóður útflutnings er sérstakur sjóður sem skal vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Umsýsla hans skal vera hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands samkvæmt sérstökum samningi þar um.
    Hlutverk Tryggingarsjóðs útflutnings skal vera að veita tryggingar og ábyrgðir til þess að efla íslenskan útflutning vöru og þjónustu, auka íslenskar fjárfestingar erlendis, þátttöku í verklegum framkvæmdum erlendis og þátttöku í stærri verklegum framkvæmdum hérlendis.     Hlutverk sitt rækir Tryggingarsjóður útflutnings með því að:
     a.      taka að sér að tryggja útflutningslán sem lánastofnun veitir útflytjanda eða kaupanda, enda hafi lánið verið veitt til fjármögnunar í tengslum við íslenskan útflutning á vöru eða þjónustu,
     b.      taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgðir vegna samnings á milli útflytjanda og kaupanda sem gerður hefur verið vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu,
     c.      taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgð fyrir efndum á þjónustu- eða verksamningi sem gerður er vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu,
     d.      gefa út verkábyrgðir eða tryggja verkábyrgð innlends aðila vegna framkvæmdar sem fer að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gerir opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu,
     e.      tryggja fjárfestingar innlends fjárfestis erlendis vegna stjórnmálalegrar áhættu,
     f.      tryggja búnað sem innlendur aðili flytur til útlanda í tengslum við verkefni þar vegna stjórnmálalegrar áhættu,
     g.      gefa út annars konar ábyrgð eða tryggingu en að framan greinir, enda falli hún undir hlutverk Tryggingarsjóðs útflutnings.
    Heimildir Tryggingarsjóðs útflutnings til að veita ábyrgð eða tryggingu takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skal sjóðurinn að jafnaði hvorki veita ábyrgð né tryggingu vegna viðskiptalegrar eða stjórnmálalegrar áhættu til skemmri tíma en tveggja ára í viðskiptum við aðila sem hafa staðfestu í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eða öðrum ríkjum sem eru aðilar að Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) og tilgreind eru í starfsreglum stjórnarnefndar sjóðsins.

16. gr.

Stjórnarnefnd Tryggingarsjóðs útflutnings.


    Með stjórn sjóðsins fer stjórnarnefnd sem í eiga sæti fimm menn. Einn þeirra skal skipaður samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra, einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu utanríkisráðherra og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins.
    Stjórnarnefnd Tryggingarsjóðs útflutnings ákveður iðgjöld og tryggingarhlutföll sjóðsins en þau skulu háð samþykki fjármálaráðherra. Við ákvörðun þeirra skal miðað við að þau standi undir rekstri sjóðsins, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs þannig að starfsemin standi undir sér til lengri tíma litið.
    Tekjuafgangur leggst í sérstakan varasjóð og skal honum varið til greiðslu tjónabóta. Nægi fé sjóðsins, þ.m.t. varasjóður, ekki til greiðslu tjónabóta skal greiða það sem á vantar úr Ríkisábyrgðasjóði.
    Ríkissjóður ábyrgist að öðru leyti skuldbindingar sjóðsins.

17. gr.

Greiðsluskilmálar o.fl.


    Greiðsluskilmálar lána sem Tryggingarsjóður útflutnings tryggir skulu vera í samræmi við almennar viðskiptavenjur hér á landi sem erlendis, með hliðsjón af vörugerð, eðli þjónustu, markaðsaðstæðum og öðru sem máli skiptir.
    Heildarskuldbindingar Tryggingarsjóðs útflutnings vegna trygginga og ábyrgða mega aldrei nema hærri fjárhæð en jafnvirði 130 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR).
    Stjórnarnefnd Tryggingarsjóðs útflutnings setur sjóðnum nánari starfsreglur sem háðar skulu samþykki fjármálaráðherra.

VII. KAFLI

Önnur ákvæði.

18. gr.

Eignarhlutir í rannsókna- og þróunarfyrirtækjum.


    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að eiga eignarhluti í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem rekin eru í formi hlutafélaga, eða annars konar formi með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna.

19. gr.

Reikningslegur aðskilnaður.


    Reikningslegur aðskilnaður skal vera á milli starfsemi Byggðasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Tryggingarsjóðs útflutnings og annarrar starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

20. gr.

Takmörkun á kærurétti.


    Ákvarðanir sem teknar eru um að veita lánsábyrgðir af hálfu Byggðasjóðs og Tryggingarsjóðs útflutnings og styrki úr Tækniþróunarsjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

21. gr.

Heimildir til gjaldtöku.


    Til að standa straum af kostnaði við starfsemi skv. a- og c-lið 2. gr. laga þessara, þ.m.t. við rannsóknir, ráðgjöf, námskeiðahald og vottun, er Nýsköpunarmiðstöð Íslands heimilt að innheimta þjónustugjald.

22. gr.

Tekjur.


    Tekjur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru:
     a.      framlög úr ríkissjóði eins og ákveðin eru á fjárlögum hverju sinni,
     b.      þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar,
     c.      fjármagnstekjur,
     d.      aðrar tekjur.

23. gr.

Undanþága frá gjöldum.


    Byggðasjóður er undanþeginn stimpilgjaldi.

24. gr.

Staðsetning.


    Iðnaðarráðherra ákveður staðsetningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

25. gr.

Þagnarskylda.


    Allir starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

26. gr.

Reglugerð.


    Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og framkvæmd laga þessara.

27. gr.

Gildistaka og brottfall laga.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Á sama tíma falla úr gildi VII. kafli laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum, lög um Iðntæknistofnun Íslands, nr. 41/1978, með síðari breytingum, lög um Byggðastofnun, nr. 106/1999, og lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, nr. 4/2003.

28. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna: Orðin „Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins“ í 1. mgr. 9. gr. laganna falla brott.
     2.      Lög um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982:
Orðið „Byggðastofnunar“ í 2. gr. laganna fellur brott.
     3.      Lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996: Í stað orðsins „Byggðastofnun“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: Byggðasjóður.
     4.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003: Í stað orðsins „Byggðastofnun“ í 1. tölul. 5. mgr. 71. gr. laganna kemur: Byggðasjóður.
     5.      Lög um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990: Í stað orðsins „Byggðastofnun“ í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     6.      Lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002: Í stað orðanna „Byggðastofnunar, Ferðamálaráðs, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Iðntæknistofnunar“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálaráðs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
     7.      Lög um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987: Í stað orðanna „Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins“ í 1. gr. laganna kemur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     8.      Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997: Í stað orðanna „Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     9.      Lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53/1980: 10. gr. laganna fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Starfsmenn Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðaðarins sem eru í starfi við gildistöku laganna skulu eiga rétt á starfi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands með sömu ráðningarkjörum og áður giltu. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði. Hafi starfsmaður átt aðild að öðrum sjóði en lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna starfs síns hjá Byggðastofnun er hann undanþeginn skylduaðild skv. 1. gr. laga nr. 1/1997, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, vegna starfs hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

II.


    Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur við eignum, réttindum og skyldum Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.
    Byggðasjóður tekur við útlánasafni, hlutafjáreign, handbæru fé og fullnustueignum Byggðastofnunar. Þá yfirtekur Byggðasjóður innlend og erlend lán sem stofnunin hefur tekið og útgefin láns- og hlutafjárloforð. Að öðru leyti tekur Nýsköpunarmiðstöð Íslands við eignum, réttindum og skyldum Byggðastofnunar.
    Tryggingarsjóður útflutnings heldur eignum og skuldbindingum tryggingardeildar útflutnings, sem starfrækt er skv. II. kafla laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.
    Tækniþróunarsjóður heldur eignum og skuldbindingum Tækniþróunarsjóðs, sem starfræktur er skv. 4.–8. gr. laga nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

III.


