Námsgögn

Fimmtudaginn 25. janúar 2007, kl. 16:59:21 (3886)


133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hlutverkið er ekki stórt og mikið. Það er í rauninni bara að tryggja að það séu settar reglur og að þeir aðilar sem hlut eiga að máli, sveitarfélögin, Kennarasambandið og síðan einn frá menntamálaráðuneytinu ákveði fjármagnið. Við vitum hvað fjárhæðin er stór og síðan ákveður þessi stjórn hvað eigi að fylgja hverjum nemanda til hvers skóla. Hlutverkið er ekkert mjög flókið. Það er alveg hárrétt líka sem hv. þingmaður segir að gæðaeftirlitið er eftir á þannig að við höfum það líka á hreinu.

Í framsögu minni gat ég þess sérstaklega að við værum að breyta fyrirkomulaginu varðandi námsgögnin. Við erum að fara í þriggja stoða fyrirkomulag. Það er Námsgagnastofnun. Það er þessi námsgagnasjóður, fjármagn sem rennur beint til skólanna. Það er þeirra að ákveða hvert þeir vilja beina sínu fjármagni og sínum kaupum. Í þriðja lagi verður svo að vera einhver sjóður sem er til taks til þess að þróa námsgögn. Við verðum að hafa ákveðinn þróunarsjóð á öllum skólastigum til þess að efla námsgagnagerð í landinu og það getur verið með ýmsum hætti. Það getur verið á sviði tölvuforrita, eins og hv. þingmaður kom hér inn á. En það verður að vera til ákveðinn sjóður, þróunarsjóður, nýsköpunarsjóður námsgagna þar sem menn hafa færi á að koma með eitthvað nýtt inn í námsgagnaflóruna, eitthvað sem er ekki gefið og menn sjá ekki fyrir fram. Þess vegna eru þessar þrjár stoðir svo mikilvægar og mikilvægt er að menn hafi í huga hvert markmiðið er með hverri stoð.

Ég vona að ég hafi náð að útskýra þetta eitthvað. Eins og ég gat um áðan mun hv. þingmaður hafa tækifæri til þess í hv. menntamálanefnd að fara enn betur yfir þetta því að tíminn er að hlaupa frá okkur núna.