Gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA

Mánudaginn 15. janúar 2007, kl. 13:55:35 (3152)


133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:55]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem máli skiptir er að tilvist gagnanna var haldið leyndri af hæstv. ráðherra menntamála. Tilvist gagna sem eru alger grundvallargögn í öllu því sem lýtur að framtíð Ríkisútvarpsins, eins og tilvitnað dæmi frá Danmörku sem rakið var í fyrri umræðum um málið hefur fært heim sanninn um. Það hafði gífurlega alvarleg áhrif fyrir rekstur TV2 í Danmörku þegar samkeppnisstofnun þeirra komst að þeirri niðurstöðu að það bryti í bága við lög og reglur sem lutu að því þar sem um væri að ræða óeðlilega niðurgreiðslu á auglýsingum með opinberu fé. Það er þetta sem málið snýst um. Það er verið að leyna Alþingi Íslendinga og hv. menntamálanefnd algerum grundvallargögnum í öllu því sem lýtur að framtíð og framtíðarrekstri Ríkisútvarpsins. Framtíð RÚV — gangi þetta eftir á versta veg — er í algeru uppnámi. Þess vegna skipti það svo miklu máli sem hér um ræðir að gögnin kæmu fram. Þess vegna skipti það svo miklu máli að ráðuneytin upplýstu um tilvist gagnanna. Hvernig átti hv. menntamálanefnd og hv. Alþingi að óska eftir gögnum sem haldið var leyndu að væru til? Það er þetta sem er svo grafalvarlegt og það er þetta sem hæstv. menntamálaráðherra á að koma í ræðustól Alþingis og útskýra í staðinn fyrir að vera með hnútukast við einstaka þingmenn.

Hæstv. menntamálaráðherra situr undir þeim alvarlegu ásökunum að hafa leynt Alþingi Íslendinga og menntamálanefnd algjöru grundvallargagni sem lýtur nákvæmlega að rekstrarforminu, þessu pólitíska þrátefli og þessari þráhyggju hæstv. menntamálaráðherra að gera útvarpið að hlutafélagi. Það er í algeru uppnámi og það er þess vegna sem hæstv. ráðherra virðist hafa leynt gögnunum og ráðherrann þarf að hreinsa sig af því.