    Þrátt fyrir ákvæði 27. gr. er ráðherra heimilt að skipa nú þegar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og skal forstjórinn hafa heimild til að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. að bjóða starfsmönnum Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins starf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 1. janúar 2007, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Aðdragandi.
    Hinn15. september 2004 skipaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra starfshóp til að gera tillögur um endurskipulagningu tæknirannsókna. Skipun nefndarinnar var hluti af víðtækri vinnu á vegum Vísinda- og tækniráðs er beindist að því að endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana. Meginmarkmið slíkra skipulagsbreytinga skyldi vera að auka bolmagn íslenskra rannsóknareininga, efla árangur af starfi þeirra og tryggja að starfskraftar og fjármunir nýttust sem best. Einkum skyldu kannaðir möguleikar á samþættingu eða sameiningu skyldrar starfsemi einstakra stofnana þar sem unnt væri að ná sérstökum áhrifum með skipulagsbreytingum.
    Í starfshópi iðnaðarráðherra sátu Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti, sem var formaður hópsins, Edda Lilja Sveinsdóttir, deildarstjóri á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, og Ingólfur Örn Þorbjörnsson, forstöðumaður á Iðntæknistofnun. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum til iðnaðarráðherra 5. nóvember 2004. Það var niðurstaða hópsins að unnt væri að efla opinberar tæknirannsóknir með því að sameina starfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfshópurinn taldi að sameiningin mundi leiða til samlegðaráhrifa sem væri ein veigamesta forsenda þess að aukinn árangur næðist í alþjóðlegri samkeppni á sviði tæknirannsókna og nýsköpunar sem leitt gæti til bættrar samkeppnisstöðu Íslands.
    Vísinda- og tækniráð tók undir niðurstöðu starfshópsins í ályktun ráðsins frá 17. desember 2004, en þar segir: „Vísinda- og tækniráð styður sameiningu Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og beinir því til iðnaðarráðherra að vinna áfram að þeirri sameiningu á grundvelli greinargerðar starfshóps iðnaðarráðherra um tæknirannsóknir með áherslu á náin tengsl við háskóla.“
    Á grundvelli þessa skipaði iðnaðarráðherra, 2. febrúar 2005, nefnd sem skyldi m.a. gera tillögur um verkefni og innra skipulag nýrrar stofnunar um tæknirannsóknir. Mikilvægi samfélagslegs hlutverks tæknirannsókna skyldi lagt til grundvallar með sérstakri tilvísun til þýðingar þeirra fyrir framþróun íslensks atvinnulífs og bættrar samkeppnisstöðu Íslands. M.a. ætti reksturinn að stuðla að heilbrigðri samkeppni og uppfylla kröfur samkeppnislaga. Bréf framkvæmdanefndar um stofnanakerfi og rekstur verkefna á vegum ríkisins frá 10. janúar 2005 var einnig lagt til grundvallar í starfi nefndarinnar. Í þeirri nefnd sátu Magnús G. Friðgeirsson formaður stjórna Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, sem var formaður nefndarinnar, Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands, Hákon Ólafsson, forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Ingólfur Þorbjörnsson, forstöðumaður á Iðntæknistofnun, Ólafur Wallevik, deildarstjóri á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, og Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra með greinargerð dagsettri 30. september 2005. Á grundvelli jákvæðrar niðurstöðu nefndarinnar ákvað iðnaðarráðherra að undirbúa sameiningu stofnananna. Þeirri ákvörðun var þó frestað þegar nánari skoðun leiddi í ljós að enn meiri ávinningi mætti ná með víðtækari sameiningu á allri starfsemi ráðuneytisins að nýsköpun og atvinnuþróun.
    Byggðastofnun gegnir veigamiklu hlutverki í atvinnuþróun. Hlutverk hennar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Þessu hlutverki má skipta í tvennt: sérfræðihlutverk og fjármögnunarhlutverk. Undir sérfræðihlutverkið fellur þátttaka í gerð byggðaáætlunar, rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun og atvinnuráðgjöf. Undir fjármögnunarhlutverkið fellur fjármögnun verkefna, veiting lána og ábyrgðir og fjármögnun þróunarverkefna. Sá hluti starfseminnar sem fjallar um atvinnuþróun er nátengdur starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar Impru á Iðntæknistofnun sem aðstoðað hefur frumkvöðla og fyrirtæki við nýsköpun.
    Á síðustu missirum hafa átt sér stað miklar breytingar á starfsumhverfi og stöðu Byggðastofnunar. Meginástæðan er sú að aðgangur fyrirtækja að lánsfjármagni hefur aukist og vextir lækkað. Þessar breytingar hafa haft neikvæðar afleiðingar fyrir lánastarfsemi og afkomu stofnunarinnar. Þá hefur stofnunin þurft að afskrifa verulegar upphæðir á undanförnum árum og hefur eiginfjárstaða hennar versnað. Fjármálastarfsemi Byggðastofnunar fellur undir lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en samkvæmt þeim má eigið fé stofnunarinnar að lágmarki vera 8% af áhættugrunni. Eiginfjárhlutfallið var 18,7% árið 1999 og var komið í 9,6% 2004. Tímabundið fór hlutfallið niður fyrir 8% markið á árinu 2005.
    Í ljósi þessarar stöðu fól iðnaðarráðuneytið ráðgjafafyrirtækinu Stjórnhættir ehf. að greina helstu valkosti varðandi framtíðarþróun Byggðastofnunar. Í skýrslu fyrirtækisins: Framtíðarþróun Byggðastofnunar – Greining á meginvalkostum, frá 5. maí 2005, segir m.a.: „Meginniðurstaða greiningar á stöðu Byggðastofnunar er að þrátt fyrir að ýmsar jákvæðar umbætur hafi verið gerðar á undanförnum árum á stofnunin samt sem áður við alvarlegan vanda að stríða. Stofnunin er ekki það forustuafl í málaflokknum sem ætla mætti og sinnir ýmsum grundvallarhlutverkum ekki nægilega vel. Fjárhagsstaðan er mjög erfið og fátt bendir til þess að fjármögnunarstarfsemin geti orðið fjárhagslega sjálfbær. Vafi leikur á hvort stefnan í atvinnuþróun og fjármögnun sé skynsamleg og hafi leitt til tilætlaðs árangurs.“
    Í júní 2005 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til að fjalla um fjárhagsvanda Byggðastofnunar og móta tillögur um framtíðarstarfsemi hennar og þeirra málaflokka sem hún hefur sinnt. Í starfshópnum voru Páll Magnússon, aðstoðarmaður ráðherra, sem jafnframt var formaður, Berglind Svavarsdóttir hdl., Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, Magnús Stefánsson alþingismaður og Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti. Einar K. Guðfinnsson lét af setu í starfshópnum þegar hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra og tók Einar Oddur Kristjánsson sæti hans. Tillögur starfshópsins voru m.a. um eftirfarandi efnisatriði:
          Grundvallarbreytingar verði á fjármögnunarstarfsemi Byggðastofnunar þannig að hún verði fjárhagslega sjálfbær.
          Fjármögnunartæki og vinnubrögð verði þróuð sem miða að því að efla samstarf við fjármálafyrirtæki sem geri fjármögnun atvinnustarfsemi á landsbyggðinni auðveldari.
          Árangur á sviði byggðamála verði aukinn með skýrri stefnumótun stjórnvalda, ásamt bættri og skýrari forgangsröðun verkefna.
          Sérstaklega verði hugað að frekari samhæfingu eða samþættingu starfsemi Byggðastofnunar, Impru og Iðntæknistofnunar með það að markmiði að tryggja sterka stöðu og sýnileika byggðamála í þeirri starfsemi sem ætlað er að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun.
    Unnið hefur verið eftir þessum tillögum starfshópsins.
    
II. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður til við samruna Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Öll aðkoma iðnaðarráðuneytis að tæknirannsóknum, nýsköpun og atvinnuþróun verður þar með samræmd og felld í eina stofnun í þeim tilgangi að efla sóknarkraft og tryggja hámarksárangur starfseminnar.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður þekkingarsetur þar sem saman koma tæknirannsóknir með tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annars vegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hins vegar. Þar verður miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem fást við hvers konar nýsköpunarvinnu. Þar verður að finna frumkvöðlasetur sem aðstoðar sprotafyrirtæki og frumkvöðla við þróun nýsköpunarhugmynda og veitir þeim aðstoð við að vaxa fyrstu rekstrarárin. Þá verður unnið að greiningum á stöðu og þróun atvinnulífs og byggðalaga, m.a. til að unnt verði að bregðast við aðsteðjandi vanda hverju sinni með öllum þeim tækjum sem stofnunin býr yfir.
    Efling starfseminnar úti á landi er ein af forsendum þessara breytinga. Þekkingarsetur á landsbyggðinni verður þungamiðja atvinnusóknar sem einkum byggist á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði og getu þess til að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Samstarf stofnunarinnar við aðila á einstökum svæðum mun aðallega verða mótað í vaxtarsamningum þar sem ábyrgð á stefnumótun og framkvæmd verður í höndum heimamanna.

