Íslenskukunnátta starfsmanna á öldrunarstofnunum

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 12:13:26 (3762)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

íslenskukunnátta starfsmanna á öldrunarstofnunum.

398. mál
[12:13]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Norðaust. spyr um íslenskukunnáttu starfsmanna á öldrunarstofnunum og ýmis atriði þar að lútandi.

Í fyrsta lagi er spurt:

„1. Hvað eru margir starfsmenn öldrunarstofnana á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar sem

a. skilja ekki íslensku,

b. geta ekki tjáð sig á íslensku?“

Fyrirspurn þessa efnis var send forstöðumönnum allra öldrunarstofnana á landinu og liggja fyrir svör frá þeim öllum. Óskað var eftir því að svör væru sundurliðuð þannig að fram kæmi fjöldi erlendra starfsmanna sem sinnir umönnunarstörfum annars vegar og hins vegar fjöldi erlendra starfsmanna sem sinnir öðrum störfum sem gera litlar eða engar kröfur um samskipti við hina öldruðu.

Á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. á stofnunum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ sinna um 35 einstaklingar umönnunarstörfum sem ekki skilja íslensku og um 55 sem ekki geta tjáð sig á íslensku. Af þeim sem sinna öðrum störfum, svo sem í eldhúsi og ræstingum, eru um 70 sem ekki skilja íslensku og um 80–90 manns sem ekki geta tjáð sig á íslensku, að því er fram kemur í svörum forstöðumanna.

Á stofnunum á landsbyggðinni eru um 5 manns sem vinna við umönnunarstörf sem skilja ekki og geta ekki tjáð sig á íslensku. Af erlendu starfsfólki í öðrum störfum, svo sem eldhúsi og ræstingum eru um 15 manns sem ekki skilja íslensku og 18 sem ekki geta tjáð sig á málinu.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr síðan:

„2. Hvaða kröfur eru gerðar um íslenskukunnáttu starfsfólks í umönnunarstörfum?“

Af hálfu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eru ekki gerðar formlegar kröfur hvað þetta varðar. Það gefur hins vegar augaleið að góð samskipti og gagnkvæmur skilningur eru mikilvæg forsenda góðrar umönnunar. Það kom líka fram í svörum stjórnenda öldrunarstofnana þegar spurt var um stefnu stofnananna í þessum efnum að almennt er rík áhersla lögð á að ráða fólk með góða íslenskukunnáttu til umönnunarstarfa. Það er meginstefna þeirra. Hins vegar kom fram að stundum reyndist ókleift að halda þeirri kröfu til streitu vegna manneklu.

Hv. þingmaður spyr:

„3. Telur ráðherra að öryggi aldraðra og sjúkra sé tryggt á stofnunum þar sem starfsfólk í umönnunarstörfum hvorki skilur né talar íslensku?“

Virðulegi forseti. Ef staðan væri þannig að starfsfólk sjúkra og aldraðra hvorki skildi né talaði íslensku upp til hópa þá væri svo sannarlega ástæða til að óttast um öryggi þeirra sem þyrftu á umönnun að halda. Sem betur fer er þetta ekki staðan. Í stofnunum á höfuðborgarsvæðinu eru hátt í 2000 starfsmenn við umönnunarstörf. Af þeim eru um 330 af erlendum uppruna og í þeim hópi eru um 35–55 einstaklingar sem ekki skilja eða geta tjáð sig á íslensku eða milli 2 og 3% þeirra sem starfa við umönnunarstörf.

Ég ætla síst að draga úr mikilvægi þess að fólk í umönnunarstörfum hafi gott vald á íslensku og það verður að vera ein af meginkröfum við ráðningar að svo sé. Við búum hins vegar við örar breytingar hér á landi þar sem íslensku samfélagi og íslensku atvinnulífi hefur á tiltölulega skömmum tíma bæst mikill liðsauki frá öðrum löndum. Menn hafa heyrt að um 10% af okkar vinnuafli núna séu af erlendu bergi brotin. Það er mál okkar allra að sinna vel móttöku nýrra landa okkar og ekki síst með því að standa vel að íslenskukennslu.

Í fjórða lagi er spurt:

„Hefur komið til álita að skylda vinnuveitendur til að kosta íslenskunámskeið fyrir þá starfsmenn sem þess þurfa?“

Þetta er ekki skylt eins og staðan er í dag. Ég vil þó geta þess að öldrunarstofnanir hafa sumar staðið fyrir tungumálanámskeiðum fyrir erlent starfsfólk. Þær leggja allar áherslu á að ráða starfsfólk til umönnunarstarfa sem hefur vald á íslensku. Ég held að flestir séu sammála um að stærsti þátturinn í því að aðstoða nýja landsmenn við að aðlagast íslensku samfélagi sé að styðja þá til að ná tökum á tungumálinu. Stjórnvöld eru meðvituð um þetta. Ég bendi á að ríkisstjórnin samþykkti í nóvember að fela menntamálaráðuneytinu framkvæmd verkefnisins um íslenskukennslu fyrir útlendinga og verja til þess 100 millj. kr. á þessu ári. Markmiðið með styrkjunum er að gera öllum sem búsettir eru á Íslandi færi á að öðlast þá færni í íslensku að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar.

Mín skoðun, virðulegi forseti, og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, er sú að þetta starfsfólk standi sig mjög vel og þessi umræða er ekki til að gagnrýna það með nokkru móti. Það er mjög æskilegt að sem flestir kunni íslensku en við erum núna í þeirri stöðu, m.a. þenslu á vinnumarkaði, að nokkurt hlutfall af þessum aðilum geti ekki tjáð sig á íslensku. Það er reyndar mjög lágt hlutfall að mínu mati en þetta er staðan sem við erum í þannig að ég tel að við stöndum eins vel að þessu og hægt er. Ég tel að öldrunarstofnanir geri það með því að hafa þá almennu stefnu að starfsmenn eigi að geta talað íslensku en fari svo í undantekningartilvikum að svo sé ekki þá hjálpast menn að svo þetta skapi ekki vanda.