Kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 10:40:55 (3724)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

460. mál
[10:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega nokkuð afhjúpandi mál fyrir þá stöðu sem er á allt of mörgum sviðum þar sem ríkið er að þvælast inn á hreinan samkeppnismarkað. Ríkisrekstur á að heyra sögunni til á samkeppnismarkaði og prentmarkaðurinn er það svo sannarlega og hefur verið um áratuga skeið. Þess vegna er gjörningur sá að Íslandspóstur hf. kaupi Samskipti ehf. einfaldlega fráleitur og engin rök standa til þess að vera að rugla eðlilega, heilbrigða og hindrunarlausa samkeppni á prentmarkaði með því að ríkisfyrirtæki séu að kaupa upp fyrirtæki og blanda sér þar með inn í samkeppnisrekstur á prentmarkaði. Þess vegna hljótum við að skora á hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir því að Íslandspóstur hf. dragi sig út úr þeim rekstri, losi sig við eignarhaldið á Samskiptum hf. og leyfi frjálsri samkeppni að vera í friði á samkeppnismarkaði.