Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 1416  —  620. mál.
Viðbót.




Nefndarálit



um frv. til l. um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Trygga Axelsson og Gísla Friðgeirsson frá Neytendastofu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands, Fiskistofu, Neytendastofu, Samorku, Frumherja hf. og talsmanni neytenda.
    Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja að á Íslandi hafi mælifræðin þá umgjörð að hún njóti trausts jafnt hér á landi sem á alþjóðlegum vettvangi. Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af ákvæðum tilskipunar 2004/22/ESB. Í frumvarpinu er m.a. fjallað um sölu og markaðssetningu mælitækja, gildissvið og hlutverk stjórnsýslu, mælieiningar, mæligrunna, niðurstöður mælinga og framkvæmd eftirlits.
    Umfjöllun nefndarinnar snerist að mestu leyti um IX. kafla frumvarpsins en í þeim kafla er lögð til skattlagning, 250 kr. á hvert mælitæki. Andlag skattlagningarinnar eru mælitæki allt frá sjússamælum sem kosta 3.000 kr. til hafnarvoga sem kosta tugi milljóna. Eftirlitið sem greiða skal með skattinum fer fram mörgum sinnum á ári í sumum tilfellum en á 17 ára fresti í öðrum. Skattlagningin er því ekki í neinum tengslum við þá umsýslu sem hún á að standa straum af. Slík skattlagning með svo lágri upphæð, 250 kr., sem leggst á 270.000 tæki og gefur einungis 60 millj. kr. í skatttekjur er í andstöðu við hefðbundna stefnu í skattlagningu. Vegna þessa leggur nefndin til að 250 kr. eftirlitsgjaldið í IX. kafla frumvarpsins verði fellt brott. Upplýst hefur verið að núverandi gjaldtaka fyrir löggildingar nemi um 8,5 millj. kr. árlega og er miðað við að þeirri gjaldtöku verði fram haldið. Leggur nefndin til að heimildin verði lögfest, sbr. 5. lið breytingartillagna nefndarinnar. Lagt er til að þeir fjármunir sem upp á vantar til að náð sé 66 millj. kr. markinu, sem að var stefnt með 250 kr. skattinum, verði fengnir beint úr ríkissjóði af fjárlögum, þ.e. 57,5 millj. kr. árlega. Í þessu sambandi skal nefnt að heildarkostnaður vegna mælifræðisviðs er 71 millj. kr. en áætlað er að um 5 millj. kr. komi sem sértekjur til kvörðunarþjónustunnar, sbr. ákvæði í 30. gr. frumvarpsins. Til að mæta tekjutapi fyrir árið 2006 leggur nefndin til að veittar verði 20 millj. kr. af fjáraukalögum fyrir árið 2006.
    Nefndin leggur til að skilgreiningar í 3. gr. verði samræmdar skilgreiningum í nýlega samþykktum lögum um faggildingu o.fl. og að orðalag d-liðar 2. mgr. 4. gr. verði gert skýrara. Nefndin lagði til þá grundvallarbreytingu á frumvarpinu að hætt yrði við þá sérstöku skattlagningu sem upphaflega var í frumvarpinu, en áfram er gert ráð fyrir að innheimt verði svonefnt löggildingargjald þegar endurlöggilding mælitækja fer fram, svo sem verið hefur. Ákvæði um þetta efni er að finna í 31. gr. frumvarpsins. Á grundvelli gildandi laga hefur verið gefin út gjaldskrá um löggildingargjald, sbr. gjaldskrá nr. 245/1998, og verður hún endurútgefin á grundvelli hinna nýju laga. Af framangreindri breytingu leiðir einnig að kveða verður á um innheimtu gjaldsins, gjalddaga, dráttarvexti og skýrslur, sbr. ákvæði í 33. og 34.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



gr. sem einnig hafa nú verið aðlöguð að þeim breytingum sem nefndin hefur lagt til. Í upphaflegri útgáfu frumvarpsins var að finna upptalningu í 32. gr. á þeim mælitækjum sem falla eiga undir eftirlitsskyldu, sbr. ákvæði í tilskipun ESB nr. 2004/22/ESB. Af þeirri ástæðu sem hér á undan er rakin um niðurfellingu skattlagningarákvæðis frumvarpsins er lagt til að framangreind upptalning á eftirlitsskyldum mælitækjum verði felld inn í 13. gr. Jafnframt verður að tryggja nauðsynlega lagastoð fyrir reglugerðir sem settar hafa verið um vogarlóð, sbr. reglugerð nr. 136/1994 og 137/1994 svo og reglugerð um mælitæki fyrir loftþrýsting í hjólbörðum, sbr. reglugerð nr. 130/1994, en framangreindar reglugerðir eru innleiðing á tilskipunum Evrópusambandsins um sama efni. Í 14. gr. frumvarpsins er að finna það nýmæli að unnt verður að bjóða atvinnurekendum sem nota löggildingarskyld mælitæki í rekstri sínum að í stað löggildingar verði unnt að afla samþykkis Neytendastofu á gæðkerfum hlutaðeigandi aðila sem tryggja að mælingar séu ávallt innan skilgreindra nákvæmnismarka samkvæmt lögum eða reglum settum samkvæmt þeim. Jafnframt eru í VI. kafla að finna ákvæði um að þeir aðilar sem forpakka vörum í neytendaumbúðir geti valið að nota sér það kerfi til e-merkinga sem kveðið er á um í reglum Evrópusambandsins. Ekki er lögskylt að fylgja þeim reglum en ljóst er að mikið hagræði er af því fyrir seljendur á forpökkuðum vörum að nýta sér slíkar aðferðir, og er það til þess fallið að koma í veg fyrir yfirpökkun í pakkningar í neytendaumbúðir með tilheyrandi sóun verðmæta. Auk þess tryggja slíkar aðferðir að neytendur geta verið öruggir um að magn forpakkaðrar vöru sé ávallt innan tilskilinna vikmarka. Framangreind tilhögun er nýmæli og er eðlilegt að þeir sem velja að notfæra sér slíkar aðferðir greiði þann kostnað sem fylgir því að fá samþykki stjórnsýsluaðilans á gæðakerfum sínum. Í 32. gr. er því að finna ákvæði um gjaldtökuheimildir Neytendastofu vegna þessara nýmæla en mikilvægt er að þau séu eins nákvæm og unnt er og hefur hér verið tekið mið af ákvæðum um svipað efni í nýlega samþykktum lögum um faggildingu o.fl. Loks eru lagðar til nokkrar lagatæknilegar breytingar og breytingar til samræmis við faggildingarfrumvarpið (361. mál).
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi við afgreiðslu þess og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 2. júní 2006.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Guðjón Ólafur Jónsson.



Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.



Ögmundur Jónasson.


Lúðvík Bergvinsson.