Leiga aflaheimilda

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 11:20:18 (4122)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að menn verði að fara að huga að löggjöfinni í þessum efnum á þá lund að hér sé um viðskipti að ræða og setja reglur um það á þeim grunni og út frá samkeppnislögum. Það er eðlilegt að líta svo á að viðskipti af þessu tagi falli undir viðskiptaráðuneytið fremur en sjávarútvegsráðuneytið. Ég held að það hamli mjög þróuninni í þessu efni hversu sterk tök kvótaeigendur hafa á sjávarútvegsmálum á Íslandi í gegnum stjórnmálaflokkana. Það er greinilegt að þau tök leiða til sérhagsmuna sem eru hafðir í öndvegi og almannahagsmunum er ýtt til hliðar.

Einstakir kvótahafar geta á hverju ári haft út úr því að nýta ekki þær heimildir sem þeir fá afhentar frá ríkinu á hverju ári fyrir 2 kr. á kíló eða jafnvel minna að eigin geðþótta. Fyrirtæki eins og Brim, óskabarn Akureyringa — eða hvað? — getur leigt frá sér 3–4 þús. tonn af þorski og tekið í vasa eigendanna 500, 600, 700 millj. kr. Af þessum peningum þarf ekki að borga nein útgjöld, engin mannalaun, engum fyrirtækjum, engin gjöld í bæjarsjóð. Þetta eru bara peningar í vasann hjá hluthöfunum. Þeir bera engar skyldur, ekki við byggðarlagið þar sem til veiðiheimildanna var stofnað og þeirra aflað með vinnu þess fólks sem þar býr. Þeir hafa engar skyldur við það og þeir flytja bara til Hafnarfjarðar, virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi að gera uppskurð á þessu og menn þurfi að viðurkenna það að þessi auðlind er, eins og orkuauðlindin, eign þjóðarinnar. Arðinum af henni á að dreifa til þeirra sem hann skópu.