Leiga aflaheimilda

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 11:13:29 (4119)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:13]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Kvótakerfið eins og það hefur þróast hefur því miður orðið að byggðaröskunarkerfi. Það sjáum við á hinum miklu tilfærslum í aflaheimildum, bæði í gegnum hið fasta sölukerfi kvótans og einnig í leigukerfinu. Það eru til byggðir á Vestfjörðum sem leigja til sín kvóta fyrir sennilega yfir 100 millj. á ári.

Hingað til hefur ekki verið mikið um aðra grunnatvinnu að ræða á Vestfjörðum en einmitt sjávarútveginn sem hefur byggt upp þær byggðir. Sú hefur reyndin verið víða á landinu. Tilfærslukerfið, sem annars vegar á sér stað í gegnum aflasöluna, aflamarkið, og hins vegar leigukerfið eru hins vegar þannig upp sett að það er ekki nokkur leið að átta sig á því hvar byggðin heldur velli og hvar aflaheimildirnar verða til staðar áfram fyrir atvinnurétt fólksins. Ætli Akureyrardæmið sé ekki nýjasta dæmið um það, þ.e. ef við minnumst ekki á norðausturhornið sem á sennilega ekki lengur veiðirétt eftir örfáa daga heldur eru það Grandi og Vestmannaeyjar sem eiga veiðiréttinn á norðausturhorni landsins.

Veiðiskylduna er auðvitað hægt að setja upp, hækka hana, og það er einnig hægt að setja inn þá reglu að þeir sem fá til sín veiðiheimildir öðlist veiðirétt út á það sem þeir veiða og hafa fengið frá öðrum. Það eru til fjölmargar leiðir til þess að lagfæra kerfið eins og það er en ríkisstjórnin hefur ekki haft nokkurn vilja til þess að gera það. Þess vegna er einfaldlega fram undan að takast á við hvernig þetta kerfi hefur þróast og gjörbreyta því að mínu mati, hæstv. forseti.