III. Forsendur nýrrar stefnumótunar, Vísinda- og nýsköpunarráð.
    Atvinnulífið hefur tekið stórstígum breytingum á síðustu árum. Samstarf um rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun er orðið alþjóðlegt og hafa íslensk fyrirtæki haslað sér völl á erlendum vettvangi með mjög góðum árangri. Tæknivæðing í hefðbundnum atvinnugreinum hefur leitt til hagræðingar og bættrar afkomu fyrirtækja en störfum hefur fækkað. Ný vel launuð störf hafa orðið til í þekkingargreinum sem gera aðrar kröfur til þekkingar og reynslu starfsmanna en þau störf sem horfið hafa. Þessara breytinga hefur gætt um allt land en með mismunandi móti. Samdráttur hefur verið í sjávarútvegi og landbúnaði en uppbygging þekkingargreina hefur aðallega verið á höfuðborgarsvæðinu og ekki nýst landsbyggðinni að sama skapi.
    Nýjar atvinnugreinar sem þannig hafa orðið til hafa í mörgum tilfellum staðið utan við það stuðningskerfi sem atvinnulífinu var mótað fyrir allt að fjórum áratugum með tilkomu rannsóknastofnana atvinnuveganna. Þessar stofnanir hafa kröftuglega reynt að aðlaga sig þessum breytingum en fram hjá því verður ekki horft að sú starfsemi og þau tæki sem ríkið hefur tiltæk á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar hafa ekki náð að fylgja þróuninni eftir.
    Vegna breytinga undanfarinna ára og þeirra áskorana sem fram undan eru þykir full ástæða fyrir stjórnvöld til að huga að víðtækri stefnumótun á sviði atvinnuþróunar sem næði yfir markalínur flokkunar atvinnugreina. Markmið slíkrar stefnumótunar væri að auka samkeppnishæfni, nýsköpun, hagvöxt, jafna lífskjör og stuðla að bættu byggðajafnvægi. Hér er því um að ræða samþættingu áherslna er lúta að rannsóknum og tækniþróun annars vegar og atvinnu- og búsetuþróun hins vegar.
    Langtímamarkmið slíkrar stefnumótunar er að treysta menningar- og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þannig að efnahagur og lífsgæði Íslendinga skipi þeim áfram í fremstu röð meðal þjóða.
    Vísinda- og tækniráð tók til starfa árið 2003. Markmiðið með stofnun ráðsins var að samhæfa stefnumótun margra ráðuneyta og stofnana sem almennt höfðu lítið tillit tekið til áherslna eða verkefna hvert annars. Á þeim þremur árum sem ráðið hefur starfað hefur það stuðlað að heildstæðri stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum vísinda, tæknirannsókna og nýsköpunar, auk þess sem veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á stofnunum ríkisins. Þannig er sameining tæknirannsókna, sem er veigamikill hluti þessa frumvarps, byggð á vinnu og ályktunum Vísinda- og tækniráðs.
    Í ljósi reynslunnar af starfi Vísinda- og tækniráðs er talið rétt að útvíkka starfsemi ráðsins og fela því einnig að fjalla um atvinnuþróunarmál. Hér er átt við málefni er tengjast vexti og viðgangi atvinnulífs og þá þætti sem áhrif hafa á þróun þess. Á margan hátt er umfjöllunarefnið í eðli sínu svipað og nú er hjá tækninefnd Vísinda- og tækniráðs en þó mun víðtækara. Með því að ráðið fái þetta hlutverk næst góð samfella í stefnumótandi umfjöllun um málaflokka sem falla hver að öðrum. Slík stefna yrði leiðbeinandi fyrir starfsemi og áherslur í vísindum, tæknirannsóknum, fjármögnun nýsköpunar og atvinnuþróunar, aðgerðum til að jafna lífsgæði og til að ná efnahagslegum markmiðum ríkisstjórnarinnar með beitingu þessara tækja.
    Samstaða hefur náðst um þessa breytingu á starfsemi ráðsins og samhliða frumvarpi þessu er af hálfu forsætisráðherra lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 2/2003, um Vísinda- og tækniráð. Þar er lagt til að nafni ráðsins verði breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð og að tækninefnd þess verði kölluð nýsköpunarnefnd. Vegna aukinnar áherslu á atvinnuþróun er lagt til að fulltrúum atvinnulífsins í ráðinu verði fjölgað.

IV. Samkeppnisstaða atvinnulífsins, sameining tæknirannsókna.
    Breyttar ytri aðstæður og auknar kröfur um meiri árangur liggja til grundvallar ákvörðun um sameiningu rannsóknastarfsemi Iðtæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfsemi rannsóknastofnana atvinnuveganna var í meginatriðum mótuð árið 1965, eða fyrir 40 árum, þegar rannsóknastofnanir iðnaðar, landbúnaðar, byggingariðnaðar og fiskiðnaðar voru settar á stofn. Þar með hófst mikilvægt uppbyggingarskeið í rannsóknum með tilsvarandi framförum í nýsköpun atvinnulífsins, enda voru rannsóknir annarra litlar sem engar á þeim tíma. Þessar rannsóknastofnanirnar hafa síðan skilað drjúgu dagsverki og lagt mikið af mörkum til þróunar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara á Íslandi.
    Fram hjá því verður þó ekki litið að starfsemi stofnananna hefur verið miðuð við þrönga skilgreiningu atvinnuvega sem ekki hefur staðist tímans tönn og hefur það hamlað þróun greinanna. Nýjar atvinugreinar hafa ekki fylgt þessari afmörkun og í raun hefur krafturinn verið hvað mestur í greinum sem gengið hafa þvert á þessa skiptingu, eins og upplýsingatækniiðnaður og líftækniiðnaður eru dæmi um.
    Fjórar meginástæður kalla einkum á sameiningu stofnananna:
     1.      Þörf er fyrir nýjar áherslur í rannsóknum og tækniþróun. Bráðnauðsynlegt er að skapa svigrúm fyrir rannsóknir á nýjum fræðasviðum sem munu hafa afgerandi áhrif á tækni- og atvinnuþróun næstu ára, eins og í efnis- og örtækni. Til að mæta þessu verður að vera unnt að hætta starfsemi sem lendir aftar í forgangsröðinni eða sem aðrir geta sinnt, t.d. einkaaðilar.
     2.      Mikilvægt er að tengja saman rannsóknir sem nú eru dreifðar en gætu skapað samlegðaráhrif í meiri nálægð eða með sameiningu. Sameining matvælarannsókna fjögurra opinberra rannsóknastofnana í eitt fyrirtæki er dæmi um slík samlegðaráhrif. Sameining Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins mundi einnig leiða til þverfaglegrar starfsemi og aukins árangurs fyrir framsæknar rannsóknir auk almennrar hagræðingar.
     3.      Þátttöku okkar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum er stefnt í hættu að óbreyttum aðstæðum, t.d. þátttöku í vísinda- og tækniþróunaráætlunum Evrópusambandsins, ef við eflum ekki rannsóknastofnanir okkar og gerum þær áhugaverðari samstarfsaðila fyrir sambærilega erlenda rannsóknaraðila og fyrirtæki. Sameiningin mun skapa meira afl til sóknar og getu til að takast á við stærri og umfangsmeiri verkefni.
     4.      Kröfur íslensks atvinnulífs eru nú aðrar en áður var og þarf að taka tillit til þess í opinberri stefnumótun og verkefnavali.

