Sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 12:50:23 (3846)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[12:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp menntamálaráðherra um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Ég verð að segja að eftir átökin við hæstv. menntamálaráðherra í síðustu viku og undanfarið vegna ríkisútvarpsmála rennur manni kalt vatn milli skinns og hörunds að heyra hæstv. ráðherra tala um fjölbreytileika og sveigjanleika, eflingu og styrkingu. Sem betur fer geri ég mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra er ekki að fara að einkavæða Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands, ekki í þessari lotu a.m.k. þannig að ég ætla að reyna að halda ró minni í þeim efnum.

Það verður auðvitað að ræða þetta mál í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á háskólaumhverfinu á undanförnum árum. Ég tek það fram, og get tekið undir orð hv. þingmanna sem hér hafa talað, að þau gögn sem hér fylgja með, sú skýrsla frá starfshópnum sem hér er birt sem fskj. I með frumvarpinu, starfshópnum sem skilaði af sér í nóvember 2006, er afar athyglisverð og sýnir svo að ekki er um að villast að hér hafa fagmenn verið að verki við að reyna að sjá fyrir sér með hvaða hætti þessi sameining gæti orðið. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra virðist, eftir orðanna hljóðan í greinargerð með frumvarpinu, ætla í meginatriðum að fara að þessum niðurstöðum. Í öllu falli væri gott að fá staðfestingu hæstv. ráðherra í ræðu hennar við lok þessarar umræðu á því að hún hyggist fara eftir þeirri leiðsögn og þeirri forskrift sem kemur fram í skýrslu starfshópsins.

Það segir í greinargerðinni, sem er sem sagt yfirlýsing þá frá ráðuneytinu, að rík áhersla verði lögð á þrjár meginforsendur varðandi þessa sameiningu:

„1. Náið samstarf og jafnræði sé milli háskólanna við undirbúning sameiningar og mótun hugmynda um fyrirkomulag uppeldisvísinda í sameinuðum skóla.

2. Starfsmenn beggja skóla haldi sambærilegum starfskjörum.

3. Nemendur sem eru í námi við Kennaraháskóla Íslands eigi rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við sameiningu háskólanna.“

Í samræmi við framangreint sé við það miðað að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands hefji sem fyrst sameiginlega undirbúning að sameiningarferlinu og frumvarpið er lagt fram sem grundvallarforsenda hinnar fyrirhuguðu sameiningar. En jafnframt kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu að unnið sé að gerð frumvarps um ríkisháskóla sem miðað er við að verði lagt fram á haustþingi 2007, því sé ætlað að leysa af hólmi núgildandi sérlög um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. En það mætti auðvitað segja sem svo að eðlilegt væri að drög að því frumvarpi lægju fyrir þannig að við sæjum heildstætt á hvern hátt þessi sameiningartillaga kemur út þegar horft er til heildarinnar.

Eða hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera varðandi Háskólann á Akureyri, er honum ætlað að eiga einhvern þátt í þessari sameiningu? Nú vitum við það auðvitað sem hér erum að um það eru ólík sjónarmið hvort eigi að starfa einn stór opinber háskóli sem skiptist síðan upp í svokallaða „skóla“ eins og gerð hefur verið grein fyrir í þessari umræðu og í þeim gögnum sem fylgja með þessu frumvarpi eða hvort hæstv. ráðherra hyggst enn hafa Háskóla Akureyrar sem sjálfstæða stofnun. Ég held að það skipti máli að við fáum að heyra örlítið meira um framtíðarsýn hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta varðar.

Sömuleiðis má spyrja hvort það beri að skilja orð ráðherra svo, þegar hún fjallar hér um kosti þessarar sameiningar og það hversu mjög hún muni styrkja báða skólana, að áfram verði haldið á þessari braut og þá er ég ekki bara með Háskólann á Akureyri í huga heldur jafnvel Listaháskóla Íslands.

Ef svo er, ef hæstv. ráðherra hefur fyrir hönd háskólasamfélagsins framtíðarsýn á einhverjum slíkum nótum, er óhjákvæmilegt að spyrja út í framtíðarsýn hæstv. menntamálaráðherra varðandi einkaháskólana. Hinir einkareknu háskólar eru nokkuð margir orðnir, það er Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og það er … (Gripið fram í.) Listaháskólinn er sjálfseignarstofnun, já, en svo er það Háskólinn á Hólum og síðan einhvers konar annexía frá háskólasamfélaginu, sportakademía á Reykjanesi.

Úr því að ég nefni hana er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari því við þessa umræðu með hvaða hætti hæstv. ráðherra heimfæri það sem hún hefur sagt um mikilvægi kennaramenntunarinnar upp á þá kennaramenntun sem verið er að efna til undir verndarvæng Háskólans í Reykjavík þar sem sportakademían á Reykjanesi hefur möguleika á að útskrifa kennara. Á þetta minntist hæstv. ráðherra ekki neitt í sínu máli þannig að það er ljóst að heildstætt þurfum við að sjá hvernig hluti af umhverfi þessa stóra sameinaða háskóla hún verður.

Það er ýmislegt sem má gagnrýna í framgöngu hæstv. menntamálaráðherra varðandi stuðning við hina opinberu háskóla og þó svo að núna sé kominn í höfn metnaðarfullur samningur við Háskóla Íslands sem gerir ráð fyrir því að Kennaraháskóli Íslands verði sameinaður honum árið 2008 er ekkert úr vegi að rifja það upp hvaða barning það hefur kostað Háskóla Íslands að fá þá fjármuni sem Háskóli Íslands hefur átt samningsbundna við menntamálaráðherra í gegnum fjárlög á undanförnum árum. Við þekkjum öll úr umræðu hér um fjárlög hvernig það hefur gengið að fá þessa ríkisstjórn til að uppfylla ákvæði kennslusamnings Háskóla Íslands. Fjöldinn allur af nemendum hefur farið hér á ári hverju í gegnum Háskóla Íslands án þess að með þeim komi opinber framlög úr fjárlögum. Sömuleiðis hafa háskólayfirvöld átt við stjórnvöld að glíma í þeim efnum að fá rannsóknarsamninginn sem gilti fram að síðustu áramótum efndan til fulls.

