Reiknilíkan heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 07. febrúar 2007, kl. 14:17:11 (4440)


133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

reiknilíkan heilbrigðisstofnana.

163. mál
[14:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna sérstaklega þessari fyrirspurn sem lýtur að reiknilíkaninu af því að ég tel að það sé mjög mikilvægt tæki til að gæta réttlætis í útdeilingu fjármuna.

Í fyrsta lagi er hér spurt hvernig einstakir veigamiklir þættir sem hafa áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana, t.d. fjölmennar frístundabyggðir í umdæmi þeirra, eru teknir inn í reiknilíkan stofnananna.

Því er til að svara að fjárveitingar til reksturs heilsugæslustöðva hafa verið endurskoðaðar og sérstakt reiknilíkan útbúið til að meta fjárþörf einstakra heilsugæslustöðva og/eða heilsugæslusviða heilbrigðisstofnana. Lagt var upp með að líkanið yrði einfalt í framsetningu en tæki þó í ákveðnum tilvikum tillit til séraðstæðna stofnana. Við mat á fjölda ársverka tekur líkanið meðal annars tillit til fjölda íbúa á starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar auk þess sem tekið er tillit til ákveðinna séraðstæðna eða sérþátta.

Meðal þeirra atriða sem reiknilíkanið tekur mið af eru meðal annars hvort stofnunin starfrækir fleiri heilsugæslustöðvar en eina eða heilsugæslusel, víðfeðmi starfssvæðisins, samgöngur, sjúkraflutningar, áherslur í heimahjúkrun, sumarhúsabyggð, framhaldsskólar og aðrir staðhættir.

Varðandi aðra spurninguna er því til að svara að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu skulu íbúar einstakra sveitarfélaga og byggðarlaga jafnan eiga rétt á því að leita til læknis eða til þeirrar heilsugæslustöðvar eða læknismóttöku sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni, leita sér læknishjálpar sem sagt þangað. Vegna aukins hreyfanleika vinnuafls er eðlilegt að sjúklingar leiti eftir grunnþjónustu heilsugæslunnar þar sem hún er næst enda er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Í ráðuneytinu hefur verið kannað hjá einstökum stofnunum ráðuneytisins hve margir einstaklingar á viðkomandi svæði eiga lögheimili utan umdæma stöðvanna og leita eftir þjónustu þeirra.

Eins og fram kom í svari mínu við fyrstu spurningu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur tekur reiknilíkanið tillit til aukins álags á einstaka heilsugæslustöðvum þar sem frístundabyggðir eru. Ég get nefnt sem dæmi að á Suðurlandi var bætt við hálfu stöðugildi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands vegna frístundabyggðarinnar sérstaklega, þ.e. á Heilsugæslustöðinni á Selfossi þar sem hálfri læknastöðu var bætt við.

Varðandi þriðju spurningu hv. þingmanns þá er því til að svara að í fjárlögum ársins 2007 er hækkun fjárveitinga hjá heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum sem eru með of lágar fjárveitingar samkvæmt reiknilíkaninu. Í þeim tilvikum þar sem umtalsverður munur er á fjárheimildum og niðurstöðu reiknilíkansins voru niðurstöður reiknilíkansins látnar ná til nokkurra fyrri ára til að leiðrétta rekstrarframlag til þessara stofnana. Þannig var í fjáraukalögum 2006, á síðasta ári, horft til nokkurra fyrri ára og sem dæmi þá var sett inn í fjáraukann 144,7 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands einungis vegna reiknilíkansins. Þarna er verið að greiða niður halla fyrri ára. Það er sem sagt viðurkennt með reiknilíkaninu að það var, má segja, eins og oft er nú sagt í umræðunni, rangt gefið í upphafi. Stofnunin átti að fá meira þannig að það var tekið tillit til þess í fjáraukanum. Í fjárlögunum 2007 var bætt í grunninn hjá nokkrum heilbrigðisstofnunum vegna reiknilíkansins. Ég get tilgreint að til dæmis á Heilbrigðisstofnun Suðurlands var bætt í grunninn 37,5 millj. kr. vegna reiknilíkansins. Reiknilíkanið sýndi að það vantaði 37,8 millj. kr. Þarna vantar 300 þús. kr. upp á. Reiknilíkanið er því að skila sér með afturvirkum hætti til stofnananna þannig að það er búið að taka og höggva verulega á þá hala sem mynduðust og svo er verið að setja inn í grunninn til framtíðar. Reiknilíkanið sýnir að sumar stofnanir hafa verið að fá of mikið en aðrar of lítið.

Það er almennt mjög mikil ánægja hjá stjórnendum þessara stofnana með reiknilíkanið. Auðvitað þarf að breyta því í tímans rás. En einhvers staðar verður að byrja og miðað við hvernig þetta er núna þá hefur almennt tekist mjög vel til. Ég tel að við eigum að reikna út eftir svona líkönum en ekki eftir því hverjir gala hæst á fjármagn af því að það er ekkert réttlæti sem felst í því.