Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 742. máls.

Þskj. 1078  —  742. mál.



Frumvarp til laga

um atvinnuleysistryggingar.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

2. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

3. gr.
Orðskýringar.

     a.      Launamaður: Hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald.
     b.      Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Sá sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári telst ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laga þessara.
     c.      Nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
4. gr.

Yfirstjórn.

    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þessum.

5. gr.
Atvinnuleysistryggingasjóður.

    Atvinnuleysisbætur skulu greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem fjármagnaður er með atvinnutryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.
    Vinnumálastofnun skal annast fjárvörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs og framkvæmd laga þessara á grundvelli þjónustusamnings við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Félagsmálaráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag að fenginni umsögn stjórnar sjóðsins.
    Stjórn Vinnumálastofnunar skal skipa fimm manna úthlutunarnefnd að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn. Einn nefndarmaður skal tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur sameiginlega af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndur af félagsmálaráðherra, einn tilnefndur sameiginlega af fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Stjórn Vinnumálastofnunar skipar formann og varaformann úthlutunarnefndar úr hópi þeirra sem tilnefndir hafa verið sem aðalmenn. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að tryggja samræmi við ákvarðanir um réttindi og viðurlög á grundvelli laga þessara og annast afgreiðslu mála. Nefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu í nefndinni og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af nefndarsetu.
    Reikningar Atvinnuleysistryggingasjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.
    Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

6. gr.
Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.

    Félagsmálaráðherra skipar fimm manna stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur sameiginlega af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndur sameiginlega af fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar sjóðsins. Varamaður formanns stjórnarinnar skal skipaður með sama hætti og skal hann vera varaformaður.
    Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Stjórnin skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt fé til að standa við skuldbindingar sínar. Hún skal gera áætlanir um rekstur og greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs að fengnum tillögum frá stjórn Vinnumálastofnunar. Enn fremur skal hún leggja fram tillögur um fjárþörf sjóðsins til félagsmálaráðherra í janúar ár hvert ásamt skýrslu um reikningshald sjóðsins. Félagsmálaráðherra skal taka afstöðu til upplýsinganna og kynna fjármálaráðherra efni þeirra við undirbúning fjárlagagerðar. Stjórn sjóðsins skal taka ákvörðun um ávöxtun innstæðufjár sjóðsins í samráði við félagsmálaráðherra.
    Enn fremur gerir stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þjónustusamning við Vinnumálastofnun um umsýslu sjóðsins, sbr. 2. mgr. 5. gr., og staðfestir félagsmálaráðherra samninginn. Stjórnin hefur reglubundið eftirlit með framkvæmd þjónustusamningsins í samráði við félagsmálaráðherra.
    Stjórnarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þóknun stjórnarmanna greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra.

7. gr.
Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga.

    Atvinnuleysisbætur til bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra skulu greiddar úr sérstökum sjóði, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga, sem fjármagnaður er með atvinnutryggingagjaldi þessara stétta, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins.
    Vinnumálastofnun skal annast fjárvörslu Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga og framkvæmd laga þessara á grundvelli þjónustusamnings við stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Félagsmálaráðherra er þó heimilt að ákveða annað fyrirkomulag að fenginni umsögn stjórnar sjóðsins.
    Úthlutunarnefnd skv. 3. mgr. 5. gr. skal jafnframt tryggja samræmi við ákvarðanir um réttindi og viðurlög á grundvelli laga þessara og annast afgreiðslu mála er varða Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Reikningar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.
    Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

8. gr.
Stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga.

    Félagsmálaráðherra skipar fjögurra manna stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, einn af Landssambandi smábátaeigenda og einn af Landssambandi vörubifreiðastjóra. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar sjóðsins. Varamaður formanns stjórnarinnar skal skipaður með sama hætti og skal hann vera varaformaður.
    Stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga skal gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt fé til að standa við skuldbindingar sínar. Hún skal gera rekstraráætlanir um rekstur og greiðslur Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga að fengnum tillögum frá stjórn Vinnumálastofnunar. Enn fremur skal hún leggja fram tillögur um fjárþörf sjóðsins til félagsmálaráðherra í janúar ár hvert ásamt skýrslu um reikningshald sjóðsins. Félagsmálaráðherra skal taka afstöðu til upplýsinganna og kynnir fjármálaráðherra efni þeirra við undirbúning fjárlagagerðar. Stjórn sjóðsins skal taka ákvörðun um ávöxtun innstæðufjár sjóðsins í samráði við félagsmálaráðherra.
    Enn fremur gerir stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga þjónustusamning við Vinnumálastofnun um umsýslu sjóðsins, sbr. 2. mgr. 7. gr., og staðfestir félagsmálaráðherra samninginn. Stjórnin hefur reglubundið eftirlit með framkvæmd þjónustusamningsins í samráði við félagsmálaráðherra.
    Stjórnarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þóknun stjórnarmanna greiðist úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra.

9. gr.
Umsókn um atvinnuleysisbætur.

    Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður samþykkja umsóknina með undirritun sinni.
    Umsókn um atvinnuleysisbætur felur jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir.
    Skattyfirvöld, Tryggingastofnun ríkisins, Innheimtustofnun sveitarfélaga og hlutaðeigandi lífeyrissjóðir skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
    Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðilum vegna einstakra umsókna þegar ástæða er til að mati hennar.

10. gr.
Tilkynning um að atvinnuleit sé hætt.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum skal tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Tilkynningin skal gerð með sannanlegum hætti og skal taka fram ástæðu þess að atvinnuleit var hætt.

11. gr.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

    Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og jafnmarga til vara. Nefndarmenn skulu skipaðir til fjögurra ára í senn og skulu þeir allir vera skipaðir án tilnefningar. Félagsmálaráðherra ákveður hver skal vera formaður nefndarinnar og skal varamaður formanns jafnframt vera varaformaður. Formaður og varamaður hans skulu uppfylla skilyrði til þess að vera skipaðir héraðsdómarar.
    Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.
    Nefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu í nefndinni og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af nefndarsetu.
    Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun.
    Kostnaður af starfsemi nefndarinnar greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra.

12. gr.
Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

    Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæran telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
    Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund.
    Úrskurðarnefndin skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig áður en nefndin úrskurðar í því, enda telji nefndin að hvorki afstaða hans né rök fyrir henni liggi fyrir í gögnum málsins.
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
    Úrskurðarnefndin skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða eftir að henni berst mál.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

III. KAFLI
Skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna.
13. gr.
Almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna.

    Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem uppfyllir eftirtalin skilyrði telst tryggður samkvæmt lögum þessum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra:
     a.      er í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr.,
     b.      er orðinn 16 ára að aldri en yngri en 70 ára,
     c.      er búsettur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla,
     d.      hefur heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,
     e.      hefur verið launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. í starfi sem ekki er hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó V. kafla,
     f.      leggur fram vottorð vinnuveitanda, sbr. 16. gr., og vottorð frá skóla þegar það á við, sbr. 3. mgr. 15. gr.,
     g.      hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.
    Ákvæði g-liðar á ekki við um starfsfólk í fiskvinnslu sem ekki hefur rétt til að gera kauptryggingarsamning samkvæmt kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.

14. gr.
Virk atvinnuleit.

    Sá telst vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
     a.      er fær til flestra almennra starfa,
     b.      hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
     c.      hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
     d.      er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
     e.      er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
     f.      á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
     g.      hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
     h.      er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
    Hinn tryggði skal tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. h-lið 1. mgr. án ástæðulausrar tafar.
    Þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum kemur ekki í veg fyrir að hinn tryggði taki starfi sem býðst á þeim tíma.
    Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum b-, d- og e-liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur er heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.
    Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, nánar á um virka atvinnuleit, svo sem hvaða upplýsingar Vinnumálastofnun eru nauðsynlegar skv. h-lið, og um undanþágur skv. 4. mgr.

15. gr.
Ávinnslutímabil.

    Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.
    Launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.
    Nám, sbr. c-lið 3. gr., sem launamaður hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi stundað námið og lokið því. Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. getur tryggingarhlutfall launamanns aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.
    Fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof telst til starfstíma á ávinnslutímabili. Við mat á starfshlutfalli launamanns í fæðingarorlofi á ávinnslutímabilinu skal líta til þess starfshlutfalls sem hann var í á fjögurra mánaða tímabili er hefst tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Sama á við um þann tíma er verkfall eða verkbann stendur yfir sem tekur til starfa launamanns á ávinnslutímanum. Skal þá miða við starfshlutfall hans í almanaksmánuðinum áður en verkfall eða verkbann hófst.
    Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu launamanns en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans skv. 3. mgr.
    Vinnuframlag sjómanna miðast við fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst vera 21,67 lögskráningardagar.
    Launamaður skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil samkvæmt ákvæði þessu hefst.
    Hafi launamaður einnig verið sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar skal taka mið af öllum störfum hans við ákvörðun á atvinnuleysistryggingu hans.
    Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, nánar á um ávinnslutímabil, svo sem skrá yfir hlutfallsþrep.

16. gr.
Vottorð vinnuveitanda.

    Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., skal leggja fram vottorð vinnuveitanda er hann sækir um atvinnuleysisbætur. Vottorðið skal vera skriflegt á þar til gerðu eyðublaði þar sem meðal annars kemur fram starfstími hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili skv. 15. gr. ásamt starfshlutfalli hans. Enn fremur skal tilgreina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað.
    Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram koma í vottorði skv. 1. mgr.
    Þegar launamaður á þess ekki kost að leggja fram vottorð vinnuveitanda skal líta til annarra gagna sem færa sönnur á störf launamanns hjá vinnuveitanda.

17. gr.
Atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

    Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.
    Ákvæði þetta á ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um atvinnuleysistryggingu launamannsins, þar á meðal skilyrðið um að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr.

IV. KAFLI
Skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga.
18. gr.
Almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga.

    Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., sem uppfyllir eftirtalin skilyrði telst tryggður samkvæmt lögum þessum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra:
     a.      er í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr.,
     b.      er orðinn 16 ára að aldri en yngri en 70 ára,
     c.      er búsettur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla,
     d.      hefur heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,
     e.      hefur verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili skv. 19. gr. og starfsemi hans telst ekki vera hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó V. kafla,
     f.      hefur stöðvað rekstur, sbr. 20. gr.,
     g.      leggur fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr., og vottorð frá skóla þegar það á við, sbr. 3. mgr. 19. gr.,
     h.      hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar,
     i.      hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.
    Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá h-lið þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar en greiðir síðan þessi gjöld aftur í tímann. Við ákvörðun á tryggingarhlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings er þó einungis heimilt að miða að hámarki við þrjá mánuði af þeim tíma er vanskilin áttu við um.

19. gr.
Ávinnslutímabil.

    Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.
    Nám, sbr. c-lið 3. gr., sem sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu. Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stundað námið og lokið því. Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst ávallt vera í fullu starfi. Tryggingarhlutfall hans getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr.
    Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili skv. 1. og 2. mgr. skal taka mið af skrám skattyfirvalda, sbr. einnig h-lið 18. gr.
    Fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof telst til starfstíma á ávinnslutímabili.
    Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu sjálfstætt starfandi einstaklings en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans skv. 3. mgr.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingur skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil samkvæmt ákvæði þessu hefst.
    Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur einnig verið launamaður, sbr. a-lið 3. gr., á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar skal taka mið af öllum störfum hans við ákvörðun á atvinnuleysistryggingu hans.
    Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, nánar á um ávinnslutímabil.

20. gr.
Stöðvun rekstrar.

    Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar metið er hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá vegna eignasölu enda hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.
    Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.

21. gr.
Staðfesting um stöðvun rekstrar.

    Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., skal leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur skv. 20. gr. Staðfestingin skal fela í sér:
     a.      yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og
     b.      afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.

22. gr.
Atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

    Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., sem missir starf sitt en ræður sig sem launamaður, sbr. a-lið 3. gr., til starfa í minna starfshlutfall telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum. Tryggingarhlutfall hans nemur mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 19. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir sem launamaður, frá þeim tíma er hann hóf störf í hinu nýja starfi. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um atvinnuleysistryggingu sjálfstætt starfandi einstaklings, þar á meðal skilyrðið um að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr.

V. KAFLI
Tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast.
23. gr.
Þátttöku á vinnumarkaði hætt tímabundið.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hverfur af vinnumarkaði getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum.
    Sá tími sem hinn tryggði starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu skv. 1. mgr. telst til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. eftir því sem við á.
    Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.
    Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

24. gr.
Minnkað starfshlutfall.

    Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem minnkar starfshlutfall sitt getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega minnkaði starfshlutfall sitt. Sama á við um sjálfstætt starfandi einstakling, sbr. b-lið 3. gr., sem ræður sig til starfa sem launamaður í hlutastarf, sbr. 22. gr.
    Sá tími sem launamaður starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu skv. 1. mgr. í sama eða hærra starfshlutfalli en hann var í áður telst til ávinnslutímabils skv. 15. gr.
    Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til þeirra tólf mánaða sem hinn tryggði starfaði á innlendum vinnumarkaði í hæsta starfshlutfalli á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.
    Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega minnkaði starfshlutfall sitt fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

25. gr.
Nám.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hverfur af vinnumarkaði til að stunda nám, sbr. c-lið 3. gr., getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 36 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum enda hafi hann sannanlega lokið náminu.
    Sá tími sem hinn tryggði starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu skv. 1. mgr. telst til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. eftir því sem við á.
    Við útreikninga á ávinnslutímabili þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 48 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.
    Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 36 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum eða hefur ekki lokið námi innan þess tíma fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

26. gr.
Óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hverfur af vinnumarkaði verði hann óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þann tíma sem hann er óvinnufær.
    Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða frá þeim tíma er hinn tryggði sannanlega hætti störfum og tímabil skv. 1. mgr. hófst.
    Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan sex mánaða frá þeim degi er hann varð vinnufær á ný fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður enda eigi ákvæði 23. gr. ekki við.
    Vottorð sérfræðilæknis er annaðist hinn tryggða skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem meðal annars skal koma fram hvenær hann varð óvinnufær og hvenær hann varð vinnufær á ný.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

27. gr.
Afplánun refsingar.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hverfur af vinnumarkaði þar sem hann tekur út refsingu sína samkvæmt dómi getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þangað til hann hefur lokið afplánun refsingar.
    Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða frá þeim tíma er hinn tryggði sannanlega hætti störfum og tímabil skv. 1. mgr. hófst.
    Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan sex mánaða frá þeim degi er afplánun refsingar hans lauk fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður enda eigi ákvæði 23. gr. ekki við.
    Vottorð frá fangelsismálayfirvöldum skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem meðal annars skal koma fram það tímabil sem afplánun refsingar stóð yfir.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

28. gr.
Virkri atvinnuleit hætt tímabundið.

    Sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í skemmri tíma en 24 mánuði en hættir tímabundið virkri atvinnuleit getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sótti um atvinnuleysisbætur enda hafi hann ekki áður nýtt sér heimild skv. 23.–27. gr. Að öðru leyti gildir 23. gr. um geymdar atvinnuleysistryggingar.
    Sá sem hættir virkri atvinnuleit skv. 1. mgr. til að stunda nám, sbr. c-lið 3. gr., getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 36 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti virkri atvinnuleit enda hafi hann sannanlega lokið náminu. Þegar sótt er aftur um atvinnuleysisbætur skal miða við atvinnuleysistryggingar hins tryggða eins og þær voru áður en hann hóf námið nema annað leiði af lögum þessum.
    Sá sem hættir virkri atvinnuleit skv. 1. mgr. vegna tilvika er ákvæði 25. og 26. gr. fjalla um getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu samkvæmt þeim ákvæðum eftir því sem við getur átt.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

VI. KAFLI
Tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar.
29. gr.
Lengd tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins. Hið sama á við um þann tíma þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr.
    Sá tími sem hinn tryggði starfar á vinnumarkaði eftir að tímabil skv. 1. mgr. hefst telst ekki hluti tímabilsins. Enn fremur telst sá tími sem atvinnuleysistryggingar geymast skv. V. kafla ekki hluti tímabilsins skv. 1. mgr.
    Tímabilið skv. 1. mgr. heldur áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

30. gr.
Endurnýjun tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í þrjú ár skv. 29. gr. getur áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Hefst þá nýtt tímabil skv. 29. gr. en að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

31. gr.
Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst áður en fyrra tímabili lýkur að fullu.

    Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

VII. KAFLI
Fjárhæð atvinnuleysisbóta.
32. gr.
Tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

    Sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals tíu virka daga nema annað leiði af lögum þessum.
    Tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skulu nema 70% af meðaltali heildarlauna og skal miða við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald en ekki skal miða við tekjur af störfum er umsækjandi gegnir áfram, sbr. 17. og 22. gr. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Tekjutengdar atvinnuleysisbætur sjálfstætt starfandi einstaklinga skv. 1. mgr. skulu nema 70% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tekjuárið á undan því ári sem umsækjandi varð atvinnulaus. Að öðru leyti gildir ákvæði 2. mgr.
    Útreikningar á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skulu byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur umsækjanda úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Vinnumálastofnun skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Þegar ekki hefur verið staðið skil á greiðslum til skattyfirvalda vegna launamanna skal líta til annarra gagna sem færa sönnur á tekjur launamanns á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr.
    Tekjutengdar atvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju tímabili skv. 29. gr.
    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. skal hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hverjum mánuði miðast við tryggingarhlutfall hins tryggða þannig að þær nemi aldrei hærri fjárhæð en 180.000 kr. á mánuði miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu, sbr. 15. eða 19. gr. Til að finna út atvinnuleysisbætur fyrir hvern dag skal miða við 21,67 daga.
    Sá sem uppfyllir skilyrði III. eða IV. kafla en hefur ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili skv. 2. eða 3. mgr. öðlast rétt til grunnatvinnuleysisbóta skv. 33. gr. í samræmi við tryggingarhlutfall hans skv. 15. eða 19. gr. Hið sama á við þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. reynast lægri en grunnatvinnuleysisbætur sem hinn tryggði á rétt á skv. 33. gr.
    Þegar tímabil skv. 29. gr. heldur áfram að líða er hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann áður fullnýtt rétt sinn skv. 1. mgr.
    Hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skal ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu.

33. gr.
Grunnatvinnuleysisbætur.
    

    Sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlast rétt til grunnatvinnuleysisbóta við upphaf tímabils skv. 29. gr. í samræmi við tryggingarhlutfall hans skv. 15. eða 19. gr. nema annað leiði af lögum þessum.
    Sá sem telst að fullu tryggður á rétt til óskertra grunnatvinnuleysisbóta sem skulu nema 4.431 kr. á dag. Lágmarksréttur til atvinnuleysistrygginga veitir rétt til ¼ hluta grunnatvinnuleysisbóta.
    Grunnatvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju tímabili skv. 29. gr. Fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. og hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 4. mgr. 32. gr. koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæðum skal félagsmálaráðherra breyta þeim með reglugerð.

34. gr.
Atvinnuleysisbætur vegna framfærsluskyldu gagnvart börnum.

    Sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla og hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára skal eiga rétt á 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni frá upphafi tímabils skv. 29. gr. nema annað leiði af lögum þessum.
    Heimilt er að skuldajafna kröfum Innheimtustofnunar sveitarfélaga um meðlög hins tryggða sem stofnuninni hefur verið falið að innheimta á móti atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.

35. gr.
Tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta.

    Atvinnuleysisbætur skulu greiddar eftir á, fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði þannig að miðist við 20. dag mánaðar til 19. dags næsta mánaðar, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.

36. gr.
Frádráttur vegna tekna.

    Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 2. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum og fjármagnstekjur hins tryggða. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.
    Frítekjumarkið skal vera 52.000 kr. á mánuði. Fjárhæð frítekjumarksins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæð frítekjumarksins til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar áðurgreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð frítekjumarksins skal félagsmálaráðherra breyta henni með reglugerð.

37. gr.
Uppsöfnun og vernd réttinda.

    Sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur greiðir að lágmarki 4% af atvinnuleysisbótum skv. 32. og 33. gr. í lífeyrissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir 6% mótframlag. Hinum tryggða er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.
    Sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur getur óskað eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags síns og sér þá Vinnumálastofnun um að koma greiðslunni til hlutaðeigandi stéttarfélags.

38. gr.
Endurmat á rétti til atvinnuleysistrygginga.

    Sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. og 33. gr. getur óskað eftir endurmati á atvinnuleysistryggingu sinni skv. III. eða IV. kafla., og þar með endurútreikningi á fjárhæð atvinnuleysisbóta, þegar starfstímabil hans hefur varað samfellt lengur en þrjá mánuði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur og tímabil skv. 29. gr. heldur áfram að líða. Skal þá taka mið af nýja starfstímabilinu og þess hluta eldra ávinnslutímabils sem nægir til að samtals verði miðað við tólf mánaða tímabil. Óski hinn tryggði ekki eftir endurútreikningi miðast atvinnuleysisbætur við fyrri útreikninga.

39. gr.
Leiðrétting á atvinnuleysisbótum.

    Hafi breytingar orðið á tekjuskattsálagningu hins tryggða vegna tekna sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru byggðar á, sbr. 32. gr., skal Vinnumálastofnun leiðrétta fjárhæð bótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda.
    Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
    Heimilt er að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði. Enn fremur er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti inneign hins tryggða vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fjármálaráðherra setur í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.
    Um innheimtu ofgreidds fjár úr Atvinnuleysistryggingasjóði fer skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Félagsmálaráðherra getur þó falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
    Hafi hinn tryggði fengið lægri atvinnuleysisbætur en honum bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til hins tryggða ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða leiðir til þess að hinn tryggði hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum þessum en hafði áður verið synjað um þær eða reiknaðar lægri atvinnuleysisbætur. Þegar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá hinum tryggða falla vextir niður.

40. gr.
Gjaldþrot félaga.

    Vinnumálastofnun er heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur skv. 32. og 33. gr. þann tíma sem hann er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, enda uppfylli hann skilyrði laga þessara. Skilyrði er jafnframt að launamaður framselji Atvinnuleysistryggingasjóði þann hluta launakröfu sinnar á hendur Ábyrgðasjóði launa er nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem hann fær greiddar á þessum tíma.

41. gr.
Fjárnám óheimilt.

    Óheimilt er að gera fjárnám í atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum þessum sem ekki hafa verið greiddar til hins tryggða. Þá er jafnframt óheimilt að taka atvinnuleysisbætur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.

VIII. KAFLI
Atvinnuleit eða atvinna í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
42. gr.
Atvinnuleit í öðru aðildarríki.

    Vinnumálastofnun er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. VII. kafla til þess sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum enda uppfylli hann eftirtalin skilyrði:
     a.      hefur sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar,
     b.      hefur uppfyllt skilyrði laga þessara á a.m.k. fjórum næstliðnum vikum fyrir brottfarardag,
     c.      er heimilt að vera í frjálsri atvinnuleit í öðru aðildarríki samkvæmt lögum þess ríkis, og
     d.      skráir sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fer fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi.
    Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði b-liðar 1. mgr. þegar foreldri, maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki hins tryggða dvelst við nám eða störf í því landi sem atvinnuleitin fer fram. Hið sama getur átt við er börn hins tryggða undir 18 ára aldri eru búsett í landinu með hinu foreldri sínu eða hann hefur þegar fengið tilboð um starf þar í landi.
    Vinnumálastofnun er jafnframt heimilt að veita hinum tryggða lengri tíma til að skrá sig hjá hinni erlendu vinnumiðlun en kveðið er á um í d-lið 1. mgr. Greiðslur atvinnuleysisbóta falla þá niður frá og með brottfarardegi og hefjast að nýju við skráningu erlendis.
    Vinnumálastofnun gefur út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæði þessu.
    Lög þess ríkis þar sem atvinnuleitin fer fram skulu gilda að öðru leyti um eftirfylgni með atvinnuleitinni og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
    Félagsmálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, nánar á um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. a- og b-liði 3. gr., á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamnings Fríverslunarsamnings Evrópu, Norðurlandasamnings um almannatryggingar og samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.

43. gr.
Lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar
vegna atvinnuleitar í öðru aðildarríki.

    Vinnumálastofnun er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir er af tímabili skv. 29. gr.
    Þegar hinn tryggði fær tímabundið starf í öðru aðildarríki í skemmri tíma en sem eftir er af tímabili 1. mgr. eða segir upp starfi eða missir það af gildum ástæðum innan þess tíma er heimilt að greiða honum atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. þann tíma sem eftir er af tímabili skv. 1. mgr.
    Ákvæði 2. mgr. á ekki við hafi starf í öðru aðildarríki veitt hlutaðeigandi rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar.

44. gr.
Endurnýjun á tímabili skv. 43. gr.

    Sá sem hefur áður fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. getur áunnið sér að nýju rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan hann er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum að liðnum sex mánuðum frá lok tímabilsins skv. 43. gr. enda hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. þrjá mánuði og uppfyllir að öðru leyti ákvæði laga þessara.

45. gr.
Umsókn um greiðslur atvinnuleysisbóta
vegna atvinnuleitar í öðru aðildarríki.

    Sá sem vill nýta sér rétt sinn skv. 42. gr. skal sækja um að atvinnuleysisbætur verði greiddar meðan hann er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum til Vinnumálastofnunar á þar til gerðum eyðublöðum fyrir brottfarardag. Ef umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður hans samþykkja umsóknina með undirritun sinni.

46. gr.
Tilkynning um heimkomu.

    Hinn tryggði sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. og snýr aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði skal tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Atvinnuleysistrygging hans er þá sú sama og hún var áður en hann fór utan í atvinnuleit nema annað leiði af lögum þessum.
    Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan tímamarka 1. mgr. falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. lauk eða hann hætti atvinnuleit í öðru aðildarríki hafi hann sannanlega hætt leitinni áður en tímabilinu lauk. Skal hinn tryggði þá sækja um atvinnuleysisbætur að nýju skv. 9. gr.
    Vinnumálastofnun er heimilt að leita upplýsinga hjá þar til bærri stofnun í því aðildarríki þar sem atvinnuleitin fór fram um atriði er geta haft áhrif á atvinnuleysistryggingu hlutaðeigandi hér á landi eða þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

47. gr.
Ávinnslutímabil í öðru aðildarríki.

    Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. þrjá mánuði á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að taka tillit til starfstímabila hans sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. a-b-liði 3. gr., í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum á ávinnslutímabilinu við mat á atvinnuleysistryggingu hans enda hafi störf hans í því ríki veitt honum rétt samkvæmt lögum þess um atvinnuleysistryggingar.
    Umsækjandi skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr.
    Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur, sem flytur til Íslands frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð, hefur starfað hér á landi á síðastliðnum fimm árum frá móttökudegi umsóknar í þeim mæli að hann hefði talist tryggður samkvæmt lögum þessum þarf ekki að uppfylla það skilyrði 1. mgr. að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. þrjá mánuði á ávinnslutímabili svo að heimilt sé að taka tillit til starfstímabila hans í þessum ríkjum. Hið sama á við um þá sem flytja til Íslands frá framangreindum ríkjum og hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur hér á landi á næstliðnum fimm árum frá móttökudegi umsóknar hjá Vinnumálastofnun.

48. gr.
Útgáfa vottorða.

    Vinnumálastofnun skal gefa út vottorð til staðfestingar á atvinnuleysistryggingu hins tryggða samkvæmt umsókn þar sem fram kemur starfstímabil hans hér á landi á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. og áunnin réttindi hans samkvæmt lögum þessum. Tilgreina skal hvort hinn tryggði hafi áunnið sér atvinnuleysistryggingarnar sem launamaður, eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. a–b-liði 3. gr.

49. gr.
Greiðsla atvinnuleysisbóta til rétthafa úr erlendum tryggingakerfum.

    Vinnumálastofnun er heimilt að greiða ríkisborgara annars aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyingi, sem kemur hingað í atvinnuleit, atvinnuleysisbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði að beiðni og fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í hlutaðeigandi ríki enda endurgreiði sú stofnun sjóðnum þær fjárhæðir sem þannig eru inntar af hendi.
    Vinnumálastofnun er þó heimilt að greiða út atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. þrátt fyrir að ekki komi til formlegrar endurgreiðslu enda leiði slíkt af samningum sem íslensk stjórnvöld eru aðilar að.

IX. KAFLI
Tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum.
50. gr.
Verkfall eða verkbann.

    Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem leggur niður störf í verkfalli eða vegna verkbanns vinnuveitanda telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir.
    Launamaður sem hefur misst starf sitt áður en til verkfalls eða verkbanns kom en tekur það fram í umsókn að hann sé að leita að starfi í þeirri starfsgrein sem verkfallið eða verkbannið tekur til telst ekki tryggður þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir á fyrstu fjórum vikunum frá því að Vinnumálastofnun tók við umsókn hans.
    Ákvæði 2. mgr. á þó ekki við þegar verkfall eða verkbann tekur einungis til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði.

51. gr.
Ósamrýmanlegar greiðslur.

    Hver sá sem nýtur slysa- eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.
    Hver sá sem nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.
    Hver sá sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.
    Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.

52. gr.
Nám.

    Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meta sérstaklega hvort umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti talist tryggður samkvæmt lögum þessum þegar hann hefur stundað nám með starfi sínu sem hann missti og námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Vinnumálastofnun skal jafnframt meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

53. gr.
Frelsissvipting.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu.

X. KAFLI
Biðtími eftir atvinnuleysisbótum.
54. gr.
Starfi sagt upp án gildra ástæðna.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 virkum dögum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
    Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.
    Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma skv. 1. mgr. stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr.

55. gr.
Námi hætt án gildra ástæðna.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. d-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 virkum dögum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.
    Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.
    Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma skv. 1. mgr. stendur fellur biðtíminn niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 56. gr.

56. gr.
Ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma.

    Sá sem áður hefur sætt biðtíma skv. 54. eða 55. gr. eða viðurlögum skv. 57.–59. gr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og sagt því starfi upp er hann gegndi síðast án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 60 virkum dögum liðnum frá móttöku seinni umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama á við um þann sem hefur misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.
    Þegar biðtími skv. 54. og 55. gr. eða viðurlög skv. 57.–59. gr. hafa frestast skv. 3. mgr. 54. gr., 3. mgr. 55. gr., 3. mgr. 57. gr., 3. mgr. 58. gr. eða 3. mgr. 59. gr. leggst sá tími sem eftir var af fyrri biðtíma eða viðurlagaákvörðun saman við biðtíma skv. 1. mgr.
    Þegar sá sem áður hefur sætt biðtíma skv. 1. mgr. sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og hefur sagt upp því starfi sem hann gegndi síðast án gildra ástæðna skal hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. átta vikur á innlendum vinnumarkaði. Hið sama á við um þann sem hefur sætt biðtíma skv. 1. mgr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.
    Endurtaki atvik sig sem lýst er í 3. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að hann uppfyllir skilyrði 31. gr.
    Ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæði þessu falla niður þegar nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst, sbr. 30. eða 31. gr. laganna.

XI. KAFLI
Viðurlög.
57. gr.
Starfi eða atvinnuviðtali hafnað.

    Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 virkum dögum liðnum frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.
    Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr. Hafni hann starfi eða hafnar því að fara í atvinnuviðtal á þeim tíma getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.
    Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða missti það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.
    Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

58. gr.
Þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum hafnað.

    Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 virkum dögum liðnum frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.
    Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr. Hafni hann aftur að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum á þeim tíma getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.
    Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.

59. gr.
Rangar upplýsingar gefnar eða látið hjá líða að veita upplýsingar.

    Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar á umsókn eða lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar svo að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 virkum dögum liðnum frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem hafa orðið á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti á tímabili skv. 29. gr.
    Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr. Veiti hann Vinnumálastofnun ekki nauðsynlegar upplýsingar á þeim tíma eða leiðrétti þær upplýsingar er reyndust rangar getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.
    Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.

60. gr.
Atvinnuleysisbóta aflað með sviksamlegum hætti.

    Sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum þessum með svikum getur misst rétt sinn samkvæmt lögum þessum í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum.
    Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
    Sektir skulu renna í ríkissjóð.

61. gr.
Ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana.

    Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 60 virkum dögum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir.
    Þegar viðurlög skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. hafa frestast skv. 3. mgr. 54. gr., 3. mgr. 55. gr., 3. mgr. 57. gr., 3. mgr. 58. gr. eða 3. mgr. 59. gr. leggst sá tími sem eftir var af fyrri viðurlagaákvörðun eða biðtíma saman við viðurlög skv. 1. mgr.
    Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 1. mgr. og eitthvert þeirra tilvika er greinir í 57.–59. gr. á við að því er hann varðar skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. átta vikur á innlendum vinnumarkaði.
    Endurtaki atvik sig sem lýst er í 3. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að hann uppfyllir skilyrði 31. gr.
    Ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæði þessu falla niður þegar nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst, sbr. 30. eða 31. gr. laganna.

XII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
62. gr.
Styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga.

    Vinnumálastofnun er heimilt að veita styrki vegna þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögum þessum í vinnumarkaðsaðgerðum, þar á meðal starfsþjálfunarúrræðum. Enn fremur er heimilt að veita sérstaka styrki vegna búferlaflutninga hins tryggða innan lands vegna starfstilboða.
    Félagsmálaráðherra skal setja nánari reglur, að fenginni tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, um styrki skv. 1. mgr.

63. gr.
Styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði til verkefna á vinnumarkaði.

    Félagsmálaráðherra er heimilt, að fenginni tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til einstakra verkefna sem ætlað er að efla atvinnulíf einstakra svæða, fjölga atvinnutækifærum einstakra hópa fólks sem og til starfsmenntunar. Fjárhæð þessara framlaga ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

64. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, um nánari framkvæmd laga þessara.

65. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, og lög nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þeim sem hefur í fyrsta skipti skráð sig atvinnulausan hjá svæðisvinnumiðlun 15. nóvember 2005 eða síðar og er skráður atvinnulaus 1. júlí 2006 er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. laga þessara fyrir 1. september 2006 og fer þá um réttindi hans og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt lögum þessum. Við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. skal líta á það tímabil sem hann var skráður atvinnulaus sem tímabil skv. 23. gr.

II.

    Sá sem var skráður atvinnulaus fyrir 15. nóvember 2005 og hefur verið án atvinnu samfellt síðan eða hefur starfað í skemmri tíma en sex mánuði á innlendum vinnumarkaði getur að hámarki átt rétt á grunnatvinnuleysisbótum samkvæmt lögum þessum til 31. desember 2009 en þó ekki í lengri tíma en fimm ár frá skráningu hjá svæðisvinnumiðlun að teknu tilliti til starfstímabila hans. Að öðru leyti gilda ákvæði laga þessara um réttindi hans og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

III.

    Lög þessi skulu gilda að öllu leyti um þann sem hefur verið skráður atvinnulaus fyrir 1. júlí 2006 en hefur starfað samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur í fyrsta skiptið eftir þann tíma. Er þá ekki litið til fyrra bótatímabils hans skv. 9. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Félagsmálaráðherra skipaði nefnd árið 2004 sem ætlað var að endurskoða efni laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir. Markmiðið með endurskoðuninni var að stuðla að bættu öryggi fólks í atvinnuleysi sem og auknum gæðum vinnumarkaðsaðgerða ásamt því að auka skilvirkni innan kerfisins almennt. Nefndin skilaði skýrslu til ráðherra í nóvember 2005 og er frumvarpið í meginatriðum byggt á tillögum hennar.
    Frumvarp þetta felur í sér ákveðnar breytingar á skipulagi atvinnuleysistryggingakerfisins en helsta markmið þeirra breytinga er að auka skilvirkni innan þess. Áfram er þó gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður og Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga verði starfræktir en lagt er til að fjallað verði um báða sjóðina í frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir að sjóðirnir verði áfram innan A-hluta ríkissjóðs, sbr. 1. tölul. 3. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og að félagsmálaráðherra skipi þeim sérstaka stjórn þar sem í eiga sæti fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum stjórnvalda.
    Þau nýmæli eru lögð til að Vinnumálastofnun annist framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins og ákvarði því um rétt atvinnuleitenda innan atvinnuleysistryggingakerfisins, þar með um rétt þeirra til atvinnuleysisbóta og missi þeirra, í stað sérstakra úthlutunarnefnda. Samhliða er því lagt til að úthlutunarnefndir verði lagðar niður utan einnar nefndar. Miðað er við að stjórn Vinnumálastofnunar skipi nefndina og er hlutverk hennar að taka ákvarðanir um réttindi og viðurlög á grundvelli frumvarps þessa. Er henni sérstaklega ætlað að hafa eftirlit með að samræmis sé gætt við ákvarðanir er varða atvinnuleysistryggingar fólks. Þessari breytingu er ætlað að auka skilvirkni innan kerfisins þar sem reynslan hefur sýnt að meiri hluti umsókna er afgreiddur nokkuð sjálfkrafa í gildandi kerfi. Þykir óþarflega þungt í vöfum að hafa níu úthlutunarnefndir til að ákvarða um rétt atvinnuleitenda innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Standa því vonir til að með þessu megi stytta afgreiðslutíma umsókna eins og kostur er enda heyrir þá sögunni til að umsóknir þurfi að bíða funda hjá nefndum þegar allar upplýsingar liggja fyrir. Með þessu nýja skipulagi eru allar ákvarðanir um réttindi og skyldur fólks innan atvinnuleysistryggingakerfisins teknar í umboði Vinnumálastofnunar, þ.e. á sama stjórnsýslustigi, sem ber ábyrgð á framkvæmdinni gagnvart stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga eftir atvikum og félagsmálaráðherra. Áfram er gert ráð fyrir að ákvarðanir sem teknar eru um réttindi og skyldur atvinnuleitenda á grundvelli frumvarps þessa verði unnt að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa átt rétt til atvinnuleysisbóta frá árinu 1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 54/1993, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum, en einungis hefur verið kveðið á um skilyrði fyrir rétti þeirra með reglugerðum. Þykir hins vegar eðlilegra að kveðið sé á um réttindi þeirra og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins í settum lögum á sama hátt og gildir um atvinnuleysistryggingar launamanna. Ástæða þykir til að fjalla aðskilið í tveimur köflum frumvarpsins um þau skilyrði sem sett eru fyrir atvinnuleysistryggingum þessara hópa enda þótt áhersla sé lögð á að skilyrðin séu sambærileg. Má rekja þetta skipulag til þess að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum þessara hópa.
    Leitast er við að gera réttindum atvinnuleitenda innan atvinnuleysistryggingakerfisins skýr skil í frumvarpinu enda þykir mikilvægt að þeir geti áttað sig á hvaða skilyrði þeir þurfi að uppfylla til að öðlast rétt samkvæmt frumvarpinu. Áfram er gert að skilyrði að einstaklingur sé í virkri atvinnuleit til að teljast tryggður samkvæmt frumvarpinu en lagt er til að tilgreint verði hvað felist nánar í því skilyrði. Ekki eru lagðar til breytingar á aldursskilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum en það nýmæli er lagt til að umsóknir umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem eru yngri en 18 ára þurfa samþykki foreldris eða forráðamanns. Enn fremur er leitast við að skýra reglur um hvernig þátttakendur á vinnumarkaði ávinna sér rétt innan kerfisins með starfsframlagi sínu á ávinnslutímabili. Má segja að um sé að ræða tvenns konar reglur þar sem annars vegar er litið til starfstíma en hins vegar til starfshlutfalls. Með þessari breytingu er verið að leitast við að draga úr áhrifum starfshlutfalls á tryggingarhlutfall hins tryggða en áfram gildir að atvinnuleitendur koma ekki til með að öðlast meiri rétt en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili. Hins vegar tekur það þátttakendur á vinnumarkaði jafnlangan tíma að ávinna sér rétt til lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins án tillits til starfshlutfalls.
    Í frumvarpi þessu er framlagning vinnuveitendavottorðs gerð að skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum þegar launamenn eiga í hlut en lengi hefur tíðkast innan atvinnuleysistryggingakerfisins að umsækjendur um atvinnuleysisbætur hafi lagt inn slík vottorð. Þau hafa verið talin eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið er til við ákvörðun á rétti atvinnuleitanda innan atvinnuleysistryggingakerfisins án þess að kveðið hafi verið á um þau með skýrum hætti í lögum. Þykir jafnframt ástæða til að veita Vinnumálastofnun heimildir til að sannreyna þær upplýsingar er fram koma í vottorðunum en í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2003 þar sem kannað var innra eftirlit við greiðslu atvinnuleysisbóta kemur fram að vottorðin séu einn helsti áhættuþátturinn í atvinnuleysistryggingakerfinu.
    Enn fremur er lagt til að regluleg skráning atvinnuleitenda hjá vinnumiðlunum Vinnumálastofnunar verði felld niður. Ástæðan er einkum sú að það fyrirkomulag hefur þótt tímafrekt og nokkuð ómarkvisst. Hefur það jafnframt ekki þótt þjóna tilgangi sínum sem þáttur í eftirliti með því að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þar sem oft er eingöngu ætlast til að þeir komi til að stimpla sig inn í kerfið. Eðlilegra þykir að atvinnuleitendum verði gert að mæta reglulega til ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem meta hversu mikla aðstoð hver og einn þarf á að halda við atvinnuleitina. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur tilkynni án ástæðulausrar tafar til Vinnumálastofnunar þegar virkri atvinnuleit er hætt.
    Gert er ráð fyrir að tímabilið sem þeir sem teljast tryggðir samkvæmt frumvarpinu geta fengið samfellt greiddar atvinnuleysisbætur verði stytt úr fimm árum í þrjú ár. Ástæða þessa er að reynslan hefur sýnt að töluverðar líkur eru á að fólk sé ekki í virkri atvinnuleit í svo langan tíma. Þykir hæfilegt að aðstæður hvers einstaklings séu metnar heildstætt til að kanna hvort hann þurfi á annars konar aðstoð að halda. Þessi breyting útilokar þó ekki að einstaklingurinn geti átt rétt á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum samhliða annarri þjónustu enda þótt hann verði ekki talinn í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarps þessa. Á móti kemur að lagðar eru til skýrari reglur um á hvern hátt tímabilið endurnýjast án þess að fyrra tímabili sé lokið. Þar er miðað við að tímabilið endurnýist þegar fólk hefur starfað samfellt í 24 mánuði eða lengur á innlendum vinnumarkaði en samkvæmt gildandi kerfi verður fyrra tímabili ætíð að ljúka án tillits til þess hversu langur tími líði milli þeirra tímabila sem einstaklingur er án atvinnu.
    Ein helsta breytingin á atvinnuleysistryggingakerfinu sem frumvarp þetta felur í sér er tekjutenging atvinnuleysisbóta. Lagt er til að atvinnuleitendur sem uppfylla skilyrði frumvarpsins fyrir atvinnuleysistryggingum eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem nema 70% af meðaltali heildarlauna á ákveðnu viðmiðunartímabili í allt að þrjá mánuði. Það tímabil getur hafist þegar grunnatvinnuleysisbætur sem atvinnuleitandi á rétt á hafa verið greiddar í samtals tíu virka daga. Þó er gert ráð fyrir að hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðist við tryggingarhlutfall hins tryggða þannig að slíkar atvinnuleysisbætur geti ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur 180.000 kr. á mánuði miðað við óskertar atvinnuleysistryggingar. Fyllri ákvæði er að finna í frumvarpi þessu um tilvik er leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast, tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum og um biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá er að finna sérkafla um viðurlög þegar atvinnuleitendur hafna til dæmis að taka starfi sem býðst fyrir milligöngu vinnumiðlunar eða neita því að fara í atvinnuviðtal.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gert er ráð fyrir að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar á innlendum vinnumarkaði teljist tryggðir samkvæmt frumvarpi þessu þegar þeir verða atvinnulausir að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum þess. Hugtök þessi eru nánar skilgreind í 3. gr. frumvarpsins en átt er við einstaklinga sem hafa starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á tilteknu tímabili áður en þeir urðu án atvinnu.