V. Framgangur nýsköpunarhugmynda, Impra.
    Nýjungar, t.d. afrakstur tæknirannsókna, þurfa að hafa greiða framrás til hagnýtingar í atvinnulífinu. Það gerist ekki af sjálfu sér. Impra er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Íslandi. Verkefni hennar er í hnotskurn að hlúa að nýsköpun í atvinnulífinu og vera tengiliður þeirra sem starfa að nýsköpun og atvinnuþróun innan stoðkerfisins.
    Hjá Impru er megináhersla lögð á að styrkja atvinnulífið með því að auka þekkingu og hæfni. Þar hafa frumkvöðlar og stjórnendur sprotafyrirtæka aðgang að fjölbreyttri þjónustu og stuðningsverkefnum sem hvetja til nýsköpunar og framgangs nýrra viðskiptahugmynda. Árlega eru veitt um 4.000 handleiðsluviðtöl þar sem frumkvöðlar og stofnendur lítilla fyrirtækja fá leiðsögn um þróun viðskiptahugmynda og stofnun og rekstur fyrirtækja, auk þess sem um 4.500 fyrirspurnum er svarað.
    Impra rekur frumkvöðlasetur, en hlutverk þess er að fóstra fyrirtæki sem vinna að þróun nýsköpunarhugmyndar í upphafi og hjálpa þeim að vaxa fyrstu rekstrarárin. Impra veitir margvíslega ráðgjöf, t.d. um vöruþróun, og býður upp á fjölbreytt úrval námskeiða sem mörg hver eru sniðin að þörfum svæða eða atvinnugreina. Verkefnið Brautargengi er eitt þeirra, en það er 15 vikna námskeið fyrir athafnakonur sem hyggjast stofna eða reka fyrirtæki.
    Impra starfar í nánu sambandi við atvinnuþróunarfélög og atvinnuráðgjafa og myndar faglegt bakland fyrir starfsemi þeirra. Stefnt er að því að styrkja þessi tengsl enn frekar m.a. með áherslu á tækniyfirfærslu frá rannsóknastofnunum til fyrirtækja úti á landi. Þá eru náin tengsl við þróunarstarfsemi Byggðastofnunar, m.a. um þróun og innleiðingu klasasamstarfs í íslenskt atvinnulíf á landsbyggðinni. Starfsemi Impru er þannig nokkurs konar miðlægt tengi á milli starfssviða Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þar sem hún á snertifleti við þau öll.

VI. Svæða- og byggðarannsóknir, jöfnun lífsgæða.
    Byggðaáætlun er eitt tækja stjórnvalda til að jafna atvinnuskilyrði og bæta samkeppnishæfni byggða. Megináherslan er nú lögð á almennar aðgerðir, sérstaklega á sviði tækniþróunar og nýsköpunar, sem ætlað er að efla samkeppnisstöðu atvinnugreina sem grundvallast á styrkleikum viðkomandi svæða.
    Rannsóknir á þróun búsetuskilyrða og atvinnulífs eru meðal þeirra grunnþátta sem til staðar þurfa að vera við stefnumótun og ákvörðunartöku. Upplýsingar um íbúaþróun, atvinnuþátttöku, tekjuþróun, afkomu atvinnugreina, nýsköpun og áhrif þessa á hagkerfi og samfélag þurfa því að vera tiltækar og samhæfðar við alþjóðlegar samanburðarrannsóknir, en enn vantar nokkuð á að svo sé.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ætlað aukið hlutverk í byggðarannsóknum og að leggja mat á framtíðarþróun þeirra mála. Það tengist m.a. undirbúningi að gerð landshlutaáætlana, þar sem fram á að koma sameiginleg framtíðarsýn og stefnumótun um þróun atvinnulífs og samfélagsins í heild sinni. Þetta tengist einnig gerð vaxtarsamninga og eftirfylgni þeirra sem flutt verður frá ráðuneytinu til stofnunarinnar.
    Nýjar áherslur felast í hnotskurn í því að geta horfið frá því að þurfa stöðugt að fást við vandamál sem urðu til í fortíðinni í það að beita fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að minnka vandamálin í framtíðinni. Í þessu felst m.a. að meta hvernig framtíðin verður og hvað muni hverfa. Til þess að þetta sé unnt er brýnt að rannsóknastarfsemin fái sterkari tengsl við aðra starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
    Að því er stefnt að afurðir þessa þáttar í starfsemi stofnunarinnar geti orðið framlegð til annarrar áætlunargerðar og stefnumótunar sem tengist þróun byggða og landssvæða, þ.m.t. starfsemi Vísinda- og nýsköpunarráðs og mótun áætlana um uppbyggingu og rekstur innviða landsins.

VII. Þekkingarsetur, afl til atvinnuþróunar.
    Orðið þekkingarsetur vísar til nábýlis og samstarfs háskólakennslu og rannsókna, rannsóknastofnana, þjónustu við nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðla, atvinnuþróunarstarfsemi, starfsemi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og ekki síst þekkingarfyrirtækja. Vísinda- og tækniráð hefur haldið þessu samstarfsformi á lofti og bent á kosti þess. Það kallar fram samlegðaráhrif með betri nýtingu á mannauði og fjárfestingum og stuðlar að meiri árangri en unnt væri að ná ef starfsemin væri aðskilin.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður að grunni til þekkingarsetur og stefnt er að því að hún tengist betur rannsóknastarfsemi háskóla og starfsemi þekkingarfyrirtækja. Starfsemi stofnunarinnar mun á sama hátt tengjast þekkingarsetrum úti á landi og mun hún stuðla að vexti og viðgangi þeirra. Gert er ráð fyrir að aðgerðir stjórnvalda er lúta að jöfnun lífsgæða verði í auknum mæli tengdar við vaxtarsamninga og starfsemi sem hafi tengsl við svæðabundin þekkingarsetur þar sem rannsóknir eru stundaðar og aðgerðum stýrt. Mótun aðgerða og ábyrgð á framkvæmd þeirra verði þannig fyrst og fremst í höndum heimamanna.
    Einkum er horft til uppbyggingar þekkingarsetra á Ísafirði, Akureyri og á Egilsstöðum (Miðausturlandi), enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda. Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarnet Austurlands mynda nú þegar kjarna vaxtar í þekkingarsetrum á þessum stöðum. Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu og enn frekari vöxtur rannsókna og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Tæknigarði er sú umgerð sem mun mynda kjarna starfseminnar á Norðurlandi.

VIII. Samstarf og nábýli við háskóla.
    Staða háskólarannsókna hefur eflst mikið á undanförnum árum sem m.a. tengist auknum fjölda nemenda í framhaldsnámi, bæði í meistara- og doktorsnámi. Mikilvægt er að rannsóknastofnanirnar efli tengsl sín við fremstu rannsóknaháskóla hér á landi og erlendis. Á sama hátt er mikilvægt að háskólarnir auki samstarf sitt við atvinnulífið og þá sem vinna að framgangi nýsköpunar og atvinnuþróunar. Hér mun Nýsköpunarmiðstöð Íslands gegna lykilhlutverki en í því sambandi er grundvallaratriði að ytri aðstæður hamli ekki þeirri þróun.
    Mikilvægt er að horfa til framtíðaruppbyggingar opinberra rannsókna í nábýli við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Mikils ávinnings er að vænta af nánara samstarfi með háskólarannsóknum og samnýtingu vísindamanna og sérfræðinga og með sameiginlegum rekstri í tæknigarði eða -görðum. Auk rannsóknastarfseminnar yrði þar þungamiðja stuðnings við nýsköpun og atvinnuþróun á öllu landinu. Gangi þetta eftir skapast þar þekkingarsetur af alþjóðlegum styrkleika í sérstaklega frjósömu umhverfi sem gæfi væntingar um meiri árangur en annars gæti fengist.

