Ríkisútvarpið ohf.

Þriðjudaginn 16. janúar 2007, kl. 19:59:50 (3277)


133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:59]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (frh.):

Herra forseti. Við erum að tala um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. og ég hef verið að reifa skoðun mína í því máli og þá fyrst og fremst út frá sjónarhorni réttinda starfsmanna RÚV og þeirrar skerðingar sem ég er fullviss um að starfsmenn RÚV verði fyrir verði þetta frumvarp að lögum. Meðal þeirra atriða sem falla niður hjá starfsmönnum RÚV eru andmælaréttur vegna uppsagnar, áminningarskylda í kjölfar uppsagnar eða mögulegrar uppsagnar og skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn. Þetta virðast vera þau atriði sem hafa lengi vel verið þyrnir í augum a.m.k. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þessi réttindi, lög og skyldur opinberra starfsmanna, kjör sem hagsmunasamtökum þeirra, BHM og BSRB, hefur tekist að semja um í áratuga langri baráttu. Þessi þrjú atriði, andmælaréttur, áminningarskylda og skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn, virðast vera mönnum þar efst í huga af einhverjum einkennilegum ástæðum því að á sínum tíma var það náttúrlega ríkisvaldið sem samþykkti þessi atriði varðandi opinbera starfsmenn en í hinu hraða þjóðfélagi nútímans, þessu þjóðfélagi gróðahyggju, einstaklingshyggju, frjálshyggju, hvaða orð sem menn vilja nota, virðist mönnum finnast sem það sé ótækt að reka nokkurt fyrirtæki eða stofnun án þess að hægt sé að ráða og reka menn eins og yfirvaldinu sýnist. Ég minntist m.a. fyrr í dag á greinargerð með frumvarpi sem nú er orðið að lögum um Matís ohf. þar sem m.a. var komið inn á þessi atriði. Þar er í raun og veru sagt að með því að breyta yfir í hlutafélag losni menn við þessar skyldur og nálgist þá almenna vinnumarkaðinn. En hvað gerist? Hvað hefur akkúrat verið að gerast á síðustu missirum, t.d. hjá Alcan í Straumsvík, álverinu? Þar lentu menn í því að starfsmönnum sem höfðu starfað þar í tugi ára var skyndilega sagt upp, fyrirvaralaust, þeir fengu engan andmælarétt, voru ekki áminntir, bara sagt upp, bara „af því bara“. Það er akkúrat þetta sem fylgismenn frumvarpsins vilja, það er þetta form sem þeir greinilega vilja, að forstöðumaður stofnunar eða í þessu tilfelli útvarpsstjóri geti ráðið og rekið menn eins og honum sýnist. Það er grátlegt að þegar samningar hafa náðst og þessi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verið samþykkt í góðri samvinnu milli ríkisins og hagsmunasamtaka launþega skuli mönnum í dag vera þetta þyrnir í augum og að menn ætli að gera hvað sem þarf til að losna undan því.

Ég er ekki viss um að allir þeir sem hafa í hyggju að samþykkja þetta frumvarp — gera það í raun og veru kannski einungis flokksagans vegna — átti sig allir á hvað er eitt af því versta sem gæti gerst verði frumvarpið samþykkt. Eitt af því versta eru væntanlega skyndilegar og fyrirvaralausar uppsagnir starfsmanna Ríkisútvarpsins, kannski ekki allra, kannski einhvers hluta, einhverra tuga, en í kringum hvern starfsmann eru að sjálfsögðu fjölskyldumeðlimir og þarna gæti, miðað við það að útvarpsstjóri er nú þegar byrjaður að vinna eftir frumvarpinu eins og ég fór yfir áðan og vitnaði í Viðskiptablaðið, nú þegar verið búið að ákveða hverjum eigi að kasta. Kannski er bara beðið eftir að frumvarpið verði samþykkt — sem vonandi verður aldrei — og þá þurfi menn ekki að gefa neinar ástæður fyrir uppsögnum. Þessi stofnun hefur verið til í áratugi og er að stórum hluta byggð upp af því starfsfólki sem starfar þar í dag og að sjálfsögðu eiga menn að geta, ef stór hluti tilgangsins með þessu lagafrumvarpi er að geta ráðið og rekið fólk eins og einum manni sýnist, farið eftir þeim reglum sem eru í dag og áminnt menn hreinlega ef þeir ekki eru góðir í starfi og gefið þeim tækifæri til að svara fyrir sig o.s.frv. Ég held að við hljótum öll að hafa orðið vitni að því að starfsmaður sem ekki stendur sig í starfi en hefur verið áminntur og fengið að andmæla hafi bætt sig. Ég hef grun um að þeir sem tala mest fyrir þessum breytingum hafi ekki nægilega reynslu af akkúrat þessu máli, að vinna eftir þessum lögum um réttindi og skyldur, og mikli fyrir sér hlutina. Sá sem mótmælir því að það sé aðaltilgangurinn með þessu frumvarpi fær mann til að velta fyrir sér hvort verið sé að búa til ásteytingarstein með því að setja réttindi starfsmanna í laust loft, það sé verið að búa þar til ásteytingarstein sem dugar til umræðna á Alþingi og úti í þjóðfélaginu svo vikum, mánuðum og árum skiptir til að fela hina raunverulegu ástæðu lagafrumvarpsins, sem sé þá að búa Ríkisútvarpið undir sölu.

Eitt af því sem ekki hefur enn þá verið svarað er hverjir koma til með að semja fyrir starfsmenn í framtíðinni verði þetta frumvarp að lögum. Eru það áfram sömu stéttarfélögin sem starfsmenn hafa óskað eftir skriflega, og mun ég koma að því betur síðar, eða á að reyna að fara þá leið sem stjórnendur Matíss ohf. gera í dag, að semja við hvern og einn starfsmann, tveggja manna tal, launaleynd og allt sem því fylgir?

Það er eitt líka varðandi starfsmannamálin, varðandi biðlaunaréttinn, þau sem hafa samið frumvarpið virðast hafa litið á það sem ákveðið góðverk að það nái til ársins 2009 en hins vegar velta menn þá fyrir sér hvað gerist 2010. Hvað tekur við? Það er ekkert sem segir okkur neitt um það þannig að margt varðandi starfsmannamálin er í lausu lofti.

Ég minntist á það áðan, herra forseti, í upphafi ræðu minnar að önnur af tveimur höfuðástæðum sem ég tel vera fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram svona eins og það er og með þeirri miklu óbilgirni og kergju að samþykkja ekki nokkrar einustu breytingar á því, hvað þá heldur að vísa því hreinlega frá, sé m.a. af því að verið er að undirbúa sölu á Ríkisútvarpinu. Menn hafa reynt að gleyma því að margur hafi talað fyrir því og ég minntist m.a. áðan á atkvæðagreiðslu með RÚV-frumvarpinu þar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal tók það skýrt fram að hann greiddi atkvæði með því að frumvarpið færi áfram til næstu umræðu á þeim forsendum að hann liti svo á að hlutafélagavæðingin væri upphafið að sölu. Og af því að margur er gleyminn og hefur reynt að ýta til hliðar minni ég á að lagt var fram frumvarp fyrir nokkrum árum um sölu á Ríkisútvarpinu. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram frumvarp um að selja útvarpið og hvers vegna í ósköpunum skyldi nokkur þingmaður trúa því í dag að eitthvað hefði breyst? Hið eina sem hefur breyst er að nú á ekki að ganga hreint til verks, nú á að fara djúpleiðina að sölunni. Það á sem sagt að búa til opinbert hlutafélag og eins og margoft hefur komið fram er hlutafélagavæðing undirbúningur að sölu og á ekki að þurfa að ítreka það. Það er hlutur sem allir ættu að sjá.

Ég hef líka minnst á drög að þjónustusamningi og farið yfir aðdragandann að honum og hvernig hann kom til, þjónustusamning sem er hnýttur við lagafrumvarpið og fullyrt að ekki sé hægt að gera slíkan samning öðruvísi en að hann sé hnýttur í þetta frumvarp og frumvarpið verði samþykkt. Það virðist samt margt vera að þessum þjónustusamningi og síðast í október sá stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda ástæðu til að álykta eftirfarandi, með leyfi forseta.

„Stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda fagnar nýjum samningi milli Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins þar sem m.a. er kveðið á um verulega aukinn hlut íslensks dagskrárefnis RÚV í sjónvarpinu á næstu fimm árum. Stjórnin harmar hins vegar að í samningnum sé hvorki fjármagn né útsendingarhlutfall eyrnamerkt leiknu íslensku sjónvarpsefni.“

Þetta er kannski merki um það eins og ég nefndi fyrr að menn hafi jafnvel kastað til höndunum við að útbúa þennan svokallaða þjónustusamning eða drög að þjónustusamningi sem ég er búinn að benda réttilega á að er einungis dulbúin hótun, aðferð til að hóta þingmönnum svo að þeir mæli ekki gegn málinu því að þá fái menn í hausinn þá hópa sem er búið að vera að búa til væntingar hjá sem eru þeir hópar sem kæmu að gerð innlends dagskrárefnis. Það virðist hafa verið, því miður, herra forseti, eitthvað kastað til höndunum við þennan þjónustusamning. Mönnum hefur legið mikið á þar sem ekki allir hópar hafa verið teknir með. Þetta eru að sjálfsögðu bara drög að samningi, það er skýrt tekið fram. Þá er viðbúið að ef frumvarpið yrði að lögum gæti hann kannski orðið eitthvað öðruvísi en enn og aftur set ég spurningarmerki við það, herra forseti, af hverju í ósköpunum ekki sé hægt að gera slíkan þjónustusamning um bætta innlenda dagskrárgerð o.s.frv. án þess að þurfa að samþykkja heilt frumvarp um rekstrarform Ríkisútvarpsins. Miðað við þau markmið sem hæstv. menntamálaráðherra fór yfir sem aðalástæðu fyrir þessu frumvarpi sé ég ekki annað en að hægt hefði verið að gera svona þjónustusamning eða eitthvað í líkingu við hann í starfi útvarpsins eins og það er nákvæmlega í dag.

Hæstv. ráðherra segir m.a. í ræðu hér 17. október sl.: „Við vitum að fjármagnið til þeirra dagskrárliða sem fara til sjálfstæðra framleiðenda hefur farið lækkandi, til að mynda þegar stórir íþróttaviðburðir eiga sér stað, eins og Ólympíuleikarnir og fleiri stórir íþróttaviðburðir.“ — Ég get ekki betur séð en að það sé hægt að taka ákvörðun um að auka fé til þessara íþróttaviðburða án þess að þurfa að hnýta hana aftan í þetta frumvarp. Ég sé ekki ástæðu til að fara yfir það aftur, forseti, ég fór í dag vel yfir það hvernig þessi taglhnýting þjónustusamningsins var kynnt. Þjónustusamningurinn var kynntur fyrir fjölmiðlum á undan þingheimi. Hann var kynntur af hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóra. Ég get ekki séð annað en að þessi samningur sé einfaldlega til þess fallinn, þessi drög eða hvað á orðið að kalla þetta, að þrýsta á þingmenn og aðra til þess að tefja ekki fyrir málinu. Enda hefur það skýrt komið fram hjá hæstv. menntamálaráðherra að þetta frumvarp þoli enga bið. Hún segir m.a. þann 17. október að hún sé jafnframt sannfærð um að ef frekari töf verður á afgreiðslu frumvarpsins jafngildi það líka „töf og seinkun á eflingu innlendrar dagskrárgerðar“.

Það er svolítið sérstakt hvernig þetta er lagt upp þannig að allt sé sett í biðstöðu, að ekkert sé hægt að gera, í raun sé ekki hægt að bæta eitt eða neitt í rekstri Ríkisútvarpsins fyrr en þetta frumvarp verður samþykkt.

Það er greinilegt að menn hafa hugmyndirnar um þjónustusamninginn alveg skýrar, hvað þeir vilja bæta og hverju breyta. Jafnframt er skýrt tekið fram að það verði ekki gert nema menn samþykki eitthvað annað.

Þjónustusamningurinn er nokkuð ítarlegur og í raun sorglegt að hann skuli ekki vera til kominn fyrir löngu. Hér segir m.a., herra forseti, um samninginn að markmiðið sé að lýsa nánar tilgangi og hlutverki RÚV og þeim kröfum sem gerðar eru til félagsins á grundvelli laganna. Markmiðið er sem sagt að lýsa nánar tilgangi og hlutverki sem þýðir þá væntanlega að hlutverk og tilgangur sé í dag ekki nægilega skýrt. Enn og aftur, hvernig stendur á því að ekki er hægt að skýra tilgang og hlutverk RÚV án þess að til komi þessi stóru lög?

Eins og ég sagði er þessi þjónustusamningur um margt merkilegur. Í honum segir m.a. að RÚV skuli hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi. RÚV skal ávallt flytja fréttir og fréttatengt efni af sanngirni og hlutlægni.

Ég hélt, herra forseti, að þetta væri allt þegar til, öll þessi vitneskja og allar þessar kröfur á RÚV eins og það er í dag. Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef sagt, í mínum huga er alveg skýrt að þessi drög að þjónustusamningi eru einungis til þess gerð að reyna að reka á eftir þingmönnum að samþykkja frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. og er þess vegna hótun. Mér finnst það mjög vafasöm vinnubrögð af hálfu hæstv. menntamálaráðherra.

Ég rétt drap áðan á samantekt sem Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður gerði fyrir starfsmannasamtök RÚV í tilefni af þessu frumvarpi þar sem lögfræðingurinn bendir starfsmönnum RÚV á þær hættur sem fylgja þessari fyrirhuguðu lagasetningu og hvernig best sé fyrir þá að bregðast við til að kjör þeirra verði ekki lakari eftir samþykkt frumvarpsins en þau eru í dag. Þetta er mjög góð greinargerð. Hér er vandlega farið yfir. Hún hefur borist menntamálanefnd en þrátt fyrir að þessi greinargerð veiti mikil varnaðarorð varðandi setningu þessara laga hefur nefndin samt ekki séð ástæðu til að taka mið af þeim.

