Fátækt barna og hagur þeirra

Mánudaginn 29. janúar 2007, kl. 16:30:33 (3916)


133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:30]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum hér alvarlegt málefni, um fátækt barna. Það er miður að verða vitni að ræðum hv. stjórnarliða sem virðast fara í einhverjar reikniæfingar, ég tala nú ekki um hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Heyra mátti af ræðu hans að miðgildið væri reiknað hér með allt öðrum hætti en víðast hvar annars staðar.

Hæstv. forsætisráðherra talar um afstæða útreikninga á fátækt. Fátæktarmörk séu vissulega hærri hér en víða annars staðar í heiminum. Það er rétt. Fátæktarmörkin er hærri hér en það fæst minna fyrir þúsundkallinn á Íslandi en í Tyrklandi sem er ef til vill það land sem hæstv. forsætisráðherra miðar sig við. Það má kannski frá tvö, þrjú læri fyrir þúsundkall þar en varla hálft læri á Íslandi. Við eigum því að nota þessa alþjóðlegu útreikninga og bera þá saman. Það er ekkert annað að gera.

Mér finnst alveg furðulegt að verða vitni að þeirri umræðu hjá stjórnarliðum hvernig menn reyna að snúa út úr umræðunni. Það eru einfaldlega staðreyndir sem koma fram í skýrslunni, að 6,6% barna eru undir fátæktarmörkum á Íslandi. Ætla menn að takast á við það? Svarið í umræðunni er einfalt. Stjórnarliðar eru mjög ánægðir með ástand mála og vilja engu breyta. Ekki er annað að heyra af máli t.d. hv. þm. Birkis J. Jónssonar og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, en að þeir séu ánægðir með ástandið eins og það er. En í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þ.e. á Norðurlöndunum, er hlutfallið tvöfalt og þrefalt lægra. Þetta er sá veruleiki sem þessir flokkar, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, eru ánægðir með.

Við í Frjálslynda flokknum erum ekki ánægð með þetta og höfum bent á að þetta er ekki einhver þróun sem við höfum þurft að fara í. Alls ekki. Þetta er afleiðing af skattstefnu núverandi ríkisstjórnar, sem hefur birst m.a. í því að taka alltaf meira og meira af þeim með lágu launin og minna og minna af þeim með háu launin, eða réttara sagt, minna og minna af þeim sem eru með allra hæstu launin. Því í raun hefur skattbyrðin á 90% landsmanna aukist, en einn hópur stendur eftir, sá sem er með 10%, þ.e. hæstu tekjurnar. Þannig birtist þessi stefna stjórnvalda og þeir eru ánægðir með þá stefnu.

Fram kemur í skýrslunni að hlutfall fátækra barna hefur hækkað á síðustu árum meðan hagur þjóðarinnar hefur verið að batna. Maður spyr sig: Eru menn ánægðir með þá þróun? Við í Frjálslynda flokknum erum það ekki. En stjórnarflokkarnir vilja þetta og hafa í raun reynt að leyna þessu. Það hefur komið fram í umræðunni að erfitt hafi verið að fá skýrsluna fram. En það hefur einnig verið erfitt að fá fleiri svör frá hæstv. forsætisráðherra vegna þess að áður gegndi hann starfi fjármálaráðherra. Þá var ekki hægt að fá upp úr þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra hver misskiptingin yrði í samfélaginu þegar skattstefna ríkisstjórnarinnar hefði náð fram að ganga. Því vildi hann leyna þegar hann var spurður að því vegna þess að hann vissi sem var, að svarið sýndi fram á að ríkisstjórnin væri að stefna að ójöfnuði og enn meiri ójöfnuði.

Í lokin vil ég minnast á það, að hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði að við megum ekki gleyma þeim sem minna mega sín. Það er alveg rétt. Framsóknarflokkurinn gleymir ekki þeim sem minna mega sín þegar skattlagning á í hlut. Það kom vel fram hvað varðar fjáröflun Ríkisútvarpsins því það á að beita nefskattinum með jafnmiklum þunga á þá sem eru með lægstu tekjurnar og þá sem eru með hæstu tekjurnar. Að vísu verður einn tekjuhópur algjörlega undanskilinn og það er sá hópur sem hefur tekjur eingöngu af fjármagni. Þetta býður Framsóknarflokkurinn upp á og þeir flokkar sem nú ráða ríkjum eru ánægðir með þá stefnu. Fólk verður að gera sér grein fyrir að það verður engu breytt nema að þessum flokkum verði hrint frá völdum í komandi kosningum 12. maí næstkomandi.