Kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 10:31:20 (3721)

133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

460. mál
[10:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef á þingskjali 633 lagt fram fyrirspurn til samgönguráðherra um kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf. Það vakti athygli nokkru fyrir jól þegar birtust fréttir um að Íslandspóstur hf. hefði keypt Samskipti ehf. Hlutverk Íslandspósts er samkvæmt samþykktum þess að veita almenna og sérhæfða bréfa-, pakka- og sendingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Fyrirtækið skal veita hvers konar póstþjónustu og hafa á hendi fjármálalega umsýslu á grundvelli laga og reglugerða sem þar um gilda, reka verslun með varning og búnað sem tengist starfsemi félagsins, hafa á hendi flutningastarfsemi og fasteignarekstur og lánastarfsemi og reka aðra skylda starfsemi sem nauðsynleg er til að tilgangi félagsins sé náð.

Samskipti ehf. er hins vegar félag sem hefur boðið upp á ýmiss konar prentun, hvort sem um er að ræða vinnuteikningar, kynningarefni eða umhverfismerkingar, svo sem á gólf, bíla eða glugga. Þá hafa Samskipti ehf. einnig boðið upp á lausnir tengdar sýningum, svo sem gerð sýningarveggja og sölusýningarkerfa. Starfsemi Samskipta ehf. og einnig Samskiptamerkinga ehf., sem Íslandspóstur keypti í leiðinni, felst því aðallega í að veita heildarþjónustu á sviði prentunar og fyrir þátttakendur vörusýninga.

Í tilkynningu um kaupin kom fram að þau væru gerð í því skyni að efla þjónustu póstsins enn frekar og bjóða upp á fjölbreyttari lausnir er styðja við núverandi starfsemi. Þar sagði einnig að með kaupunum vildi Íslandspóstur leitast við að svara kröfum markaðarins um aukna þjónustu á sviði samskiptalausna en viðskiptavinir félagsins, bæði einstaklingar og fyrirtæki, gera sífellt auknar kröfur um fjölbreyttari þjónustu sem félagið leggur metnað sinn í að koma til móts við, eins og segir í tilkynningu frá félaginu.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst þessi kaup orka nokkurs tvímælis og hef ákveðnar efasemdir um ágæti þeirra. Þess vegna hef ég lagt fram fyrrgreinda fyrirspurn til samgönguráðherra og spyr:

1. Hver var tilgangurinn með kaupum Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.?

2. Hvert var umsamið kaupverð og hvernig á það að greiðast?

3. Hefur ríkið áform um frekari umsvif á prentmarkaði?