Ég fór áðan jafnframt yfir þær tillögur sem BHM og BSRB hafa gert til breytinga á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins til að gera það hagstæðara fyrir starfsmenn eða réttara sagt hagstæðara fyrir alla aðila til að forða Alþingi frá því að samþykkja hér lagafrumvarp um RÚV sem fer á skjön við önnur lög og skerðir réttindi starfsmanna.

Það sem er einna athyglisverðast í þessu áliti hér, herra forseti, er þar sem lögfræðingurinn veltir fyrir sér hvernig lög skarast. Þar talar hún sérstaklega um — að sjálfsögðu er þetta bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem fjallað er um réttindi starfsmanna þar sem segir m.a. að fara skuli eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og eftir lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, svokölluðum aðilaskiptalögum. Ég sé ástæðu til að ítreka það enn og aftur, herra forseti, sem kemur fram í þessu lagalega áliti þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við niðurlagningu stofnunarinnar breytist lagalegt umhverfi starfsmanna RÚV. Þeir hætta að vera opinberir starfsmenn og verða eftir það starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsemina eftir breytinguna.“

Þetta er algjört grundvallarmál. Ég held að þetta atriði hljóti að hafa óviljandi farið fram hjá menntamálanefnd. Ég held að hún verði að skoða þetta atriði sérstaklega þar sem fullyrt er að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi áfram. Menn skilja ekkert í þessum áhyggjum sem sumir hafa en hér kemur alveg skýrt fram að ef starfsmenn hætta að vera opinberir starfsmenn eigi þessi lög niður ekki lengur við þá.

Kannski er þungamiðjan í þessu öllu saman að menn hafi vitað þetta atriði, það gæti þýtt að lög um réttindi og skyldur starfsmanna falli hreinlega niður og þá séu menn komnir þangað sem þeir ætluðu sér, að ná þessum lögum algjörlega niður.

Það má vera, herra forseti, að ég misskilji þetta að einhverju leyti. Ekki er ég löglærður maður en ég les þetta upp úr áliti lögfræðings og hef stutt þetta fyrr í ræðu minni með áliti frá öðrum aðilum.

Í álitinu segir að aðilaskiptalögin kveði á um réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi eða þegar ráðningarsamband færist yfir á annan aðila sem yfirtekur starfsemina en jafnframt bendir Lára á að rétt sé að átta sig á því að réttarstaða starfsmannanna eftir hlutafélagavæðinguna geti aldrei orðið sú sama. Þetta er mjög sterk fullyrðing, herra forseti. Lára segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Rétt er að átta sig á því að réttarstaða starfsmannanna eftir hlutafélagavæðinguna getur aldrei orðið sú sama og hún var þegar Ríkisútvarpið var ríkisstofnun.“

Hér er enn og aftur komið að því, herra forseti, sem ég kom að í gær er ég lagði fyrirspurn fyrir formann menntamálanefndar um hvort réttindi starfsmanna yrðu áfram tryggð með setningu þessara laga. Hér kemur alveg skýrt fram að svo geti aldrei orðið.

Það má vera að ég sé búinn að finna punktinn í þessu, að fylgjendur frumvarpsins hafi vitað að réttarstaðan mundi skerðast. Væntanlega er það þá það sem menn hafa ætlað sér. En jafnframt hlýtur sú réttaróvissa sem þarna skapast að kalla yfir ríkið kærur og dóma. Hvernig menn ætla að snúa sig út úr því er mér ekki ljóst en ég tel algjörlega ótækt, herra forseti, að þetta frumvarp verði samþykkt með þessa miklu óvissu sem ég hef bent hér á.

Í þessu áliti segir jafnframt að í ákvæði til bráðabirgða II um starfsmannamálin að Ríkisútvarpið ohf. skuli „bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins“.

Hér er ekkert talað um hvaða störf það eru, hvort þau séu þau sömu eða sambærileg. Það er einfaldlega talað um störf þannig að útvarpsstjóri getur gert nákvæmlega það sem honum sýnist með núverandi starfsmenn. Yfirleitt hefur verið tekið fram að um skuli vera að ræða sömu störf eða a.m.k. sambærileg. Menn hafa getað sæst á að slíkt orð komi fram í tilfelli sem þessu. Það hefur verið reynt að fá það í gegn en alls ekki verið samþykkt.

Það skal vera alveg á hreinu að þó að þessi svokölluðu aðilaskiptalög eigi að tryggja mönnum óbreytt kjör við breytingu er væntanlega hugsunin á bak við aðilaskiptalögin sú að menn gegni sömu störfum og áður. Þarna er greinilega verið að skauta fram hjá því lagaákvæði sem er í aðilaskiptalögum að menn eigi að fá sömu kjör og er skilningur lögfræðinga sá að þá eigi menn að fara áfram í sömu störf. Þarna er búið að tryggja það að útvarpsstjóri ræður algjörlega sjálfur hvort hann bjóði sömu mönnum sömu störf og hefur þarna enn einn möguleikann til að losa sig við starfsfólk, ef sú er hugmyndin, og það er með því að bjóða manni mun lakara eða mun minna áhugavert starf. Þrátt fyrir að aðilaskiptalögin tryggi að það verði að greiða sömu laun er þarna með þessu orðalagi „Ríkisútvarpið ohf. skal bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins“ verið að tryggja enn og aftur útgönguleið fyrir útvarpsstjóra til að ráða og reka fólk — þá sérstaklega hér að reka fólk — eins og honum sýnist eða að draga úr áhuga fólks á að starfa fyrir fyrirtækið.

Það kemur fram í þessari álitsgerð, eins og margur hefur bent á, að í raun er alveg ótrúlega lítið fjallað um réttindi starfsmanna í frumvarpinu, sennilega gert til þess m.a. að draga athygli frá þeim eða reyna það sem hefur að vísu ekki tekist. Það er alveg greinilegt og ég er búinn að margbenda á það hér og hef margbent á ákveðin atriði sem styðja þá kenningu mína að önnur ástæðan af tveimur fyrir þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf. sé að skerða réttindi og kjör starfsmanna.

Það hefur margoft komið fram að það sé mjög mikilvægt að löggjafinn, Alþingi, veiti leiðbeiningar, ef ekki í sjálfum lagatextanum eða í greinargerð þá t.d. í nefndaráliti, um hvernig skuli fara að í þeim álitamálum sem upp kunna að koma. Því miður er ekki að finna neitt um það í nefndaráliti meiri hlutans að menn séu að reyna að upplýsa um möguleg álitamál er varða kjör og réttindi starfsmanna. Og ósköp er nýjasta nefndarálitið snautlegt, að vísu er hér talað um framhaldsnefndarálit.

Það dugar alls ekki, eins og í þessu tilfelli í þessu frumvarpi, að vísa einungis til annarra laga, þ.e. að vísa í aðilaskiptalögin, hafi menn einhverjar athugasemdir eða fyrirspurnir varðandi réttindi starfsfólks. Það á að fást ótvírætt úr því skorið, herra forseti, í þessu frumvarpi, annaðhvort í lagatexta eða greinargerð, að lágmarki í nefndaráliti, um örlög starfsmanna, þ.e. hvaða áhrif þessi lagasetning muni hafa á kaup þeirra og kjör. Það á að vera alveg skýrt, það er hefð fyrir því, það er ætlast til þess við lagasetningu, en því er ekki hlítt hér frekar en mörgu öðru og það gefur tilefni, eins og ég hef bent á, til deilna og væntanlega dóma sem ómögulegt er að segja hvað muni kosta þjóðfélagið í framtíðinni.

Ég minntist hér líka á biðlaunaréttinn og biðlaunaréttindin. Lára sér ástæðu til að taka það sérstaklega fyrir hér í greinargerð til starfsmanna Ríkisútvarpsins. Það er eiginlega sama hvar maður ber niður, herra forseti, í greinargerðum eða umsögnum varðandi starfsmannamál, gögn eru nokkuð samhljóða um hvaða réttindi er verið að skerða nái frumvarpið óbreytt fram að ganga. Þess vegna hlýtur maður að draga af því þá ályktun að þetta sé vísvitandi gert þar sem margoft er búið að benda á þessi afbrigði í ræðu og riti, í fjölmiðlum og annars staðar. Ef ekki er vilji til þess að taka tillit til þessara atriða varðandi skerðingar á réttindum og kjörum starfsmanna, skerðingar sem hljótist af þessu frumvarpi, hlýtur það að vera vísvitandi gert að stofna til þeirra.

Varðandi biðlaunaréttindin er réttilega bent á í greinargerðinni að starfsmenn á almennum markaði eigi ekki slík réttindi og þegar ríkisstofnun er gerð að hlutafélagi fellur þessi réttur, biðlaunaréttindin, einfaldlega niður.

Að vísu segir í frumvarpinu um biðlaunaréttinn í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, með leyfi forseta:

„Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Ríkisútvarpinu, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, þó skulu starfsmenn halda biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2009.“

Já, en hvað með 2010, hvernig fundu menn út þessa dagsetningu 31. desember 2009? Af hverju ekki síðar? Hér eru engar skýringar á því. Það er eins og að þarna sé verið að skutla í menn 1–2 árum til að sætta einhverja hluti en að sjálfsögðu dugir þetta alls ekki til þess.

Það kemur fram í álitsgerð Láru þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Velji starfsmaður sem á rétt á biðlaunum að vinna áfram hjá ohf. heldur hann biðlaunarétti sínum til 31. desember 2009 skv. frumvarpinu. Hér er verið að teygja reglur um opinbera starfsmenn yfir á starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Fyrst löggjafinn er reiðubúinn til þess, þá má spyrja hvers vegna miða skuli við 31. desember 2009. Hvort ekki megi tryggja starfsmönnum hlutafélagsins biðlaunarétt framvegis með sama hætti og opinberir starfsmenn almennt njóta. Eðlilegt er að starfsmenn setji þetta fram sem þeirra kröfu í málinu.“

Ég held að það hljóti að hafa verið þarna sem menn, eins og ég segi, köstuðu einhverjum konfektmolum, að fara einhverja millileið, teygja sig frá réttindum starfsmanna á opinberum vinnumarkaði yfir á hinn almenna. Ég get alls ekki skilið að nokkur starfsmaður geti sætt sig við þessa niðurstöðu og ég get ekki annað en velt því alvarlega fyrir mér, frú forseti, hver í ósköpunum sé í raun og veru hugur menntamálaráðherra með frumvarpi eins og þessu. Ég hef hér farið nokkuð ítarlega yfir og bent á atriði sem eru alveg skýr til þess að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins. Það er sérstakt að yfirmaður Ríkisútvarpsins, sem er að sjálfsögðu menntamálaráðherra, skuli sjá ástæðu til að ganga svona harkalega að sínu eigin starfsfólki. Er þetta ábending um að einhver hreinsun eigi að koma til? Eru þarna starfsmenn sem eru óhliðhollir menntamálaráðherra pólitískt? Hver er ástæðan fyrir því að ráðherra tekur þann pól í hæðina að leggja fram frumvarp sem sker starfsmenn svona harkalega niður í réttindum þeirra og kjörum? Í gegnum tíðina hafa opinberir starfsmenn oft litið þannig á að þeir séu með ögn lægri laun en tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði og það hafi verið vegið upp með ýmsum öðrum réttindum fyrst og fremst. Síðustu áratugi hefur oft verið minnst á að það sé ákveðið starfsöryggi, það sé a.m.k. meira starfsöryggi hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði, og það er það vissulega, síðan komi inn í þetta aukinn veikindaréttur, lífeyrismál o.s.frv. Það hefur alltaf verið, þegjandi eða ekki, það samkomulag milli ríkisvaldsins og hagsmunasamtaka opinberra starfsmanna að þó að krónutalan sé kannski eitthvað ögn lægri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði séu í kjarasamningum og í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ýmis ákvæði, ýmis réttindi sem vega upp hin beinhörðu laun. Má þar m.a. nefna fæðingarorlofið þar sem opinberir starfsmenn fá orlof ofan á þann tíma sem þeir eru í fæðingarorlofi en svo er ekki hjá starfsfólki á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta er sú leið sem hefur verið farin í áratugi og þeir sem hafa starfað hjá hinu opinbera hafa látið sig miklu skipta þessi góðu réttindi sem hefur samist um í áranna rás.

Þess vegna er það að þegar ráðherrann tekur sig til og vill skerða þessi réttindi er ráðherra í sjálfu sér beint að skerða launakjör starfsmanna. Enn og aftur er ég búinn að benda á það, herra forseti, að það er alls ekki rétt sem hér hefur verið haldið fram, m.a. af formanni menntamálanefndar, að kjör og réttindi starfsmanna skerðist ekki verði þetta frumvarp að lögum. Það er alls ekki rétt, þetta mun m.a. þýða óbeina launaskerðingu.

Í þessari samantekt kemur fram, eins og ég benti á rétt áðan varðandi fæðingarorlofið, að það er mismunandi réttur milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði þar sem starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem eru í fæðingarorlofi fá ekki orlofslaunin greidd ofan á þann tíma. Margur reynir oft að segja að það sé svo mikil ósanngirni á milli samninga á almennum vinnumarkaði og hinum opinbera. Ef svo er, af hverju þá að fara þá leið að fækka starfsmönnum með einu stykki lagafrumvarpi? Ef þetta er ósanngjarnt, af hverju er þá ekki reynt að semja upp á nýtt? Af hverju er verið að koma, eins og bent hefur verið á, aftan að starfsmönnum? Af hverju setjast menn ekki hreinlega niður og endurskoða þau atriði sem menn eru ósáttir við? Af hverju fara menn í þennan feluleik og laumast til að skera harkalega niður launakjör opinberra starfsmanna og þá sérstaklega í þessu tilfelli starfsmanna Ríkisútvarpsins? Það er að sjálfsögðu mun réttara að breyta frekar almennum lögum en fara þessa bakdyraleið.

