Beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

Miðvikudaginn 17. janúar 2007, kl. 11:28:09 (3307)


133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:28]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Eins og áðan kom fram í máli mínu hef ég dáðst að því hvað forseti sýnir mikla stillingu vegna þeirra alvarlegu ásakana sem hér hafa komið fram í hans garð við fundarstjórn á Alþingi. Ég hef líka dáðst að því hvað honum hefur tekist vel að stjórna fundum af mikilli festu og á köflum nokkurri snerpu en mér finnst leitt að heyra hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni saka forseta um að beita valdi til að koma í veg fyrir að brýn mál séu rædd á þinginu. Það er auðvitað ekki þannig.

Ég fór yfir það áðan að það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Ástæðan fyrir því að hér eru ekki tekin til umræðu þau brýnu mál sem menn hafa nefnt í umræðunni er sú að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sett á hér langar ræður frá því á mánudaginn um eitt tiltekið mál, frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið.

Hér er því haldið fram að ég hafi verið með fráleitar ásakanir á hendur þingmönnum stjórnarandstöðunnar um það að þeir hefðu sett á málþóf í málinu. Ég var ekki með neinar fráleitar ásakanir og ég skil ekki þá viðkvæmni sem grípur alltaf um sig hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar þegar menn tala um málþóf á hinu háa Alþingi. Ég vísaði sérstaklega til þess að á mánudagskvöldið birtist frétt á netmiðlinum Vísi.is um að hafið væri málþóf á Alþingi. Það voru ekki mín orð. Það var túlkun þess fréttamanns sem skrifaði greinina. Hann hafði það ekki eftir mér eða öðrum stjórnarliða. Hann fylgdist með umræðum og eins og ég sagði áðan er gests augað glöggt. En ég get alveg gert þá játningu hér úr þessum ræðustól að ég tek undir þá túlkun fréttamannsins sem fram kom á mánudagskvöldið. Og nú er miðvikudagur og okkur gengur illa að vinna á mælendaskránni. (ÖJ: Af hverju ertu að tefja þingstörfin?) Ég er ekki að tefja þingstörfin, hv. þingmaður, og ég get ekki svarað hér öllum spurningum sem fram hafa komið. Ég get t.d. ekki svarað þeirri spurningu sem fram kom hjá hv. þm. Valdimari L. Friðrikssyni af hverju honum er ekki boðið á tiltekna fundi. Forseti verður að svara því en ég hafna því alfarið að ég sé með fráleitar ásakanir um það að stjórnarandstaðan sé í málþófi. Ég get hins vegar (Forseti hringir.) tekið undir þá frétt sem fram kom í Vísi.is á mánudagskvöld.