Ríkisútvarpið ohf.

Miðvikudaginn 17. janúar 2007, kl. 19:21:41 (3372)


133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:21]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég held að það erindi sem ég á við þingheim hljóti að eiga heima undir þessum lið. Eins og menn minnast fór hér fram umræða í dag í tilefni af ummælum hins kjörna forseta þingsins í hádegisfréttum Stöðvar 2 þar sem hún lýsti þeirri skoðun sinni í tengslum við þær umræður sem hér fara fram um frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að takmarka bæri ræðutíma þingmanna í umræðum um frumvörp. Ég ætla ekki að fara efnislega nánar í þetta mál, það var gert ágætlega á þessum tíma.

Hins vegar er rétt að minnast þess að ég bað um það með skilaboðum, því að símtal var þá ekki mögulegt, að forseti yrði viðstödd þessa umræðu. Hún gat ekki orðið við því og þau skilaboð bárust síðar inn í þá umræðu að hún væri í opinberum erindagjörðum utan þings. Að vísu er það svo að mér skilst að hún hafi, áður en umræðu lauk, komið í hús en væntanlega ekki getað séð af tíma til þess að taka þátt í umræðunni hér og e.t.v. verið enn þá í opinberum erindagjörðum. Ég hafði það síðan á orði hér í umræðunni að ég mundi taka hana upp aftur þegar forseti væri komin og óskaði eftir því að hún yrði hér viðstödd. Það var hún en þá vildi svo til að hún var í forsetastóli meðan ræða stóð yfir og áður en henni lauk fór forseti úr forsetastólnum. Ég reyndi síðan að fá forseta til að koma hér í kvöld þannig að hægt væri að ræða við hana áfram um þetta eða núna síðdegis og í kvöld, en þá háttaði svo til hjá forseta að hún var farin í einkaerindi, fullkomlega eðlileg, sem vörðuðu fjölskyldu forsetans, og í góðu samræmi við þá stefnu sem forseti sjálf tók upp í fyrstu ræðu sinni hér, að reyna að skipuleggja starfið þannig að þingmenn gætu sinnt fjölskyldum sínum og forseta hefur sem sé tekist að gera það í kvöld. Ég hef engar athugasemdir við það. Hún hefur hins vegar ekki gert okkur hinum kleift að gera það, sem ég harma.

En þetta verður til þess að umræðan við hinn kjörna forseta þingsins um ummæli hennar á Stöð 2 í dag í framhaldi af umræðunni hér fer ekki fram í kvöld heldur væntanlega á morgun undir liðnum Fundarstjórn forseta. Ég vildi segja frá þessu bæði til þess að þingheimur skildi hvers vegna ekki er framhald á þeirri umræðu sem hér hófst í dag og líka til þess að þeir sem fylgjast með umræðum hér, samtímis eða síðar, vissu hvað er í gangi.