Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 13. febrúar 2007, kl. 17:29:44 (4606)


133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[17:29]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því aðeins að nálgast þetta mál út frá hlutverki umhverfisráðuneytisins í ákvörðunum sem lúta að rannsóknum og nýtingu auðlinda lands og sjávar. Ég vil minna á að ég hef nokkrum sinnum flutt á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna sem felur í sér að flytja Hafrannsóknastofnun frá sjávarútvegsráðuneyti til umhverfisráðuneytis með þeim rökum að auðlindir sjávar, sem menn eiga að sjálfsögðu að nýta, eigi að gera það undir forskrift umhverfismála en ekki atvinnumála þannig að umhverfisráðuneytið eigi að marka umgjörðina um nýtinguna, fara með rannsóknir, ákvörðun um friðun og ákvörðun um nýtingu, þ.e. ákvörðun um nýtingu einstakra fiskstofna um heildaraflamark. Síðan sjá atvinnuvegaráðuneytin um framkvæmdina á nýtingunni eftir lögum þar um.

Ég vil nálgast þetta frumvarp með sama hugarfari og felst í því frumvarpi og segja að mér finnst hlutskipti umhverfisráðuneytisins í þessu frumvarpi vera harla vesaldarlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það er í raun sett undir hæl iðnaðarráðuneytisins og þegar honum sleppir þá er það sett undir forsjá forsætisráðuneytisins, þannig að umhverfisráðuneytið er nokkurn veginn í annarri deild í Stjórnarráðinu í meðferð á þessum málum.

Það má t.d. sjá í 14. gr. frumvarpsins en þar segir, með leyfi forseta:

„Við veitingu nýtingarleyfa í eignarlöndum ríkisins og þjóðlendum skal þess sérstaklega gætt að tekið sé tillit til ákvæða laga um meginreglur umhverfisréttar.“

Tekið tillit til, þ.e. að sá ráðherra sem fer með framkvæmdina á þessum lögum, sem er iðnaðarráðherra, á að taka tillit til þess sem stendur í lögum sem falla undir umhverfisráðherra. Hann á ekki endilega að fara eftir því, hann á að taka tillit til þess. Og hver er það sem ákveður hvenær tillit hefur verið tekið til þess sem stendur í lögum um umhverfisrétt? Jú, það er iðnaðarráðherra. Það er því iðnaðarráðherrann sem ákveður að hve miklu leyti hann tekur tillit til ákvæða laga um meginreglur umhverfisréttar. Með öðrum orðum, það er ekki umhverfisráðherra sem túlkar lögin um umhverfisrétt í þessu tilliti heldur iðnaðarráðherra.

Mér finnst hlutur umhverfisráðuneytisins í þessu ferli verða æðirýr þegar þess er gætt að auðvitað á umhverfisráðuneytið að vera fullmektugt ráðuneyti til jafns við önnur ráðuneyti, en þetta frumvarp setur umhverfisráðuneytið undir dóm iðnaðarráðuneytisins að þessu leytinu til. Reyndar get ég nefnt fleiri dæmi sem lýsa svipaðri stöðu.

Í fyrsta lagi á iðnaðarráðherra að skipa starfshóp sem á að gera tillögu um nýtingu eða á hvaða svæðum auðlindanýting verði heimiluð. Auðvitað er það umhverfisráðherra sem ætti ekki bara að gera tillögur um slíkt heldur ákveða slíkt. Það er a.m.k. mitt sjónarmið í málinu að ef við ætlum að nálgast þennan málaflokk og meðferð lands og reyndar sjávar sem umhverfismál þá eigum við að fela umhverfisráðuneytinu að taka þessar ákvarðanir að svo miklu leyti sem þær eru ekki teknar í lögum. Hérna er sem sé iðnaðarráðuneytinu, atvinnuvegaráðuneytinu falið að stjórna tillögugerð um það. Umhverfisráðuneytið stjórnar aðeins tillögugerð um það á hvaða svæðum nýting verði ekki heimiluð og hefur enga tryggingu fyrir því að farið verði eftir þeim tillögum því að þær eiga að fara til forsætisráðuneytisins og forsætisráðuneytið á síðan að hafa yfirstjórn á því að ákveða hvað um tillögurnar verði. Síðan koma þær til þingsins í formi frumvarps sem umhverfisráðherra hefur ekki nein tök á.

