Málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

Fimmtudaginn 18. janúar 2007, kl. 11:03:00 (3416)


133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:03]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem loksins er komið á dagskrá en undir allt öðrum lið en það ætti að vera, hið grafalvarlega mál sem snertir Byrgið og birtist okkur í fréttum eiginlega í hverjum fréttatíma, er full þörf á að ræða hér á Alþingi. Það er mjög alvarlegt mál að Alþingi skuli í raun vera haldið frá þessari umræðu, öðruvísi en að ræða þetta undir þeim dagskrárliðum sem við erum að gera nú sem auðvitað ruglar öll störf og annað slíkt. Þess vegna hyggst ég leggja eina spurningu fyrir forseta í lok máls míns.

Varðandi þá skýrslu sem rædd var á fundi félagsmálanefndar og fjárlaganefndar í morgun, en þar var ekki hægt að klára málið, þá verða þingnefndirnar að fá tíma til að ræða þetta. En úr því að byrjað er að ræða þetta á Alþingi þá get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á þeirri svörtu skýrslu sem hér hefur verið talað um og var gerð í janúar 2002 og kom ekki fram, um hana hefur alla tíð verið vitað. Ýmsir framsóknarmenn sem hafa setið í félagsmálaráðuneytinu, bæði sem ráðherrar, aðstoðarmenn ráðherra o.s.frv. höfðu vitneskju um hana.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, núverandi formaður fjárlaganefndar, hefur haft þessa skýrslu undir höndum og vissi um hana sem þáverandi aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Hvernig stendur á því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem nú er formaður fjárlaganefndar, er trúað fyrir þeim störfum, skuli ekki láta það koma fram í vinnu fjárlaganefndar og vekja athygli á þessari kolsvörtu skýrslu og voga sér það svo í lokin að henda því í Ríkisendurskoðun að þeir hafi klikkað í eftirlitinu, maðurinn sem hafði skýrsluna allan tímann undir höndum? Þetta er vítaverð framkoma, virðulegi forseti. Þetta er vítaverð framkoma og ég krefst þess að forseti Alþingis taki þetta mál fyrir vegna þess að hv. þingmaður hefur miklar skyldur eftir að hann er orðinn formaður fjárlaganefndar og á að vekja athygli á svona málum. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt að framsóknarmenn sitji nú hnípnir og horfi ofan í bringuna á sér yfir þessari umræðu og komi ekki hér upp og láti ekki einu sinni heyra í sér um þetta. Hvers konar framsóknarsukk er hér á ferðinni, virðulegi forseti?

Það kom fram hjá einum þingmanni áðan að það hafi komið fram á fundinum í morgun að félagsmálaráðuneytið hafi skrifað undir samning við einhver félög sem voru búin að skipta um kennitölur í millitíðinni. Er félagsmálaráðuneytið, er stjórnsýslan á Íslandi komin á eitthvert kennitöluflakk? Þetta kennitöluflakk þekkist hjá aðilum sem fara á hausinn í alls konar rekstri og þá er skipt um kennitölu og byrjað daginn eftir. En ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að félagsmálaráðuneytið væri farið að stunda slíkt.