Um 2. gr.

    Markmið frumvarpsins er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Er með þessu verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Er gert ráð fyrir að þeir sem teljast tryggðir samkvæmt frumvarpi þessu séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standa til boða.

Um 3. gr.

    Í ákvæði þessu er að finna nánari skýringar á hvað átt er við með orðunum „launamaður“, „sjálfstætt starfandi einstaklingur“ og „nám“ í skilningi frumvarpsins. Skýringar á orðunum „launamaður“ og „nám“ eru efnislega samhljóða skilgreiningum laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. einnig reglugerð nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Enn fremur er lagt til að hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða tengdra félaga, þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi, verði talinn sjálfstætt starfandi einstaklingur. Aðrir þeir sem starfa hjá félögunum sem launamenn teljast til launamanna í skilningi frumvarpsins óháð eignarhlut. Þó er lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári teljist ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi frumvarpsins. Ástæðan er sú að um mjög umfangslitla atvinnustarfsemi er að ræða í slíkum tilvikum enda tekjuviðmið mjög lágt. Verður því litið svo á að um takmarkaða atvinnustarfsemi sé að ræða sem leiði ekki til réttinda innan kerfisins. Gert er ráð fyrir að við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur teljist launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi frumvarpsins verði meðal annars litið til ákvarðana skattyfirvalda um hvernig skattskilum þeirra var háttað samkvæmt gildandi lögum og reglum um tekjuskatt.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra fari með yfirstjórn atvinnuleysistryggingakerfisins og beri því ábyrgð á stjórnarframkvæmdum á því sviði, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar. Fer ráðherra með almennar stjórnunar- og eftirlitsheimildir með þeim stofnunum og stjórnum sem fjalla um málaflokkinn en ráðherra ber þá jafnframt ábyrgð gagnvart Alþingi á að framkvæmd málaflokksins verði í samræmi við lög er um hann gilda. Lagt er til í 6. gr. frumvarpsins að félagsmálaráðherra skipi stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem starfar í umboði ráðherra. Enn fremur er í 5. gr. gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmd laganna en stofnunin starfar á ábyrgð félagsmálaráðherra. Þá er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi sérstaka úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 11. gr., þannig að úrskurðarvald í kærumálum verði áfram í höndum slíkrar nefndar í stað félagsmálaráðuneytisins.

Um 5. gr.

    Atvinnuleysisbætur skulu áfram greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem fjármagnaður verður með sama hætti og áður. Sjóðurinn er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi sem er hluti tryggingagjalds, sbr. lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Atvinnutryggingagjaldið er nú 0,65% af gjaldstofni tryggingagjaldsins og rennur það óskipt til að fjármagna atvinnuleysistryggingar. Útgjaldaheimildir sjóðsins ákvarðast á fjárlögum, sbr. lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.
    Enn fremur er lagt til að Vinnumálastofnun annist áfram fjárvörslu sjóðsins en stofnuninni er jafnframt ætlað að annast framkvæmd atvinnuleysistrygginga og reikningshald sjóðsins. Sú breyting er lögð til að stofnunin annist framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins og ákvarði því um réttindi og skyldur launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga innan kerfisins, þar með um rétt þeirra til atvinnuleysisbóta og um missi þeirra. Þannig annast starfsfólk stofnunarinnar afgreiðslu umsókna um atvinnuleysisbætur í umboði stofnunarinnar í stað sérstakra úthlutunarnefnda. Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna eru stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og gilda því ákvæði þeirra laga um málsmeðferð stofnunarinnar við afgreiðslu mála. Stofnuninni er jafnframt ætlað að sjá um útgreiðslu atvinnuleysisbóta.
    Samhliða þessari breytingu er lagt til að úthlutunarnefndir verði felldar niður í núverandi mynd. Gert er hins vegar ráð fyrir að stjórn Vinnumálastofnunar skipi eina úthlutunarnefnd sem ætlað er að starfa í umboði stofnunarinnar sem ber ábyrgð á framkvæmd laganna gagnvart félagsmálaráðherra og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hlutverk nefndarinnar er að gæta samræmis við ákvarðanir um rétt fólks innan atvinnuleysistryggingakerfisins þannig að jafnræðis verði gætt við framkvæmdina án tillits til búsetu eða stöðu að öðru leyti. Jafnframt er úthlutunarnefndinni ætlað að setja verklagsreglur um afgreiðslu mála á grundvelli frumvarpsins en miðað er við að úthlutunarnefndin annist afgreiðslu þeirra mála sem krefjast sérstaks mats, til dæmis gildi læknisvottorða, andmæli umsækjanda, viðurlagaákvarðanir og önnur álitaefni sem kunna að koma upp við framkvæmd frumvarps þessa. Miðað er þá við að starfsfólk stofnunarinnar annist aðrar afgreiðslur á grundvelli þess án þess að þær séu formlega lagðar fyrir úthlutunarnefndina. Áhersla er lögð á að ákvarðanir á grundvelli laganna eru teknar í umboði Vinnumálastofnunar og þar með á sama stjórnsýslustigi. Hafi þegar verið tekin ákvörðun í tilteknu máli er heimilt að kæra hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Úthlutunarnefndinni eða starfsfólki Vinnumálastofnunar er óheimilt að taka sama mál til umfjöllunar nema skilyrði stjórnsýslulaga til endurupptöku máls séu fyrir hendi. Rétt þykir að kveða með skýrum hætti á um þagnarskyldu nefndarmanna þegar um er að ræða persónuupplýsingar sem leynt eiga að fara. Mikilvægt er að þagnarskylda haldist eftir að nefndarmenn láta af nefndarsetu.
    Engar breytingar eru lagðar til varðandi fjármögnun kostnaðar af rekstri sjóðsins sem gert er ráð fyrir að greiðist af tekjum hans, sbr. 2. mgr. 19. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Á sama hátt er áfram gert ráð fyrir að reikningar Atvinnuleysistryggingasjóðs verði endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun, sbr. 24. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóði verði áfram skipuð stjórn sem starfar í umboði félagsmálaráðherra. Lagt er til að stjórnin sé skipuð með sambærilegum hætti og áður en þó gert ráð fyrir að fulltrúum í stjórninni verði fækkað úr níu í fimm. Áhersla er lögð á að þríhliða samstarfi samtaka aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda verði viðhaldið. Er því lagt til að einn stjórnarmaður verði tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndur sameiginlega af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndur sameiginlega af fjármálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af Samtökum atvinnulífsins. Tilnefna skal jafnmarga fulltrúa til vara. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi einn stjórnarmann án tilnefningar og verður hann formaður stjórnar sjóðsins. Varamaður formanns stjórnarinnar skal jafnframt vera varaformaður.
    Breytingin á fjölda stjórnarmanna sem lögð er til felst aðallega í því að Alþýðusamband Íslands fær einn fulltrúa í stað tveggja samkvæmt gildandi kerfi og Samtök atvinnulífsins einn fulltrúa í stað þriggja áður. Enn fremur er lagt til að Bandalag háskólamanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sameinist um einn fulltrúa annars vegar og Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneyti um einn fulltrúa hins vegar. Fjármálaráðuneytið hefur ekki átt fulltrúa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs síðan árið 1997 en eðlilegt þykir að ráðuneytið hafi fulltrúa með Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem vinnuveitandi á opinberum vinnumarkaði. Áfram er gert ráð fyrir að þóknanir til stjórnarmanna greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra.
    Fækkun stjórnarmanna hefur þau áhrif að ekki er gert ráð fyrir að stjórnin kjósi úr sínum hópi sérstakt framkvæmdaráð á sama hátt og gert er samkvæmt gildandi fyrirkomulagi. Sú skipan byggist á því hversu fjölmenn stjórnin er með níu fulltrúa. Þykir eðlilegra að stjórnin sjálf sé fámennari og geti þá sjálf annast allar þær ákvarðanir sem hún þarf að taka til að gegna starfi sínu. Getur hún að sjálfsögðu falið einstökum stjórnarmönnum að undirbúa ákvarðanir sínar eftir því sem hún telur eðlilegt en ákvæði VIII. kafla stjórnsýslulaga um stjórnsýslunefndir gilda almennt um störf stjórnarinnar.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. fjalla um hlutverk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs en gert er ráð fyrir að stjórnin annist eftirlit með framkvæmd laganna í umboði félagsmálaráðherra. Í því felst meðal annars að stjórninni er ætlað að bera ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins og gæta þess að sjóðurinn hafi nægilegt fé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögunum. Lagt er til að hún geri áætlanir um rekstur og greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs að fengnum tillögum stjórnar Vinnumálastofnunar um fjármagn til greiðslu atvinnuleysisbóta og til greiðslu fyrir umsýslu stofnunarinnar fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi. Enn fremur er gert ráð fyrir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs leggi fram tillögur um fjárþörf sjóðsins til félagsmálaráðherra í janúar ár hvert þar sem fram komi áætlanir um fjárþörf sjóðsins á því rekstrarári sem er nýhafið sem og rekstrarárið sem á eftir kemur vegna undirbúnings fjárlagafrumvarps. Skýrsla um reikningshald sjóðsins skal jafnframt fylgja með. Félagsmálaráðherra tekur síðan afstöðu til þeirra gagna sem honum berast og kynnir þau fjármálaráðherra við gerð fjárlagafrumvarps. Eðlilegt þykir að kveðið verði á um þagnarskyldu stjórnarmanna vegna persónuupplýsinga sem þeir kunna að komast að í starfi sínu og eiga að fara leynt. Er um að ræða sömu reglu og lagt er til að eigi við um nefndarmenn í úthlutunarnefnd og úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
    Þá er stjórn sjóðsins ætlað að gera þjónustusamning við Vinnumálastofnun um umsýslu sjóðsins og er miðað við að félagsmálaráðherra staðfesti samninginn. Þjónustusamningurinn skal meðal annars kveða á um fjárþörf Vinnumálastofnunar vegna daglegs reksturs sjóðsins. Stjórnin hefur síðan reglubundið eftirlit með framkvæmd samningsins í samráði við félagsmálaráðherra enda ber hann ábyrgð á stjórnarframkvæmdum á þessu sviði.

Um 7. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur til bænda, smábátaeigenda og vörubifreiðastjóra verði greiddar úr sérstökum sjóði, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í gildi eru sérlög um sjóðinn, sbr. lög um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, en eðlilegra þykir að sömu lögin fjalli um réttindi fólks innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda þótt reknir séu tveir sjóðir. Sjóðurinn er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi framangreindra starfsstétta. Útgjaldaheimildir sjóðsins ákvarðast á fjárlögum, sbr. lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.
    Enn fremur er lagt til að Vinnumálastofnun annist áfram fjárvörslu sjóðsins en stofnuninni er jafnframt ætlað að annast framkvæmd atvinnuleysistrygginga og reikningshald sjóðsins. Eru lagðar til sömu breytingar á skipulagi innan stjórnsýslunnar og gert er að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð. Er því vísað til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Gert er ráð fyrir að Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga verði áfram skipuð stjórn sem starfar í umboði félagsmálaráðherra. Stjórninni er ætlað sambærilegt hlutverk og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að því er varðar Tryggingasjóðinn. Er því vísað til athugasemda við 6. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Ákvæðið fjallar um umsókn launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að sérstök eyðublöð verði fyrir hendi til að greiða fyrir framkvæmd laganna. Mikilvægt er að nauðsynleg gögn fylgi umsókn. Aðstæður fólks eru misjafnar og því er ekki unnt að hafa tæmandi talningu á þeim gögnum í frumvarpi þessu. Meðal þeirra gagna sem koma til greina auk vottorðs vinnuveitanda eru til dæmis vottorð um skerta vinnufærni þegar það á við en áhersla er lögð á að í umsókn séu tilgreindar allar þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um vinnufærni umsækjanda. Enn fremur getur verið ástæða til að staðfesting á að umsækjandi hafi heimild til að starfa hér á landi án takmarkana fylgi umsókn sem og staðfesting um stöðvun rekstrar. Einnig geta komið til önnur gögn sem Vinnumálastofnun telur nauðsynleg til að ákvarða um rétt umsækjanda samkvæmt frumvarpi þessu. Á það sérstaklega við þegar umsækjandi óskar eftir að nýttar verði undanþáguheimildir frumvarpsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að leita umsagnar annarra aðila, svo sem trúnaðarlæknis stofnunarinnar, þegar ástæða þykir til að mati stofnunarinnar. Í sumum tilvikum getur verið mikilvægt að leita álits annarra sérfræðinga en þeirra sem þegar hefur verið leitað til. Slíkt getur til dæmis átt við þegar um skerta vinnufærni umsækjanda er að ræða. Þá þykir ástæða til að gera umsækjanda það ljóst þegar í upphafi að umsókn hans um atvinnuleysisbætur feli jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda þótt það hafi ekki komið skýrt fram í lögum hvað umsókn um atvinnuleysisbætur hefur í raun þótt fela í sér.
    Auk þessa er lagt til það nýmæli að umsóknir umsækjenda sem eru yngri en 18 ára að aldri hljóti samþykki foreldra eða forráðamanna. Slíkt samþykki leiðir af inntaki lögræðislaga, nr. 71/1997, og barnalaga, nr. 76/2003, en börn verða ekki lögráða fyrr en við 18 ára aldur. Þykir eðlilegt að kveða á um það skilyrði að samþykki foreldris eða forráðamanns um að umsækjanda sé heimilt að ráða sig til allra almennra starfa sem lög heimila að hann sinni liggi fyrir enda er það skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum að umsækjandi sé í virkri atvinnuleit. Er jafnframt vísað til athugasemda við 13. gr. frumvarps þessa.
    Áfram er gert ráð fyrir að skattyfirvöld, Tryggingastofnun ríkisins, Innheimtustofnun sveitarfélaga og hlutaðeigandi lífeyrissjóðir láti Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd frumvarpsins en ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 26. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Þykir það ekki síður mikilvægt að unnt sé að byggja á upplýsingum frá skattyfirvöldum við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. frumvarpsins. Í 2. mgr. 26. gr. gildandi laga um atvinnuleysistrygginga er kveðið sérstaklega á um þagnarskyldu starfsmanna Vinnumálastofnunar. Þykir ekki þörf á sérstöku ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar um þetta efni þar sem slíka þagnarskyldu er að finna í 18. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 10. gr.

    Einstaklingi sem hefur skráð sig atvinnulausan í gildandi kerfi hefur verið skylt að skrá sig reglulega einu sinni í viku eða á tveggja vikna fresti hjá svæðisvinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Að öðrum kosti hefur hlutaðeigandi fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að regluleg skráning verði lögð niður en í stað hennar komi til regluleg samskipti við ráðgjafa innan vinnumarkaðskerfisins. Tíðni slíkrar ráðgjafar, þar á meðal þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum, miðast við þarfir hlutaðeigandi. Ástæðan fyrir þessari breytingu er einkum sú að regluleg skráning hefur ekki þótt reynast það eftirlit með því að fólk sé í virkri atvinnuleit sem gengið var út frá í upphafi enda þótt það sé að sjálfsögðu misjafnt eftir einstökum svæðum. Reglubundin skráning er tímafrek og þegar atvinnuleysi hefur verið mikið eða á fjölmennari stöðum hafa jafnvel myndast biðraðir sem mörgum hefur þótt niðurlægjandi að standa í. Engu síður þykir ástæða til að gera þá kröfu að hinn tryggði tilkynni það til Vinnumálastofnunar þegar hann hefur hætt atvinnuleit en þá á viðkomandi ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum. Um er að ræða eina tilkynningu í lokin þegar hinn tryggði hefur fengið vinnu eða hætt atvinnuleit af öðrum ástæðum, svo sem vegna náms.