Eitt af því sem Lára bendir starfsfólki Ríkisútvarpsins á, og hefði ekki veitt af að hæstv. menntamálaráðherra hlustaði á, er að passa þarf, sérstaklega varðandi starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu ohf., að starfsmenn haldi öllum sínum áunnu réttindum og starfsaldurinn þarf að sjálfsögðu að teljast alveg frá upphafsdegi ráðningar hjá RÚV og öll önnur ávinnsla réttinda.

Eins og ég minntist á áðan, herra forseti, skipta öll þessi réttindi sem ég hef tæpt hér á opinbera starfsmenn gífurlega miklu máli. Þau eru í hugum starfsmanna Ríkisútvarpsins laun. Menn hafa notað orðið „kjör“. Þessi kjör telja starfsmenn Ríkisútvarpsins til launa. Þeir sætta sig við ögn lægri laun en á almennum vinnumarkaði en í staðinn er það vegið upp með því sem var og ég minntist á hér áðan — þótti mest um vert á árum áður — starfsöryggi. Eins og menntamálaráðherra og ríkisvaldið láta núna og hafa látið síðustu missiri er greinilega hvergi orðið starfsöryggi lengur hjá ríkisstofnun. Ef þetta frumvarp verður samþykkt, hvað kemur þá næst?

Samþykkt eða ekki. Eins og kerfið er í dag, herra forseti, er búið að tilkynna okkur það nokkuð skýrt í þessum svokölluðu herlögum sem minnst var á hér í dag að þingið skuli ekkert annað gera fyrr en það hefur lokið við að ræða þetta mál út og öllu öðru vísað til hliðar. Þvingunin er algjör. Þvingun og hótun, ekkert annað skal tekið á dagskrá. Það hlýtur að vera, herra forseti, ámælisvert að taka upp slík vinnubrögð og sérstaklega að þau skuli vera samþykkt af forseta þingsins.

Í þessari greinargerð er minnst á veikindarétt og veit ég til þess eftir samtöl við starfsmenn Ríkisútvarpsins að það veldur þeim miklum áhyggjum að breyting yfir í Ríkisútvarpið ohf. muni skerða veikindarétt þeirra starfsmanna.

Hið sama á við um orlofsréttinn. Betur hefur tekist til í samningum hjá samtökum BHM og BSRB varðandi orlofsrétt en á almennum vinnumarkaði og gjörsamlega ótækt ef það á að skerða þau kjör með þessu frumvarpi.

Í greinargerðinni sér Lára V. Júlíusdóttir ástæðu til að taka sérstaklega fyrir aðild að stéttarfélögum. Ég held að það sé rétt að ég lesi þetta bara hreinlega hérna upp, þetta er stutt og laggott, með leyfi herra forseta:

„Starfsmenn RÚV eru nú félagsmenn allnokkurra stéttarfélaga. Þau helstu eru Félag fréttamanna, Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins, Rafiðnaðarsamband Íslands, Útgarður, Efling, Stéttarfélag verkfræðinga og Kjarafélag tæknifræðinga. Nokkur þessara félaga, Félag fréttamanna, Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins og Útgarður, eru alfarið félög opinberra starfsmanna og þau tvö fyrstnefndu væntanlega að stærstum hluta til einungis félög þeirra sem eru í starfi hjá RÚV. Þau starfa ekki á almennum vinnumarkaði og gera ekki kjarasamninga við aðra en fjármálaráðuneytið. Við breytingu á RÚV yfir í hlutafélag er ein leiðin fyrir þessi félög að breyta lögum sínum og aðlaga þau því að þau hafi kjarasamningsumboð fyrir félagsmenn sína á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Önnur leið væri sú að tvö fyrsttöldu félögin leystust upp en félagsmenn allra félaganna færu í þau stéttarfélög á almennum vinnumarkaði sem semja fyrir sambærileg störf annars staðar. Þau félög væru þá helst RSÍ og VR. Starfsmenn RÚV sem nú eru félagsmenn RSÍ, Eflingar, Stéttarfélags verkfræðinga og Kjarafélags tæknifræðinga þurfa væntanlega ekki að hafa áhyggjur af félagsaðild sinni í þeim félögum þar sem þau gera nú þegar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Rétt er að taka fram að lögin um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eiga að tryggja öllum starfsmönnum RÚV óbreytt kjör út kjarasamningstímabilið.“

(Forseti (JónK): Ég vil beina því til hv. þingmanna að trufla ekki ræðumann, tala aðeins á lægri nótum.)

Þakka þér fyrir það, herra forseti. Ég held að ég sé gjörsamlega búinn að gleyma hvar ég var þannig að ég held að ég verði að byrja upp á nýtt. (Gripið fram í: Trufluðum við svona voðalega?) (Gripið fram í.)

Það sem ég var að tala um hér, herra forseti, var aðild starfsmanna RÚV að stéttarfélögum. Hér eru leiddar líkur að því að ef RÚV verður breytt í hlutafélag geti það leyst upp nokkur stéttarfélög. Þá er væntanlega verið að tala um Félag fréttamanna og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins. Þetta finnst mér mjög athyglivert, herra forseti. Og enn og aftur erum við komin hér að punkti sem ég minntist á í upphafi ræðu minnar að ég mundi benda á. Ég er að tala um einbeittan vilja yfirvalda til að setja þessi lög um Ríkisútvarpið ohf., annars vegar til þess að undirbúa sölu á því og hins vegar til að skerða réttindi og kjör opinberra starfsmanna.

Hér er lögfræðingur að leiða líkur að því að verði þetta frumvarp samþykkt þýði það mögulega að tvö stéttarfélög verði leyst upp. Það yrðu Félag fréttamanna og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins. Hér erum við enn og aftur komin að kjarna málsins. Það hefur verið nokkuð ljóst síðustu missirin að margur, sérstaklega þeir sem teljast til Sjálfstæðisflokksins, sjái ofsjónum yfir stéttarfélögum í dag og vilji hreinlega losna við þau. Ég held að hér séum við komin að þeim punkti að verði þetta frumvarp samþykkt sé möguleiki á að hér sé Sjálfstæðisflokkurinn búinn að fækka um tvö starfsmannafélög, þ.e. Félag fréttamanna og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins.

Hvers vegna? Mér er hulin ráðgáta þessi áhersla á að reyna að ná niður stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Ég held enn og aftur að það sé einfaldlega liður í einkavæðingu og einstaklingshyggju að ganga svona langt.

En þetta er þó a.m.k. komið á blað, herra forseti, og mér fyndist rétt að forsvarsmenn frumvarpsins svöruðu því hreinlega hvort þarna sé ekki enn og aftur búið að finna megintilganginn með þessu frumvarpi, þ.e. að fækka stéttarfélögum í landinu.

Þá erum við komin að ráðningarsamningum. Í greinargerðinni ráðleggur lögfræðingurinn starfsmönnum að gera ráðningarsamning, að sjálfsögðu, en að það sé skýrt og nákvæmlega tekið fram í honum um öll réttindi hans, þau réttindi sem starfsmaðurinn er búinn að ávinna sér, upphafstími ráðningar og lífeyrisréttindi, biðlaunaréttindi, áunninn veikindaréttur, orlofsréttur, uppsagnarréttur og viðbótarréttur vegna fæðingarorlofs.

Jafnframt er talin ástæða til að taka sérstaklega fram í hvaða stéttarfélagi viðkomandi starfsmaður vill vera og gæti það orðið snúið ef verður af því sem leitt er að líkum að þetta frumvarp muni valda því að tvö félög þurfi að leggjast hreinlega niður.

Mér vitanlega, herra forseti, hafa ekki enn þá fengist svör við spurningum starfsmanna um hvort þeir fái áfram að vera í sömu stéttarfélögum. Þeir hafa óskað sérstaklega eftir því að fá að vera áfram í sömu stéttarfélögum og að samningsaðilar fyrir þeirra hönd séu áfram samtökin BHM og BSRB. Þessu hefur ekki verið svarað skýrt svo óyggjandi sé, einhverra ástæðna vegna.

Þetta síðasta sem ég minntist á, varðandi samningsréttinn, er einmitt sérstaklega tekið fram í umsögn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins um þetta frumvarp, þar sem þeir taka fram að þeir vilji halda samningsrétti sínum fyrir hönd núverandi starfsmanna og þeirra sem ráðnir verða eftir breytingu á rekstrarformi. Jafnframt tekur Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins það skýrt fram að þeir vilji áfram vera innan raða BSRB.

Þessu hefur í sjálfu sér ekki verið svarað enda er hvort tveggja í lausu lofti. Þeir taka jafnframt fram að þeir vilji að félagsmenn, bæði núverandi og þeir sem verða ráðnir eftir breytingar á rekstrarformi, verði í lífeyrissjóði starfsmanna. Að auki leggur félagið áherslu á að allir félagsmenn haldi núverandi réttindum sínum og vill að þeim verði boðin sömu eða sambærileg störf eftir breytingu. Að öðru leyti vísa þeir til umsagna þeirra sem ég hef farið yfir hér í dag, umsagna BHM og BSRB.

Þarna koma alveg skýrt fram óskir starfsmanna og þeir leggja sérstaklega áherslu á að þeim verði boðin sömu eða sambærileg störf eftir breytingu. Einhverra hluta vegna hefur hvorki menntamálaráðherra né menntamálanefnd séð ástæðu til að taka fram varðandi störf annað en það að núverandi starfsmönnum verði boðin störf hjá RÚV ohf.

Það er algjörlega óásættanlegt að ekki skuli tekið fram að þótt ekki sé um sömu störf að ræða séu það a.m.k. sambærileg störf, því að eins og ég fór yfir áðan, herra forseti, verð ég að ítreka enn og aftur áhyggjur mínar af því hvað geti gerst varðandi starfsfólkið ef þetta frumvarp verður samþykkt. Það er ekki nóg með að áminningarferlið, andmælaréttur og allt slíkt falli niður þannig að útvarpsstjóri geti rekið menn þegar honum sýnist, heldur er þarna opnaður sá möguleiki að starfsfólki sé bara boðið eitthvert starf jafnvel þótt útvarpsstjóri viti fyrir fram að það sé starf sem starfsmanni hugnist ekki og finnist hann jafnvel færður niður eða að hann gagnist kannski ekki vel í því starfi. Það er eiginlega alveg sama hvar maður ber niður, í þessu frumvarpi eru alls staðar gildrur sem ganga út á það eitt að skerða kjör og réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Eins og ég hef áður sagt má vel vera að hv. menntamálanefnd hafi ekki áttað sig á þessu en hefði að sjálfsögðu átt að gera það með því að fara vel yfir þau gögn og ábendingar sem nefndinni hafa borist. Þrátt fyrir að ráðherra og fleiri hrósi sér fyrir það í þessu frumvarpi hversu margir gestir komu fyrir menntamálanefnd — það er að vísu óhætt að segja það og ég hef sagt það áður varðandi störf formanns menntamálanefndar að það er jákvætt hversu viljugur hann hefur verið til að kalla fólk fyrir nefndina og kalla eftir upplýsingum og öðru þó að stundum hafi það kannski verið seint og um síðir, — þá er samt athyglisvert að ekki er að sjá, miðað við þær breytingar sem menntamálanefnd hefur gert á frumvarpinu á milli umræðna og eftir að hafa átt samtöl við fjölda gesta og fengið álit þeirra, að nefndarmenn hafi mikið hlustað á þá eða fundist mikið til um þær athugasemdir sem borist hafa. Það hafa sáralitlar breytingar verið gerðar og í raun og veru sjá það allir sem vilja að þær breytingar sem hafa verið gerðar hafa annaðhvort verið til að leiðrétta einhver tæknileg mistök eða eru meira einhver sýndarmennska.

Okkur hefur að sjálfsögðu líka borist umsögn frá sjálfum útvarpsstjóra, sem er svolítið merkilegt af því að væntanlega hefur hann komið mikið að samningu frumvarpsins.

Hér segir m.a. í umsögn frá útvarpsstjóra, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er tekið á flestum atriðum sem máli skipta og þeim yfirleitt vel fyrir komið.“

Atriði sem máli skipta? Þarna er útvarpsstjóri að sjálfsögðu hollur sjálfum sér eða húsbónda sínum, því það er ekki tekið á öllum atriðum sem máli skipta, það er alls ekki tekið nægilega vel á málefnum starfsfólks. Það er ekki er hægt annað en að kíma yfir þessum orðum í umsögn útvarpsstjóra. Hér er heldur ekkert um starfsfólkið og skyldi engan undra þó að útvarpsstjóri sjái ekki ástæðu til að tala um það í þessu frumvarpi. Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar yfir þessa umsögn.

Margir hafa velt upp atriðum sem gætu átt eftir að kosta mikið streð í framtíðinni fyrir Ríkisútvarpið, atriðum sem eiga eftir að kosta kærur og jafnvel dóma á hendur Ríkisútvarpinu. Ég hef farið yfir nokkur þeirra en því miður er ekki á það hlustað.

Það hefur líka verið minnst á það í dag að starfsfólk Ríkisútvarpsins hafi lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa ekki lýst yfir stuðningi við frumvarpið óbreytt. Það dugir alls ekki að reyna að tjá þeim með nokkrum orðum útvarpsstjóra að réttindi þeirra séu tryggð því að þessi setning er of stutt hjá útvarpsstjóra. Tryggð hve lengi? Þau eru tryggð þangað til næsti kjarasamningur er gerður sem er eftir eitt ár. Það er allur sannleikurinn og er hluti af ástæðunni fyrir því hversu mikið liggur á þessu frumvarpi, m.a. að keyra það í gegn áður en samningar eru lausir, sem yrði væntanlega 2008, og þá mundu öll þau atriði sem ég og fleiri höfum bent á hér varðandi réttindi og skyldur starfsmanna dragast inn í kjarasamningana o.s.frv. Það er nokkuð ljóst að það er hluti af ástæðunni fyrir þessum hamagangi, því að eins og komið hefur fram hefur verið tekið alveg skýrt fram að þingheimur mun ekki ræða um neitt annað á hinu háa Alþingi fyrr en að þessari umræðu er lokið og allt sett úr skorðum.

