Vextir og verðtrygging

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 13:55:48 (3778)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

vextir og verðtrygging.

499. mál
[13:55]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Álit talsmanns neytenda er að sjálfsögðu mikilvægt gagn í þessu máli og okkur ber að taka fullt mark á því og bera mikla virðingu fyrir því. En það er auðvitað lögmannsálit og það eru fleiri álit í þessu máli, m.a. það álit að Alþingi hafi heimild til þess að ákvarða þetta umboð á því bili sem er. Þannig að ég er ekki tilbúinn að svara því afdráttarlaust hvað kann að vera stjórnarskrárbrot eða lagabrot að öðru leyti í því efni.

Meginvandamálið í þessu er að það er ójafnvægi á lánamörkuðum, sagði ég. Ég var ekki að tala um allt efnahagslífið þótt það tengist nú mjög gjarnan. Meðan svo er hafa bankarnir ákaflega sterka stöðu.

Í svari mínu var ég að bera saman annars vegar ákvæði um verðtryggingu og hins vegar þá stöðu að bankarnir hafa það ofurvald vegna ójafnvægis framboðs og eftirspurnar, að þeir geti í staðinn tekið inn sína verðtryggingu í öðru vaxtaformi. Í formi hærri vaxta, styttri lánstíma o.s.frv. Það er þar sem er mikilvægast að líta á þetta út frá þessum almennu hagrænu sjónarmiðum.

Núna er að hægja á í hagkerfinu. Hagsveiflan er að koma niður. Stórframkvæmdunum lýkur brátt og við horfum fram á að það verði aukið jafnvægi og þá stefnum við í þessa átt. Ég vænti þess að við munum geta náð því á skömmum tíma þegar um hægir í efnahagslífinu og lánamörkuðum um leið.