Ríkisútvarpið ohf.

Miðvikudaginn 17. janúar 2007, kl. 20:51:18 (3377)


133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þá gilda samkeppnislög um starfsemi Ríkisútvarpsins, ég tók það skýrt fram. Ég var í rauninni að leiðrétta orð varaformanns Samfylkingarinnar sem sakaði mig um að hafa haldið öðru fram. Samkeppnislög munu gilda um Ríkisútvarpið hvað varðar þá starfsemi þeirrar stofnunar sem ekki fellur undir almannaþjónustuhlutann.

Það er ekki bara á Íslandi sem þær reglur gilda heldur gilda þær hvarvetna annars staðar í Evrópu eða í þeim löndum þar sem sambærilegar stofnanir starfa. Það er því ljóst að svona er þetta og það er sannarlega eftirlit með þessari starfsemi. Það eftirlit er í höndum Samkeppniseftirlitsins en fyrst og fremst Ríkisendurskoðunar eins og ég reyndi að gera grein fyrir í máli mínu og kemur fram í fjölmörgum gögnum og fjölmörgum ræðum sem haldnar hafa verið um þetta mál.