Herra forseti. Ég er hér með umsögn frá Félagi fréttamanna um frumvarpið. Þar tekur félagið alveg sérstaklega fram að það fari þess á leit við menntamálanefnd að hún skoði eða eins og þar er sagt að horft verði alvarlega til þeirra atriða sem nefnd eru þar varðandi meðferð frumvarpsins og að gerðar verði breytingartillögur við frumvarpið milli 1. og 2. umr. Þetta var ritað 6. nóvember sl.

Breytingar í þessa átt voru ekki gerðar. Menntamálanefnd sá ekki ástæðu til að gera breytingar í samræmi við þær ábendingar sem komu fram frá forsvarsmönnum Félags fréttamanna þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því að horft yrði alvarlega til þessara atriða.

Nú er ég hættur að ræða um starfsmenn almennt og farinn að ræða þetta þrengra og er kominn að ákveðnum starfsmönnum útvarpsins sem eru fréttamenn. Ég sé ekki ástæðu til að að taka úr þessu helstu atriðin, herra forseti, ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp að mestu leyti þau atriði sem Félag fréttamanna sá ástæðu til að óska eftir að tekið yrði tillit til við meðferð frumvarpsins hjá menntamálanefnd. Þeim er skipt í tvennt, það eru annars vegar réttindaleg atriði og hins vegar fagleg atriði. Ég held að það hljóti að verða svo að þegar ég er búinn að fara yfir þessi atriði líka þá fari að renna upp ljós fyrir alhörðustu meðmælendum frumvarpsins hversu gífurlega skerðingu hér er um að ræða á kjörum og réttindum starfsmanna RÚV. Ég velti því upp hvort það sé viljandi eða óviljandi. Ef þingmenn hafa ekki áhuga á að taka þessi atriði upp og lagfæra frumvarpið hlýtur það að vera viljandi.

Í umsögn frá Félagi fréttamanna, sem var rituð 6. nóvember sl., varðandi réttindaleg atriði segir, með leyfi forseta:

„Félag fréttamanna leggur áherslu á að tilvist félagsins verði viðurkennd sem bæði fagfélag fréttamanna og stéttarfélag sem fer með umboð til að ganga til kjarasamninga fyrir hönd fréttamanna, hvort sem um slík samskipti við Ríkisútvarpið ohf. fer eftir lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.“

Það er mjög athyglisvert, herra forseti, að nefndin skuli ekki hafa séð ástæðu til að verða við þessari ábendingu frá viðurkenndu fagfélagi og stéttarfélagi fréttamanna varðandi kjarasamninga.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Félagið leggur megináherslu á að öll þau réttindi sem félagsmenn þess hafa sem starfsmenn Ríkisútvarpsins samkvæmt núgildandi lögum“ — ég vek athygli á því að við erum ekki bara að tala um kjarasamninga heldur um réttindi samkvæmt lögum — „og kjarasamningum haldist óbreytt við breytingu á rekstrarformi stofnunarinnar, þar með talið réttur fréttamanna til töku tveggja mánaða leyfis, hliðstætt samningum blaða- og fréttamanna á almenna markaðnum.“

Jafnframt segir:

„Félagið vekur athygli á því að í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II við frumvarpið segir að „Ríkisútvarpið ohf. [skuli] bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins“. Ekki er þar kveðið á um að starfsmönnum skuli boðin sömu eða sambærileg störf og þeir gegndu hjá Ríkisútvarpinu sem ríkisstofnun. Félag fréttamanna krefst þess að búið verði svo um hnúta í lagatextanum að kveðið verði á um að fréttamönnum og öðrum starfsmönnum Ríkisútvarpsins skuli boðin sömu störf hjá Ríkisútvarpinu ohf. og þeir gegndu hjá Ríkisútvarpinu sem stofnun.“

Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum, herra forseti, sem ég hef hér ítrekað bent á að yfirleitt þegar verið er að breyta stofnunum er tekið fram að boðin skuli sömu störf eða sambærileg störf. Hvorugt er gert í þessu tilviki og það hlýtur að vera eitthvað á bak við það, einhver ástæða fyrir því að hætt er að tala um sömu störf eða sambærileg störf, það hlýtur að snúast um það að menn hafi eitthvað annað í hyggju. Annars væri búið að taka þessari ábendingu hér og frá öðrum aðilum, sem eru þó nokkuð margir, sem bent hafa á þennan galla.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Félagið leggur mikla áherslu á að kveðið verði á um í lögum um Ríkisútvarpið ohf. að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gildi áfram um starfsmenn Ríkisútvarpsins eftir rekstrarformsbreytingu yfir í opinbert hlutafélag, en það munu þau ekki gera að óbreyttu frumvarpi. Hér hefur félagið m.a. í huga þau eðlilegu réttindi sem lög nr. 70/1996 kveða á um að starfsmenn hafi, svo sem um skyldu til áminningar í vissum tilvikum, sbr. 21. gr. laganna,“ o.s.frv.

Enn og aftur er bent á og fullyrt, herra forseti, sem mér finnst vera alvarlegt mál og ég held að hinn almenni þingmaður hafi ekki áttað sig á, að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, munu ekki gilda áfram um starfsmenn RÚV að frumvarpinu óbreyttu. Þessi fullyrðing frá Félagi fréttamanna og sem hefur komið frá mörgum öðrum stangast hressilega á við þær fullyrðingar sem flutningsmenn frumvarpsins hafa komið með. Ef menn geta deilt um það á hinu háa Alþingi hljóta menn líka að deila um það í þjóðfélaginu og þá væntanlega í framtíðinni. Ég hef þegar bent á einn dóm varðandi stofnun sem var breytt yfir í fyrirtæki þar sem menn deildu um hvort lögin um réttindi og skyldur og þá sérstaklega áminningarferlið gilti eða ekki eftir breytingu og sitt sýndist hverjum.

Hér segir alveg skýrt og er í raun meginmergur málsins, herra forseti, og ég hef sagt vera mjög alvarlegan galla, þ.e. að þetta er túlkað flutningsmönnum í hag, það sem þeim finnst vera sér í hag, það sem menntamálaráðherra finnst vera sér í hag, en sú túlkun er röng.

Það segir í frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. á bls. 5, um réttindi starfsmanna í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Þegar stofnunin Ríkisútvarpið verður lögð niður, frá og með 1. febrúar 2007, fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.“

Þessi málsgrein stangast algjörlega á við það sem ég hef verið að fara yfir, herra forseti. Það er einkennilegt að nefndarmenn skuli leggja fram frumvarp þegar margítrekað hefur verið bent á í mörgum umsögnum að þessi málsgrein standist einfaldlega ekki. Það kemur m.a. fram í umsögn frá Félagi fréttamanna þar sem sagði að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi ekki að óbreyttu frumvarpi. Þetta kemur alveg skýrt fram í opinberu plaggi frá Félagi fréttamanna og þetta kemur líka fram á öðrum stöðum og er rétt að ítreka að þetta stenst engan veginn. Það er mjög sérstakt að menn skuli annars vegar láta frá sér frumvarp og hins vegar það sem kannski er enn þá verra, herra forseti, að þingnefnd skuli síðan áfram láta frá sér frumvarp þar sem er alveg skýrt að þar er röng fullyrðing varðandi réttindi starfsmanna.

Þetta kemur fram hjá Félagi fréttamanna og einnig í því lögfræðiáliti sem ég fór yfir áðan þar sem segir í samantekt Láru V. Júlíusdóttur, með leyfi forseta:

„Við niðurlagningu stofnunarinnar breytist lagalegt umhverfi starfsmanna RÚV. Þeir hætta að vera opinberir starfsmenn og verða eftir það starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsmennina eftir breytinguna.“

Þetta er svolítið sérstakt að þrátt fyrir að þær ábendingar hafi komið og eru löngu fram komnar frá fleiri en einum aðila, frá fleiri en tveimur aðilum er alveg með ólíkindum að nefndarmenn skuli ekki taka þetta til athugunar þó ekki meira væri. Miðað við það sem ég hef bent á stemmir þessi málsgrein, 1. mgr., alls ekki um réttindi starfsmanna, í II. ákvæði til bráðabirgða. En vilji menn fara í deilur og lögfræðiátök halda menn þessu náttúrlega óbreyttu, en vilji menn forðast slíkt og standa við það sem þeir hafa sagt að réttindi um kjör starfsmanna séu tryggð eiga þeir að sjálfsögðu að draga frumvarpið til baka, þó ekki væri nema tímabundið, til að skoða sérstaklega þessa málsgrein og gera bætur á. Hún er, eins og ég hef rökstutt, röng og ekki sæmandi að senda frá sér slík lög sem menn vita fyrir fram að þeir munu aftur fá í hausinn.

Ég var að fara yfir, herra forseti, umsögn Félags fréttamanna. Það er nú svo að þessar umsagnir styðja hver aðra og styðja enn frekar við þann málflutning sem ég hef haldið á lofti og því eðlilegt að maður staldri annað slagið við til að bera þetta saman.

Í umsögn Félags fréttamanna kemur í fjórða lagi eftirfarandi fram, það er best að ég lesi þetta orðrétt, með leyfi forseta:

„Félag fréttamanna krefst þess jafnframt að kveðið verði á um það í lögum um Ríkisútvarpið ohf. að stjórnsýslulög, nr. 37/1993, muni áfram gilda um starfsemi Ríkisútvarpsins eftir breytingu á rekstrarfyrirkomulagi. Þær réttarreglur valda því að ákvarðanataka í einstökum málum er varða réttindi og skyldur starfsmanna verður að byggjast á málefnalegum forsendum og röksemdum auk þess sem hafa verður í heiðri jafnræðisreglu og ýmsar formreglur sem til þess eru fallnar að tryggja starfsmönnum ákveðna réttarvernd. Slíkar reglur munu ekki gilda um Ríkisútvarpið ohf. nema skýrt sé kveðið á um það í frumvarpinu að þær gildi.“

Í fimmta atriðinu sem Félag fréttamanna bendir á í umsögn sinni er minnst á biðlaunaréttinn sem ég hef farið nokkuð vel yfir fyrr í ræðu minni.

Síðan minnast þeir að sjálfsögðu á lífeyrisréttindin þar sem félagið krefst eða eins og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Varðandi lífeyrisréttindi krefst Félag fréttamanna þess að búið verði svo um hnúta með ótvíræðum hætti í lögum um Ríkisútvarpið ohf. að starfsmenn hins nýja hlutafélags, þ. á m. fréttamenn, geti áfram greitt iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).“

Að lokum minnist félagið á réttindaleg atriði, eins og aðrir hafa að sjálfsögðu gert, þ.e. veikinda- og orlofsrétt, þar sem þeir taka fram að veikinda- og orlofsréttur þeirra í dag sé samkvæmt kjarasamningum almennt mun meiri en á almennum vinnumarkaði, og að þeir sjái ástæðu til þess að í lögum verði það tryggt að réttindi starfsmanna haldist óbreytt eftir breytingu yfir í RÚV ohf.

Sumt af þessu ber merki þess að forsvarsmenn Félags fréttamanna eru ekki tilbúnir til að treysta í blindni orðum um að réttindi þeirra verði tryggð annars vegar og hins vegar vita þeir af, eins og þeir og fleiri hafa bent á, að 1. mgr. í ákvæði til bráðabirgða II stenst ekki þ.e. að þegar búið er að breyta því yfir í opinbert hlutafélag séu starfsmennirnir ekki lengur opinberir starfsmenn og þar af leiðandi geti lögin um opinbera starfsmenn ekki gilt. Ég hef ekki heyrt í umræðunni í dag eða gær, herra forseti, að þetta hafi verið borið til baka.

Jafnframt minnist Félag fréttamanna á fagleg atriði þar sem það óskar eftir að það sé skýrar kveðið á, skýrt og með ótvíræðum hætti kveðið á um skyldur þeirra. Þetta er athyglisvert.

Það segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Félag fréttamanna leggur áherslu á að í 3. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, verði kveðið með skýrum og ótvíræðum hætti á um að meðal þeirra skyldna sé „að starfrækja almenna, víðtæka, sjálfstæða og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni á hljóðvarps- og sjónvarpsformi“, en þessa atriðis sér ekki með skýrum hætti stað í frumvarpinu eins og það er nú. Leggur félagið til að ákvæði þessa efnis verði bætt við frumvarpið.“

Það er eiginlega alveg sama, herra forseti, hvar borið er niður, hvaða ábendingar koma og frá hverjum þær koma, það virðist ekki vera hlustað og rennir það þá enn og aftur stoðum undir það sem ég fór yfir fyrr í ræðu minni, þær athugasemdir sem varaþingmaður Framsóknarflokksins kom með í fjölmiðlum í gær og fyrradag, ef ég man rétt, þar sem hún lýsir í raun vantrausti á störf þingsins sem er að sjálfsögðu að stórum hluta stjórnað af hennar eigin flokksmönnum, þar sem Eygló Haraldsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins, lýsir því að frumvörpin komi í sjálfu sér tilbúin frá ráðuneytinu og að hennar mati frá þá einhverjum ákveðnum starfsmanni ráðuneytisins. Hún tók það sérstaklega fram að tilfinning hennar væri sú að þegar frumvarp er tekið til umræðu í nefnd telji starfsmenn ráðuneytis nánast óþarfi fyrir nefndarmenn að vera að krukka í frumvarpið. Það er svolítið sérstakt að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli sjá ástæðu til að kveðja sér hljóðs til að opinbera þetta, ég veit ekki hvort á að segja hernaðarleyndarmál, en manni dettur í hug að nota það orðatiltæki þegar menn eru farnir að tala um herlög á Alþingi.

Það er svolítið sérstakt að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli sjá ástæðu til að fara yfir málsmeðferð á Alþingi flokks síns, nema að hún sé þá að deila sérstaklega á Sjálfstæðisflokkinn. Ekki skal ég segja um það. En fyrir mörgum er það orðið eitt og hið sama í dag.

En það er mjög sérstakt að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli opinbera í fjölmiðlum þann skilning sinn á starfsháttum Alþingis að frumvarp sem komi til umræðu á Alþingi, að það sé fullmótað, komi fullmótað frá ráðherra, frá ákveðnum starfsmanni ráðuneytis og það sé hreinlega ekki ætlast til þess að neitt sé hróflað við því, að það sé neitt krukkað í það af þingmönnum almennt, ef ég man orð hennar rétt.

