Fangelsi á Hólmsheiði

Miðvikudaginn 24. janúar 2007, kl. 14:19:49 (3788)


133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fangelsi á Hólmsheiði.

319. mál
[14:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Á þskj. 342 hef ég lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um fangelsi á Hólmsheiði.

Saga nýs fangelsis í Reykjavík er að verða hálfrar aldar gömul, allt frá því að þáverandi dómsmálaráðherra fól Valdimari Stefánssyni sakadómara að gera áætlun um hvernig koma mætti fangelsismálum í nútímalegt horf hér á landi árið 1960. Hann lagði til að byggt yrði ríkisfangelsi í Korpúlfsstaðalandi en frá því var horfið.

Árið 1965 var gerð tillaga um fangelsi við Síðumúla í Reykjavík sem nota ætti til að vista gæsluvarðhaldsfanga og það var í raun notað allt til ársins 1996. Árið 1974 veitti Reykjavíkurborg vilyrði fyrir lóð undir fangelsi við Tunguháls 6 og þar fóru fram framkvæmdir við grunn- og botnplötu árið 1978.

Árið 1991 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra nefnd sem lagði til í skýrslu í mars 1992 að byggt yrði nýtt afplánunar- og gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík. Síðan var skipuð önnur nefnd árið 1995 sem átti að annast áætlunargerð um byggingu gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsis á Tunguhálsi 6 í Reykjavík. Sú nefnd skilaði af sér vorið 1998 og lagði til að þar yrði byggt fangelsi fyrir 30 fanga.

Enn var skipaður starfshópur um þessi mál árið 2001 sem gerði drög að alútboði í apríl 2004 en Borgarskipulag Reykjavíkur úthlutaði lóð fyrir fangelsi á Hólmsheiði norðan Suðurlandsvegar í desember 2001.

Í skýrslu Fangelsismálastofnunar í október 2004 var gerð tillaga um að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi þar sem lögð yrði áhersla á meðferðardeildir.

Í mars 2005 var áætlun Fangelsismálastofnunar um uppbyggingu fangelsanna, þar á meðal fangelsis á Hólmsheiði, samþykkt í ríkisstjórn. Samkvæmt því áttu framkvæmdir að hefjast í byrjun árs 2008 og ljúka fyrir árslok 2009.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra:

Hvað líður undirbúningi að byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík?