Ríkisútvarpið ohf.

Þriðjudaginn 16. janúar 2007, kl. 15:27:58 (3257)


133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:27]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða. Í fyrsta lagi að hv. þm. Pétur H. Blöndal heldur að helstu höftin á Ríkisútvarpinu séu eignarhaldið. Þetta er grundvallarmisskilningur. Þarna erum við innilega ósammála. Það er ekki gallinn við RÚV að það sé ríkisstofnun. (Gripið fram í.) Ég útskýrði það með BBC eða Danmarks Radio. Svo sakar hv. þingmaður fréttamenn um að draga taum okkar sem tölum gegn þessu. (Gripið fram í.) Mér heyrðist það. Þá er það greinilega grundvallarmisskilningur en þannig hljómaði þetta og var auðvitað í hróplegri andstöðu við fyrri ummæli hans um að hann bæri mikið traust til Ríkisútvarpsins o.s.frv. Talandi um trúarbrögð þá er það skemmtilegur kafli út af fyrir sig því ég vil halda því fram að þessi trúarbrögð Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu, um að einkavæða allt, séu orðin svolítið þreytandi. Sjálfstæðisflokkurinn er í einhverri krossferð gegn ríkisstofnunum. Það er sorglegt, hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Aðeins um Flugstoðir og flugumferðarstjóra. Það var gott að hv. þingmaður kom inn á meðallaun þeirra, einhver 700 þús. kr. með vöktum. Ég dreg þessar tölur í efa. Hver eru grunnlaun flugumferðarstjóra? Mér þætti áhugavert að fá tölur um það. Kunningi minn er flugumferðarstjóri og því kíkti ég á það í Frjálsri verslun hvað hann hefði verið með í laun á síðasta ári. Hann var með rúmlega 300 þús. kr. Það er stór munur á 300 þús. kr. og 700 þús. kr. hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég held því að það sé kannski ekki vandamálið.