IX. Fjármögnunartækin, markaðsbrestir.
    Á undanförnum árum hafa aðstæður á fjármagnsmarkaði breyst mikið. Nú eiga fyrirtæki ekki í umtalsverðum erfiðleikum með venjubundna fjármögnun vegna fjárfestinga, þróunar, skipulagsbreytinga og rekstrar. Opnun fjármálamarkaðarins þýðir að fjármagnskostnaður hefur lækkað, enda geta fyrirtæki aflað lánsfjármagns á hagstæðum kjörum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
    Þrátt fyrir þetta eru til staðar markaðsbrestir sem m.a. fela í sér að erfitt getur verið að afla fjármagns til tækniþróunar, fjármögnunar sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Þessir markaðsbrestir eru alvarlegir því þeir bitna harðast á þekkingarfyrirtækjum og smáfyrirtækjum, sem eru þau fyrirtæki sem eiga að verða leiðandi í hagþróun og sköpun starfa í framtíðinni.
    Markaðsbrestir hafa þær afleiðingar að opinber fjármögnun atvinnuþróunar verður áfram mikilvæg. Á hinn bóginn gefa breytingar á fjármagnsmarkaði tækifæri til að þróa fjármögnunartæki og beina þeim með markvissum hætti að markaðsbrestunum. Því er lagt til að fjármögnunartæki á sviði atvinnuþróunar mótist af ólíku eðli þeirra og verði þannig:
     1.      Tækniþróunarsjóður verði starfræktur með svipuðum hætti og verið hefur. Umsjón með sjóðnum verði þó flutt úr iðnaðarráðuneyti til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem geri samning um málsmeðferð umsókna og eftirfylgni við Rannís eða annan aðila ótengdan stofnuninni.
     2.      Átak til atvinnusköpunar verði sameinað Tækniþróunarsjóði.
     3.      Stofnaður verði sérstakur Byggðasjóður á grundvelli fjármálastarfsemi Byggðastofnunar. Sjóðurinn annist ábyrgðir til fyrirtækja á landsbyggðinni. Reksturinn verði vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     4.      Styrkir og fjármögnun verkefna til umbreytingar atvinnulífs á landsbyggðinni verði veittir á grundvelli vaxtarsamninga, eða annarra sambærilegra samninga, enda taki þeir mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs um nýsköpun og atvinnuþróunarmál.
     5.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verði áfram fyrsti fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
    Ekki er nægilegt að bjóða upp á fjölbreytt fjármögnunartæki heldur verður einnig að tryggja samfellu í fjármögnunarkeðjunni frá frumþróun hugmynda og styrkveitinga úr Tækniþróunarsjóði til áhættufjárfestinga Nýsköpunarsjóðs. Í þessu sambandi er mikilvægt að sameinuð og sterk stofnun, eins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ætlað að verða, fái það hlutverk að tryggja slíka samfellu, með fulltingi Vísinda- og nýsköpunarráðs.

X. Byggðasjóður.
    Gert er ráð fyrir því að Byggðasjóður verði stofnaður á grundvelli fjármálastarfsemi Byggðastofnunar. Sjóðurinn annast lánsábyrgðir vegna lána fyrirtækja á landsbyggðinni. Reksturinn verði í höndum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Lánsábyrgðir sem tæki í atvinnuþróun er vel þekkt aðferð og eru starfræktir lánsábyrgðarsjóðir í nær öllum Evrópulöndum, sem gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja fyrirtækjum aðgang að fjármagni. Opinberir aðilar í nágrannalöndunum veita slíka þjónustu og hefur hún þótt gefa góða raun.
    Lánsábyrgðir fela í sér að veittar eru ábyrgðir vegna lána banka og annarra fjármálafyrirtækja. Það er lykilatriði að ábyrgðin er ávallt skipt, þannig að fjármálafyrirtækið ber eftir sem áður hluta áhættunnar. Þetta tryggir að fjármálafyrirtæki hafi hvata til að auka fyrirgreiðslu til viðskiptavina með hærri áhættu og lækka vexti af lánum, en jafnframt til að stunda ábyrga lánastarfsemi.
    Lánsábyrgð er almennt veitt þannig að fyrirtæki leitar eftir þjónustu fjármálafyrirtækis, venjulega viðskiptabanka. Meti fjármálafyrirtækið umsóknina þannig að viðskiptahugmynd eða áætluð fjárfesting sé vænleg en áhættan of mikil er hægt að sækja um ábyrgð á láninu. Gera þarf samstarfssamninga við einstök fjármálafyrirtæki þar sem leikreglur vegna lánsábyrgða eru skilgreindar. Meðal annars þarf að tryggja að fjármálafyrirtæki leggi jafna áherslu á innheimtu lána með lánsábyrgð og annarra lána.
    Þótt meginhugmyndin að baki lánsábyrgðum sé einföld þarf að útfæra hana nánar og er gert ráð fyrir að slíkt verði gert í reglum stjórnar sjóðsins og í samningum við fjármálafyrirtæki. Reglur stjórnar sjóðsins skulu háðar samþykki fjármálaráðherra.
    Gert er ráð fyrir að lán með ábyrgð verði nýtt til endurnýjunar, þróunar og nýsköpunar, endurskipulagningar, eigendaskipta, stofnunar nýs fyrirtækis og fjárfestinga. Ábyrgðir eigi því ekki við þegar um er að ræða fjármögnun hefðbundins rekstrarkostnaðar eða vanskil.
    Nauðsynlegt er að Byggðasjóður leggi sjálfstætt mat á umsóknir og móti verklag og viðmiðanir um slíkt mat. Sérstaklega þarf að huga að ákvæðum sem tryggja ábyrga lánastarfsemi og að lán með ábyrgð verði ekki látið mæta afgangi við innheimtu krafna. Ábyrgðin nær aðeins til eftirstöðva láns og þarf lánveitandi að gefa Byggðasjóði ákveðnar upplýsingar um stöðu lánsins og lántaka þannig að hægt sé að endurskoða áhættumat og verja hagsmuni sjóðsins.
    Heildarumfang lánsábyrgða ræðst af eiginfjárstöðu Byggðasjóðs og geta þær að hámarki numið fimmföldu eigin fé. Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að eigið fé sjóðsins geti numið um 1 milljarði kr. í upphafi en það er það eigið fé sem til var í Byggðastofnun 31. desember 2005. Miðað við það eigið fé má gera ráð fyrir að útgefnar ábyrgðir geti numið allt að 5 milljörðum kr.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur verið haft samráð við banka og önnur fjármálafyrirtæki og hafa undirtektir við tillögur um lánsábyrgðir verið mjög jákvæðar. Er því útlit fyrir að fjármálafyrirtæki verði reiðubúin til samstarfs um þetta fyrirkomulag.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


Um 1. gr.


    Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður til við sameiningu Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Starfssvið þessara þriggja stofnana er hliðstætt og skarast að nokkru leyti, enda er hlutverk þeirra allra að vinna að nýsköpun og atvinnuþróun í þágu bættrar samkeppnisstöðu landsins og bættra lífskjara. Hvatinn að sameiningunni er fyrst og fremst þörf fyrir sterkari rannsókna- og starfseiningar og almennt vaxandi krafa um sveigjanleika og meiri árangur.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður kröftug nýsköpunar- og atvinnuþróunarstofnun, sem í grunninn byggist á tæknirannsóknum sem stundaðar hafa verið hjá Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Tækniþekkingin sem fylgir rannsóknastarfseminni myndar sterkt bakland fyrir aðra starfsemi stofnunarinnar. Hún nýtist m.a. í þjónustu við fyrirtæki, t.d. vegna tækniyfirfærslu eða innleiðingar nýjunga í framleiðsluferli, og sama gildir um mat á atvinnustarfsemi og nýjum tækifærum víðs vegar um land. Stuðningsþjónusta Impru og þróunarsviðs Byggðastofnunar verður samþætt og við það eflist stuðningurinn við atvinnuþróunarfélög og ráðgjafa. Rannsóknir á þróun atvinnulífs og búsetuskilyrða styrkjast og þar með stoðir áætlanagerðar og skipulagning aðgerða. Fjármálastarfsemi þriggja sjóða verður samþætt á grundvelli áherslna Vísinda- og nýsköpunarráðs og hagræðingar gætt í rekstri þeirra, m.a. með því að samnýta þjónustu og þekkingu starfsmanna.

Um 2. gr.