Ef það er rétt hjá Eygló Harðardóttur, varaþingmanni Framsóknarflokksins, að hinum almenna þingmanni sé alls ekki ætlað, hvorki stjórnarþingmanni né stjórnarandstöðuþingmanni, að hrófla við frumvarpi sem ráðherra hefur lagt fram þá er þetta sjónarspil sem hér er í gangi og við tökum þátt í, og sem almenningur hefur fyrir augum allt of fáa daga á ári. Því eins og við vitum er frumvarp lagt fram og yfirleitt er 1. umr. ljúf, síðan fer það til vinnslu í nefnd, þar eru kallaðir fyrir gestir, allt að 150 gestir, eins og menn hafa stært sig af mjög oft í dag. En þarna er Eygló Harðardóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins, í raun og veru að segja öllum þessum fjölda gesta, öllum þessum fjölda álitsgjafa sem hafa verið kallaðir til, að þeirra starf sé einfaldlega tímasóun og ekkert annað. 150 gestir, 67 eða 76 fundir hjá menntamálanefnd um Ríkisútvarpið og það muni ekki verða hlustað á einn eða neinn.

Mér finnst þetta vera háalvarlegt mál, þessi fullyrðing, frú forseti, og eflaust mundu fleiri þingmenn taka undir hana ef þetta yrði rætt alvarlega og í sjálfu sér væri ástæða til þess að taka þá umræðu sérstaklega undir Athugasemdir um störf þingsins.

En ástæðan fyrir því að ég fór út í þessar vangaveltur og að ræða þessa ábendingu er að sjálfsögðu að ég er búinn að fara yfir þó nokkuð mörg atriði sem segja okkur að þetta frumvarp skerði réttindi og kjör opinberra starfsmanna. Skerði réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins, fólks sem hefur sína kennitölu og nöfn og eru fyrirvinnur fjölskyldna sinna. Þeirra kjör verða skert.

Þrátt fyrir að allir þessir aðilar hafi eytt tíma í að undirbúa góðar umsagnir og hafi komið sem gestir fyrir menntamálanefnd, þá hafi þeir í raun og veru aldrei skipt neinu máli. Það hafi aldrei verið neinn tilgangur með því. Það er það sem varaþingmaður Framsóknarflokksins hefur fullyrt í fjölmiðlum, ekki einu sinni heldur tvisvar, að hennar upplifun af þinginu sé þannig að ef við einangrum það niður í þetta mál þá hafi þessi stóri hópur gesta aldrei skipt máli. En hæstv. menntamálaráðherra og hv. formaður menntamálanefndar og varaformaður menntamálanefndar hafa verið að hæla sér af að hafa kallað til 150 gesti, fengið umsagnir o.s.frv. Ekkert af þessu skiptir máli því það var engum ætlað að krukka í þetta frumvarp. Ég held að þetta hafi komið nokkuð ljóst fram, því þótt hægt sé að benda á að það hafi verið gerðar nokkrar breytingar þá eru þær flestar meira tæknilegs eðlis og það má segja að meiri hlutinn hafi verið píndur í að gera sumar breytingar breytinganna vegna, vegna harðrar andstöðu stjórnarandstöðunnar við frumvarpið og krafna um að menn ræði það til þaula og taki ábendingum.

Ég nefndi einnig fagleg atriði sem Félag fréttamanna ræðir um í umsögn sinni um frumvarpið RÚV ohf. Eitt af því sem er nefnt sérstaklega og mér þykir rétt að taka fram er að félagið leggi áherslu á aðgengi almennings að Ríkisútvarpinu sem opinberu hlutafélagi, að aðgangur almennings verði tryggður. Og að almenningur geti sem sagt haft áhrif á og komið skoðunum sínum á framfæri við Ríkisútvarpið ohf.

Einhverra hluta vegna sér Félag fréttamanna sérstaka ástæðu til að taka þetta fram og biðja um að skýrt sé kveðið á um slíkt aðgengi í lögunum og að sama gildi um upplýsingar um fjölmiðilinn og dagskrárstefnu hans.

En af einhverjum ástæðum, frú forseti, þá hafa menn ekki séð ástæðu til að taka þetta skýrt fram sem rennir enn og aftur stoðum undir það sem ég og fleiri hafa verið að segja, að það er í raun og veru ekkert hlustað, það er ekki ætlast til þess að aðrir en þeir sem sömdu frumvarpið í upphafi, og þá menntamálaráðherra, komi í raun og veru að gerð frumvarpsins.

Að lokum varðandi álit fréttamanna þá taka þeir einmitt fram það sem margir hafa bent á hér í dag, í gær og síðustu mánuði og ár, þeir vekja athygli á að starfssvið útvarpsstjóra er ekki skýrt skilgreint í frumvarpinu. En samt komi það í raun og veru fram og sé viðurkennt að sé þörf á slíkri skilgreiningu.

Hér segir orðrétt í 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins um útvarpsstjóra að í samþykktum félagsins megi nánar skilgreina starfssvið hans. Að mati Félags fréttamanna er réttara að gera það strax í frumvarpstextanum sjálfum.

Þetta er einmitt málið. Því hefur yfirleitt verið til svarað þegar menn hafa komið með ábendingar, að það sé ekkert mál að gera það seinna, það eigi í raun og veru bara að treysta. Það er engin ástæða til þess.

Það er eitt sem er svolítið sérstakt í þessu öllu, þegar menn eru að ræða um frumvarp sem hefur tekið litlum breytingum og er verið að leggja fram í þriðja skiptið á þremur árum, þá hlýtur það að segja fólki eitthvað þegar menn aftur og aftur þverskallast við að taka ábendingum um breytingar.

Af hverju á að lesa milli línanna? Hér kemur m.a. fram hvað menn telja að sé best að sé algerlega skýrt og komi skýrt fram öllum til hagsbóta. Því öll viljum við hafa Ríkisútvarpið og ekki vantar vinsældirnar miðað við kannanir. En af hverju er ekki hlustað?

Ég taldi rétt að fara aðeins yfir faglega þætti frá Félagi fréttamanna. Ég hef aðallega verið að taka fyrir starfsmenn, ábendingar frá hagsmunasamtökum, lögfræðingum og fleirum varðandi starfsmenn og taldi rétt að taka þessa hlið líka með þar sem fagaðilar innan Ríkisútvarpsins sjá ástæðu til að koma með ábendingar. Það er svolítið sérstakt að það er eiginlega nákvæmlega sama hver kemur með ábendingar, það er ekki hlustað á neinn.

Ef það er svo mikilvægt að setja ný lög um Ríkisútvarpið þá eiga þau að sjálfsögðu að vera vönduð. Þetta er stofnun sem er 75 ára gömul, (Gripið fram í.) eða 76, 77, fæ ég leiðrétt úr salnum. Að vísu hafa lögin einhvern tímann verið endurskoðuð. En þegar menn eru að setja ný lög um allt rekstrarformið, setja jafnvel með því þjónustusamning eða annað, af hverju gera menn það þá ekki almennilega? Hvað liggur á? Svarið við því er alltaf það sama. Það er búið að ræða þetta í þaula fram og til baka.

Það er rétt, frú forseti, það er búið að ræða þetta mál töluvert mikið. Það er alveg rétt. Það er búið að varpa fram ýmsum sjónarmiðum. Ég hef m.a. sýnt fram á t.d. varðandi grein í ákvæði til bráðabirgða II að lögin stangist hreinlega á við önnur lög, sem veldur því að m.a. formaður menntamálanefndar lýsir því yfir að réttindi og kjör starfsmanna séu tryggð í þessum lögum. En það er alls ekki rétt. Flaustursgangurinn og lætin við að koma þessu í gegn eru þannig að það má ekkert stoppa.

Hvers vegna? Nú þegar ég stend hér þá rifjast upp fyrir mér þegar ég tók þátt í umræðu um svokölluð vatnalög fyrir um ári síðan. Þá voru menn skammaðir fyrir miklar umræður. En stór hluti af þeim umræðum, eins og kom í ljós seinna, var til þess fallinn að skýra frumvarpið, að skýra galla þess. Það kom í ljós þegar virkilega á reyndi og menn gáfust upp á að reyna að troða því frumvarpi hér í gegn, eða eins og þáverandi viðskiptaráðherra sagði, þegar búið var að upplýsa þjóðina loksins um grunntilgang vatnalagafrumvarpsins þá tilkynnti ráðherra að hún hefði einfaldlega misskilið frumvarpið.

Kannski varð sú mikla málefnalega umræða til þess að hæstv. ráðherra skildi frumvarpið. En það sem við sem tókum þátt í þeirri umræðu vorum að benda á var mjög alvarlegt atriði þar sem með því frumvarpi hefði ráðherra einn einfaldlega getað ráðið því hverjir fengju rétt til að virkja auðlindir í jörðu.

Af hverju leiði ég hugann að þessu? Það er vegna þess að þegar fólki liggur mikið á og tekur ekki rökum, eins og er greinilega ekki gert í umræðunni nú, hvorki í sölum Alþingis né heldur í herbergi menntamálanefndar, þá hlýtur maður alltaf að leiða hugann að því hvað sé á bak við og jafnvel hvort það sé eitthvað óhreint. Að vísu vefst það fyrir stjórnmálamönnum og er misjafnt hvað menn kalla óhreint. En þetta hlýtur að leiða hugann að því að það vaki fyrir mönnum að selja Ríkisútvarpið. Mögulega er hreinlega búið að ákveða allan þann feril. Af hverju liggur mönnum svona á að klára þetta núna ekki seinna en korteri fyrir kosningar? Eru menn búnir að ákveða framhaldið? Eru menn jafnvel búnir að ákveða hverjir verða kaupendur? Eða ætla menn mögulega að leggja það algerlega niður?

Ég veit það ekki en ég spyr, frú forseti, því að svo margt hefur komið manni á óvart varðandi vinnu í kringum þetta frumvarp alveg frá upphafi. Ég segi að sjálfsögðu „þetta frumvarp“ því að þótt bætt hafi verið við eða færður til bókstafur þá er þetta sama frumvarpið og fyrir þremur árum og ég held að á bak við leynist frumvarpið frá því fyrir fjórum árum þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu um að einkavæða Ríkisútvarpið.

Fleiri hafa sent inn umsagnir en af einhverjum ástæðum hafa þær ekki hlotið náð fyrir augum menntamálanefndar. Þetta ber allt að sama brunni. Ég er búinn að telja upp atriði varðandi starfsmennina, þau eru margítrekuð af mörgum aðilum og sérstaklega þetta. Ég tók eftir því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins yfirgaf salinn þegar ég fór sérstaklega yfir það að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi ekki lengur um starfsmennina verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Þar eru atriði sem eiga í sjálfu sér alveg að duga til að frumvarpið verði tekið aftur inn í nefnd og endurskoðað þar því að þarna á eftir að skapast lagaleg flækja.

Helstu atriði sem falla niður af þessum sökum eru eins og ég hef minnst á andmælaréttur, áminningarskylda, rökstuðningur fyrir uppsögn, auglýsingaskylda á lausum störfum, aðgangur almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfrestur og þagnarskylda. Eitt sem ég minntist lauslega á fyrr í dag, frú forseti, og er ástæða til að endurtaka er það að eins og fram kemur í þessum umsögnum að verði frumvarpið að lögum fellur niður sú krafa á útvarpsstjóra að auglýsa laus störf, auglýsa eftir starfsfólki. Benti ég jafnvel á nokkuð merka staðfestingu á því að útvarpsstjóri væri í raun og veru byrjaður, eins og menn gáfu í skyn í dag en fundu þess kannski ekki stað, að starfa eftir frumvarpinu, frumvarpi sem aldrei verður samþykkt, frumvarpi sem útvarpsstjóri er búinn að ákveða að verði samþykkt og hefur verið mjög meðmæltur.

Fyrr í dag komu upp þær vangaveltur hvort það lægi svona mikið á vegna þess að útvarpsstjóra hefði hreinlega verið lofað þegar hann var ráðinn til starfa hjá Ríkisútvarpinu að þær breytingar sem koma fram í frumvarpinu yrðu að lögum hvað sem hver segði. Alla vega er alveg ljóst að útvarpsstjóri er nú þegar búinn að ákveða að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gildi ekki, þrátt fyrir það, eins og ég benti á áðan, að í frumvarpinu komi það skýrt fram í ákvæði til bráðabirgða II að þau lög eigi að gilda.

Ég benti á það fyrr í máli mínu að nokkrir aðilar, þar á meðal löglærðir aðilar, hafi ítrekað bent á að verði frumvarpið að lögum muni lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sjálfkrafa falla niður þar sem þeir teljist ekki lengur opinberir starfsmenn. Menn geta deilt um það en ef ég hef rangt fyrir mér að þau falli ekki niður, þ.e. að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna haldi ef frumvarpið verður að lögum, hvernig stendur þá á því að útvarpsstjóri er byrjaður að ráða fólk án þess að uppfylla ákveðna kröfu um auglýsingaskyldu, að auglýsa störf? Ef það er rétt að þessi lög gildi áfram um Ríkisútvarpið af hverju er útvarpsstjóri þá nú þegar byrjaður að svína á þeim?

Velji menn nú, hvort halda þau áfram eins og flutningsmenn hafa fullyrt eða falla úr gildi? Eiga þau ekki lengur við eins og lögfræðingar hafa bent á og ég hef hér reifað? Hvort heldur er, hvernig í ósköpunum stendur á því að útvarpsstjóri er þegar byrjaður að vinna eftir frumvarpinu og jafnvel að brjóta ákvæði um réttindi starfsmanna þar sem hann hefur þegar ráðið starfsfólk án þess að auglýsa störfin?

