Ríkisútvarpið ohf.

Fimmtudaginn 18. janúar 2007, kl. 13:51:40 (3444)


133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:51]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er algjörlega fáránlegt og það er ömurlegt að sitja hér undir því að breytingarnar muni leiða í sér aukinn launamun á milli karla og kvenna. Það er fáránlegt að halda slíku fram og allt að því dónalegt.

Ég treysti þeim sem eru forstöðumenn Ríkisútvarpsins til að semja sín á milli. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Eftir að kjarasamningar renna út eru þetta frjálsir samningar. Ég tel að við eigum ekki að niðurnjörva eða taka samningsréttinn af þeim sem munu starfa hjá Ríkisútvarpinu. Það er nefnilega merkilegt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin vilja taka af samningsréttinn, niðurnjörva hann í löggjöfina þannig að hægt sé að taka af þeim samningsréttinn. (Gripið fram í.)

Ég segi, frú forseti, sami réttur eigi að gilda hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins og hjá öðrum starfsmönnum þeirra ríkisstofnana sem umbreytt hefur verið í hlutafélag eða annað rekstrarform en ríkisstofnun. Sami réttur á að gilda. En það er hins vegar rétt að segja það líka að það er aukinn biðlaunaréttur í þessu frumvarpi til (Forseti hringir.) handa starfsmönnum Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.)