    Í greininni er meginhlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands lýst auk þess sem helstu verkefni stofnunarinnar eru rakin í a–f-lið 1. mgr. Hafa verður í huga við túlkun á hlutverki stofnunarinnar að henni er ekki ætlað að starfa á samkeppnismarkaði.
    Í a-lið er tekið á því hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að hún verði miðstöð upplýsingar og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og fyrirtæki á Íslandi. Nú er þessu hlutverki sinnt á Iðntæknistofnun í þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki, sem ber heitið Impra, og er ekki gert ráð fyrir að breyting verði á því. Hjá Impru hafa frumkvöðlar og stjórnendur sprota- og nýsköpunarfyrirtækja aðgang að fjölbreyttri þjónustu og stuðningsverkefnum sem hafa þann megintilgang að hvetja til nýsköpunar og framgangs nýrra viðskiptahugmynda.
    Í b-lið er fjallað um mikilvægi þess að náin samvinna og samræming sé á milli starfsemi rannsóknastofnana, háskólarannsókna og -kennslu, starfsemi fyrirtækja, einkum sprotafyrirtækja og fyrirtækja sem stunda nýsköpun og að niðurstöður nýtist sem best fyrir þróun atvinnulífsins, t.d. fyrir atbeina atvinnuþróunarfélaga. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ætlað að sinna þessu samræmingar- og miðlunarhlutverki. Áfram verður tryggt fjármagn til starfsemi atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni á grundvelli samninga líkt og nú er milli Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaga.
    Í c-lið er kveðið á um það hlutverk stofnunarinnar að sinna tæknirannsóknum, þróun, greiningum, prófunum, mælingum og vottunum. Hér er vísað til þeirrar rannsókna- og tæknitengdu starfsemi sem stunduð hefur verið hjá Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og sem verður nú sameinuð með nýjum og sveigjanlegri áherslum. Reiknað er með að áherslur verði aðallega tvenns konar. Annars vegar svokölluð kjarnastarfsemi á völdum sviðum sem hafa mikla þjóðhagslega þýðingu, sbr. rannsóknir og þróun byggingariðnaðar. Hins vegar verði áherslur sveigjanlegri og tengdar markaðsþörfum og kröfum fyrirtækja um þjónustu sem aðrir veita ekki. Slíkar áherslur verða reglulega endurskoðaðar í kjölfar stefnumótunar, en þar verður m.a. tekið mið af því að ekki verði um samkeppnisrekstur að ræða.
    Í d-lið er fjallað um greiningu á stöðu og þróun atvinnu- og mannlífs, sem er þungamiðja þróunarsviðs Byggðastofnunar. Nýjar áherslur eru settar um starfsemi þessa eins og fram kemur t.d. í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009. Stofnuninni er ætlað aukið hlutverk í byggðarannsóknum og að leggja mat á framtíðarþróun þeirra mála. Það tengist m.a. undirbúningi að gerð landshlutaáætlana, svo og gerð og eftirfylgni með vaxtarsamningum, sem flutt verður frá ráðuneytinu til stofnunarinnar.
    Í e-lið er vísað til þeirrar fjármálastarfsemi sem vistuð verður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og nánar er fjallað um í athugasemdum um IV.–VI. kafla hér á eftir.
    Í f-lið er fjallað um fjármögnun verkefna en t.d. er gert ráð fyrir að þau verkefni sem tengjast jöfnun lífskjara á landsbyggðinni eða sérstökum aðgerðum í atvinnumálum verði bundin í samninga á milli þeirra sem koma að fjármögnun og þeirra sem annast framkvæmd þeirra. Vaxtarsamningar eru dæmi um slíka samninga og miðað við reynsluna sem af því samstarfsformi hefur fengist má búast við að þeir festi sig enn meira í sessi.
    Í 2. mgr. segir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands skuli enn fremur annast önnur stjórnsýsluverkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra. Um gæti verið að ræða verkefni á sviði erlendra fjárfestinga, endurgreiðslu á kostnaði vegna kvikmyndagerðar hér á landi o.fl.
    Í 3. mgr. er lagt til að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um framkvæmd skilgreindra verkefna skv. a–f-lið 1. mgr.
    Gert er ráð fyrir að starfsemi Vísinda- og tækniráðs verði útvíkkuð og taki einnig til atvinnuþróunar. Við það breytist nafn þess í Vísinda- og nýsköpunarráð og munu ályktanir þess verða leiðandi í mótun á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Um 3. gr.


    Lagt er til að iðnaðarráðherra skipi forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn og að verkefni hans verði stjórn stofnunarinnar og daglegur rekstur, auk þess sem hann ráði starfsfólk og skipti með því verkum. Er á því byggt að hlutverk hans verði í samræmi við það hlutverk sem forstöðumenn ríkisstofnana almennt hafa.

Um II. kafla.


Um 4. gr.


    Á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skal rekin þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Starfsemi Impru sem rekin er hjá Iðntæknistofnun er fyrirmynd þessa og er gert ráð fyrir að það heiti haldi sér áfram hjá hinni nýju stofnun. Núverandi starfsemi Impru verður að mestu leyti óbreytt en mun þó taka þeim breytingum sem fylgja samþættingu starfseminnar við sambærilega starfsemi sem nú er á þróunarviði Byggðastofnunar.
    Þjónustumiðstöðin skal veita þjónustu um allt land og hafa samráð við atvinnuþróunarfélög í staðbundinni starfsemi. Þá ber henni í störfum sínum að stuðla að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Þjónustumiðstöðin mun veita upplýsingar og sinna leiðsögn fyrir allar atvinnugreinar, m.a. um undirbúning viðskiptahugmynda og um stofnun og rekstur lítilla sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Hún mun bjóða fjölbreytta þjónustu, m.a. með stuðningsverkefnum sem hvetja til hvers konar nýsköpunar. Verkefni hennar endurspegla hið víðtæka starfssvið, svo sem að stuðla að samstarfi opinberra aðila um nýsköpun, standa fyrir stuðningsverkefnum, starfrækja frumkvöðlasetur, miðla þekkingu, stuðla að yfirfærslu vísinda- og rannsóknaniðurstaðna og aðstoða við öflun framtaksfjár auk alþjóðlegs samstarfs. Með þessari víðtæku stuðningsþjónustu verður þjónustumiðstöðin sterkur bakhjarl atvinnuþróunarfélaga og atvinnuráðgjafa um allt land og mikilvægur samstarfsaðili fyrir atvinnulífið bæði varðandi innleiðingu nýjunga hjá starfandi fyrirtækjum og þróun viðskiptahugmynda sem leitt geta til nýs atvinnureksturs.
    Stofnuninni er falið að annast greiningu á samkeppnisstöðu atvinnulífsins, m.a. í samanburði við önnur lönd. Mikilvægt er að til séu upplýsingar um stöðu atvinnulífs og einstakra greina þess og að stjórnvöld, m.a. Vísinda- og nýsköpunarráð, hafi aðgang að slíkum upplýsingum og geti beitt þeim í stefnumótun og við gerð aðgerðaáætlana.

Um III. kafla.


Um 5. gr.


    Hjá Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hafa um fjörutíu ára skeið verið stundaðar umfangsmiklar rannsóknir og þróunarstarf. Þessi starfsemi hefur notið alþjóðlegrar viðurkenningar og er mikilvægt að sú jákvæða ímynd nýtist stofnuninni áfram. Því er lagt til að tæknirannsóknir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verði reknar undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Sú nafngift hefur m.a. skírskotun til nafna sem stofnanirnar hafa kynnt sig með erlendis (IceTec, IBRI).
    Eins og önnur starfsemi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands mun starfsemi á sviði tæknirannsókna taka mið af ályktunum Vísinda- og nýsköpunarráðs, með áherslu á hagnýtar rannsóknir og vöruþróun í þágu íslensks atvinnulífs. Grunnrannsóknir munu einnig gegna mikilvægu hlutverki áfram, þó með nýjum áherslum á tiltekin kjarnasvið sem talin eru hafa sérstaka þjóðhagslega þýðingu. Um er að ræða verkefni sem aðrir hafa ekki getu til að sinna, en almannahagsmunir kalla eftir að sé sinnt, eins og gildir um ýmsar byggingarannsóknir.
    Mikilvægt er að Íslenskar tæknirannsóknir fylgist vel með tækninýjungum sem unnt er að hagnýta í íslensku atvinnulífi eða laga að þörfum þess. Því er lögð áhersla á tækniyfirfærslu og þátttöku í alþjóðlegu verkefnasamstarfi.
    Ráðgjöf og önnur þjónusta verður aðeins heimil á sviðum sem markaðurinn sinnir ekki. Áhersla er á verkefni sem leitt geta til nýsköpunar og aukinnar verðmætasköpunar. Taka þarf mið af þörfum atvinnulífsins og þróunar markaða og þarf því að setja áherslur og velja verkefni í nánu samstarfi við það. Þá þarf að vera til staðar þekking og búnaður til að takast á við rannsóknir á nýjum fræðasviðum.

