Málefni Frjálslynda flokksins

Miðvikudaginn 07. febrúar 2007, kl. 12:18:23 (4393)


133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:18]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Mig langar að vitna aðeins í þennan fræga pistil sem hv. þingmaður og ritari Framsóknarflokksins flutti í Ríkisútvarpinu. Hér segir hún m.a. með leyfi forseta:

„Um síðustu helgi stigu Frjálslyndir skrefi lengra í andúð sinni, þeir hættu að daðra við andúð á útlendingum og ákváðu að ganga alla leið — það kom greinilega fram í setningarræðu Guðjóns Arnars, formanns flokksins, sem talaði á þann veg að auka og ala á ótta fólksins í landinu við fólkið sem hingað kemur í atvinnuleit. Ég ætla ekki að endurtaka hér ógeðfelldan boðskap formanns Frjálslyndra …“

Hér hefur hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir ekki fært nein rök fyrir þessu í pistli sínum. Það var ekkert ógeðfellt í þeim flutningi. Þetta er náttúrlega fyrst og fremst tilraun Framsóknarflokksins sem er vegna áralangrar spillingar að þurrkast hreinlega út. Þetta er tilraun til að draga athyglina frá því.

Varðandi málefni útlendinga eigum við að sjálfsögðu að leyfa málefnalega umræðu. Það er það sem stendur í hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur að Frjálslyndi flokkurinn hefur þorað það.

Varðandi sakaskrá. Gerir hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir sér grein fyrir því að nú þegar er farið að handtaka á Keflavíkurflugvelli þekkta hryðjuverkamenn? (SæS: Það er einmitt þessi málflutningur.) Þú vilt fá sem sagt þekkta hryðjuverkamenn inn í landið? Þú vilt kannski bjóða þeim heim til þín? (Forseti hringir.)