Núna er annað hljóð í strokknum eins og við vitum, við höfum kallað fjárlögin sem nýlega eru farin hér í gegn kosningafjárlög og við í stjórnarandstöðunni höfum beint athygli fólks að því að það er mun léttara hald ríkisstjórnarinnar um pyngjuna núna en í annan tíma á kjörtímabilinu. Ég leyfi mér að halda því fram að samningurinn við Háskóla Íslands sé hluti af undirbúningi ríkisstjórnarinnar fyrir kosningar af því að nú þurfum við á því að halda, og það þurfa allir flokkar á því að halda, að sýna á spilin sín hvað varðar menntapólitík því að menntapólitíkin, skólapólitíkin verður eitt af meginstefjunum sem kveðin verða í kosningabaráttunni fram undan sem má segja kannski að sé að mörgu leyti hafin.

Ég fagna því eins og aðrir að það skuli kominn í höfn sá metnaðarfulli samningur, eins og ég sagði áðan, sem til staðar er og styð hann heils hugar og treysti því að við hann verði staðið. Það byggir auðvitað á því að velviljuð stjórnvöld verði við völd og ég veit ekki hvort það á að trúa því í einu og öllu að þau stjórnvöld sem nú ríkja muni verða svo miklu örlátari eða taki svo miklum sinnaskiptum á nýju kjörtímabili að það sé einhver von til þess að hegðan þeirra í garð Háskóla Íslands muni eitthvað breytast.

Í öllu falli varðar þetta mál það umhverfi sem háskólastofnanir á Íslandi búa almennt við. Samkeppnisumhverfi hafa margir kallað það, mér er það svo sem ekki tamt á tungu og ekki beint sátt við það að tala um samkeppnisumhverfi háskóla en engu að síður ítreka ég hér það sem ég hef áður sagt, það hallar á opinberu háskólana í „samkeppninni“ við einkaháskólana vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra hefur haft tilhneigingu til að draga taum einkaháskóla umfram hinna opinberu. Ef hér er að verða einhver bragarbót í þeim efnum fagna ég því en vil þá líka að það komi fram í máli hæstv. ráðherra með hvaða hætti slík bragarbót færi fram.

Varðandi fjármálin sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom ágætlega inn á í sínu máli er alveg ljóst að ákveðnir þættir hér eru nokkuð fyrirsjáanlegir, en aðrir ekki. Það væri fengur að því fyrir fulltrúa í menntamálanefnd Alþingis að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra áður en umræðan er úti á hvern hátt hún sjái málinu lent til enda. Þá er ég ekki bara að tala um þessa 31 milljón sem getið er um í 11. kafla skýrslu starfshópsins í töluliðum 11.1–11.5. Ég vil fá að heyra hæstv. ráðherra úttala sig eitthvað um aðra liði 11. kaflans, þ.e. punkta 11.6–11.11. Þeir punktar varða t.d. kostnað við stjórnsýslu sameinaðra háskóla og þar er líka talað um ákveðna þætti er varða kjör starfsmanna, ákveðna þætti er varða (Forseti hringir.) stoðkerfi og stofnanir.

(Forseti (RG): Forseti vill inna ræðumann eftir því hvort hún eigi mikið eftir af ræðu sinni. Þingmaðurinn á enn þá rúmlega átta mínútur eftir af ræðutímanum en fljótlega verður gert hér matarhlé þannig að forseti er að meta hvort matarhlé verði gert að lokinni ræðu þingmannsins eða hvort þingmaðurinn óskar að gera hlé á ræðu sinni.)

Já, hæstv. forseti, ég skal ljúka máli mínu á 2–3 mínútum.

Það er ekki miklu meira um þetta að segja á þessu stigi málsins enda erum við hér við 1. umr. Hér eru ákveðnir þættir varðandi fjárútlátin sem fyrirsjáanleg eru sem þarf að vera vilji fyrir hjá hæstv. ráðherra til að takast á við. Við þurfum að fá það staðfest við þessa umræðu að það eigi að fylgja þeirri forskrift sem kemur fram í skýrslu starfshópsins jafnvel þó svo að fyrirsjáanleg séu talsvert mikil útgjöld í þeim efnum.

Auðvitað erum við á löggjafarsamkundunni sameinuð í því að efla háskólamenntun á Íslandi. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því, ef marka má orð hennar í flutningsræðu, að sameining þessara háskólastofnana geti verið hluti af þeirri eflingu sem nauðsynleg er. Ég held og er sannfærð um að þessi stofnun getur orðið verulega sterk og ég treysti þá líka á það að hún verði hluti af sterkri heild háskólasamfélags sem getur í náinni framtíð, á næstu fáum árum, reist merki Íslendinga og íslenska menntakerfisins svo hátt að við getum í alvöru staðið undir nafni sem menningarþjóð á norðurhjara, menntaþjóð, þjóð sem ber menntakerfið fyrir brjósti og hefur það í hávegum. Mér finnst skipta verulegu máli að við stöndum sameinuð á bak við metnaðarfull ætlunarverk Háskóla Íslands sem auðvitað geta ekki orðið að veruleika nema héðan komi öflugur stuðningur: Þá vil ég meina að sá stuðningur þurfi að vera þvert á flokka, það sé nauðsynlegt. Í þeirri vinnu er ég tilbúin til að taka þátt.