Hvers vegna segi ég þetta, frú forseti? Jú, þetta kemur fram í viðtali í Viðskiptablaðinu föstudaginn 16. desember 2005. Ég hafði nú ekki séð fyrstu setninguna en hér er mynd af útvarpsstjóra og þar stendur, að vísu í texta fyrir neðan, að hann verði valdamesti útvarpsstjóri sem Ríkisútvarpið hafi haft ef lögin taki gildi. Það var nú ekki það sem ég ætlaði að benda á, frú forseti, ég ætlaði að vitna í viðtalið þar sem þetta kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Páll segir að ný lög auki möguleika stofnunarinnar til þess að keppa um starfsfólk. „Ég hafði reyndar ekki þolinmæði til að bíða eftir lagabreytingunni til að bregðast við vegna ráðningar starfsfólks í Kastljós“.“ Síðar segir: „Ég hefði þá þurft að byrja á því að auglýsa stöður.“

Hér viðurkennir útvarpsstjóri, og hlýtur að fá ámæli fyrir það, að hafa nú þegar brotið lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um að auglýsa eigi stöður.

Ég hef jafnframt farið hér yfir þá staðreynd, sem við höfum reynt að vara við á undanförnum missirum, að það muni koma upp deilur, verði frumvarpið að lögum, á milli starfsmanna og stjórnenda en það hefur nú þegar gerst í fleiri en einu tilfelli. Ljósasta dæmið í dag er að sjálfsögðu hjá Matís, sem er í dag hlutafélag fyrir það sem áður hét Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir í Keldnaholti og Rannsóknarstofa Umhverfisstofnunar. Þær stofnanir voru sameinaðar og gerðar að hlutafélagi. Þessu var að sjálfsögðu mótmælt af stéttarfélögum á sínum tíma og eitt af því sem menn höfðu áhyggjur af og er komið fram er það að stjórnendur Matís höfðu ekki áhuga á að virða þann rétt starfsmanna að vera í stéttarfélögum. Og það hefur komið á daginn að stjórnendur Matís hafa ekki áhuga á að semja við starfsmenn í gegnum gömlu stéttarfélögin heldur, eins og það hefur verið orðað hér, króa stjórnendur starfsfólkið af og reyna að gera samninga við hvern og einn. Slíkir samningar eru væntanlega bundnir þagnarskyldu, svokallaðri launaleynd, og eru ekki þekktir fyrir að vera til góðs fyrir starfsfólkið og alls ekki fyrir konur því að launaleynd er talin bitna hvað helst á konum, þ.e. að hún stuðli að kynbundnu launamisrétti.

Úr því að við erum farin að tala um Matís — og það hlýtur að vera eðlilegt, frú forseti, að menn tali um það fyrirtæki sem er í þeim vaxtarverkjum núna sem fyrirtæki lenda í eftir að þeim hefur verið breytt í opinber hlutafélög með loforðum um réttindi starfsmanna o.s.frv. — þá finnst mér mjög athyglivert að í frumvarpi til laga um stofnun Matís kemur fram mjög veigamikill punktur sem rennir stoðum undir það að stjórnendur opinberra fyrirtækja í dag og þeir sem ráða í dag, þ.e. stjórnvöld, vilji koma stéttarfélögum á kné og skerða, eins og ég hef margoft reynt að segja mönnum hér, réttindi og kjör starfsmanna. Því það segir, frú forseti, í athugasemdum við frumvarpið, í kafla 7.1 um hlutafélagaformið sem er nokkuð góður kafli, neðsta línan er að sjálfsögðu aðalatriðið en til að ná samhengi ætla ég að fá að lesa hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Stjórnendur hjá A-hluta ríkisaðila eru háðir meiri takmörkunum í rekstri en stjórnendur fyrirtækja með annað rekstrarform. Helstu ástæðurnar eru þær að ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á rekstri sem það stendur fyrir. Stjórnendur ríkisstofnana ráðstafa tekjum sem aflað er með skattheimtu og ríkið hefur ákveðnar skyldur í þágu samfélagsins sem skilgreindar eru í lögum. Ríkisaðilar geta því ekki tekið að sér hvaða verkefni sem er og einkaaðilar geta eingöngu í takmörkuðum mæli farið inn á verksvið ríkisins og keppt við það. Sem dæmi má nefna að samkvæmt lögum um starfsmenn ríkisins gilda aðrar reglur um ráðningu, uppsagnir, launamál og ýmis réttindi ríkisstarfsmanna en í atvinnulífinu almennt.“

Þetta er einmitt mergur málsins. Það er kannski ekki skrýtið að þessar setningar skyldu ekki líka hafa fylgt þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf. því að menn hafa eflaust fengið bágt fyrir að hafa vogað sér að setja hug sinn á blað með frumvarpinu um Matís ohf. Þetta er einmitt grunnurinn. Menn segja þarna einfaldlega að það vanti meiri sveigjanleika og sveigjanleiki þýðir, eins og margoft hefur verið bent á, að stjórnendur ríkisfyrirtækja þurfi að geta ráðið og rekið starfsmenn eftir „behag“ fyrirvaralaust, áminningarlaust o.s.frv. Það er akkúrat það sem verið er að uppljóstra hér og ég held að við ættum að halda þessum kafla alveg sérstaklega til haga í þessari umræðu, frú forseti, því að það er alveg með ólíkindum að menn skuli setja það á blað að ein af aðalástæðunum fyrir því að menn fari út í að oháeffa sé í raun og veru til að skerða þau kjör og réttindi sem starfsmenn þessara stofnana og fyrirtækja hafa. Hér stendur þetta algjörlega svart á hvítu og mér mun ekki leiðast að ítreka það síðar í ræðu minni. Ég held að þetta sé í raun stór hluti af mergi málsins, ef þannig má að orði komast, frú forseti, og þetta sé það sem menn vilja. Menn eru að misnota hér aðstöðu. Menn telja að gera þurfi breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins og það sé m.a. verið að létta af því pólitískum áhrifum o.s.frv.

Þeir hlutir eru kannski meira sagðir til að slá ryki í augu fólks því eins og ég er búinn að fara hér yfir vel og vandlega í dag þá er grunnurinn alltaf sá sami. Það eru þessar tvær ástæður fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram í þessari mynd. Það er annars vegar áhugi fyrir að einkavæða Ríkisútvarpið og hitt sem er alveg skýrt, og ætti að vera enn skýrara eftir þessa ræðu mína, þ.e. að ástæða setningar þessara laga eða tilraunar til setja þessi lög er tilraun til að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Eins og komið hefur fram meðal annars hjá forsvarsmönnum BHM og BSRB þá væri miklu eðlilegra að menn gengju bara hreint til verks, þ.e. ef þessi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru vandamálið. Ef þau orsaka það vandamál að ríkisstofnanir geti illa þrifist í núverandi umhverfi, af hverju vinna menn þá ekki beint í þeim lögum? Af hverju er verið að fara svona aftan að starfsfólkinu, laumast í raun til að búa til flækjur til þess að dempa áhrif laganna um réttindi og skyldur? Kjarni málsins er sá að í raun er verið að afnema þau varðandi starfsmenn Ríkisútvarpsins. Það er gengið mjög langt eins og hér hefur verið gefið í skyn og ég hef farið yfir. Líklegast þarf að leggja niður alla vega tvö stéttarfélög verði þetta frumvarp að lögum. Enn og aftur sannast því það sem menn hafa reynt að benda hér á að þetta er aðför að stéttarfélögum. Þetta er aðför að launafólki. Menn hafa væntanlega haldið að þeir kæmust upp með það. En ég held að svo verði ekki.

Verst af öllu, eins og kom fram í upphafi þessa kafla ræðunnar, er það sem ég benti á, að útvarpsstjóri er byrjaður að vinna eftir frumvarpinu. Það er vissulega ámælisvert en styður það sem varaþingmaður Framsóknarflokksins hefur haldið fram í fjölmiðlum um að álit þingmanna skipti engu máli.

Ég fór í dag meðal annars yfir aðkomu Framsóknarflokksins að þessu frumvarpi sem er nokkuð sérstök, fyrst og fremst að því leyti að Framsóknarflokkurinn telur í dag að hann hafi sýnt og sannað að hann sé algerlega á móti einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Menn hafa togast hér á um túlkun á landsfundarsamþykktum síðustu ára hjá Framsóknarflokknum.

En það kom heldur hvergi fram hjá Framsóknarflokknum í þeim ályktunum sem frá þeim hafa komið að til sé einhver heimild eða að fram hafi komið vilji hins almenna félagsmanns í Framsóknarflokknum til þess að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Því verður nú fróðlegt að sjá, frú forseti, þegar þingmenn Framsóknarflokksins fara út á akurinn núna fyrir kosningar, þ.e. ef þetta frumvarp verður samþykkt, sem ég hef nú enga trú á, en ef svo illa skyldi fara verður fróðlegt að sjá þingmenn Framsóknarflokksins svara fyrir það fyrir framan kjósendur hvers vegna þeir vildu hlutafélagavæða og hvaða heimild þeir hafi í raun haft.

Eftir að hafa flett hér í gegnum fjölmiðla síðustu tveggja ára til að átta mig á almennri umræðu þá rak ég augun í einn stóran og mikinn framsóknarmann sem á það til að segja sína skoðun hreint út. Það rennir nokkrum stoðum undir það sem ég hef hér verið að tala um varðandi hlutafélagavæðingu RÚV og álit þessa þingmanns Framsóknarflokksins á því hvort í raun sé til heimild frá flokksþingi Framsóknarflokksins til þess að boða einkavæðingu Ríkisútvarpsins eða hlutafélagavæðingu þess.

Frú forseti. Ég vil nefna grein í Morgunblaðinu frá 11. nóvember 2005. Frumvarpið búið að liggja svo lengi undir að maður þarf að fletta ansi mörgum blöðum til þess að sjá hvað menn hafa verið að segja. Þar fjallar Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, um Ríkisútvarpið og lagafrumvarpið. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Loks var ályktað á þessi ári“ — þ.e. 2005 — „á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Í framhaldi segir þingmaður Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Hlutafélagaformið er fyrst og fremst sölufyrirkomulag, ...“

Svo mörg voru þau orð, frú forseti.

Miðað við þessa grein sem þingmaður Framsóknarflokksins ritar er hvergi heimild til að einkavæða RÚV, hvergi heimild frá landsþingi Framsóknarflokksins til handa þingmönnum flokksins né heldur er nokkur heimild til að fara út í hlutafélagavæðingu. Menn hafa svolítið togast á um þetta hér í dag. En það er engin ástæða til þess því fyrir fimm árum var í sjálfu sér á flokksþingi Framsóknarflokksins ályktað hreinlega gegn því að breyta RÚV í hlutafélag. Þetta vita menn og þá væntanlega framsóknarmenn hvað helst. Því er alger óþarfi að togast á um þessar staðreyndir. Framsóknarflokkurinn hefur enga heimild til að fara út í þetta. En þeir vilja kannski reyna að drífa það af fyrir sitt næsta flokksþing og er það kannski enn ein ástæðan fyrir því að mönnum liggur á.

En mér fannst jafnathyglisverð, þegar ég fór yfir gögnin, frú forseti, þessi setning sem framsóknarmenn, þar á meðal hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, hafa hælt sér og sínum af fyrir að hafa komið inn í frumvarpið, þ.e. þessi setning í 1. gr. í I. kafla um almenn ákvæði, um að sala félagsins, þ.e. Ríkisútvarpsins ohf., eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess séu óheimil.

Þetta gerist í desember 2005. Þetta gerist eftir ákveðið fjölmiðlafár þar sem þingmenn tjáðu sig ógætilega um frumvarpið. Það kemur fram 6. desember 2005 í viðtali við formann þingflokks framsóknarmanna, Hjálmar Árnason, að hann segir að nokkuð góður einhugur — nokkuð góður einhugur — ríki innan þingflokksins um frumvarpið. Hann segir miklu máli skipta að í frumvarpinu sé kveðið skýrt á um að Ríkisútvarpið sé ekki til sölu. En það kemur jafnframt fram í þessari frétt í Morgunblaðinu 6. desember 2005 að einn þingmaður flokksins gerði fyrirvara við samþykkt þess því hann vill vera viss um að Ríkisútvarpið verði ekki einkavætt. Það er einmitt málið. Þessi eina litla setning mun ekkert standa í vegi fyrir þeim sem vilja einkavæða Ríkisútvarpið, þeim sem vilja selja það.

Hvernig menn fara fram hjá því hef ég kannski hugmynd um. Ég ætla þó ekkert að leggja mönnum línurnar hér og nú. En það er nokkuð ljóst að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins eða hæstv. menntamálaráðherra samþykkir að setja þessa setningu þarna inn um að sala félagsins eða hluta þess sé óheimil þá vita þingmenn væntanlega alveg upp á hár hvernig skuli farið bak við þessa setningu, þ.e. þeir sem vilja á annað borð selja RÚV. Rétt eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gef ég því afskaplega lítið fyrir þessa setningu sem var einungis sett til að slá ryki í augu fólks eftir að framsóknarmenn lentu hér í vandræðum við að ræða opinberlega um afstöðu sína til frumvarpsins. Ég held því að nokkuð ljóst sé að menn séu þegar búnir að finna leið fram hjá þeirri veikburða setningu sem þarna stendur. En afskaplega er hún nú falleg samt.

Ekki er furða, frú forseti, að menn, og þá þingmenn sérstaklega, hafi margoft talað um að Framsókn sé í raun að svíkja — hvað eigum við að segja — svíkja þjóðina, svíkja þingið, svíkja sitt fólk, með því að heimila að hér sé tekið á dagskrá frumvarp um hlutafélagavæðingu RÚV því eins og ég sagði áðan þá er það alls ekkert í þeirra stefnu sem hefur verið samþykkt á flokksþingum Framsóknarflokksins síðustu ára að fara út í hlutafélagavæðingu heldur þvert á móti. Hef ég grun um að þeir muni lenda í erfiðleikum við að bíta úr nálinni. En kannski er það nú svo, eins og margur hefur giskað á, að framsóknarþingmenn treysti algerlega á stjórnarandstöðuna til að kveða þetta frumvarp í kútinn þannig að þeir sitji ekki uppi með það og þurfi að svara fyrir það fyrir kosningar. Ekki veit ég hvað framsóknarmönnum dettur í hug næst.