Um IV. kafla.


    Hér er lagt til að sérstakur sjóður er nefnist Byggðasjóður verði vistaður í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Um starfsemi hans er nánar fjallað í skýringum við 6.–8. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um hlutverk Byggðasjóðs og að það verði að veita ábyrgðir á lán til starfsemi á landsbyggðinni með allt að 75% ábyrgðarþátttöku sjóðsins.
    Lánsábyrgðir eru hagkvæm og einföld leið til að auðvelda fyrirtækjum á landsbyggðinni aðgang að lánsfjármagni. Meginkosturinn er að þær tryggja samþættingu opinberrar aðstoðar við starfsemi fjármálafyrirtækja og stuðla því að eðlilegri þróun fyrirtækis frá því að þurfa á opinberri aðstoð að halda og til þess að geta stundað eðlileg viðskipti við banka og aðrar fjármálastofnanir.
    Hlutverk opinberrar aðstoðar við fyrirtæki á landsbyggðinni er ekki síst að stuðla að aukinni fjölbreytni atvinnulífs og sköpun starfa sem gefa háan virðisauka. Því er ábyrgðum ætlað að beinast að lánum sem stuðla að þessum markmiðum og er lagt til að þær verði veittar til lána vegna endurnýjunar, þróunar og nýsköpunar, eigendaskipta, stofnunar fyrirtækja og fjárfestinga. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að ábyrgðir verði veittar til að fjármagna hefðbundinn rekstrarkostnað eða vanskil, nema um umfangsmikla fjárhagslega endurskipulagningu og umbreytingar á starfsemi fyrirtækis sé að ræða.
    Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands annist umsýslu Byggðasjóðs. Þetta þýðir að stofnunin veitir sjóðnum alla nauðsynlega þjónustu, tekur við umsóknum um lánsábyrgðir, leggur mat á þær, annast áhættumat, reikningshald og aðra umsýslu. Byggðasjóður skal vera fjárhagslega aðgreindur frá annarri starfsemi stofnunarinnar.
    Lagt er til að heimildir Byggðasjóðs takmarkist við veitingu ábyrgða á lán til starfsemi á landsbyggðinni, nánar tiltekið til starfsemi í þeim landshlutum sem hið svokallaða byggðakort nær yfir. Á grundvelli c-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, er aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins heimilað að veita ríkisaðstoð í formi byggðastyrkja til skilgreindra styrkjasvæða í samræmi við byggðakort sem viðkomandi eftirlitsstofnanir (ESA eða framkvæmdastjórn ESB) samþykkja fyrir hvert og eitt aðildarríkjanna. Eru byggðakort einstakra aðildarríkja, og þar með styrkheimildir, því mismunandi eftir efnahags-, félags- og landfræðilegum aðstæðum í hverju aðildarríki fyrir sig.
    Ákvörðun um núgildandi byggðakort fyrir Ísland var tekin af eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í ágúst 2001 og gildir það til ársloka 2006. Íslenska byggðakortið er byggt á mannfjöldaviðmiði og á því svæði sem má styrkja bjuggu árið 2001 u.þ.b. 0,9 íbúar á hvern ferkílómetra, eða um 33,2% landsmanna. Við ákvörðun ESA árið 2001 var farið eftir mörkum sveitarfélaga við afmörkun svæðisins og samkvæmt núgildandi byggðakorti má veita byggðastyrki í öllum sveitarfélögum landsins nema Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarneskaupstað, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Bessastaðahreppi (nú Álftanesi), Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Gerðahreppi (nú Garði) og Vatnsleysustrandarhreppi. Önnur sveitarfélög í landinu falla undir núgildandi byggðakort. Hámark styrks má nema allt að 17% af stofnkostnaði einstakra fjárfestinga en u.þ.b. 10% mega koma til viðbótar þegar um er að ræða lítil og meðalstór fyrirtæki.
    Framkvæmdastjórn ESB lauk í desember 2005 endurskoðun á leiðbeinandi reglum um byggðaaðstoð („Staff Working Document – Draft Guidelines on National Regional Aid for 2007–2013“). Þær reglur munu koma í stað núgildandi 25.–28. kafla í leiðbeinandi reglum ESA um ríkisaðstoð (en þeir kaflar fjalla um byggðaaðstoð) og er gildistími þeirra frá 1. janúar 2007 til loka árs 2013. Á grundvelli þessara nýju reglna þurfa aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins að tilkynna ný byggðakort til viðkomandi eftirlitsstofnunar.
    Hafin er vinna við undirbúning að gerð nýs byggðakorts. Sú vinna er á forræði fjármálaráðuneytisins og unnin í samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti ásamt Byggðastofnun.

Um 7. gr.


    Lagt er til að stjórn Byggðasjóðs verði í höndum sérstakrar fimm manna stjórnar sem skipuð verður til þriggja ára í senn. Iðnaðarráðherra skipar þrjá stjórnarmenn og fjármálaráðherra tvo.
    Stjórn sjóðsins setur starfsreglur sjóðsins en þær skulu háðar samþykki fjármálaráðherra. Í reglunum þarf að útfæra framkvæmd lánsábyrgða, m.a. með ákvæðum um upphæð lána sem ábyrgð getur tekið til, árlegt ábyrgðargjald og aðra gjaldtöku, mögulega nýtingu láns með ábyrgð og aðra skilmála ábyrgðar. Í reglunum þarf einnig að kveða á um afskriftasjóð og reikningshald.
    Tekið er fram að stjórninni sé heimilt að taka skammtímalán til að jafna sveiflur í greiðslustreymi sjóðsins.
    Í greininni er einnig að finna ákvæði um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum sjóðsins. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði undanþeginn gjaldtöku samkvæmt lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir. Þar sem viðskiptavinir Byggðasjóðs greiða sérstakt ábyrgðargjald til sjóðsins mundi sérstök gjaldtaka í ríkissjóð auka kostnað þeirra mjög og rýra gildi lánsábyrgða sem fjármögnunartækis.

Um 8. gr.


    Ekki er gert ráð fyrir að Byggðasjóður njóti beinna framlaga úr ríkissjóði. Sjóðurinn fær tekjur af ábyrgðargjöldum og fjármagnstekjur af eigin fé. Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða II tekur Byggðasjóður við útlánasafni, hlutafjáreign, handbæru fé og fullnustueignum Byggðastofnunar. Þá yfirtekur Byggðasjóður innlend og erlend lán sem stofnunin hefur tekið og útgefin láns- og hlutafjárloforð. Hinn 31. desember 2005 nam eigið fé Byggðastofnunar um 1 milljarði kr. og mun umfang starfseminnar takmarkast af eigin fé, ávöxtun þess og þeim tekjum sem sjóðurinn mun hafa af ábyrgðargjöldum.

Um V. kafla.


Um 9.–14. gr.


    Í V. kafla frumvarpsins er lagt til að vistun Tækniþróunarsjóðs verði færð frá iðnaðarráðuneyti til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Tækniþróunarsjóður starfar á grundvelli 4.–8. gr. laga nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, en þau lög munu falla úr gildi verði frumvarpið að lögum. Sú breyting er lögð til að ekki verði lengur bundið í lög að Rannsóknamiðstöð Íslands annist umsýslu og rekstur Tækniþróunarsjóðs heldur skuli semja um það við óskilgreindan óvilhallan aðila. Skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, er varsla sjóðsins, umsýsla og rekstur hjá Rannsóknamiðstöð Íslands samkvæmt samningi við iðnaðarráðherra. Ekki er fyrirséð breyting á því fyrirkomulagi.
    Ekki er um það að ræða að lagðar séu til breytingar á hlutverki sjóðsins eða úthlutunarreglum. Í ákvæðinu er hins vegar lögð til breyting á tilnefningum í stjórn Tækniþróunarsjóðs. Það nýmæli er lagt til að samtök atvinnulífsins tilnefni tvo menn í stjórn af þeim sjö sem í henni sitja. Talin er ástæða til að auka hlutdeild atvinnulífsins í stjórn sjóðsins og njóta reynslu þess í störfum hans. Á móti falli niður að formaður tækninefndar sitji í stjórn sjóðsins, auk þess sem ekki er gert ráð fyrir tilnefningu frá rannsóknastofnunum atvinnulífsins.

