Reglur um aflífun og flutning búfjár

Miðvikudaginn 31. janúar 2007, kl. 14:32:18 (4068)


133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

reglur um aflífun og flutning búfjár.

250. mál
[14:32]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spyr hvað líði endurskoðun reglna um aflífun og flutning búfjár. Önnur reglugerðin er frá árinu 1957 en hin 1958. Það er unnið á vegum umhverfisráðuneytisins að endurskoðun þessara tveggja reglugerða og það var stofnuð nefnd til að vinna að þeirri endurskoðun. Ég tek undir með hv. þingmanni að þessar reglugerðir eru taldar bæði úreltar og ekki í takt við tímann og við endurskoðunina var gert ráð fyrir að tekið yrði mið af annars vegar reynslu liðinna ára og hliðstæðum reglum í löndum Evrópusambandsins hins vegar. Í nefndinni sitja auk fulltrúa umhverfisráðuneytisins fulltrúar tilnefndir af Umhverfisstofnun og síðan fulltrúar úr því ráðuneyti sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson, fyrirspyrjandi, nefndi hér öðrum fremur sem er landbúnaðarráðuneytið.

Nefndin hefur lokið vinnu við endurskoðun annarrar reglugerðarinnar, þeirrar sem er frá 1957 og er um slátrun búfjár. Nefndin tók í störfum sínum mið af reynslu liðinna ára og hliðstæðum reglum Evrópusambandsins eins og var markmiðið með starfinu. Nefndin hefur sent drög að þessari reglugerð til umsagnar til um þriggja tuga aðila og hefur fengið viðbrögð frá þeim aðilum. Í þessari nefnd áttu sér stað miklar umræður um eftirlit með framfylgd reglugerðarinnar svo og um þvingunarúrræði og viðurlög. Þetta var helst og mest rætt innan nefndarinnar. Einnig hefur verið rætt sérstaklega um hvernig æskilegt væri að skipta verkum milli umhverfisráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins hvað þetta varðar. Viðræður hafa átt sér stað milli þessara tveggja ráðuneyta og það má segja að niðurstöðu úr þeim viðræðum sé að vænta fljótlega.

Það er ljóst að ef breyta á verkaskiptingu milli þessara tveggja ráðuneyta hvað þessar reglugerðir varðar þarf líka að ráðast í breytingu á lögum um dýravernd sem eru frá 1994. Nefndin vinnur enn að endurskoðun hinnar reglugerðarinnar um meðferð búfjár við rekstur og flutning með vögnum, skipum og flugvélum og sú vinna er langt komin, það er reglugerðin frá 1958, og nefndin hefur í vinnu sinni tekið mið af reglum Evrópusambandsins um velferð dýra í flutningum. Nefndin gerir ráð fyrir að senda drög að reglugerð á næstu vikum til fjölda hagsmunaaðila til umsagnar og það er áætlað að þessi nefnd ljúki síðan endanlega störfum sínum á næstu vikum.