Það var nú frekar mjótt á mununum að þeir kokgleyptu þá hugmynd Sjálfstæðisflokksins að selja Íbúðalánasjóð og er nú mörgum kunnugt um þær deilur sem sá vilji fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins olli, þ.e. að selja Íbúðalánasjóðinn og væntanlega afhenda hann einhverjum flokksgæðingum. Hún er ýmis beitan sem framsóknarmenn bíta á og þá væntanlega af því að þeir fá eitthvað sjálfir í staðinn.

Af því ég er nú byrjaður að tala um sölu þá finnst mér svolítið hjákátlegar þær yfirlýsingar þingmanna stjórnarmeirihlutans að sala standi alls ekki til og að hún sé alls ekki tilgangurinn eða ætlunin með þessu frumvarpi. En ef það er rétt að þeir þingmenn meiri hlutans sem koma til með að samþykkja þetta frumvarp séu ekki með hugann við að selja Ríkisútvarpið þá segir það manni einfaldlega að hressilega sé búið að snúa upp á hendurnar á nokkrum af vonarstjörnum Sjálfstæðisflokksins því eins og áður hefur komið fram er nú ekki langt síðan að fyrir þinginu lá frumvarp frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða Ríkisútvarpið.

Þjóðin verður að fara að átta sig á að núverandi ríkisstjórn er margt ekki heilagt. Allt hefur sinn tilgang og kænskan til að fela raunverulegan tilgang er mikil. Menn hafa líka mikla þrautseigju.

Ég hef grun um að það sem ég hef verið að benda á í meginhluta ræðu minnar, þann áhuga frumvarpsflytjenda á að leggja stéttarfélag hreinlega niður, sem komið hefur hér fram að frumvarpið geti mögulega leitt af sér, og þessi vilji til að skerða réttindi og kjör, er alveg skýrt. Þetta er vilji sem fylgir þessum harða hægri væng Sjálfstæðisflokksins og menn verða að átta sig á þeirri gífurlega þolinmæði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur til að ná fram breytingum sem þeim hugnast, breytingum sem því miður stjórnast yfirleitt af gróðahyggju. Talað er um frelsi einstaklingsins en þetta snýr allt fyrst og fremst að því að ákveðnir einstaklingar hafi frelsi til að græða.

Fyrir tilstilli Sjálfstæðisflokksins hafa á síðustu árum lagafrumvörp verið afgreidd á Alþingi í þá átt að einkavæða ríkisstofnanir. Í sumum þeirra frumvarpa hefur sú fullyrðing fylgt að það standi alls ekki til að selja en annað hefur komið á daginn. En öllum þeim hefur það fylgt að réttindi starfsmanna verði algerlega í hávegum höfð en sáralítið af því hefur staðið eftir. Það er grunnástæðan fyrir ræðu minni í dag.

Frumvarpið er að sjálfsögðu margþætt og kemur inn á marga þætti. Sem betur fer er áhugi þingmanna misjafn og þekking líka. En ég hef séð sérstaka ástæðu til að taka þetta alveg nákvæmlega fyrir og mun gera það enn um sinn.

Sannfæring mín fyrir því að frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. sé lagt fram af eftirfarandi ástæðum, annars vegar til að geta síðar einkavætt það og selt það, og hins vegar til að skerða kjör starfsmanna, er hörð og hefur verið það frá því frumvarpið kom fyrst fram.

Það er frekar sorglegt, frú forseti, að menn treysti á frumvarpið, því þegar sú vá sem við höfum verið að vara við mun líta dagsins ljós, nokkrum vikum eftir að frumvarpið tekur gildi, ef svo ótrúlega ólíklega vildi til að það yrði samþykkt, þá fara menn að sjá þær afleiðingar sem við höfum verið að benda réttilega á. Það segir manni að sjálfsögðu að þegar meiri hlutinn hefur margoft haft tækifæri til að gera leiðréttingar og bætur eftir allar þær ábendingar sem komið hafa fram í ræðu og riti og hjá þeim fjölmörgu gestum sem hafa komið fyrir nefndina, að þá vakir eitthvað annað fyrir mönnum en að leggja fram það besta frumvarp sem menn geta hugsað sér og hafi þar að leiðarljósi hvað sé best nákvæmlega fyrir Ríkisútvarpið og best fyrir núverandi starfsmenn þess. Því það er alls ekki það sem menn hafa í huga við þetta frumvarp.

Það er nú svo sérstakt við frumvarpið að ekki líða margar vikur án þess að eitthvað nýtt komi fram. Menn hafa verið að deila um það síðustu daga að gögnum frá ESA hafi jafnvel verið haldið leyndum fyrir nefndarmönnum. Það sem kom fram síðast í gær eru athugasemdir sem hæstaréttarlögmaður hefur bent á í Fréttablaðinu.

Frú forseti. Þegar maður lítur yfir allar þessar athugasemdir og veltir fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að snarhemla og fara yfir málið upp á nýtt og taka þær ábendingar alvarlega, þá keppast stjórnarliðar við að baula þær ábendingar niður, sem segir manni einfaldlega að þetta er allt fyrir fram ákveðið. Það er búið að ákveða að þetta fari í gegn og meiri hlutinn neitar því hreinlega að láta nokkurn hlut stöðva sig. Áhætta er tekin, mikil áhætta er tekin. Umræddur hæstaréttarlögmaður talar um að menn séu að taka, eins og frumvarpið er núna, ákveðna áhættu og eigi von á kærum. En á það er ekki hlustað og vaðið áfram í blindni.

Þetta er enn eitt dæmið um að í sjálfu sér er alveg sama hvaðan ábendingin kemur. Fylgjendur frumvarpsins hafa margoft ítrekað að þetta sé nánast tómt kjaftæði í stjórnarandstöðunni, allar þær ábendingar og athugasemdir sem stjórnarandstaðan hefur verið að koma fram með á síðustu árum varðandi frumvarpið.

En það sannast með hverjum deginum sem líður og því meira sem menn skoða frumvarpið þá eiga þessar áhyggjur og þær ábendingar sem við höfum verið að koma með við rök að styðjast. Mér finnst það nánast ámælisvert, frú forseti, ef menntamálanefnd ætlar að hunsa algerlega þær ábendingar sem hafa komið á síðustu dögum þar sem Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður gerir miklar athugasemdir við frumvarpið, m.a. um fjárhagslegan aðskilnað. Hann talar um samtengingu við nýleg lög um opinber hlutafélög og bendir á þó nokkuð mörg atriði sem virkilega væri ástæða til að staldra við, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur meiri hlutinn séð ástæðu til að blása algerlega á þetta álit. En niðurstaðan hjá Ástráði er að fyrirtækið, þ.e. fyrirtækið Ríkisútvarpið ohf., geti illa varist kærum samkeppnisaðila og talar um að RÚV verði vopnlaust gagnvart kærum.

Það er mjög einkennilegt að menn skuli ekki taka alvarlega ummæli hæstaréttarlögmanns, starfskollega meiri hluta þingflokks sjálfstæðismanna. Það er enn og aftur dæmi um að fylgjendur frumvarpsins ætla ekki að láta neitt stöðva sig. Þeir hafa gengið mjög harkalega fram í að reyna að ná fram háeff-væðingu á Ríkisútvarpinu og láta sem vind um eyrun þjóta allar ábendingar þrátt fyrir að þær séu studdar rökum. Og reyna jafnframt, eins og hefur verið rætt um síðustu vikur, að leyna gögnum sem mögulega hafa áhrif á málsmeðferð menntamálanefndar á frumvarpinu.

En títtnefndur lögfræðingur, Ástráður Haraldsson, hefur áður ritað um frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. Mér fannst mjög athyglisverð greinin sem hann skrifaði í Morgunblaðið og birtist laugardaginn 2. desember 2006 þar sem hann ræðir um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, en greinin heitir Einkavæðing Ríkisútvarpsins.

Ég held að rétt sé, frú forseti, að ég lesi hreinlega mestalla greinina orðrétt upp til að menn nái örugglega samhenginu. Ástráður Haraldsson segir um Ríkisútvarpið, með leyfi forseta:

„Fyrir þinginu liggur nú frumvarp menntamálaráðherra um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ef frumvarpið verður að lögum verður þar með ákveðið að einkavæða starfsemi Ríkisútvarpsins.“

Þetta er, frú forseti, mjög beinskeytt ádeila á þá sem leggja fram frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. því hér fullyrðir hæstaréttarlögmaður að með þessu sé verið að einkavæða starfsemi Ríkisútvarpsins.

En áfram segir, með leyfi forseta:

„Í þessu varðar öngvu hver eignaraðild hins nýja félags verður heldur hitt að starfsemin verður eftir að Ríkisútvarpið ohf. tekur við henni ekki framar opinbersréttar eðlis heldur einkaréttar eðlis.“

Þetta er það sem málið snýst um. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Þannig færist starfsemin af sviði opinbers rekstrar yfir á svið einkarekstrar. Í því kerfi tvískipts vinnumarkaðar sem í gildi er á Íslandi hefur þessi formbreyting úrslitaáhrif að því er varðar alla réttarstöðu starfseminnar. Þetta er höfuðmálið en ekki það hvernig eignarhaldi hins nýja hlutafélags er háttað. Í þessari einkavæðingu felst m.a. að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda ekki framar um starfsemina og marka því ekki lengur réttarstöðu starfsmannanna.“

Enn og aftur, frú forseti, kemur athugasemd sem styður það sem ég hef verið að segja. Taki frumvarpið óbreytt gildi þá falla niður lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og þar af leiðandi skerðast réttindi og kjör starfsmanna.

Áfram segir í grein Ástráðs, með leyfi forseta:

„Lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka ekki framar til starfseminnar og stjórnendur hins nýja hlutafélags verða ekki fremur en aðrir stjórnendur hlutafélaga bundnir af ákvæðum stjórnsýslulaga í sýslan sinni. Starfsemin hefur þá verið einkavædd, flutt á svið einkaréttar og réttarstaðan sú sama og gildir um aðra starfsemi á almennum markaði.“

Hér hefur hæstaréttarlögmaðurinn Ástráður Haraldsson fært rök fyrir því að með frumvarpinu séu ekki bara lögð drög að einkavæðingu Ríkisútvarpsins eins og við höfum haldið fram heldur sé búið að einkavæða Ríkisútvarpið nái frumvarpið fram að ganga. Þetta eru mjög alvarlegar ábendingar til þingheims, að verði frumvarpið að lögum sé í raun búið að einkavæða Ríkisútvarpið með öllu sem því fylgir. Þá er væntanlega ekkert eftir nema sala á því. En áfram segir í blaðagrein Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Af einhverjum ástæðum hafa flutningsmenn tillagna um einkavæðingu Ríkisútvarpsins kosið að nefna tillögur sínar ekki réttum nöfnum. Reynt er að færa einkavæðinguna í búning sem er til þess fallinn að villa um fyrir þjóðinni.“

Þetta höfum við margoft reynt að benda á. En þrátt fyrir að það standi hér svart á hvítu frá löglærðum manni þá er það hunsað. Menn láta það sem vind um eyru þjóta. En í grein Ástráðs segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Þannig er talað um hlutafélagavæðingu, eins og það sé ekki einkavæðing, og mikið úr því gert að óheimilt verði að selja fyrirtækið. Það atriði skiptir þó harla litlu máli þegar grannt er skoðað. Meginatriðið er það að verði frumvarpið að lögum mun Ríkisútvarpið færast yfir á svið einkaréttar. Starfsmenn þess munu ekki framar njóta þeirrar ráðningarfestu sem þeir hafa notið sem opinberir starfsmenn og stofnunin mun starfa eftir sömu leikreglum og aðrir einkaaðilar.

Vandséð er hvernig Ríkisútvarpið getur til langframa varið sig gagnvart kröfum keppinauta um takmörkun eða afnám ríkisstyrkja sem því er ætlað að njóta í formi nefskatts. Við blasir að ákaflega erfitt verður að rökstyðja ríkisframlag sem ætlað er að standa undir svo stórum hluta rekstrarútgjalda fyrirtækisins sem hér virðist gert ráð fyrir. Að slíku framlagi sé aðeins varið til þess hluta starfseminnar sem fellur undir almannaþjónustuhlutverk þess. Þetta munu keppinautar Ríkisútvarpsins fyrr eða síðar láta reyna á fyrir samkeppnisyfirvöldum og dómstólum. Ég óttast því að með frumvarpi menntamálaráðherra sé enn ekki fundinn réttur farvegur til framtíðar fyrir Ríkisútvarpið.“

Svo mörg voru þau orð, frú forseti. En þrátt fyrir það að greinin hafi birst í Morgunblaðinu í desember síðastliðnum þá halda menn ótrauðir áfram. Menn neita að hlusta á viðvörunarorðin, hlusta ekki frekar á þau en önnur. Það sem er magnaðast í þessari grein er sú fullyrðing lögmannsins að í raun gangi frumvarpið út á að einkavæða Ríkisútvarpið og þar með sé ekkert eftir annað en að selja það.

Fyrr í dag, frú forseti, fór ég yfir þjónustusamning sem fylgir frumvarpinu. Ég sé ástæðu til að koma aðeins betur að efni hans. Það er nokkuð sérstakt að þjónustusamningur skuli lagður fram með frumvarpi sem margbúið er að leggja fram. Maður veltir óneitanlega fyrir sér hver sé ástæðan fyrir því að menn leggi fram þjónustusamning með frumvarpinu. Af hverju er ekki hægt að ganga frá þessum þjónustusamningi í dag? Af hverju þarf að bíða eftir einhverju sérstöku frumvarpi? Af hverju þarf að samþykkja þetta frumvarp svo samningurinn haldi gildi sínu?