Um VI. kafla.


Um 15.–17. gr.


    Í VI. kafla er lagt til að starfræksla tryggingardeildar útflutnings verði færð frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Tryggingardeild útflutnings starfar á grundvelli II. kafla laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.
    Lagt er til að heiti sjóðsins verði breytt og hann kallaður „Tryggingarsjóður útflutnings“ í stað „tryggingardeildar útflutnings“. Ekki er með flutningnum lagt til að gerðar verði breytingar á hlutverki og starfsemi sjóðsins að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins tilnefni einn mann af fimm í stjórnarnefnd sjóðsins heldur verði einn stjórnarmanna tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Sjóðurinn flytur eigið fé með sér og heldur skyldum sínum gagnvart sínum viðsemjendum.

Um VII. kafla.


Um 18. gr.


    Veigamikill hluti starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verður að aðstoða frumkvöðla og fyrirtæki við þróun hugmynda um nýjar afurðir eða endurbætur á eldri afurðum. Yfirleitt getur stofnunin tekið að sér slíka vinnu gegn eðlilegri þóknun samkvæmt gjaldskrá eða tilboði. Fram hjá því verður þó ekki litið að í sumum tilvikum eru þeir sem standa að baki nýsköpunarhugmyndum ekki vel í stakk búnir til að kosta þær rannsóknir og þróunarvinnu sem þörf er á. Í slíkum tilfellum kemur til greina að stofnunin kosti nauðsynlega vinnu og semji um það að eignast hlutdeild í verkefninu ef það ber árangur. Heimildin til að eignast hlut í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum er fyrst og fremst til komin til að gera þetta mögulegt og þar með að fullgera hugmyndir sem annars ættu á hættu að glatast.

Um 19. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu er skylt að hafa aðskilið bókhald og sérstaka reikninga fyrir sjóðsstarfsemi hvers sjóðs fyrir sig.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Byggðasjóður, Tækniþróunarsjóður og Tryggingarsjóður útflutnings heyra undir endurskoðun og annað eftirlit Ríkisendurskoðunar í samræmi við lög nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun. Um bókhald og ársreikninga gilda m.a. ákvæði laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

Um 20. gr.


    Í ákvæðinu kemur fram að ákvarðanir um veitingu ábyrgða á lán og styrki verða endanlegar á stjórnsýslustigi og þar með ekki kæranlegar til ráðherra.

Um 21. gr.


    Í ákvæðinu felst þjónustugjaldaheimild vegna þeirrar þjónustu sem veitt er skv. a- og c-lið 2. gr. Vert er að taka fram að þau hlutverk eru að hluta til nánar útfærð í II. og III. kafla frumvarpsins. Er því unnt að taka þjónustugjald fyrir þann hluta af þeirri starfsemi sem lýst er í þeim köflum og falla undir a- og c-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Um þjónustugjaldaheimild er að ræða, þannig að stofnuninni er ekki heimilt að taka hærra gjald fyrir þjónustu sína en nemur raunkostnaði við að veita hana. Þannig er einungis unnt að innheimta gjald fyrir kostnað sem er í nánum og efnislegum tengslum við veitingu þjónustunnar. Heimilt verður samkvæmt framansögðu að innheimta gjald fyrir launakostnaði, sem er í beinum og efnislegum tengslum við veitingu þjónustunnar. Sama gildir um efniskostnað, ferðakostnað og annan útlagðan kostnað, ef við á. Þá verður heimilt að innheimta hlutdeild í venjulegum stjórnunarkostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis og afnota af nauðsynlegum tækjum og búnaði, enda sé slíkur kostnaður í nánum og efnislegum tengslum við veitingu þjónustunnar.
    Umboðsmaður Alþingis hefur litið svo á að sá er greiðir þjónustugjald geti yfirleitt ekki vænst þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita honum þjónustu sé nákvæmlega reiknaður út og honum gert að greiða gjald sem því nemur. Verði gjaldendur oftast að sæta því að greiða þjónustugjald sem nemur þeirri fjárhæð sem almennt kostar að veita viðkomandi þjónustu.
    Í ljósi framangreinds er nauðsynlegt að stofnunin reikni út með traustum og vönduðum hætti einstaka kostnaðarliði sem þjónustugjaldi er ætlað að standa undir áður en gjaldskrá er gefin út. Mat þarf að liggja fyrir á umfangi og eðli þeirrar þjónustu sem gjaldskráin á að ná til, auk afstöðu til þess hvaða kostnaðarliðir teljast falla undir ákvæðið.

Um 22. gr.


    Í ákvæðinu er rakið hverjar verði tekjur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Gert er ráð fyrir að stofnunin fái framlög úr ríkissjóði á fjárlögum eins og nú gildir um Byggðastofnun, Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Þá er stofnuninni heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Auk þess er gert ráð fyrir að stofnunin fái framlög úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum, eins og verið hefur hjá Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins.

Um 23. gr.


    Samkvæmt 17. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, er stofnunin undanþegin öllum opinberum gjöldum og sköttum í ríkissjóð. Í 23. gr. frumvarpsins er lagt til að Byggðasjóður verði undanþeginn stimpilgjöldum. Þá er lagt til að hann verði undanþeginn fjármagnstekjuskatti líkt og Byggðastofnun, sbr. 28. gr.

Um 24. gr.


    Í greininni er kveðið á um heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hér er um opna heimild til ráðherra að ræða í þeim skilningi að ákvörðun um staðsetningu er í hans valdi.
    Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins eru núna til húsa hvor í sínu húsinu á Keldnaholti í Reykjavík og Byggðastofnun á Sauðárkróki.

Um 25. gr.


    Sambærilegt ákvæði er að finna í 18. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun. Jafnframt eru ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins í lögum um þær stofnanir.

Um 26. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2007, og á sama tíma falli úr gildi sérstök lög um Byggðastofnun og Iðntæknistofnun Íslands. Auk þess falli úr gildi sérstakur kafli í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna þar sem mælt er fyrir um starfsemi Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Loks falli úr gildi lög nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Um 28. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á öðrum lögum. Gert er ráð fyrir að Byggðasjóður verði með sama hætti og Byggðastofnun undanþeginn fjármagnstekjuskatti. Þá taki Nýsköpunarmiðstöð Íslands við hlutverki Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins í öðrum lögum. Loks er lagt til að ákvæði 10. gr. laga nr. 53/1980, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar falli brott. Í því er Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gert skylt að halda námskeið um þætti er varða hagkvæma orkunýtingu í húshitun. Ekki er lagt til að sú skylda hvíli á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæðum til bráðabirgða er tekið á ýmsum atriðum er varða þá sameiningu stofnana sem mun eiga sér stað við gildistöku laganna og stofnun Byggðasjóðs, þ.m.t. um réttindi starfsmanna Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, og yfirtöku eigna, réttinda og skyldna. Þá er ráðherra veitt heimild til að ráða nú þegar forstjóra stofnunarinnar og fela honum að annast undirbúning gildistöku laganna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning við


tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun


    Í frumvarpinu er lagt til að þrjár stofnanir verði sameinaðar í eina stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Stofnanirnar sem sameinaðar verða eru Byggðastofnun, Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun taka við hlutverki framangreindra stofnana og stuðla að nýsköpun og atvinnuþróun á Íslandi. Einnig er gert ráð fyrir að hin nýja stofnunin veiti Byggðasjóði og tryggingardeild útflutnings rekstrarþjónustu samkvæmt samningi þar um. Gert er ráð fyrir að Byggðasjóður hætti útlánastarfsemi og að hann ásamt Tryggingarsjóði útflutnings og Tækniþróunarsjóði starfi sem sjálfstæðar einingar með eigin stjórn. Hjá Nýsköpunarmiðstöð munu starfa um 125 manns þar sem gert er ráð fyrir að öllum starfsmönnum verði boðin störf hjá nýju stofnuninni. Samkvæmt fjárlögum 2006 verður kostnaður við rekstur sameinaðrar stofnunar um 1,1 milljarður kr. Gera má ráð fyrir einhverjum biðlaunum við breytingarnar en sá kostnaður er óviss. Á móti kemur að gera má ráð fyrir samlegðaráhrifum af sameiningu stofnananna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð umfram hugsanleg biðlaun.