Um 11. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að úrskurðarvald í kærumálum vegna ágreinings um túlkun laga um atvinnuleysistryggingar verði í höndum sérstakrar úrskurðarnefndar. Með þessu skipulagi er rofin kæruheimild stjórnsýslulaga til ráðherra. Þrátt fyrir slíkt fyrirkomulag er gert ráð fyrir að ráðherra fari eftir sem áður með aðrar stjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart þeim er fara með framkvæmd laganna.
    Félagsmálaráðherra hefur skipað í nefndina án tilnefningar og eru ekki lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi. Engin sérstök hæfisskilyrði eru sett fyrir setu nefndarmanna í nefndinni önnur en þau að formaður og varamaður hans skulu uppfylla skilyrði til þess að vera skipaðir héraðsdómarar. Skipunartími nefndarinnar verður fjögur ár eins og verið hefur og er heimilt að endurskipa nefndarmenn að þeim tíma liðnum.
    Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða um ágreiningsmál sem upp kunna að rísa á grundvelli frumvarps þessa. Úrskurðir hennar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og eru því ekki kæranlegir til félagsmálaráðherra. Þetta fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að aðilar geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti sætti þeir sig ekki við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Enn fremur er það ekki skilyrði að einstaklingur leiti fyrst til úrskurðarnefndarinnar áður en hann leggur mál sitt fyrir dómstóla.
    Þá þykir eðlilegt að kveða á um þagnarskyldu nefndarmanna þegar um er að ræða persónuupplýsingar sem leynt eiga að fara. Mikilvægt er að taka fram að þagnarskylda haldist eftir að nefndarmenn láta af nefndarsetu.

Um 12. gr.

    Ákvæðið fjallar um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða en áður hefur ekki verið kveðið sérstaklega á um málsmeðferð í lögum um atvinnuleysistryggingar að undanskildum þriggja mánaða kærufresti. Áfram er gert ráð fyrir sama kærufresti enda er sá frestur í samræmi við þann kærufrest sem veittur er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Jafnframt er lagt til að skýrt verði tekið fram að málsmeðferð fyrir nefndinni verði almennt skrifleg en nefndin geti þegar ástæða þykir kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund.
    Ákvæði þessu er jafnframt ætlað að tryggja enn frekar andmælarétt aðila máls og að mál verði nægjanlega upplýst áður en úrskurðarnefndin kveður upp úrskurð. Tilgreindur er viðmiðunartími um afgreiðslu mála hjá nefndinni sem verður að teljast eðlilegur málshraði þegar litið er til þess að veita skal aðilum kost á tjá sig um málið áður en það er tekið til úrskurðar. Séu mál sérstaklega umfangsmikil og tímafrekt reynist að undirbúa þau og rannsaka með viðunandi hætti er hugsanlegt að afgreiðslutíminn lengist að sama skapi. Gert er ráð fyrir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar eins og verið hefur en það er í samræmi við 29. gr. stjórnsýslulaga. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að ákvæði stjórnsýslulaga gildi um málsmeðferð nefndarinnar.

Um 13. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þau skilyrði sem launamenn skulu uppfylla til að teljast tryggðir samkvæmt frumvarpinu. Þó geta komið til atvik sem leiða til þess að umsækjandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt einstökum ákvæðum frumvarpsins enda þótt hlutaðeigandi uppfylli þau skilyrði sem talin eru upp í ákvæðinu. Sem dæmi má nefna þann sem nýtur greiðslna samkvæmt starfslokasamningi. Enn fremur geta komið til viðurlagaákvarðanir sem leiða til þess að þeir sem teljast tryggðir samkvæmt frumvarpinu þurfi að sæta biðtíma eftir að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.
    Ástæða þykir til að fjalla skýrar um þau skilyrði sem launamenn þurfa að uppfylla til að teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins en gert hefur verið í lögum um atvinnuleysistryggingar. Verður að teljast mikilvægt að umsækjendur um atvinnuleysisbætur geti auðveldlega áttað sig á til hvers ætlast er af þeim svo að þeir eigi rétt á atvinnuleysisbótum. Er því lagt til að tekið sé fram í ákvæðinu að ætlast er til að umsækjandi sé í virkri atvinnuleit og það nánar skýrt hvað sé átt við með hugtakinu „virk atvinnuleit“. Verður nánar fjallað um það hugtak í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins. Ekki er um að ræða efnisbreytingu á skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum en skv. 1. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar er eitt af skilyrðum fyrir bótarétti úr Atvinnuleysistryggingasjóði að launamaður sé í atvinnuleit. Ekki er fjallað nánar um þetta skilyrði í lögunum en leiða má af öðrum ákvæðum laganna að áhersla sé lögð á það skilyrði að umsækjandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. til dæmis 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 12. gr. laganna.
    Lagt er til að aldursskilyrði laganna verði óbreytt frá gildandi lögum þannig að fólk á aldrinum 16–70 ára geti talist tryggt innan kerfisins. Nokkur umræða varð um neðri aldursmörkin í nefndinni er fjallaði um efni löggjafar um atvinnuleysistryggingar í ljósi ákvæða lögræðislaga og barnalaga. Samkvæmt lögræðislögum verða menn lögráða 18 ára en fram að þeim tíma eru börn á framfæri foreldra sinna eða forráðamanna, sbr. IX. kafla barnalaga. Nefndin varð þó sammála um að halda aldursskilyrðum óbreyttum en þó þannig að ávinnsla réttinda samkvæmt frumvarpinu hefjist ekki fyrr en á 16. aldursári, sbr. 8. mgr. 15. gr. frumvarpsins. Enn fremur er lagt til að umsókn ólögráða umsækjanda skuli vera samþykkt af foreldri eða forráðamanni, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að sett verði sömu búsetuskilyrði og verið hafa en fjallað er sérstaklega í VIII. kafla frumvarpsins um atvinnuleysistryggingar fólks meðan það er í atvinnuleit á sameiginlegum vinnumarkaði Evrópska efnahagssvæðisins. Áfram verður gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Þar er um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafa leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafa verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum. Enn fremur er gert ráð fyrir að umsækjandi hafi verið í atvinnuleit samfellt í þrjá daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.
    Samkvæmt e-lið ákvæðisins er lagt til að skilyrði sé að umsækjandi hafi verið launamaður á ávinnslutímabili samkvæmt frumvarpinu í starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum. Ákvæði 15. gr. frumvarpsins sem vísað er til felur í sér nánari skýringar á hvernig launamenn ávinna sér rétt samkvæmt frumvarpinu með starfsframlagi sínu á ávinnslutímabilinu. Þar er lagt til ákveðið fyrirkomulag við ákvörðun um atvinnuleysistryggingar launamanna sem að hluta til er nýmæli og verður nánar fjallað um í athugasemdum við ákvæðið. Enn fremur er gert ráð fyrir að umsækjandi leggi fram vottorð vinnuveitanda eins og verið hefur en ástæða þykir að taka skýrt fram að slík vottorð eru skilyrði fyrir því að launafólk geti talist tryggt innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Nánar er fjallað um slík vottorð í 16. gr. frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir að umsækjandi skili vottorði frá skóla í þeim tilvikum þegar skólaganga getur haft áhrif á mat á tryggingarhlutfalli hans.

Um 14. gr.

    Mikilvægt er að sá sem hefur hug á að sækja um atvinnuleysisbætur geti auðveldlega áttað sig á til hvers sé ætlast af honum svo að hann teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Lengi hefur verið gerð sú krafa til þeirra sem hafa fengið atvinnuleysisbætur að þeir séu í virkri atvinnuleit án þess að það hafi verið sagt berum orðum í lögum um atvinnuleysistryggingar. Krafa hefur verið gerð um að umsækjendur séu í atvinnuleit og reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa en að öðrum kosti hafa þeir átt á hættu að sæta viðurlögum um tímabundinn missi atvinnuleysisbóta. Lagt er til að kveðið verði á um þetta skilyrði með skýrari hætti í lögum þar sem tilgreint er hvað átt sé við þegar gerð er sú krafa að hinn tryggði sé í virkri atvinnuleit. Við könnun á hugtakinu var meðal annars leitað fyrirmynda í norskum og dönskum rétti. Forsenda þess að hinn tryggði teljist vera í virkri atvinnuleit er að hann sé fær til flestra almennra starfa og reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga er gilda um störf á innlendum vinnumarkaði. Sá sem leitar sér sjálfur að starfi með því að sækja um auglýst störf telst vera í virkri atvinnuleit í skilningi ákvæðis þessa enda skilyrði að hlutaðeigandi hafi frumkvæði að starfsleit. Gera verður þó þá kröfu að umsækjandi geti sýnt fram á að hann sé að sækja um störf eða hann leggi fram starfsleitaráætlun máli sínu til stuðnings. Beri það ekki árangur þykir eðlilegt að ráðgjafar Vinnumálastofnunar komi honum til aðstoðar þegar ástæða þykir til að mati þeirra.
    Enn fremur þykir ástæða til að taka fram að umsækjandi teljist vera í virkri atvinnuleit þegar hann, frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst, hefur bæði vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Að öðrum kosti verður ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Felur þetta til dæmis í sér að gert er ráð fyrir að foreldrar í virkri atvinnuleit með ung börn hafi barnapössun en reynslan í núverandi kerfi er að ungt fólk ber oft fyrir sig að það geti hvorki mætt í atvinnuviðtöl né tekið þátt í vinnumarkaðsúrræðum þar sem það hefur ekki gæslu fyrir börn sín. Er þetta meðal þeirra upplýsinga sem þurfa að koma fram í umsókn um atvinnuleysisbætur og því eðlilegt að sérstaklega verði spurt um þetta atriði á þar til gerðu eyðublaði.
    Jafnframt er mikilvægt að einstaklingurinn sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á landinu eins og verið hefur enda er landið allt eitt atvinnusvæði. Sá hinn sami skal einnig vera tilbúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu. Er því ekki gert ráð fyrir að hinn tryggði geti takmarkað atvinnuleit sína við það tryggingarhlutfall sem hann hefur áunnið sér innan kerfisins nema undanþágur 4. mgr. kunni að eiga við. Auk þessa er gert ráð fyrir að umsækjandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarpsins nema reglur um minnkað starfshlutfall geti átt þar við. Hér er átt við laun fyrir hvers konar störf, þar á meðal fyrir nefndarstörf eða stjórnarsetu, enda eigi reglur um minnkað starfshlutfall ekki við. Einnig getur þetta átt við greiðslur vegna starfsloka en ekki er átt við fjármagnstekjur af hlutafé sem koma þó til frádráttar atvinnuleysisbótum.
    Umsækjandi þarf einnig að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða en slíkt getur oft verið stór þáttur í því að hinn tryggði geti orðið aftur virkur á vinnumarkaði. Felur þetta meðal annars í sér að atvinnuleitandi fari eftir þeirri ráðgjöf sem ráðgjafar Vinnumálastofnunar veita honum og sæki markvisst um þau störf sem í boði eru. Þátttaka í einstökum vinnumarkaðsaðgerðum kemur þó ekki í veg fyrir að hlutaðeigandi taki þau störf sem bjóðast á þeim tíma.
    Þá er lagt til það nýmæli að skýrt sé kveðið á um skyldu hins tryggða til að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar með umsókn um atvinnuleysisbætur, svo sem hvort hann geti ekki unnið tiltekin störf vegna heilsu sinnar ásamt vottorði sérfræðilæknis því til stuðnings, sbr. 4. mgr., til að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa viðkomandi kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þegar í upphafi. Felur þetta jafnframt í sér þá skyldu að hinn tryggði upplýsi stofnunina um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans á tímabilinu sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án ástæðulausrar tafar. Láti hinn tryggði hjá líða að upplýsa stofnunina um atriði er skipt geta máli um tækifæri hans til að verða aftur virkur á vinnumarkaði getur það varðað tímabundnum missi atvinnuleysisbóta, sbr. 59. gr. frumvarpsins. Það að réttar upplýsingar liggi fyrir getur verið mjög þýðingarmikið fyrir þann tryggða í því skyni að stuðla að því að honum sé boðin viðeigandi þjónusta til að auka vinnufærni hans, svo sem atvinnutengd endurhæfing, einstök námskeið og ráðgjöf.
    Þrátt fyrir meginreglu 1. mgr. er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum um að hinn tryggði hafi frumkvæði að starfsleit og sé reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á landinu eða reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu. Einungis er um að ræða tilvik þegar umsækjandi sækir um hlutastarf eða starf á tilteknu svæði og ástæður þess má rekja til aldurs hans, félagslegra aðstæðna hans vegna skertrar vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Ástæðu þessarar undanþágu má einkum rekja til þess að mikilvægt er talið að sem flestir líti á sig sem virka þátttakendur á vinnumarkaði þrátt fyrir skerta vinnufærni eða tímabundna umönnunarskyldu gagnvart nánum skyldmennum. Taka ber fram að með umönnunarskyldu vegna ungra barna er ekki átt við þau tilvik er hinir tryggðu bera fyrir sig að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Talið er mikilvægt að þeir sem hafa skerta vinnufærni geti einnig átt rétt til atvinnuleysistrygginga enda geti þeir talist færir til flestra almennra starfa en þó ekki allra. Sem dæmi má nefna einstakling sem hefur þurft að hætta fyrri störfum vegna veikinda, svo sem vegna ofnæmis fyrir tilteknum efnum, án þess að teljast óvinnufær til annarra starfa. Getur verið mikilvægt að þessum einstaklingi sé veitt viðeigandi þjónusta innan vinnumarkaðskerfisins og að hann teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma sem hann er að leita sér að starfi í annarri starfsgrein. Þykir því ekki rétt að einstaklingar geti ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga í tilvikum er þeir missa störf sín vegna eigin veikinda eins og miðað er við í 2. mgr. 4. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Gert er ráð fyrir að umsækjandi sem ber fyrir sig skerta vinnufærni leggi fram vottorð sérfræðilæknis. Miðað er við að aðstæður hans séu þá með þeim hætti að hann þurfi þjónustu sérfræðilæknis enda gengið út frá því að um alvarleg tilvik sé að ræða. Lögð er áhersla á að skýra ber umræddar heimildir til að veita undanþágur frá skilyrðum b-, d- og e-liða 1. mgr. þröngri lögskýringu.
    Þá er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði heimilt að kveða nánar á um virka atvinnuleit í reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sem dæmi má nefna að ástæða kann að vera til þess að kveða skýrar á um þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun telur nauðsynlegar svo að unnt sé að meta vinnufærni umsækjanda í því skyni að bjóða honum vinnumarkaðaðgerðir við hæfi.

Um 15. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þann tíma sem launamaður þarf að vera virkur á vinnumarkaði til að teljast vera að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt frumvarpinu. Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar öðlast launamaður rétt til hámarksbóta eftir að hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði áður en hann verður atvinnulaus, sbr. 8. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að ávinnslutímabilið sé það sama og áður þannig að það miðist við síðustu tólf mánuðina áður en umsækjandi sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Það liggur fyrir að margir sækja ekki um atvinnuleysisbætur um leið og þeir missa vinnu sína. Getur þá liðið einhver tími frá því að þeir misstu vinnu sína þar til þeir sækja um atvinnuleysisbætur. Má því gera ráð fyrir að reglur um geymdan bótarétt skv. V. kafla frumvarpsins komi til álita þegar nokkur tími líður milli þess að sótt er um atvinnuleysisbætur og umsækjandi missti vinnu sína. Sú breyting er lögð til að starfshlutfall launamanns hefur ekki áhrif á lengd þess tíma sem tekur hann að ávinna sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins eins og verið hefur. Síðan er gert ráð fyrir í 4. mgr. að starfshlutfall launamannsins komi til með að hafa áhrif á það tryggingarhlutfall sem hann getur átt rétt á.
    Má því segja að um tvær reglur sé að ræða sem spila saman. Annars vegar er litið til starfstíma og hins vegar til starfshlutfalls. Þessi breyting hefur þau áhrif að það tekur launamenn jafnlangan tíma að ávinna sér rétt til lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins óháð starfshlutfalli eða samtals þrjá mánuði á ávinnslutímabilinu. Sem dæmi má nefna launamann í 50% starfshlutfalli. Samkvæmt gildandi kerfi þarf hann að starfa í samtals 20 vikur á síðustu tólf mánuðum til að öðlast lágmarksatvinnuleysisbætur og allt tímabilið eða tólf mánuði til að öðlast rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Það fyrirkomulag sem lagt er til með ákvæði þessu gerir hins vegar ráð fyrir að launamaður í 50% starfshlutfalli sem starfar samtals í þrjá mánuði öðlist rétt til lágmarks grunnatvinnuleysisbóta á sama hátt og sá sem er í 25% eða 100% starfshlutfalli. Enn fremur öðlast þessi launamaður rétt til helmings réttar til atvinnuleysistrygginga eftir starf í 50% starfshlutfalli í sex mánuði á sama hátt og sá sem er í 100% starfi. Hafi sá hinn sami starfað í níu mánuði á ávinnslutímabilinu á hann rétt á 75% tryggingarhlutfalli samkvæmt fyrri reglunni. Þá kemur síðari reglan til með að hafa áhrif þannig að sá hinn sami kemur ekki til með að eiga meiri rétt en sem nemur 50% tryggingarhlutfalli í samræmi við starfshlutfallið á ávinnslutímabilinu. Þannig getur hann ekki öðlast betri rétt innan kerfisins enda þótt hann hafi starfað í lengri tíma en sex mánuði á ávinnslutímabilinu þar sem starfshlutfallið hefur áhrif á tryggingarhlutfallið sem slíkt. Hafi umsækjandi ekki verið í sama starfshlutfalli á ávinnslutímabilinu skal taka mið af meðalstarfshlutfalli hans á tímabilinu. Með þessu nýja fyrirkomulagi er leitast við að draga úr áhrifum starfshlutfalls á atvinnuleysistryggingar launamanna. Síðan er gert ráð fyrir að eigi undanþága 4. mgr. 14. gr. frumvarpsins við um launamanninn þannig að hann getur talist í virkri atvinnuleit enda þótt hann óski eftir hlutastarfi getur hann ekki fengið hærra tryggingarhlutfall en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig í. Hlutfallslegur réttur innan kerfisins hefur síðan áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 32. og 33. gr. frumvarpsins.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að hafi umsækjandi verið starfandi í þrjá mánuði á ávinnslutímabilinu en jafnframt stundað nám á þeim tíma í a.m.k. sex mánuði og lokið námi svari námið til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi. Miðað er við að launamaður hafi lokið náminu frá hlutaðeigandi skóla, til dæmis með útgáfu prófskírteinis, enda þótt eðlilegt sé að meta einstök tilvik þegar eiginleg brautskráning fer fram nokkru síðar frá þeim tíma er námi var lokið. Er þá miðað við að hlutaðeigandi skóli geti staðfest að námi hafi verið lokið. Sem dæmi má nefna að iðnnemi hafi lokið sveinsprófi og nemi í grunnnámi í háskóla hafi lokið BA- eða BS-gráðu í faginu er hann lagði stund á. Vinnuframlag hans vegna þátttöku hans á vinnumarkaði og námið geta þó aldrei numið hærra en 100% starfshlutfalli. Ekki er gert ráð fyrir að heimilt sé að meta nám til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns nema einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. frumvarpsins enda þótt launamaður hafi lokið fleiri prófgráðum á tímabilinu. Hafi námsmaður unnið með námi er honum heimilt að fá það starf metið og kemur sú ávinnsla þá í stað réttindaávinnslu vegna náms skv. 3. mgr.
    Ástæða þykir að taka sérstaklega fram hvernig meta skuli starfshlutfall þegar launamaður er í fæðingarorlofi samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, hluta ávinnslutímans en fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á atvinnuleysistryggingum, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Lagt er til að litið verði til þess starfshlutfalls sem launamaður var í á fjögurra mánaða tímabili er hefst tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Þá er lögð til sú breyting að verkfall og verkbann telst til starfstíma launamanns þegar verkfall eða verkbann stendur yfir á ávinnslutímabili. Á sama hátt telst sá tími með við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, sbr. 32. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að ávinnslutímabilið samkvæmt ákvæði þessu geti ekki hafist fyrr en við 16 ára afmælisdag umsækjanda enda eru börn að þeim aldri enn á skólaskyldualdri. Jafnframt er gert ráð fyrir að tekið verði mið af vinnuframlagi umsækjanda sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings á tímabilinu. Í slíkum tilvikum skal meta vinnuframlag umsækjanda í hverjum mánuði en litið er þá til þess að þá mánuði sem einstaklingurinn er sjálfstætt starfandi hafi hann verið í fullu starfi enda hafi honum borið að skila inn staðgreiðsluskatti af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi með reglulegum hætti yfir árið. Þegar umsækjandi hefur verið svonefndur ársmaður í skilningi skattalaga samhliða launuðu starfi skal eingöngu litið til þess að hann hafi verið launamaður.
    Þá þykir ástæða til að veita félagsmálaráðherra heimild til að kveða nánar á um ávinnslutímabilið í reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þar á meðal má nefna gerð svokallaðrar hlutfallsskrár en skv. 5. mgr. 8. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar er gert ráð fyrir að samin sé sérstök skrá um ákvörðun dagpeninga. Skráin skal tilgreina 76 þrep, frá 25–100% atvinnuleysisbóta, þannig að bætur hækki um 1% hámarksbóta við hvert þrep eftir starfshlutfalli og starfstíma.

Um 16. gr.

    Lengi hefur tíðkast innan atvinnuleysistryggingakerfisins að umsækjendur hafi lagt inn svokölluð vinnuveitendavottorð til að sýna fram á vinnuframlag sitt á ávinnslutímabilinu og þar með rétt þeirra til atvinnuleysistrygginga. Litið hefur verið á vottorð vinnuveitenda sem eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið er til við ákvörðun á rétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2003 þar sem kannað var innra eftirlit við greiðslu atvinnuleysisbóta kemur meðal annars fram að það sé mat starfsfólks svæðisvinnumiðlana að vinnuveitendavottorðin séu einn helsti áhættuþátturinn í atvinnuleysistryggingakerfinu. Þykir því mikilvægt að kveðið sé á um skyldu launafólks til að skila inn slíkum vottorðum enda erfiðleikum bundið að ákvarða rétt fólks innan kerfisins án þeirra upplýsinga er þar koma fram. Sem dæmi þykir ástæða til að gera ráð fyrir að á vinnuveitendavottorði komi fram hvernig greiðslum vegna starfsloka er háttað, til dæmis hvort umsækjandi hafi fengið greiðslur er svara til launa á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti án þess að gerð hafi verið krafa um vinnuframlag hans þann tíma og sá tími sé enn að líða þegar sótt er um atvinnuleysisbætur. Þá þykir ástæða til að veita Vinnumálastofnun heimildir til að staðreyna þær upplýsingar sem fram koma á vottorði vinnuveitanda með því að óska frekari upplýsinga frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum. Í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að einkum þurfi að athuga hvort umsækjandi hafi í raun unnið uppgefinn tíma, hvert starfshlutfallið hafi verið hjá vinnuveitanda og hvort tilgreindar ástæður þess að viðkomandi hætti störfum séu réttar. Þá þykir eðlilegt að veita undanþágu frá skilyrði um framlagningu vinnuveitandavottorðs þegar launamaður á þess ekki kost að leggja fram slíkt vottorð af ástæðum sem honum verður ekki sjálfum um kennt. Kann að vera að fyrrverandi vinnuveitandi synji honum um slíkt vottorð eða ekki náist í fyrrverandi vinnuveitanda. Skal þá líta til annarra gagna sem þykja færa sönnur á störf launamanns hjá vinnuveitanda, svo sem launaseðla.

Um 17. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 6. gr. a gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er þó til að skýrt verði tekið fram að ákvæðið eigi ekki við þegar launamaður ákveður sjálfur að draga úr starfshlutfalli sínu. Í ljósi mikilvægi þess að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði er fallið frá 24 mánaða tímamarki gildandi laga en þess í stað lögð áhersla á að miðað verði við að hinn tryggði uppfylli skilyrði frumvarpsins. Þar á meðal þarf hinn tryggði að uppfylla það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit en í því felst meðal annars að hann sé reiðubúinn að taka störfum sem bjóðast og fela í sér hærra starfshlutfall en starf það sem hann gegnir eða hlutastörf á móti starfi hans. Sá tími sem hinn tryggði fær greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu telst sem hluti tímabilsins sem hann á rétt til að fá samfellt greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 29. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þau skilyrði sem sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu uppfylla til þess að teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt frumvarpinu. Sami fyrirvari er gerður um atvik er kunna að leiða til þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt einstökum ákvæðum frumvarpsins og gerður er í 13. gr. frumvarpsins er fjallar um skilyrði sem launamenn þurfa að uppfylla.
    Skilyrði a–d-liðar eru efnislega samhljóða sömu stafliðum 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins en þar er ekki um breytingu að ræða frá gildandi rétti. Er þannig miðað við að sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi að uppfylla skilyrði 14. gr. frumvarpsins til að teljast vera í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarpsins. Enn fremur er gert ráð fyrir að umsækjandi skuli uppfylla það skilyrði að hafa verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili sambærilegu því sem gildir um starfstíma launamanna. Nánar er fjallað um ávinnslutímabilið í athugasemdum við 19. gr. frumvarpsins. Auk þess er lagt til að gert verði að skilyrði að sjálfstætt starfandi einstaklingar hafi staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Samkvæmt gildandi reglugerð er miðað við mánaðarleg skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi. Eðlilegra þykir hins vegar að líta til ákvörðunar skattyfirvalda um hvort umsækjandi hafi staðið í skilum á nefndum gjöldum á settu tímamarki enda geta komið upp þær aðstæður að umsækjandi hafi fengið endurgreitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi í tilvikum þegar reksturinn hefur ekki gengið eins og ráð var fyrir gert. Ljóst er að þegar hallar undan fæti í rekstri sem oft er undanfari atvinnuleysis sjálfstætt starfandi einstaklinga þá dregur jafnframt úr greiðslum til skattyfirvalda þar sem þær miðast við gengi rekstursins. Ætla má að í flestum tilvikum nægi Vinnumálastofnun að skoða skrár skattyfirvalda en sérstaklega þarf að skoða aðstæður þeirra sem hafa fengið endurgreitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi frá skattyfirvöldum. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að víkja frá skilyrði h-liðar þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur verið í vanskilum við skattyfirvöld en greiðir síðan gjöldin aftur í tímann. Við ákvörðun um rétt umsækjanda innan kerfisins er þó einungis heimilt að miða við þrjá mánuði að hámarki af þeim tíma sem vanskilin áttu við um og greitt var fyrir eftir á.
    Á sama hátt og gildir um launamenn er gert ráð fyrir að miðað verði við að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi verið í atvinnuleit samfellt í a.m.k. þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur bárust Vinnumálastofnun. Gert er að skilyrði fyrir rétti sjálfstætt starfandi einstaklings innan kerfisins að rekstur hans hafi verið stöðvaður. Í stað vottorðs frá vinnuveitanda um starfsframlag er lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingur skili inn staðfestingu um stöðvun rekstrar. Nánar er fjallað um þessi atriði í 19. og 20. gr. frumvarpsins. Enn fremur er gert ráð fyrir að umsækjandi skili vottorði frá skóla í þeim tilvikum þegar skólaganga getur haft áhrif á útreikninga á tryggingarhlutfalli hans.

Um 19. gr.

    Gert er ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi að hafa verið virkur á vinnumarkaði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar til að öðlast óskertar atvinnuleysistryggingar. Ávinnslutímabilið er því það sama og hjá launamönnum skv. 15. gr. frumvarpsins. Á sama hátt er gert ráð fyrir að starfi sjálfstætt starfandi einstaklingur í skemmri tíma en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á ávinnslutímabilinu verði hann hlutfallslega tryggður miðað við fjölda mánaða. Þannig er áfram gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingur skuli hafa starfað að minnsta kosti þrjá mánuði til að öðlast lágmarksrétt samkvæmt frumvarpinu.
    Sú breyting er lögð til að ávallt verði litið á sjálfstætt starfandi einstaklinga í fullu starfi þar sem erfitt hefur reynst að sannreyna starfshlutfall þeirra. Miðað hefur verið við viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein til að ákvarða starfshlutfall þeirra en þær miðast í raun frekar við gengi rekstursins fremur en vinnuframlag einstaklingsins. Engu síður er miðað við að það tryggingarhlutfall, sem sjálfstætt starfandi einstaklingur getur átt rétt á, verði aldrei hærra en það starfshlutfall sem hann er reiðubúinn að ráða sig í. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabilinu, þ.e. fjölda mánaða sem unnir eru, verður miðað við skrár skattyfirvalda en eitt af skilyrðum þess að umsækjandi teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins er að hann hafi staðið í skilum með greiðslur tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts reiknaðs endurgjalds við skattyfirvöld við stöðvun reksturs, sbr. h-lið 18. gr. frumvarpsins. Þar með er ekki gert ráð fyrir að þeir geti talist hlutfallslega tryggðir samhliða minnkuðu starfshlutfalli í eigin rekstri sem rekja megi til samdráttar í rekstrinum. Engu síður getur sjálfstætt starfandi einstaklingur talist tryggður hlutfallslega í tilvikum er hann ræður sig í fast hlutastarf eftir að hafa áunnið sér hærra tryggingarhlutfall en sem nemur hlutastarfi hjá öðrum vinnuveitanda. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 15. gr. frumvarpsins eftir því sem við getur átt.

Um 20. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um hvenær sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur sinn en miðað er við að hann hafi tilkynnt um það til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Skal Vinnumálastofnun jafnframt líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá því til staðfestingar. Þá eru talin upp önnur atvik í 2. mgr. er jafnframt teljast leiða til þess að litið verði svo á að rekstur umsækjanda hafi verið stöðvaður. Ákvæðið er efnislega samhljóða 12. gr. reglugerðar nr. 316/2003, um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Um 21. gr.

    Lagt er til að sjálfstætt starfandi einstaklingur leggi fram með umsókn um atvinnuleysisbætur staðfestingu um að hann hafi stöðvað rekstur skv. 20. gr. frumvarpsins. Þar á meðal er gert ráð fyrir að umsækjandi leggi fram yfirlýsingu um að öll starfsemin sé stöðvuð og ástæður þess sem og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra eða vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá. Þá er gert ráð fyrir að önnur gögn frá opinberum aðilum kunni að staðfesta að umsækjandi hafi stöðvað reksturinn, svo sem úrskurður héraðsdóms um gjaldþrotaskipti.

Um 22. gr.

    Gert er ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi sambærilegan rétt og launamaður þegar hann stöðvar reksturinn og getur fengið hlutastarf hjá öðrum vinnuveitanda. Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst þá hlutfallslega tryggður samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 17. gr. frumvarpsins eftir því sem við getur átt.

Um 23. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um tilvik þegar launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hverfur af vinnumarkaði án þess að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingar hætta þátttöku á vinnumarkaði tímabundið en lagt er til að ekki verði litið til þess hvað þeir aðhafast á tímabilinu að undanskildum þeim tilvikum er sérreglur 24.–27. gr. frumvarpsins fjalla um. Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar en leitast er við að skýra efni hennar betur.
    Meginreglan er sú að einstaklingur sem hverfur af vinnumarkaði í allt að 24 mánuði og sækir síðan um atvinnuleysisbætur getur talist tryggður samkvæmt frumvarpi þessu enda þá kominn í virka atvinnuleit í skilningi frumvarpsins. Skiptir þá ekki máli hvort hann hafi sjálfur verið í atvinnuleit eða verið að sinna öðrum verkefnum. Þannig getur upphaf ávinnslutímabilsins verið að hámarki 36 mánuðir aftur í tímann frá þeim degi er umsókn barst enda hafi umsækjandi ekki verið virkur á vinnumarkaði á síðustu 24 mánuðum. Hafi hann ekki sótt um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim tíma er hann sannanlega hætti þátttöku á vinnumarkaði fellur réttur hans til geymdrar atvinnuleysistryggingar niður. Sú breyting er lögð til að ekki verði litið svo á að foreldrar í fæðingarorlofi samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof geymi rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda ávinna þeir sér rétt til atvinnuleysistrygginga þann tíma, sbr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Foreldri sem hverfur af vinnumarkaði til að annast barn sitt og fær greiddan fæðingarstyrk samkvæmt VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof getur hins vegar fallið undir ákvæði þetta.
    Ætla má hins vegar að algengara sé að umsækjandi hafi að einhverju leyti verið virkur á vinnumarkaði á tímabilinu þar sem gera verður ráð fyrir að viðkomandi hafi tekið tímabundin störf þegar þau hafa staðið til boða. Í því skyni að koma í veg fyrir að þessi regla um geymdar atvinnuleysistryggingar virki letjandi á fólk til að bjarga sér um störf enda þótt að þau séu tímabundin þótti ástæða til að taka tillit til þeirra. Þannig er lagt til að við umsókn um atvinnuleysisbætur sé litið til síðustu tólf mánaða sem einstaklingurinn hefur verið virkur á vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum að því gefnu að unnt sé að taka tillit til þeirra starfa. Sem dæmi má nefna atvinnuleitanda er missti starf sitt í nóvember 2005. Hann sækir ekki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar og tekur síðan vinnu í júní, júlí og ágúst 2006. Hann sækir loks um bætur í nóvember 2006 eða ári eftir að hann missti sannanlega starf sitt. Við ákvörðun um rétt hans til atvinnuleysisbóta skal þá taka starfstímabilið júní til ágúst 2006 og mars til nóvember 2005 til viðmiðunar. Hefði hann hins vegar ekki starfað á tímabilinu hefði verið litið til starfa hans á tímabilinu nóvember 2005 aftur til desember 2004 að því gefnu að hann hafi verið virkur á vinnumarkaði á því tímabili. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði þetta eigi við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða hafa farið til annarra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og fengið greiddar atvinnuleysisbætur á meðan.

Um 24. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um tilvik er launamaður dregur úr starfshlutfalli sínu á vinnumarkaði en hann getur þá geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði. Sem dæmi má nefna launamann sem er í fullu starfi en minnkar starfshlutfall sitt í 75%. Launamaðurinn missir síðan vinnuna ári síðar og telst hann þá engu síður að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Enn fremur er gert ráð fyrir að launamanni kunni að bjóðast tímabundið sama og jafnvel hærra starfshlutfall hafi hann ekki verið í fullu starfi á geymslutímanum en sá tími telst þá til ávinnslutímans. Þannig er lagt til að við umsókn um atvinnuleysisbætur sé litið til þeirra tólf mánaða sem launamaður starfaði á innlendum vinnumarkaði í hæsta starfshlutfalli á síðustu 36 mánuðum miðað við móttöku umsóknar. Þessi regla á við hvort sem launamaður minnkaði starfshlutfall sitt að eigin frumkvæði eða ekki. Gert er ráð fyrir að sérregla gildi um sjálfstætt starfandi einstaklinga að þessu leyti þegar þeir ráða sig sem launamenn í hlutastörf. Á það einkum við þar sem ávallt er litið á þá sem þeir séu í fullu starfi. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 23. gr. eftir því sem við getur átt.

Um 25. gr.

    Lagt er til að sérregla gildi um þá sem hverfa af vinnumarkaði til að stunda nám í skilningi frumvarpsins en eiga síðan erfitt með að fá vinnu aftur þegar þeir hafa lokið náminu. Er með þessu leitast við að auka öryggi þeirra er kjósa að mennta sig frekar þegar þeir snúa til baka á vinnumarkaðinn. Skilyrði er að hlutaðeigandi ljúki námi. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 23. gr. frumvarpsins eftir því sem við getur átt.

Um 26. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er til að kveðið verði skýrt á um hvernig fara skuli með ávinnslutímabilið sem og hvenær réttur til geymdra atvinnuleysistrygginga í kjölfar óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss fellur niður. Gert er ráð fyrir að sá hinn sami hafi sem svarar sex mánuðum að leita sér sjálfur að vinnu án þess að sækja um atvinnuleysisbætur. Líði lengri tími frá því að hann varð vinnufær að nýju án þess að sótt sé um atvinnuleysisbætur fellur réttur hins tryggða niður. Þó er vísað til 23. gr. frumvarpsins sem getur átt við í tilvikum er óvinnufærni vegna sjúkdóms eða slyss hefur varað skemur en þá 24 mánuði sem ákvæðið gerir ráð fyrir að fólk geti geymt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins er það hverfur af vinnumarkaði. Þá er kveðið á um að vottorð þess sérfræðilæknis er annaðist umsækjanda skuli fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun er heimilt að leita álits annarra sérfræðinga ef talin er ástæða til skv. 5. mgr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 27. gr.

    Ákvæði þetta felur ekki í sér breytingu frá gildandi lögum enda er það efnislega samhljóða lokamálslið 1. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ástæða þykir þó til að skýra betur rétt þeirra sem hafa verið sviptir frelsi sínu með dómi að þessu leyti. Ákvæðið á ekki við um þá er hafa verið sviptir frelsi sínu með úrskurði dómara enda má ætla að sá tími rúmist innan tímamarka 23. gr. frumvarpsins. Á sama hátt og gert er í 26. gr. frumvarpsins er kveðið á um útreikninga á ávinnslutímabili þegar kemur til geymdra atvinnuleysistrygginga í þessum tilvikum.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi hafi allt að sex mánuði eftir að afplánun refsingar lauk til að leita sér að starfi án þess að sækja um atvinnuleysisbætur. Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan sex mánaða frá þeim degi er afplánun refsingar hans lauk fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður enda eigi ákvæði 23. gr. um geymdan rétt til atvinnuleysistrygginga ekki við.

Um 28. gr.

    Lagt er til að fólk geti geymt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda þótt það hafi byrjað tímabilið sem það fær greiddar atvinnuleysisbætur. Miðað er við að tímabilið hafi staðið yfir skemur en 24 mánuði. Ástæður þess að hinn tryggði hverfur frá því að vera í virkri atvinnuleit geta verið margs konar, til dæmis vegna veikinda, frelsissviptingar eða náms. Áður hefur ekki verið fjallað um slík tilvik í lögum um atvinnuleysistryggingar en talið er mikilvægt að þeir sem hafa þegar fengið atvinnuleysisbætur í einhvern tíma eigi sambærilegan rétt til að geyma rétt sinn og þeir sem kjósa að hefja þegar nám við upphaf atvinnuleysis eða leita sjálfir að vinnu án atbeina atvinnuleysistryggingakerfisins. Ákvæði þessu er þó ekki ætlað að veita betri rétt til geymdra atvinnuleysistrygginga og er því lagt til að miðað sé við sömu tímatakmörk og gert er í ákvæði 23. gr. frumvarpsins. Engu síður er gert ráð fyrir að sérregla gildi um þá sem hætta virkri atvinnuleit til að stunda nám og ljúka sannanlega námi. Er lagt til að þeir geti geymt rétt sinn í allt að 36 mánuði frá því að þeir hættu virkri atvinnuleit. Ástæðan er sú að miðað er við að námi sé lokið en til þess þarf fólk að geta stundað námið á öllum námstímanum. Miðað er hér við þriggja ára nám. Gert er ráð fyrir að hinn tryggði haldi rétti sínum innan kerfisins eins og réttur hans var áður en hann hóf námið. Hafi atvinnuleitandi áunnið sér rétt að nýju samkvæmt frumvarpinu, til dæmis með samanlögðum starfstíma og námstíma, á ákvæði þetta ekki við. Enn fremur er lögð til sérregla fyrir þá sem hefja afplánun refsingar á tímabilinu skv. 29. gr. eða verða óvinnufærir vegna sjúkdóms eða slyss. Geta þeir þá geymt það sem eftir er af tímabili þeirra til þess tíma er þeir teljast aftur í virkri atvinnuleit og uppfylla að öðru leyti skilyrði hlutaðeigandi ákvæða.