Þjónustusamningurinn fylgdi að vísu ekki með frumvarpi um Ríkisútvarpið hf. Hann fylgdi ekki með frumvarpi um Ríkisútvarpið sf. og ekki heldur með einkavæðingarfrumvarpi sem áður leit dagsins ljós. Hvers vegna fylgir þessi samningur núna? Ég reifaði það lauslega fyrr í ræðunni. Þessi samningur er að sjálfsögðu til þess gerður að ýta við ákveðnum aðilum sem trúa því að ekki sé hægt að gera slíkan samning án þess að samþykkja fyrst frumvarpið. Það hefur virkað. Það kom m.a. fram í ræðu a Eddunni, hjá Birni Björnssyni, hversu afskaplega þýðingarmikill þessi samningur væri og nú ætti að efla innlenda dagskrárgerð.

Önnur félög hafa lýst yfir mikilli ánægju. Þetta er einmitt tilgangurinn, að fá félög sem málið viðkemur í lið með sér, félög sem lengi hafa beðið eftir því að innlend dagskrárgerð yrði efld, fá félagasamtök og félagsmenn þar til að ýta á að þingmenn samþykki frumvarpið því ellegar verði svokallaður þjónustusamningur ekki að veruleika. Menn deildu um það í október síðastliðnum hvort um væri að ræða hótun eða ekki.

Í mínum huga, frú forseti, er engin spurning um það að þegar menn leggja svona samning fram með þingmáli þá er ætlunin að fegra frumvarpið til að fá ákveðna hópa í lið með einkavæðingarsinnum til að samþykkja Ríkisútvarpið ohf. Það hefur virkað að því leyti að að sjálfsögðu hefur orðið til þrýstingur frá ákveðnum félagasamtökum á þingmenn. Því hefur verið haldið fram að þjónustusamningurinn eða drögin að þjónustusamningi verði það góð fyrir innlenda dagskrárgerð o.s.frv. að þingmenn megi ekki standa í vegi fyrir frumvarpinu, ella komist þessi samningur ekki í gagnið. Þegar samningurinn er þannig matreiddur fyrir þá sem málið er skylt er að sjálfsögðu um hótun að ræða, hvað sem hver segir. Það er skýrt að samningi sem hnýtt er aftan í frumvarp, sem er búið að henda út af borðinu tvisvar, er ætlað að reyna að fegra málið og tryggja að það komist í gegn.

Ég hef hérna leitað að ástæðunni fyrir umræddum breytingum á Ríkisútvarpinu og hef talið til þær ástæður sem ég tel fyrir þeim, sérstaklega þessar tvær, að menn séu að undirbúa sölu annars vegar. Ég talaði að vísu einnig um undirbúning einkavæðingar en samkvæmt ábendingum Ástráðs Haraldssonar verður stokkið yfir það ferli verði þetta frumvarp samþykkt, þá verður Ríkisútvarpið í raun einkavætt. En markmiðin með þessu frumvarpi eru að mínu viti af tvennu tagi. Annars vegar að undirbúa sölu á Ríkisútvarpinu og hins vegar að skerða réttindi og kjör opinberra starfsmanna.

Hæstv. menntamálaráðherra fjallaði hinn 17. október á þingi um breytingar á Ríkisútvarpinu, þ.e. um frumvarpið sem hér liggur fyrir og ástæðurnar fyrir því. Hún sagði að breytingar á Ríkisútvarpinu væru gerðar með ákveðin markmið í huga. Hver voru þau markmið? Þau voru að það sinnti almannaþjónustu, öryggishlutverki og menningarhlutverkið skipti einnig miklu máli. Ég hélt frú forseti, að þetta væru markmið Ríkisútvarpsins í dag, að sinna almannaþjónustu, öryggishlutverki og menningarhlutverki. Ég get ekki séð að frumvarpið leiði til þess að Ríkisútvarpið sinni þessum atriðum. Það gerir það hvort eð er í dag. Þessi markmið geta alls ekki verið ástæðurnar fyrir breytingunum.

Önnur markmið með frumvarpinu hef ég ekki séð hæstv. menntamálaráðherra fjalla um. Ég stend því enn við þær fullyrðingar mínar að tilgangurinn sé í raun einungis það að undirbúa sölu á Ríkisútvarpinu og skerða réttindi og kjör opinberra starfsmanna. Ekkert hefur komið fram sem breytir þeirri skoðun minni. Ég á ekki von á, frú forseti, að héðan af verði margt sagt í þá átt sem breytir þeirri skoðun minni á frumvarpinu.

Margir hafa mótmælt þessu frumvarpi. Í þessu eilífðarjólaleyfi las maður í gegnum allt sem hafði verið ritað í fjölmiðlum um Ríkisútvarpið, m.a. nokkur viðtöl og greinar sem útvarpsstjóri hefur ritað eða haft var eftir honum. Í júní á síðasta ári birtist grein eftir hann undir fyrirsögninni Óvissuástandið hefur slæm áhrif á RÚV. Þar er enn og aftur rekið á eftir þingmönnum og eins og alltaf er allt stjórnarandstöðunni að kenna. En málið snýst að sjálfsögðu um að frumvarpið er slæmt og meiri hlutinn vill ekki breyta því. Útvarpsstjóri talar um óvissuástand sökum þess að frumvarp um Ríkisútvarpið sé ekki hleypt í gegn. En hvernig er þá óvissuástandið sem starfsmenn búa við?

Hvers vegna greinir menn á um hvort þetta frumvarp skerði réttindi starfsmanna, verði það að lögum? Það er einfaldlega af því menn eru að fela sannleikann því hér eru færð rök fyrir og dregnir fram nokkrir aðilar sem staðfesta að verði þetta frumvarp að lögum þá muni það skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins. Það óvissuástand sem starfsfólk býr þar af leiðandi við hefur því fyrst og fremst skapast vegna þess að það er verið að þráskallast við að troða slæmu frumvarpi í gegn. Ég hefði gjarnan viljað sjá útvarpsstjóra hafa jafnframt áhyggjur af því að óvissuástand, eins og hann talar um, hafi slæm áhrif á hinn almenna starfsmann Ríkisútvarpsins.

Eitt af því sem hefur komið fram á síðustu dögum er að það hefur verið tekin sú ákvörðun, eins og hv. þm. Mörður Árnason las upp úr tölvupósti í dag frá starfsmanni þingsins, að ýta öllum öðrum málum til hliðar. Forseti þingsins hefur tekið þá ákvörðun að ekkert annað skuli rætt svo lengi sem þarf, og miðað við allar þær réttmætu ábendingar sem hafa komið fram í hverri ræðunni á fætur annarri þá er nokkuð ljóst að sú umræða geti tekið þó nokkurn tíma. Það er svolítið sérstakt að þegar umræðan snýst í raun og veru um að hér liggi fyrir nánast handónýtt frumvarp þá skuli forseti taka þá ákvörðun að allt annað skuli bíða. Það liggja fyrir mál sem eru komin til nefnda og fullt af góðum málum sem ekki hafa enn komist til 1. umr. En það er alveg skýrt hjá forseta að ekkert af þeim kemst á dagskrá fyrr en þingheimur er búinn að samþykkja þetta frumvarp.

Það er svolítið sérstakt að forseti skuli taka þannig ákvörðun og tilkynna hana og kannski sérstaklega forseti Alþingis í dag af því að hún hefur sýnt fram á það á síðustu missirum að miklu máli skiptir að starfsáætlun sé haldin. Þess vegna kemur þessi tilkynning, um að öll mál sama hversu góð þau eru skuli bara gjöra svo vel og bíða, mér svolítið á óvart. Enn og aftur er verið að setja þrýsting á hinn almenna þingmann, að hann megi alls ekki ræða þetta mál því þá sitji allt annað á hakanum.

Mér finnst slík vinnubrögð mjög athygliverð, frú forseti, því ef ekkert annað kemst á dagskrá þá er í raun og veru er búið að taka þá ákvörðun að engum öðrum málum verði hleypt að fyrr en þetta frumvarp verður samþykkt. Það eru svolítið harkaleg vinnubrögð að forseti skuli taka slíka ákvörðun. (Gripið fram í.) Sérstaklega þar sem mér er þetta mál mjög hugleikið, ég tala fyrir munn margra.

Það er nú með þau vinnubrögð varðandi þetta frumvarp almennt, að það er margt sem kemur manni á óvart. Ákefðin fyrir því að koma því í gegn er slík að það verður hreinlega allt annað að víkja.

Ég ætla nú, frú forseti, að taka fyrir umsögn sem menntamálanefnd og þingheimi hefur borist um þetta frumvarp. Það er kannski rétt meðan ég er að fletta að ég veki athygli á því að það er mættur framsóknarþingmaður í salinn. Er það vel. (Gripið fram í: Ég hef hlustað allan tímann.) Já, og hefur væntanlega hlustað á mig allan tímann enda samviskusöm mjög og talin ein af vonarstjörnum Framsóknarflokksins. Hún mun þá væntanlega hafa í huga að reyna að tryggja að flokksbræður hennar taki nú þá skynsamlegu ákvörðun að draga þetta frumvarp aftur til nefndar til þess að athuga þá galla sem ég hef verið að koma inn á og skoði þar að auki þær athugasemdir sem einn af varaþingmönnum Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttir, hefur komið með um vinnubrögð í Alþingi sem er þá að sjálfsögðu ádeila á Framsóknarflokkinn.

Eitt erindi sem hefur borist er frá framleiðendum SÍK, það er stjórn framleiðandafélagsins, þar sem þeir fagna nýjum þjónustusamningi milli Ríkisútvarpsins og menntamálaráðuneytisins um verulega aukinn hlut íslensks dagskrárefnis. En þeir eru ekkert sérstaklega að fagna frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. heldur títtnefndri gulrót sem ég hef minnst á og hefðu eflaust þegið að þjónustusamningurinn væri kominn á strax og þó fyrr hefði verið.

En það er nú þannig, frú forseti, að flestallar þessar umsagnir eru á einn veg. Þær benda á ýmsa galla sem eru í frumvarpinu og það er merkilegt að þrátt fyrir að frumvarpið tæki breytingum, a.m.k. um einn eða tvo stafi til eða frá, þá halda umsagnaraðilar áfram að gera athugasemdir við frumvarpið. En á það er því miður ekki hlustað.

Þar sem nú fer að líða að síðustu tímum ræðunnar þá held ég að það sé rétt að fara yfir umsögn Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins en það eru samtök sem eru sérstaklega stofnuð til þess að standa vörð um Ríkisútvarpið. Nú kemur annar góður og gegn framsóknarmaður, en þetta eru kannski síst þeir framsóknarmenn sem maður ætti að skamma.

Samtökin Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins eru félagsskapur fólks sem var stofnaður fyrir nokkrum árum til þess að reyna að standa vörð um Ríkisútvarpið í almannaeigu.

Það er kannski rétt, frú forseti, þar sem fer að líða að miðnætti, að ég spyrji forseta hversu lengi standi til að halda þessum fundi áfram, hvort einhver ákvörðun hafi verið tekin um hversu lengi fundurinn skuli standa. Hann hefur staðið frá því klukkan 10.30 í morgun. Nú er klukkan orðin 11 að kvöldi og væntanlega er nýr fundur kl. 10.30 í fyrramálið.

(Forseti (RG): Forseti vill bara upplýsa að fundurinn mun standa enn um sinn.)

Ég er hér kominn að umsögn Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins um frumvarpið. Þetta er umsögn sem er dagsett í nóvember sl. þar sem farið er mjög vandlega yfir frumvarpið. Þar kemur alveg skýrt fram strax að grundvallarstefna Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins er andstaða við hlutafélagavæðingu þess. Þau telja að RÚV eigi að vera í eigu hins opinbera, annars sé hlutverki þess sem þjóðarútvarps ógnað.

Hér eru því enn ein samtökin, herra forseti, sem lýsa yfir áhyggjum vegna þessa frumvarps. Ég held að þegar maður er búinn að reifa þetta mál jafn vel og ég hef gert og þá sérstaklega með tilliti til réttindamála starfsmanna þá hljóti menntamálanefnd og menntamálaráðherra að sjá sér hag í því að draga frumvarpið aftur til nefndar. Að minnsta kosti að gera þá þær breytingar sem verður að gera til þess að tryggja að þetta frumvarp brjóti ekki svona hressilega á réttindum opinberra starfsmanna eins og það stefnir í að gera.

En eins og hefur komið fram í máli mínu og ég hef rökstutt vel og vandlega og vitnað í marga aðila sem vit hafa á þá er augljóslega alveg skýr stefna með setningu þessa lagafrumvarps — að vísu hefur verið bent á að Ástráður Haraldsson telur í grein sinni að með þessu frumvarpi sé nú þegar orðin einkavæðing en ekki hlutafélagavæðing, þannig að ég hlýt þá að breyta þeirri skoðun minni að tilgangurinn sé að einkavæða. Það er sýnt fram á með lagalegum útskýringum að í raun sé búið að einkavæða Ríkisútvarpið verði þetta frumvarp að lögum.

Þá stendur hitt eftir, að tilgangurinn með þessu frumvarpi er annars vegar að undirbúa sölu á Ríkisútvarpinu og hins vegar að skerða viljandi eða óviljandi, og ég tel eftir að hafa farið yfir þessi gögn þá sé viljandi verið að skerða kjör og réttindi opinberra starfsmanna.

Það er mjög slæmt þegar ráðherra tekur þá ákvörðun að leggja fram frumvarp sem hefur það beinlínis sem aðalmarkmið, enda hefur ekkert annað komið fram, að skerða réttindi og kjör sinna eigin starfsmanna, undirmanna sinna, sem starfsmenn Ríkisútvarpsins eru.

Ég hef jafnframt bent á, herra forseti, og farið yfir, svona til varnaðar, það sem hefur verið að gerast undanfarið hjá Matís sem er mjög sambærilegt við það sem er hér verið að gera. Þannig að varnaðarorðin eru vissulega komin um það hvert stefni. Þar nýta stjórnendur Matíss sér leynt og ljóst þetta breytta form þar sem þrjár stofnanir hafa verið sameinaðar í eina undir ohf. og ætla sér greinilega að misnota það til að ná niður kjörum og réttindum. Og það sem kannski er verst, sem hefur lengi verið langtímamarkmið Sjálfstæðisflokksins og vonandi að ágætir framsóknarmenn séu búnir að átta sig á því, er að einn af grunntilgangi þessa frumvarps er að fækka stéttarfélögum.