Mér finnst því staða umhverfisráðuneytisins sem þess aðila í stjórnsýslunni sem á að taka mótandi ákvarðanir í umhverfismálum vera afar bágborin svo ég kveði nú ekki fastar orði og reyndar endurspegla dálítið hlutverk umhverfisráðuneytisins á undanförnum árum þar sem hlutverk þess hefur fyrst og fremst verið það að ógilda úrskurði stofnana umhverfisráðuneytisins sem hafa hafnað tilteknum framkvæmdum vegna þess hversu mikil áhrif þær hafi á umhverfið. Það er auðvitað ekki merkilegt hlutverk ráðuneytis þegar helsta hlutverk þess á undanförnum árum hefur verið að ógilda slíka úrskurði og leyfa framkvæmdir sem hafa töluverð röskunaráhrif og mikil, það mikil að mati stofnana ráðuneytisins að þær hafa lagst gegn því. Ég held að það sé kominn tími til að breyta nálguninni til hlutverks umhverfisráðuneytisins frá því sem verið hefur og er lýsandi í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi vil ég nefna að frumvarpið er í raun og veru, þrátt fyrir það sem í því stendur og má segja ýmislegt um og margt jákvætt, þá er það samt í meginatriðum frumvarp um að fresta stefnumörkun og fresta því að taka ákvarðanir sem geta komið í veg fyrir eða sett stífari bönd á þær stóriðjuframkvæmdir sem stjórnvöld hafa áhuga á að hrinda í framkvæmd á næstu árum. Það er kannski stærsti gallinn á þessu máli að það er í raun og veru sett að miklu leyti í hendur stjórnvalda að hrinda þessum ákvörðunum í framkvæmd með þeim reglum sem gilt hafa í megindráttum þannig að það eru ekki í raun og veru settar neinar nýjar reglur eða ákvæði sem breyta þeim áformum sem uppi eru.

Þannig eru t.d. engin ný ákvæði sem vernda Þjórsárver í frumvarpinu. Við vitum að stjórnvöld hafa verið mjög treg til að falla frá frekari áformum um virkjanir á því svæði, skulum við segja, og aðeins fengist til þess að lýsa yfir að þeim áformum hafi verið skotið á frest eða lögð til hliðar um tíma. Það hefur ekki fengist yfirlýsing um það frá ríkisstjórninni að menn hafi hætt við áformin og mér lýst þannig á að það muni ekki vera áform stjórnvalda að hætta við það, heldur sé fullur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að fara í Norðlingaölduveitu en ríkisstjórnin hafi bara ekki hug á því að upplýsa um þann vilja sinn fyrr en eftir kosningar.

Þannig les ég út úr þeim yfirlýsingum sem komið hafa í þessu máli, bendi m.a. á að þingmál hefur legið fyrir í allan vetur um Þjórsárver sem ekki hefur fengist tekið fyrir í umhverfisnefnd, þannig að það hlýtur að lýsa þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar að það eigi ekki að gera neitt hér á Alþingi, hvorki í lagasetningu né með þingsályktun, sem bindur hendur þeirra sem vilja ráðast í Norðlingaölduveitu. Það er auðvitað slæmt, það er slæmt að menn vilji hafa svo rúmar hendur eins og hefur verið rakið fyrr í umræðunni að áður en framtíðarstefnan verður í fyrsta lagi ákveðin og í öðru lagi lögfest þá geti menn hrint í framkvæmd öllum þeim stóriðjuáformum sem eru uppi á borðinu þessa mánuðina. Það er auðvitað ekki ásættanlegur frágangur á máli, það er ekki ásættanleg stefnumörkun, það er aðeins yfirvarp og þó að áformin sem menn lýsa að þeir hafi áhuga á að setja inn í framtíðarstefnuna séu að mörgu leyti áhugaverð og hægt að taka undir þau þá eru þau yfirvarp, það er hálfgerð blekking að tefla þessu fram vegna þess að það er verið að beina athyglinni frá því sem er raunveruleikinn, að menn geti haldið áfram að festa stóriðjuframkvæmdirnar sem eru á borðinu og hafa verið á undanförnum mánuðum. Það er það sem málið snýst um.