Um 29. gr.

    Ákvæðið fjallar um þann tíma sem heimilt er að greiða samfellt atvinnuleysisbætur til þeirra sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Lagt er til að tímabilið verði stytt úr fimm árum í þrjú ár. Í skýrslu nefndarinnar er fjallaði um efni laganna um atvinnuleysistryggingar kemur fram að margir viðmælendur hennar töldu bótatímabil atvinnuleysistryggingakerfisins of langt þar sem töluverðar líkur væru á að fólk væri ekki í virkri atvinnuleit eftir þriggja ára atvinnuleysi í skilningi laganna. Þykir ástæða til að aðstæður einstaklinga verði þá metnar aftur heildstætt til að kanna hvort þeir þurfi á annars konar aðstoð að halda. Mikilvægt er að einstaklingurinn geti engu síður átt rétt á áframhaldandi þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum samhliða annarri þjónustu enda þótt hann teljist ekki vera í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarps þessa. Jafnframt var talið mikilvægt að skýra frekar reglur þær er gilda eiga um endurnýjun bótatímabilsins, sbr. 30. og 31. gr. frumvarpsins.
    Miðað er við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttekur umsókn um atvinnuleysisbætur. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur verði greiddar frá þeim degi en þó geta komið til tilvik er leiða til þess að umsækjandi þarf að þola biðtíma eftir að unnt verði að greiða honum atvinnuleysisbætur. Sá biðtími telst til bótatímabilsins en nánar er fjallað um þau tilvik er leitt geta til þess að umsækjandi sæti biðtíma í X. kafla frumvarpsins.
    Jafnframt þykir ástæða til að kveða skýrt á um hvernig fara skuli með þann tíma sem umsækjandi er virkur á vinnumarkaði eftir að tímabilið hefst en sá sem telst tryggður innan kerfisins á oft kost á að ráða sig til tímabundinna starfa. Lagt er til að sá tími sem hinn tryggði er virkur á vinnumarkaði teljist ekki til þess tíma sem heimilt er að greiða atvinnuleysisbætur á eins og verið hefur. Er lagt til að sama gildi um þann tíma er atvinnuleysistryggingar teljast geymdar skv. V. kafla frumvarpsins. Á sama hátt er mikilvægt að taka á því hvernig farið skuli með biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla frumvarpsins og þann tíma sem greiddar eru hlutfallsbætur skv. 17. og 22. gr. frumvarpsins. Mælt er með að sá tími teljist að fullu til tímabilsins samkvæmt ákvæði þessu.
    Þá er gert ráð fyrir að þegar einstaklingur hefur verið skemur en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði, er hann sækir að nýju um atvinnuleysisbætur, fari hann aftur inn á sama tímabil og hann var á þegar hann fékk vinnuna. Þetta er breyting frá gildandi lögum en þar eru ekki tilgreind tímamörk í þessu efni. Samhliða þessari breytingu er lagt til að þátttakendur á vinnumarkaði geti áunnið sér rétt til nýs tímabils enda þótt þeir hafi ekki áður tæmt rétt sinn á fyrra tímabili. Nánar er fjallað um þessar breytingar í athugasemdum við 31. gr. frumvarpsins.

Um 30. gr.

    Ákvæðið fjallar um endurnýjun þess tímabils sem greiddar eru atvinnuleysisbætur þegar umsækjandi hefur tæmt rétt sinn skv. 29. gr. frumvarpsins. Lagt er til að einstaklingur geti áunnið sér rétt að nýju innan atvinnuleysistryggingakerfisins að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk. Gert er ráð fyrir að sömu reglur og gilda almennt um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum samkvæmt frumvarpi þessu eigi einnig við þegar einstaklingur sækir að nýju um atvinnuleysisbætur. Þetta felur að hluta til í sér breytingu frá gildandi kerfi en nýtt bótatímabil samkvæmt því getur hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að fyrra tímabili lauk, sbr. 9. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er til að vinnuframlagið á biðtímanum sé það sama eða sem svarar til sex mánaða vinnu eftir að tímabilinu lauk. Með breytingunni er lögð áhersla á að þegar einstaklingur hefur verið án atvinnu lengur en þrjú ár verður hann ekki talinn í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarps þessa. Það er því mikilvægt að aðstæður hans verði metnar heildstætt að nýju og honum veitt viðeigandi aðstoð. Þá er miðað við að umsækjandi hafi misst starf sitt af gildum ástæðum þegar hann sækir aftur inn í kerfið. Um gildar ástæður í þessu sambandi er fjallað í athugasemdum við 54. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Lagt er til að virkur þátttakandi á vinnumarkaði geti áunnið sér rétt til nýs tímabils þar sem atvinnuleysisbætur eru greiddar án þess þó að hafa lokið að fullu við fyrra tímabil. Þannig er gert ráð fyrir að nýtt tímabil hefjist þegar einstaklingur hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði eða lengur og uppfyllir að öðru leyti skilyrði frumvarps þessa fyrir réttindum innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þetta felur í sér breytingar á gildandi kerfi. Það hefur sætt gagnrýni að einstaklingur sem áður hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur fari ávallt inn á sama bótatímabil óháð lengd þess tíma sem hann starfar á vinnumarkaði milli þess sem hann er atvinnulaus. Þannig getur einstaklingur samkvæmt gildandi kerfi til dæmis verið atvinnulaus í samtals 4½ ár þegar hann fær ótímabundna ráðningu hjá atvinnurekanda. Verði sá hinn sami atvinnulaus að nýju á hann einungis sex mánuði eftir af bótatímabilinu án tillits til þess hversu lengi hann hefur starfað á vinnumarkaði frá þeim tíma er hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Skiptir þá engu máli hvort einstaklingurinn hefur verið á vinnumarkaði í þrjá mánuði, þrjú ár eða tíu ár. Þegar hann hefur fengið atvinnuleysisbætur í þessa sex mánuði þarf hann að ávinna sér rétt til nýs tímabils með þátttöku á vinnumarkaði. Þykir hins vegar hæfilegt að einstaklingur sem er virkur á vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði eigi rétt á óskertu tímabili enda er þá nokkuð liðið frá því hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur síðast. Til viðmiðunar tekur það virkan þátttakanda á vinnumarkaði tólf mánuði að ávinna sér rétt til atvinnuleysisbóta í eitt tímabil, sbr. 15. og 19. gr. frumvarpsins. Þegar fólk fer út úr kerfinu í skemmri tíma en 24 mánuði er það hins vegar áfram á sama tímabili þegar það sækir að nýju um atvinnuleysisbætur.

Um 32. gr.

    Atvinnuleysistryggingar hafa falið í sér atvinnuleysisbætur er hafa verið ákveðin fjárhæð sem ræðst af fjölda mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabili og starfshlutfalli hans. Ákvæði þetta felur því í sér nýmæli þar sem lagt er til að atvinnuleysisbætur miðist við ákveðið hlutfall fyrri tekna umsækjanda í tiltekinn tíma. Þannig er miðað við að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem nema 70% af meðaltali heildarlauna í allt að þrjá mánuði og getur það tímabil hafist þegar grunnatvinnuleysisbætur sem hinn tryggði á rétt á skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals tíu virka daga. Þó er gert ráð fyrir að hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta miðist við tryggingarhlutfall hins tryggða þannig að slíkar atvinnuleysisbætur geti ekki numið hærri fjárhæð en 180.000 kr. miðað við óskertar atvinnuleysistryggingar. Miðað er við að hvert hlutfallsstig nemi 1.800 kr. Í þeim tilvikum er tryggingarhlutfall umsækjanda samkvæmt frumvarpinu nemur fjórðungi af óskertum atvinnuleysistryggingum á hann rétt til 70% af meðaltali heildarlauna en þó aldrei hærri fjárhæð en 45.000 kr.
    Lagt er til að viðmiðunartímabilið til að reikna út tekjur launamanns verði sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en launamaðurinn verður atvinnulaus. Gert er ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna sjálfstætt starfandi einstaklings verði tekjuárið á undan því ári er hann varð atvinnulaus. Með tekjuári er átt við almanaksár. Ástæða þessa er einkum sú að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunna að hafa meiri áhrif á tekjur sínar en launamenn og þykir því mikilvægt að miða við sama tímabil og skattyfirvöld gera með það fyrir augum að unnt sé að samkeyra kerfin þegar álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Enn fremur kann þetta viðmiðunartímabil að koma þessum hópi betur þar sem leiða má að því líkum að reksturinn gangi illa á síðustu mánuðum fyrir stöðvun rekstrar. Lagt er til að Vinnumálastofnun leiti staðfestingar hjá skattyfirvöldum á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda er álagningin liggur fyrir að því er varðar viðmiðunartímabil samkvæmt ákvæði þessu. Þannig getur komið til að atvinnuleysisbætur verði leiðréttar til hækkunar eða lækkunar eftir atvikum í samræmi við álagningu skattyfirvalda, sbr. 39. gr. frumvarpsins. Í þeim tilgangi að auðvelda Vinnumálastofnun starf sitt er skattyfirvöldum gert skylt að láta stofnuninni í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd frumvarps þessa, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að nánast einungis verði greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði og Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda. Tekjur umsækjenda eru færðar inn í staðgreiðsluskrá tveimur mánuðum eftir þann mánuð sem þær eru greiddar fyrir og ættu því að liggja fyrir þegar sótt er um atvinnuleysisbætur. Gert er ráð fyrir að undanþágu frá meginreglunni þegar vinnuveitandi hefur látið hjá líða að standa í skilum við skattyfirvöld um greiðslur vegna starfsmanna sinna. Við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skal þá líta til annarra gagna sem færa sönnur á tekjur launamanns hjá vinnuveitanda.
    Hafi umsækjandi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu er gert ráð fyrir að miðað sé við meðaltal heildarlauna hans yfir það tímabil sem hann hefur unnið á íslenskum vinnumarkaði. Skal þá alltaf miða við almanaksmánuði. Ekki er tekið mið af tekjum umsækjanda sem hann hefur unnið til utan innlends vinnumarkaðar. Þá er lagt til að miðað verði við að lágmarki fjóra almanaksmánuði við útreikninga á meðaltali heildarlauna umsækjanda. Þegar umsækjandi hefur áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga með atvinnuþátttöku á ávinnslutímabilinu skv. 15. og 19. gr. frumvarpsins en hefur ekki haft tekjur á viðmiðunartímabilinu skal hann eiga rétt á grunnatvinnuleysisbótum skv. 33. gr. frumvarpsins í samræmi við tryggingarhlutfallið. Sama á við þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu reynast vera lægri en þær grunnbætur er hlutaðeigandi á rétt á skv. 33. gr. frumvarpsins.
    Eingöngu er gert ráð fyrir að umsækjandi öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í upphafi hvers tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði sem fer aftur inn í kerfið eftir skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við hlutfallslegan rétt hans til atvinnuleysistrygginga skv. 15. eða 19. gr. frumvarpsins.
    Þegar fyrra tímabil heldur áfram þegar umsækjandi sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 29. gr. á hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu enda hafi hann fullnýtt sér rétt sinn skv. 1. mgr. Hið sama á við þurfi hinn tryggði að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum skv. X. kafla frumvarpsins.

Um 33. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um grunnatvinnuleysisbætur er svara til atvinnuleysisbóta samkvæmt gildandi atvinnuleysistryggingakerfi. Gert er ráð fyrir að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla frumvarpsins öðlist rétt til grunnatvinnuleysisbóta við upphaf tímabils skv. 29. gr. frumvarpsins. Miðast það því við móttöku umsóknar hjá Vinnumálastofnun. Þó geta komið til atvik er leiða til þess að umsækjandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt einstökum ákvæðum frumvarpsins þegar frá þeim degi er umsókn var móttekin. Sem dæmi má nefna að umsækjandi getur þurft að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum í tiltekinn tíma við nánar tilgreindar aðstæður.
    Gert er ráð fyrir að umsækjandi eigi að öllu jöfnu rétt á grunnatvinnuleysisbótum í samtals tíu daga en eigi síðan rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði skv. 32. gr. frumvarpsins. Eftir þann tíma getur hann átt rétt á grunnatvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu. Sæti umsækjandi biðtíma eftir bótum dregst sá tími frá tímabilinu sem bætur eru greiddar skv. 29. gr. frumvarpsins og á umsækjandi þá jafnframt ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst skv. 32. gr. frumvarpsins.
    Áfram er gert ráð fyrir að greitt sé fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga. Lagt er til að sá sem talin er að fullu tryggður samkvæmt frumvarpi þessu öðlist rétt til óskertra grunnatvinnuleysisbóta sem nema 4.431 kr. á dag eða um 96.000 kr. á mánuði að meðaltali. Lágmarksréttur innan atvinnuleysistryggingakerfisins veitir rétt til 1/ 4hluta grunnatvinnuleysisbóta. Þá er lagt til að breytingar á fjárhæðum grunnatvinnuleysisbóta sem og hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði ákvarðaðar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert eins og verið hefur. Enn fremur er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra verði áfram heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að breyta fjárhæðunum ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.

Um 34. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að sá sem telst tryggður samkvæmt frumvarpinu og hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára eigi rétt á 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum skv. 33. gr. með hverju barni frá upphafi tímabilsins sem greiddar eru atvinnuleysisbætur fyrir. Er þá átt við börn sem hlutaðeigandi hefur framfærsluskyldu gagnvart á grundvelli barnalaga, nr. 76/2003, án tillits til þess hvort hann hafi forsjá yfir þeim.
    Þá er gert ráð fyrir að skuldi umsækjandi meðlag samkvæmt kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði heimilt að skuldajafna þá kröfu við þessar atvinnuleysisbætur er koma til vegna framfærsluskyldu hans við börn sín eins og verið hefur, sbr. 2. mgr. 7. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar.

Um 35. gr.

    Lagt er til að atvinnuleysisbætur verði greiddar mánaðarlega í stað hálfsmánaðarlega og að allir þeir sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum fái greitt á sama tíma. Er það talið geta komið sér betur fyrir þá sem eru tryggðir samkvæmt frumvarpinu að fá mánaðargreiðslur við hver mánaðamót enda algengt að gjalddagar ýmissa útgjalda heimilanna miðist við það tímamark. Þannig er lagt til að bæturnar komi til útborgunar fyrsta virkan dag hvers mánaðar en þó þannig að miðað sé við tímabilið milli 20. dags hvers mánaðar til 19. dags næsta mánaðar. Er hér átt við almanaksmánuði. Er þannig gert ráð fyrir að þeir sem sækja um atvinnuleysisbætur eftir 19. dag mánaðarins fái fyrst greitt fyrsta virkan dag mánaðarins þar á eftir. Sem dæmi má nefna að leggi umsækjandi inn umsókn 21. júní fái hann fyrst greiddar atvinnuleysisbætur 1. ágúst sama ár. Ástæðan er einkum sú að aðstæður hins tryggða eru ekki alltaf fyrirsjáanlegar og þarf því að gefa ákveðið svigrúm við mat á rétti þeirra samkvæmt frumvarpinu. Má þá jafnframt gera ráð fyrir að hinn tryggði fái greidd laun fyrir vinnu sína hluta úr þeim mánuði er hann missti starf sitt.

Um 36. gr.

    Ákvæði þetta gerir ráð fyrir að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Þó er gert ráð fyrir ákveðnu frítekjumarki en miðað er við að hinn tryggði geti haft tekjur sem því nemur án þess að komi til skerðingar á atvinnuleysisbótum hans. Lagt er til að helmingur þeirrar fjárhæðar sem fer fram yfir samanlagðar tekjur eða aðrar greiðslur hins tryggða og þeirra atvinnuleysisbóta sem hann á rétt á komi til frádráttar atvinnuleysisbótunum. Miðað er við að frítekjumarkið nemi 52.000 kr. við gildistöku frumvarpsins. Sem dæmi má nefna atvinnuleitanda sem á rétt á óskertum grunnatvinnuleysisbótum og hefur 100.000 kr. í aðrar tekjur. Samanlagðar bætur hans og tekjur nema þá 196.000 kr. Sú reikniregla sem lögð er til leiðir til þess að helmingur þeirrar fjárhæðar sem fer umfram 148.000 kr. (96.000 kr. + 52.000 kr.) kemur til frádráttar atvinnuleysisbótum hlutaðeigandi. Mismunurinn nemur 48.000 kr. (196.000 kr. – 148.000 kr.) þannig að 24.000 kr. koma til frádráttar atvinnuleysisbótum hans. Á hann því rétt á sem nemur 72.000 kr. í stað 96.000 kr. á mánuði í grunnatvinnuleysisbætur.
    Tekið er fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta. Með því er átt við þann rétt sem hlutaðeigandi á skv. III. eða IV. kafla frumvarpsins. Er með þessu orðalagi sérstaklega vísað til 17. eða 22. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði nýtir sér ekki allan þann rétt sem hann á. Með þessu er verið að veita þeim sem eru á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum samhliða minnkuðu starfshlutfalli meira svigrúm til tekna en ef miðað væri við það tryggingarhlutfalls sem þeir nýta sér. Eingöngu er miðað við að tekið sé tillit til þeirra tekna sem hlutaðeigandi hefur á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt frumvarpi þessu. Komi til tekna sem greiddar eru út fyrir ákveðið tímabil, til dæmis greiddar út fyrir allt árið við árslok, skal eingöngu miða við þann tíma er hlutaðeigandi var á atvinnuleysisbótum. Koma þá tekjurnar til frádráttar samkvæmt reglu 1. mgr. sem nemur því hlutfalli sem sá tími er hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur var af heildartímanum sem umræddar tekjur voru ætlaðar fyrir.
    Þá er lagt til að breytingar á frítekjumarki verði ákvarðaðar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert sem og að félagsmálaráðherra verði enn fremur veitt heimild, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, til að breyta frítekjumarkinu ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.

Um 37. gr.

    Gert er ráð fyrir að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur greiði að lágmarki 4% af fjárhæð þeirra í lífeyrissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóður greiði 6% mótframlag. Ekki er gert ráð fyrir að sjóðurinn greiði mótframlag ákveði hinn tryggði að greiða í séreignarsjóð. Enn fremur er gert ráð fyrir að hinn tryggði geti óskað eftir því að Vinnumálastofnun dragi stéttarfélagsgjald af atvinnuleysisbótunum og greiði það til hlutaðeigandi stéttarfélags.

Um 38. gr.

    Ákvæðið felur í sér reglu um endurmat á atvinnuleysistryggingu hins tryggða skv. III. eða IV. kafla frumvarpsins og þar með um endurútreikning á fjárhæð atvinnuleysisbóta. Þannig er gert ráð fyrir að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur, hvort sem er tekjutengdar atvinnuleysisbætur eða grunnatvinnuleysisbætur, geti við ákveðnar aðstæður óskað eftir endurmati á rétti sínum samkvæmt frumvarpi þessu. Skilyrði er að starfstímabil hans milli þess sem hann er án atvinnu vari samfellt lengur en þrjá mánuði og tímabil skv. 29. gr. haldi áfram að líða. Óski umsækjandi ekki eftir endurútreikningi þegar hann sækir að nýju um atvinnuleysisbætur skal miða við fyrri tekjur eða rétt til atvinnuleysistrygginga. Ástæðan er einkum sú að það virki ekki letjandi fyrir hinn tryggða að taka tímabundnu starfi sem gæti hugsanlega leitt til lakari réttar hans til atvinnuleysistrygginga.

Um 39. gr.

    Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.
    Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Mikilvægt er að frumvarpið heimili skuldajöfnuð við atvinnuleysisbætur er hinn tryggði kann síðar að eiga rétt á en lagt er til að einungis verði heimilt að skuldajafna fjárhæð sem nemur 25% af þeim bótum sem hann á rétt á. Enn fremur þykir eðlilegt að frumvarpið heimili skuldajöfnuð við útgreiðslur skattkerfisins, svo sem endurgreiðslu frá skattyfirvöldum og greiðslur barnabóta og vaxtabóta. Er Vinnumálastofnun því veitt heimild til að leita aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs um skuldajöfnun við inneign hins tryggða hjá ríkissjóði. Í þeim tilvikum þegar skuldajöfnun verður ekki komið við og hinn tryggði sinnir ekki áskorun um endurgreiðslu fer um innheimtu kröfunnar skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er félagsmálaráðherra enn fremur veitt heimild til að fela sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.
    Með sama hætti er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun greiði þá fjárhæð sem vangreidd var til hins tryggða. Lagt er til að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði vexti fyrir tímabilið frá því að féð hefði átt að vera greitt úr sjóðnum til þess tíma að greiðslan var innt af hendi. Miðað er við að vextirnir verði jafnháir þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður að skuli greiða af skaðabótakröfum og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Enn fremur er gert ráð fyrir að sama gildi í tilvikum er úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta og vinnumarkaðsaðgerða kemst að þeirri niðurstöðu að hinn tryggði hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum en hafði áður verið synjað um bætur eða verið greiddar lægri bætur. Þó er lagt til að þegar atvinnuleysisbætur eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá hinum tryggða falli vextir niður.

Um 40. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 11. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Þó er tekið fram að launamaður framselji Atvinnuleysistryggingasjóði þann hluta launakröfu sinnar á hendur Ábyrgðasjóði launa er nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem hann fær greiddar á umræddum tíma. Þetta er í samræmi við framkvæmdina, sbr. 24. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

Um 41. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 25. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 42. gr.

    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, felur í sér rétt launafólks til frjálsrar farar innan svæðisins. Þar á meðal hefur Evrópudómstóllinn staðfest að ríkisborgurum aðildarríkja að samningnum sé heimilt að dvelja í öðru aðildarríki en heimaríki þeirra í þeim tilgangi að leita sér að starfi, sbr. mál nr. C-292/89 Antonissen. Teljist einstaklingur þátttakandi í atvinnuleysistryggingakerfi aðildarríkis á hann þess kost að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá því ríki þann tíma sem hann er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum, sbr. 6. kafla reglugerðar nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Íslensk stjórnvöld hafa gert sambærilega samninga að þessu leyti við aðildarríki að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyjar.
    Lagt er til með frumvarpi þessu að allir þeir sem hafa áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt frumvarpi þessu og uppfylla skilyrði ákvæðis þessa eigi þess kost að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir eru í atvinnuleit í öðru aðildarríki í allt að þrjá mánuði, sbr. 43. gr. frumvarpsins. Er þannig ekki gerður greinarmunur á hvort hinn tryggði hafi áunnið sér rétt samkvæmt frumvarpi þessu sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur. Ástæður þessa eru að aðstæður hins tryggða eru mjög sambærilegar án tillits til fyrri starfa þeirra og má ætla að flestir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu aðallega í leit að starfi sem launamenn enda þótt önnur tækifæri kunni að bjóðast í atvinnuleitinni. Þykja því ekki rök hníga til þess að gera greinarmun milli þessara hópa að þessu leyti enda leiða störf þeirra til réttar innan kerfisins hér á landi.
    Ákvæði þetta byggist í meginatriðum á efni 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Þar er gert ráð fyrir að atvinnuleitandi sem er án atvinnu og uppfyllir skilyrði hlutaðeigandi aðildarríkis fyrir atvinnuleysistryggingum haldi rétti sínum til atvinnuleysisbóta hafi hann skráð sig án atvinnu fyrir brottför hjá vinnumiðlun aðildarríkisins. Jafnframt er það skilyrði að hinn tryggði hafi verið reiðubúinn að ráða sig til vinnu í fjórar vikur hið minnsta eftir að hann varð án atvinnu. Þó er heimilt að veita undanþágu frá fjögurra vikna tímanum, sbr. a-lið 1. mgr. 69. gr. reglugerðarinnar. Þegar hinn tryggði kemur til gistiríkisins er gert ráð fyrir að hann skrái sig hjá vinnumiðlun þess ríkis innan sjö daga frá þeim degi sem hann hvarf af skrá hjá vinnumiðlun þess ríkis er hann fór frá. Þá er tekið fram að eftirlitsreglur gistiríkisins gildi meðan hinn tryggði er þar í atvinnuleit, sbr. b-lið 1. mgr. 69. gr. reglugerðarinnar. Lagt er til að þessum efnisreglum reglugerðarinnar verði fylgt eftir. Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði hafi áður sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar og að hann hafi verið í virkri atvinnuleit hér á landi í a.m.k. fjórar vikur fyrir brottfarardag. Vinnumálastofnun er þó heimilt að veita undanþágur frá því skilyrði við nánar tilgreindar aðstæður. Er þar einkum tekið tillit til fjölskylduaðstæðna hins tryggða. Mælt er með að miðað sé við að hinn tryggði hafi sjö daga til að skrá sig hjá hinni erlendu vinnumiðlun. Ástæða þykir til að veita Vinnumálastofnun heimild til að víkja frá því skilyrði en þá falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá brottfarardegi og hefjast að nýju við skráningu erlendis enda ekki litið á að hinn tryggði sé í virkri atvinnuleit þann tíma.
    Tekið skal fram að atvinnuleitanda sem hefur áunnið sér rétt samkvæmt frumvarpi þessu þarf að vera heimilt að vera í frjálsri atvinnuleit í því aðildarríki samkvæmt lögum þess ríkis til að geta fengið greiddar atvinnuleysisbætur meðan hann er þar í atvinnuleit. Samningarnir sem byggt er á miða allir við að atvinnuleitendur séu ríkisborgarar aðildarríkjanna. Þykir þó ekki ástæða til að binda þessa heimild við ríkisborgararétt heldur takmarkist sá réttur sem ákvæði þetta felur í sér við heimildir hins tryggða til frjálsrar atvinnuleitar í gistiríkinu samkvæmt lögum þess. Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun gefi síðan út viðeigandi vottorð til staðfestingar á atvinnuleysistryggingu umsækjanda samkvæmt frumvarpinu. Þá er tekið fram að lög gistiríkisins gildi að öðru leyti um eftirfylgnina með atvinnuleit viðkomandi sem og skyldum hans til þátttöku í þarlendum vinnumarkaðsaðgerðum.
    Þá þykir nauðsynlegt að félagsmálaráðherra verði veitt heimild til að kveða í reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, nánar á um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á grundvelli þeirra samninga sem VIII. kafli frumvarpsins byggir á. Er þar sérstaklega átt við innleiðingu gerða Evrópusambandsins sem sameiginlega EES-nefndin samþykkir að fella undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á þessu sviði. Venja er að efni þeirra hafi verið innleitt með reglugerð enda eigi það sér stoð í gildandi löggjöf. Er mælt með því að svo verði áfram.

Um 43. gr.

    Lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til hins tryggða sem er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi frá Íslandi. Þessi tímamörk eru í samræmi við c-lið 1. mgr. 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, þar sem tekið er fram að réttur til atvinnuleysistrygginga haldist að hámarki í þrjá mánuði frá þeim degi er hlutaðeigandi hætti að vera skráður hjá vinnumiðlun þess ríkis er hann fór frá. Jafnframt er gerður fyrirvari um að heimilt sé að greiða atvinnuleysisbætur við þessar aðstæður að því gefnu að hinn tryggði hafi ekki lokið við tímabilið sem hann á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. frumvarpsins. Þá er miðað við að hinn tryggði kunni að fá tímabundið starf í gistiríkinu eða segi upp starfi eða missi það af gildum ástæðum en þá á hann rétt á að nýta sér áfram heimildina skv. 42. gr. frumvarpsins þann tíma sem eftir lifir af þriggja mánaða tímanum. Þannig er ekki gert ráð fyrir að þriggja mánaða tímabilið frestist þegar hinn tryggði tekur starfi en sá tími sem hlutaðeigandi var að störfum telst ekki með sem hluti af tímabili skv. 29. gr. frumvarpsins. Þá fellur réttur hins tryggða til að nýta sér heimild 42. gr. niður hafi starf í gistiríkinu veitt honum rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar.

Um 44. gr.

    Gert er ráð fyrir að sex mánuðir þurfi að líða frá lokum þess tímabils sem hinn tryggði nýtti sér síðast rétt sinn skv. 42. gr. frumvarpsins og þangað til hann getur sótt aftur um að fá greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt því ákvæði. Miðað er hér við almanaksmánuði. Þá er jafnframt gert að skilyrði að atvinnuleitandinn hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. þrjá mánuði og uppfylli að öðru leyti ákvæði frumvarpsins. Þetta ákvæði er í samræmi við 3. mgr. 69. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, en þar segir að beita skuli þessari heimild einungis einu sinni milli tveggja starfstímabila.

Um 45. gr.

    Þegar hinn tryggði hefur hug á að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan hann er í atvinnuleit í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum er gert ráð fyrir að hann þurfi sérstaklega að sækja um það til Vinnumálastofnunar. Er þá gengið út frá því að hann hafi þegar sótt um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. frumvarpsins enda er það skilyrði skv. 42. gr. Í reglugerð nr. 524/1996, um greiðslu atvinnuleysisbóta, er miðað við að umsókn skuli að jafnaði vera lögð fram eigi síðar en þremur vikum fyrir brottför. Ekki er lagt til að umsóknarfrestur sé ákveðinn í frumvarpi þessu en ljóst er að Vinnumálastofnun þarf eðlilegan afgreiðslutíma við að taka ákvörðun á grundvelli ákvæða VIII. kafla frumvarpsins. Gilda því ákvæði stjórnsýslulaga um afgreiðslu stofnunarinnar að þessu leyti. Á sama hátt og gildir um umsókn skv. 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að í tilvikum er umsækjandi er yngri en 18 ára skuli foreldri eða forráðamaður hans samþykkja umsóknina með undirritun sinni.

Um 46. gr.

    Meginreglan samkvæmt ákvæði þessu er að hinn tryggði snúi aftur til landsins, hafi atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum ekki borið árangur, í því skyni að halda atvinnuleitinni áfram hér á landi. Er því gert ráð fyrir að hinn tryggði tilkynni þá fyrirætlun sína til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. frumvarpsins lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið aftur til landsins áður en tímabilinu lauk. Á hinn tryggði þá sama rétt á atvinnuleysistryggingum og hann átti áður en hann fór erlendis í atvinnuleit nema annað leiði af efni frumvarpsins, svo sem að tímabilinu sé lokið sem hann á rétt á að fá samfellt greiddar atvinnuleysisbætur á skv. 29. gr. frumvarpsins.
    Láti hinn tryggði hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan tímamarka 1. mgr. falla greiðslur atvinnuleysisbóta niður enda er ekki litið svo á að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit. Er þá miðað við þann dag er tímabili skv. 43. gr. lauk eða hinn tryggði hætti sannanlega atvinnuleit í því landi sem hann dvaldist í. Sæki sami einstaklingur síðar aftur um atvinnuleysisbætur þarf hann að skila inn nýrri umsókn og þá ræðst það af ákvæðum frumvarpsins almennt hvort hlutaðeigandi teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
    Þá þykir mikilvægt að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að óska eftir upplýsingum frá þar til bærri stofnun gistiríkisins þar sem hinn tryggði dvaldi um atriði sem geta haft áhrif á rétt hans innan kerfisins hér á landi. Þar er meðal annars átt við hvort hann hafi talist vera í atvinnuleit þar í landi og ekki hvað síst hvers konar þjónustu hann naut þar þannig að auðveldara verði að ákvarða um áframhaldandi aðstoð við hann hér á landi til að auka líkur hans á að fá vinnu.

Um 47. gr.

    Ákvæði þetta mælir fyrir um að heimilt er að taka tillit til starfstímabila umsækjanda í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum við mat á rétti viðkomandi til atvinnuleysistrygginga skv. III. eða IV. kafla frumvarpsins. Skilyrði er að umsækjandi hafi áunnið sér lágmarksrétt samkvæmt frumvarpi þessu og því starfað hér á landi í a.m.k. þrjá mánuði á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. frumvarpsins. Starfstímabil umsækjanda í öðrum aðildarríkjum að framangreindum samningum eða í Færeyjum teljast því með eins og starfað hafi verið hér á landi að því gefnu að þau hafi veitt umsækjanda rétt innan atvinnuleysistryggingakerfis hlutaðeigandi ríkis samkvæmt lögum þess. Því til staðfestingar þarf umsækjandi að láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðrum aðildarríkjum og Færeyjum fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. Ræðst því af lögum þess ríkis þar sem unnið var hvort starfstímabilin hafi áhrif á tryggingarhlutfall umsækjanda innan atvinnuleysistryggingakerfisins hér á landi. Þannig getur orðið greinarmunur á hvort hlutaðeigandi hafi starfað sem launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í gistiríkinu þar sem til dæmis sjálfstætt starfandi einstaklingar ávinna sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta í mörgum aðildarríkjum. Komi sjálfstætt starfandi einstaklingur frá ríki þar sem störf hans þar í landi hafa ekki veitt honum rétt innan atvinnuleysistryggingakerfis þess ríkis er óheimilt að meta það starfstímabil hans hér á landi. Skiptir þar ekki máli þótt sjálfstætt starfandi einstaklingar eigi almennt rétt samkvæmt frumvarpi þessu vegna starfa þeirra hér á landi sem slíkir.
    Jafnframt þykir rétt að taka fram að þrátt fyrir að starfstímabilin í öðrum aðildarríkjum eða Færeyjum hafi sem slík áhrif á tryggingarhlutfall umsækjanda samkvæmt frumvarpi þessu er ekki heimilt að taka tillit til þeirra launa er umsækjandi vann sér inn þar í landi við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. frumvarpsins. Þar er sérstaklega tekið fram að eingöngu sé heimilt að taka tillit til þeirra tekna sem aflað er hér á landi enda erfiðleikum bundið að færa sönnur á tekjur sem greiddar eru í öðrum ríkjum.
    Þá eru sérreglur er gilda um atvinnuleitendur er flytja til landsins frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð en þær byggjast á 2. og 3. mgr. 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. einnig lög nr. 46/1993, um heimild til þess að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar.

Um 48. gr.

    Lagt er til að Vinnumálastofnun hafi það hlutverk að gefa út vottorð til staðfestingar á rétti umsækjanda samkvæmt frumvarpi þessu óski umsækjandi eftir því þar sem fram koma starfstímabil hans hér á landi á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. og áunninn réttur hans samkvæmt frumvarpinu. Útgáfa slíkra vottorða á við er atvinnuleitandi hefur hug á að nýta sér starfstímabil sín hér á landi til að tryggja rétt sinn til atvinnuleysisbóta í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Hið sama á við þegar hinn tryggði óskar eftir að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan hann er í atvinnuleit í þessum ríkjum skv. 42. gr. frumvarpsins.

Um 49. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 28. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og felur í sér heimild Vinnumálastofnunar til að inna af hendi greiðslu bóta til ríkisborgara annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga sem koma hingað í atvinnuleit og hafa óskað eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá því ríki þar sem þeir eru tryggðir. Þarna er verið að greiða út atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum annars ríkis og því þurfa þær ekki að vera í samræmi við þær atvinnuleysisbætur sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu. Á þetta því eingöngu við er Vinnumálastofnun hefur fengið beiðni frá þar til bærri stofnun í hlutaðeigandi ríki um að greiða bæturnar fyrir sína hönd enda endurgreiði sú stofnun þær fjárhæðir sem þannig eru inntar af hendi. Þó er Vinnumálastofnun heimilt að greiða út slíkar bætur þrátt fyrir að ekki komi til formlegrar endurgreiðslu enda leiði slíkt af samningum er íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.

Um 50. gr.

    Gert er ráð fyrir að launamenn sem leggja sannanlega niður störf í verkfalli eða vegna verkbanns vinnuveitanda teljist ekki tryggðir samkvæmt frumvarpi þessu þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir eins og verið hefur. Álitamál hafa komið upp um hverjir teljist vera þátttakendur í verkfalli í skilningi laganna um atvinnuleysistryggingar og eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum á þeim tíma. Þykir því ástæða til að skýra nánar hvernig verkfall eða verkbann kann að takmarka rétt fólks til atvinnuleysistrygginga. Þannig er lagt til í 2. mgr. að þeir sem þegar hafa misst störf sín áður en til verkfalls eða verkbanns kom teljist ekki tryggðir á þeim tíma þegar þeir taka sérstaklega fram á umsókn að þeir séu að leita sér að starfi í þeirri starfsgrein sem verkfall eða verkbann tekur til. Leiðir það af eðli máls að þeir umsækjendur eru ekki í virki atvinnuleit meðan á verkfalli eða verkbanni stendur. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að umsækjandi geti einungis valið sér störf í tiltekinn tíma frá því að hann sótti um atvinnuleysisbætur en þegar sá tími er liðinn verður hann að vera reiðubúinn að taka hverju því starfi er býðst, sbr. 57. gr. frumvarpsins. Verður þá að líta svo á að umsækjandi sé að leita að fleiri störfum og þar með í virkri atvinnuleit enda þótt hann kjósi helst að fá starf í ákveðinni starfsgrein. Hefur verkfall eða verkbann því ekki áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta á þeim tíma. Enn fremur verður að líta svo á að hinn tryggði geti talist vera í virkri atvinnuleit þegar verkfall eða verkbann tekur eingöngu til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði enda miðað við að hinn tryggði sé reiðubúinn að ráða sig til starfa hvar sem er á landinu, sbr. d-lið 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að sú ákvörðun hins tryggða að greiða áfram til stéttarfélags síns þann tíma sem hann er án atvinnu til að halda tengslum við vinnumarkaðinn hafi áhrif á rétt hans samkvæmt frumvarpi þessu enda þótt að stéttarfélagið eigi aðild að verkfalli.

Um 51. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kann að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og eru ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Verður því að teljast eðlilegt að litið verði á þær sem ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum sem ætlað er sama hlutverk enda verður að ætla að atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrðið um virka atvinnuleit á þeim tíma sem hann á rétt á þeim greiðslum sem taldar eru upp í 1.–3. mgr. ákvæðisins. Ekki er um að ræða breytingar frá því sem gildir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
    Enn fremur þykir ástæða til að kveða skýrt á um hvernig fara skuli með orlofsgreiðslur eða greiðslur vegna starfsloka. Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.
    Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar fyrir sama tímabil og greiðslur vegna starfsloka eru ætlaðar fyrir. Á það við um starfslokasamninga sem ætlaðir eru að bæta atvinnuleitanda upp tekjutap sem nemur tilteknum tíma. Jafnframt á það við um tilvik þegar atvinnuleitandi hefur fengið greiðslur er svara til launa á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti án þess að gerð hafi verið krafa um vinnuframlag hans þann tíma og sá tími sé enn að líða þegar sótt er um atvinnuleysisbætur. Upplýsingar um slíkar greiðslur skulu koma fram í vottorði vinnuveitanda.

Um 52. gr.

    Reglugerð um greiðslu atvinnuleysisbóta kveður á um þá meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Eðlilegra þykir að kveðið verði á um slíka reglu í settum lögum og er því lagt til að ákvæði þetta fjalli um áhrif náms á rétt einstaklinga samkvæmt frumvarpi þessu. Ekki eru lagðar til breytingar á framangreindri meginreglu að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað er við að það skipti ekki máli hvort um er að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kann að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar en í slíkum tilvikum getur atvinnuleitandi talist tryggður samkvæmt frumvarpi þessu samhliða námi. Skilgreina þarf vel hvenær námsúrræði geta nýst einstaklingum í atvinnuleit en ætla má að það eigi einkum við um starfstengt nám við nánar tilgreindar aðstæður, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir.
    Enn fremur er lagt til að Vinnumálastofnun meti sérstaklega þær aðstæður sem kunna að koma upp er sá sem missir vinnu sína hefur stundað nám samhliða starfi sínu og kýs að halda því áfram. Má því ætla að atvinnuleitandi sé engu síður í virkri atvinnuleit enda mörg námsframboð miðuð við að fólk haldi áfram störfum með náminu. Þetta á þó ekki við þegar námið er lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna enda má þá ætla að atvinnuleitandi geti leitað til sjóðsins á sama hátt og aðrir námsmenn í lánshæfu námi.
    Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun meti sérstaklega hvort atvinnuleitandi sem stundar nám í skilningi frumvarpsins en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði frumvarpsins þrátt fyrir námið. Er mikilvægt að Vinnumálastofnun meti aðstæður atvinnuleitanda heildstætt og þá einkum með tilliti til þess hvort hann teljist geta verið í virkri atvinnuleit. Þarf þá meðal annars að líta til þess hvernig tímasókn í skóla er háttað í því skyni að meta líkur á því að hlutaðeigandi geti tekið almennu starfi samhliða náminu. Enn fremur ber að líta til umfangs námsins en sem dæmi má ætla að lokaverkefni í háskóla þar sem ekki er krafist viðveru í skóla sé engu síður svo viðamikið að ekki verði unnt að meta námsmanninn í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarps þessa þann tíma sem unnið er að verkefninu.

Um 53. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem tekið er fram að þeir sem sviptir hafa verið frelsi sínu með dómi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Lagt er til að kveðið verði skýrar á um að einungis sé átt við þann tíma er dómþoli tekur út refsingu sína hvort sem er í fangelsi eða samfélagsþjónustu. Einstaklingur getur talist tryggður að skilyrðum frumvarpsins uppfylltum þann tíma sem kann að líða frá uppkvaðningu dóms og þar til afplánun hefst. Enn fremur er lagt til að sama gildi um þá sem sviptir eru frelsi sínu með úrskurði dómara, til dæmis úrskurði um gæsluvarðhald meðan á rannsókn máls stendur yfir. Verður ekki talið að einstaklingar séu í virkri atvinnuleit á sama tíma.

Um 54. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt er til að umsækjandi þurfi áfram að sæta 40 virkra daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum þegar sótt er í fyrsta skipti um atvinnuleysisbætur segi hann sjálfur upp starfi án gildra ástæðna eða missi það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á. Þannig er undirstrikað það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess er ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Gert er ráð fyrir að umsækjandi sé engu síður í virkri atvinnuleit á biðtímanum. Taki umsækjandi starfi sem honum býðst meðan á biðtíma stendur er gert ráð fyrir að biðtíminn falli niður þegar umsækjandi hefur verið virkur á vinnumarkaði í a.m.k. tíu virka daga áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Er jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi hafi sagt upp starfi sínu eða misst starfið af gildum ástæðum. Að öðrum kosti heldur biðtíminn áfram að líða þegar umsækjandi kemur aftur inn í kerfið. Fjallað er um ítrekunaráhrif í 56. gr. frumvarpsins.
    Erfitt hefur reynst í framkvæmd að henda reiður á þeim tilvikum sem teljast til gildra ástæðna. Í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, er sérstaklega fjallað um tvenns konar tilvik sem talin eru heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annar vegar er um að ræða þau tilvik er maki hins tryggða hefur hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum. Hins vegar eru tilvik þegar uppsögn má rekja til þess að atvinnuleitandi hafi sagt upp störfum af heilsufarsástæðum en er að öðru leyti vinnufær. Er þá gert að skilyrði að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en launamaðurinn lét af störfum. Nefndin er fjallaði um efni laga um atvinnuleysistryggingar fjallaði um þetta atriði og komst að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem gætu talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segir störfum sínum lausum eða missir þau geta verið af margvíslegum toga. Er því lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falla að umræddri reglu. Stofnuninni ber því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í ljósi þess að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða eru gerðar ríkar kröfur um að þegar ákvarðanir um biðtíma eru teknar liggi fyrir hvaða ástæður lágu raunverulega að baki því að launamaður sagði upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi enda oft um að ræða viðkvæm mál í slíkum tilvikum. Mikilvægt er að þau meginsjónarmið er ákvörðunin byggist á séu tilgreind í rökstuðningi stofnunarinnar.

Um 55. gr.

    Samkvæmt 5. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysisbætur og 6. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, eiga þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar ekki rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem eftir stendur af námsönn. Þykir eðlilegra að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætta störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skiptir þá ekki hvenær á námsönn hlutaðeigandi hættir námi. Gert er ráð fyrir að vottorð frá hlutaðeigandi skóla um að hann hafi hætt námi fylgi umsókninni. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins.

Um 56. gr.

    Ákvæðið fjallar um ítrekunaráhrif fyrri ákvarðana um biðtíma skv. 54. eða 55. gr. þegar hinn tryggði tekur starfi, hvort sem hann var á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum eða fékk greiddar atvinnuleysisbætur, en segir því starfi einnig upp án gildra ástæðna. Skilyrði er einnig að hlutaðeigandi hafi verið í skemmri tíma en 24 mánuði á vinnumarkaði og fari þá aftur inn á sama tímabil skv. 29. gr. og hann var á þegar hann fékk starfið. Skal umsækjandi þá sæta 60 virkra daga biðtíma frá þeim tíma er seinni umsókn hans var móttekin. Hafi hlutaðeigandi ekki átt sök á því að missa starfið á hann rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta að öðrum ákvæðum frumvarpsins uppfylltum. Hafi hann hins vegar starfað skemur en tíu virka daga og verið áður á biðtíma þarf þeim tíma að ljúka áður en unnt er að hefja greiðslur atvinnuleysisbóta.
    Endurtaki leikurinn sig enn á ný á sama bótatímabili hafa fyrri ákvarðanir um biðtíma ítrekunaráhrif þannig að sæki hlutaðeigandi aftur um atvinnuleysisbætur á sá hinn sami ekki rétt á þeim. Getur hann öðlast rétt á atvinnuleysisbótum að nýju eftir að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði samfellt í átta vikur eða lengri tíma. Þessi regla er efnislega samhljóða lokamálslið 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en sú regla sem þar er að finna á við þegar fólk missir rétt til atvinnuleysisbóta í annað skiptið á sama tímabilinu. Sú breyting er lögð til að hlutaðeigandi starfi í átta vikur í stað sex vikna áður enda um þriðja tilvik að ræða sem leiðir til þess að hinn tryggði missir tímabundið rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Verði umsækjandi aftur uppvís að því að segja starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða hann missir starfið af ástæðum sem rekja má til eigin sakar hans á sama tímabili skv. 29. gr. og áður gildir sú regla sem lögð er til í 3. mgr.
    Þá er gert ráð fyrir að annars konar viðurlagaákvarðanir sem teknar eru á grundvelli annarra ákvæða frumvarpsins hafi ítrekunaráhrif á sama hátt og ákvarðanir um biðtíma. Ítrekunaráhrifin falla niður þegar einstaklingur hefur áunnið sér rétt til nýs tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. VI. kafla.

Um 57. gr.

    Gert er ráð fyrir að áfram verði sömu viðurlög við því að hafna starfi sem býðst með sannanlegum hætti. Ekki er gert ráð fyrir að starfið þurfi að bjóðast fyrir milligöngu vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar enda áhersla lögð á frumkvæði hins tryggða að starfsleit sinni. Er gert ráð fyrir að þetta eigi við um þá sem hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttökudegi umsóknar um atvinnuleysisbætur en ekki er tekið fram hvort líkur séu á að hlutaðeigandi fái vinnu í sinni starfsgrein. Þykir eðlilegt að þeir sem eru tryggðir samkvæmt frumvarpi þessu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi er þeir helst kjósa að sinna. Jafnframt er ekki tekið fram að það skipti máli hvort um sé að ræða fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu þar sem mikilvægt er að hinn tryggði verði aftur virkur á vinnumarkaði. Þegar um er að ræða hlutastarf sem er að starfshlutfalli minna en sem nemur tryggingarhlutfalli hins tryggða getur sá hinn sami sótt um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti. Áfram er gert ráð fyrir að atvinnuleitandinn verði að uppfylla skilyrði frumvarpsins til að teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar viðurlögunum sleppir, þar á meðal að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Bjóðist hinum tryggða störf á viðurlagatímanum en hann hafnar því geta komið til ítrekunaráhrif skv. 61. gr. frumvarpsins.
    Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu. Þá er lagt til að ítrekunaráhrifum fyrri ákvarðana verði gerð skýrari skil í frumvarpi þessu en áður hefur verið gert í lögum um atvinnuleysistryggingar.
    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að svo hafi verið kemur ekki til þess að hinn tryggði sæti viðurlögum vegna þess að hann hafnaði starfinu eða hafnaði því að fara í atvinnuviðtal. Ber að ítreka að það að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma telst ekki réttlæta höfnun á starfi samkvæmt ákvæði þessu. Enn fremur er heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Þarf þá að meta aðstæður fjölskyldu hins tryggða heildstætt. Jafnframt er lagt til að heimilt sé að líta til ráðningar hins tryggða í ótímabundið starf enda þótt hinn tryggði hefji ekki störf þegar í stað. Er það Vinnumálastofnunar, þar á meðal úthlutunarnefndarinnar, að meta hvort tíminn þangað til hinn tryggði hefur störf geti talist viðunandi eða hvort eðlilegra sé að líta svo á að hinum tryggða beri að taka starfinu sem í boði er. Við matið ber meðal annars að líta til þess hvort um raunverulegt framtíðarstarf sé að ræða. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka tillit til þess þegar hinn tryggði getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Má gera ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann er ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar. Komi slíkar upplýsingar upp fyrst þegar starfið er í boði kann að koma til viðurlaga skv. 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína.

Um 58. gr.

    Samkvæmt 12. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Sú breyting er lögð til að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geta valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæði þessu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða er boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi.
    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig má ætla að þeim sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið er svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiðir það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Engu síður er litið svo á að hinn tryggði skuli uppfylla skilyrði frumvarpsins á viðurlagatímanum og að honum beri þar á meðal að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er honum standa til boða, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Um ítrekunaráhrif vísast til athugasemda við 61. gr. frumvarpsins.

Um 59. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli en mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum er að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Þannig er bæði tryggt að rétt mynd liggi fyrir um samsetningu þeirra sem eru án atvinnu á hverjum tíma og ekki síst stuðlað að því að atvinnuleitanda sé boðin viðeigandi þjónusta til að auka vinnufærni hans, svo sem atvinnutengd endurhæfing, námskeið og ráðgjöf. Nokkuð er um það að atvinnuleitendur komi með læknisvottorð um skerta starfshæfni þegar þeim eru boðin störf. Það getur hins vegar reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að þeir geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni umsækjanda getur það því haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomandi standa til boða enda hefur þarfamatið verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Þá er ekki átt við upplýsingar um atvik eða aðstæður sem ekki voru komin fram þegar umsækjandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur en gert er ráð fyrir að hinn tryggði gefi nauðsynlegar upplýsingar um leið og breytingar verða.

Um 60. gr.

    Ákvæðið á sér samsvörun í lögum um atvinnuleysistryggingar en leitast er við að setja viðurlagaákvarðanir fram með skýrari hætti en áður hefur verið gert. Ákvæði 15. gr. laganna fjallar um tilvik þegar einstaklingur aflar sér bóta með sviksamlegum hætti en það getur valdið missi bóta í allt að tvö ár. Þá er fjallað um viðurlög við sömu brotum í 27. gr. laganna. Lagt er til að fjallað verði um þessi tilvik í sama ákvæðinu. Er því gert ráð fyrir að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta með svikum skuli missa rétt samkvæmt frumvarpi þessu í allt að tvö ár. Enn fremur er gert ráð fyrir að brotið geti varðað sektum. Á ákvæðið bæði við um fullframin brot og tilraunir til brots.

Um 61. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana skv. 57.–59. gr. frumvarpsins. Um er að ræða sams konar ítrekunaráhrif og lagt er til að gildi um ákvarðanir um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum í X. kafla frumvarpsins. Er vísað til athugasemda við 56. gr. frumvarpsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að fyrri ákvarðanir um biðtíma skv. X. kafla hafi sömu ítrekunaráhrif og fyrri viðurlagaákvarðanir.

Um 62. gr.

    Samkvæmt 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs verið heimilt að veita styrki vegna úrræða fyrir atvinnulausa á vegum svæðisvinnumiðlana. Jafnframt er stjórninni heimilt að veita styrki til þess að aðstoða atvinnulausa við búferlaflutninga vegna atvinnutilboða. Lagt er til að Vinnumálastofnun verði fengin sams konar heimild og stjórn sjóðsins hefur samkvæmt gildandi lögum enda fer stofnunin með framkvæmd atvinnuleysistrygginga, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Eðlilegt er að stjórnin annist gerð tillagna að reglum um veitingu styrkjanna áður en félagsmálaráðherra setur þær.
    Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að vinnumarkaðsaðgerðir verði fjármagnaðar úr ríkissjóði enda réttur fólks til þátttöku í slíkum úrræðum óháður rétti þeirra til framfærslu úr einstökum kerfum. Engu síður getur komið til þess að einstök framfærslukerfi þurfi að veita sérstaka styrki til vinnumarkaðsaðgerða óski þau eftir að rétthafar úr þeim kerfum taki þátt í einstökum úrræðum. Er þátttaka hins tryggða í hlutaðeigandi vinnumarkaðsúrræðum þannig háð því að hlutaðeigandi framfærslukerfi greiði til verkefnisins. Má þetta oft rekja til þess að rekstrarkostnaður hlutaðeigandi úrræðis er nokkuð mikill en eigi síður þyki réttlætanlegt að bjóða upp á það. Er með þessu jafnframt verið að stuðla að ákveðnum tengslum milli þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og þess að eiga rétt á greiðslum sér og sínum til framfærslu. Þetta fyrirkomulag hefur sérstaklega átt við um starfsþjálfunarúrræði er vinnuveitandi gerir samning um að taka hinn tryggða í starfsþjálfun með það að skilyrði að hann greiði hinum tryggða laun samkvæmt gildandi kjarasamningum og hann fái greitt mótframlag er jafngildir fjárhæð atvinnuleysisbóta. Þá er áfram gert ráð fyrir að heimilt verði að veita styrki til einstaklinga sem ákveða að taka starfi fjarri heimili sínu og þurfa að flytja búferlum. Er gert ráð fyrir að kveðið verði nánar á um þessa styrki í reglugerð sem stjórn sjóðsins leggur til við félagsmálaráðherra, svo sem hversu lengi styrkþegi þarf að hafa verið atvinnulaus, áhrif fyrri tekna og hversu langt er verið að flytja innan lands.

Um 63. gr.

    Lengi hefur tíðkast að ákveðnum fjárhæðum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé varið til ýmissa verkefna til eflingar atvinnulífsins og fjölgunar atvinnutækifæra á innlendum vinnumarkaði, sbr. 23. gr. gildandi laga um atvinnuleysistryggingar og ákvæði til bráðabirgða við sömu lög. Lagt er til að almenn heimild verði gefin til að veita styrki úr sjóðnum til einstakra verkefna sem ætluð eru til eflingar á atvinnulífi einstakra svæða, fjölgunar atvinnutækifæra einstakra hópa fólks sem og starfsmenntunar, sbr. meðal annars lög nr. 19/1992, um starfsmenntun í atvinnulífinu. Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins komi fram með tillögur til félagsmálaráðherra á grundvelli ákvæðis þessa enda hefur stjórnin umsjón með fjárreiðum sjóðsins skv. 6. gr. frumvarpsins. Heimildin er þó takmörkuð við það að fjárhæðir þessara framlaga ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

Um 64. gr.

    Ákvæðið veitir félagsmálaráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara. Markmið með slíkri heimild er að kveðið verði skýrt á um framkvæmd laganna ef nauðsyn ber til.

Um 65. gr.

    Lagt er til að frumvarp þetta taki gildi 1. júlí 2006 en um leið falli úr gildi lög nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og lög nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Um ákvæði til bráðabirgða.
Um I.–III.

    Ákvæðin fjalla um þá sem þegar hafa skráð sig án atvinnu hjá svæðisvinnumiðlunum Vinnumálastofnunar á grundvelli gildandi laga um atvinnuleysistryggingar. Þannig er gert ráð fyrir að þeim sem skráðu sig í fyrsta skipti atvinnulausa hjá svæðisvinnumiðlun 15. nóvember 2005 eða síðar og verða jafnframt skráðir án atvinnu 1. júlí 2006 verði heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur samkvæmt frumvarpi þessu. Gengst það fólk þá undir réttindi og skyldur sem frumvarp þetta felur í sér.
    Lagt er til að sérregla gildi um þá sem skráðu sig án atvinnu fyrir 15. nóvember 2005 og hafa verið án atvinnu samfellt síðan eða hafa starfað í skemmri tíma en sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Þeir geta ekki átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum en geta átt rétt á grunnatvinnuleysisbótum samkvæmt frumvarpinu að hámarki til 31. desember 2009. Þó er gert ráð fyrir að einstaklingar geti ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum samtals í lengri tíma en fimm ár að teknu tilliti til starfstímabila viðkomandi. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins gildi um réttindi og skyldur þeirra innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
    Að lokum er lagt til að nægilegt sé að einstaklingar starfi samfellt í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði til að geta sótt um atvinnuleysisbætur á grundvelli frumvarps þessa. Er þá ekki litið til fyrri bótatímabila samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og því ekki gerðar kröfur um að því tímabili ljúki áður en tímabil skv. 29. gr. frumvarps þessa getur hafist.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar.

    Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu, atvinnuleysisbætur hækkaðar og skilvirkni innan kerfisins aukin. Lagðar eru til ýmsar skipulagsbreytingar, þar á meðal er kveðið á um að Vinnumálastofnun muni annast framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins og úthlutunarnefndir verða lagðar niður utan einnar nefndar. Ein helsta breytingin á atvinnuleysistryggingakerfinu sem frumvarp þetta felur í sér er tekjutenging atvinnuleysisbóta. Lagt er til að atvinnuleitendur sem uppfylla skilyrði frumvarpsins eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem nema 70% af meðaltali heildarlauna á ákveðnu viðmiðunartímibili í allt að þrjá mánuði. Þó er gert ráð fyrir að slíkar atvinnuleysisbætur geti ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur 180.000 kr. á mánuði miðað við rétt til óskertra atvinnuleysisbóta. Eftir þrjá mánuði miðast upphæð bóta við grunnatvinnuleysisbætur sem verða 4.431 kr. á dag eða 96.000 kr. á mánuði. Að auki er lagt til að lengd tímabils sem heimilt er að greiða samfellt atvinnuleysisbætur til atvinnuleitenda verði stytt úr fimm árum í þrjú ár.
    Kostnaðarauki við tekjutengdar atvinnuleysisbætur á árinu 2007 er metinn á bilinu 600–700 m.kr. miðað við forsendur um a.m.k. 2,6% atvinnuleysi. Matið er háð nokkrum óvissuþáttum. Í fyrsta lagi felur tillagan í sér mjög miklar hækkanir á atvinnuleysisbótum en þá er hætt við því að hvati til atvinnuleitar gæti minnkað. Í öðru lagi gæti samsetning þeirra einstaklinga sem skrá sig atvinnulausa breyst þannig að tekjuhærri einstaklingar sæki í meira mæli en nú er um atvinnuleysisbætur. Í þriðja lagi hefur launaþróun nú bein áhrif á kostnað vegna atvinnuleysisbóta. Kostnaðarauki við að hækka grunnatvinnuleysisbætur á árinu 2007 er metinn á um 100 m.kr. Á móti er áætlað að stytting samfellds tímabils sem heimilt er að greiða atvinnuleysisbætur lækki kostnað um 50 m.kr., sem mun þó ekki hafa áhrif fyrr en í lok árs 2008 vegna bráðabirgðaákvæða. Ekki er talið að það þurfi að koma til aukinna útgjaldaheimilda á þessu ári vegna framangreindra atriða þar sem gert er ráð fyrir kostnaðinum í fjárlögum.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs muni samtals aukast um 700–800 m.kr. á árinu 2007.