Ætlar núverandi ríkisstjórn að ganga frá því áður en kosið verður að festa stóriðjuframkvæmdir í Helguvík, Straumsvík, Húsavík og jafnvel Þorlákshöfn, þannig að þeir sem koma að málinu eftir næstu kosningar komi að hlutunum gerðum sem ekki verður hægt að rifta eða breyta nema með stórfelldum skaðabótum? Ég held að við verðum að fá yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um hvað hún ætlast fyrir í þeim efnum vegna þess að þetta er fyrst og fremst ríkisstjórnarmál, þetta er ekki sveitarstjórnarmál. Það er mikil einföldun að halda því fram að einstakar sveitarstjórnir ráði því hvort ráðist verði í 400 milljarða kr. framkvæmdir á næstu fjórum, fimm árum eða jafnvel meiri. Það er pólitísk stefna sem er ráðin í Stjórnarráðinu og ekki annars staðar. Við því þurfum við að fá skýr svör, hvað ætlar ríkisstjórnin að ganga langt fyrir næstu kosningar? Menn geta svo rætt þetta frumvarp og afgreitt það eftir atvikum en það mun ekki breyta neinu um þær spurningar sem ég hef sett hér fram og reyndar fleiri hv. þingmenn á undan mér.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég er að mörgu leyti á því og hef stutt það að menn nýti auðlindir lands ekki síður en auðlindir sjávar og ég held að menn eigi að gera það áfram, en menn eiga auðvitað að gera það út frá því sjónarmiði að menn nýti landið með þeim hætti að þeir skili því af sér í svipuðu eða ekki lakara ásigkomulagi en menn tóku við því þannig að það sé ekki gengið á möguleika komandi kynslóða til að framfleyta sér og skapa sér lífskjör. En það á líka að gera það með því upplagi að menn reyni að nýta auðlindirnar með sem bestum hætti fyrir land og þjóð. Eitt er víst að Íslendingar hafa á undanförnum árum, að mínu viti, ekki gert það vegna þess að menn hafa boðið raforkuna á svo ódýrum kjörum og lágu verði að einsdæmi er í allri Evrópu. Það er staðreynd sem menn vita, að Íslendingar hafa boðið lægsta raforkuverð í allri Evrópu. Það komu fréttir um það á Bloomberg fréttastöðinni á síðasta ári að Íslendingar byðu verð sem væri 30% lægra en það sem byðist í Evrópu. Þær fréttir voru ekki staðfestar af íslenskum stjórnvöldum en ég varð heldur ekki var við að þær væru bornar til baka.

Ég hef setið ráðstefnu um orkumál erlendis þar sem fulltrúi Evrópusambandsins kom einmitt inn á þetta og sagði að þau fyrirtæki sem hefðu hug á því að ráðast í iðjuver sem þyrftu mikla raforku væru öll á leiðinni til Íslands vegna þess að þar væri boðið besta verðið. Ég spyr: Er það nú skynsamleg ráðstöfun orkuauðlindar Íslendinga að bjóða hana á niðursettu verði? Erum við að gera það besta fyrir land og þjóð að bjóða stórum fyrirtækjum þessar auðlindir á svo lágu verði að þjóðhagsleg arðsemi verður miklu minni en ella skyldi vera? Ég held að við höfum því miður stundað útsölustarfsemi á raforkunni á undanförnum árum og ég held því miður að raforkuverðið sem menn hafa samið um eða rætt um í þeim framkvæmdum sem eru á döfinni einkennist líka af þeirri verðlagningu að það sé allt of lágt.

Ég er að mörgu leyti sammála því sem kom fram fyrr í þessari viku hjá fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigríði Önnu Þórðardóttur, að það væri skynsamlegt að bíða. Verðið gerir ekkert annað en að hækka og það að virkja ekki er ekki fórn heldur sparnaður eða ávinningur. Við höfum alveg efni á því að leyfa okkur að bíða eftir því að fá hærra verð eða að semja um hærra verð. Það er engin knýjandi nauðsyn á því að semja um lágt verð áfram. Það ríkir ekki sama ástand nú og árin 1993 og 1994 þegar samdráttur var í íslensku efnahagslífi. Þá var skiljanlegt að íslensk stjórnvöld legðu sig fram um að ná samningum um stóriðju til þess að koma aftur snúningi á íslenskt efnahagslíf, enda var það skynsamlegt við þær aðstæður. En það er ekkert skynsamlegt við þær aðstæður eins og við höfum búið við á síðustu árum að bæta í nýjum framkvæmdum ofan í þær sem eru fyrir eða eru að klárast, þegar afleiðingin af því verður eins og menn þekkja, verðbólga og þensla.

Íslensk heimili skulduðu um síðustu áramót um 1.300 millj. kr. Ríkisstjórnin setti sér í upphafi kjörtímabilsins það takmark í efnahagsmálum að verðbólgan færi ekki yfir 2,5% á ári. Hún hefur verið yfir þeim mörkum öll ár kjörtímabilsins vegna þess að menn hafa ráðist í of mikið í efnahagsmálum. Stóriðjumálin vega þar mjög þungt, ef ekki þyngst, en auðvitað líka ásamt útþenslu bankanna sem við þekkjum. Þess vegna hefur verðbólga verið meiri en menn settu sér, um 7–8% meiri. Og ef verðbólgan hefði haldist í þeim 2,5% sem stjórnin setti sér þá hefðu íslensk heimili skuldað hundruðum milljörðum minna um síðustu áramót en þau gerðu. Það er kostnaður íslenskra heimila af þessari efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem leiddi af sér verðbólguna umfram 2,5% og það leggst sem kostnaður á íslensk heimili.

Það er því ekki hægt að halda því fram að það sé bara gott að vera með þenslu og bara ávinningur að hafa mikinn snúning í íslensku efnahagslífi. Það fylgir nefnilega böggull skammrifi í þessu eins og öðru og sá böggull lendir á íslenskum heimilum í formi skulda og þær skuldir verða íslensk heimili að borga og af þeim skuldum verða íslensk heimili að borga vexti. Þetta eru háar fjárhæðir á hverju ári sem efnahagsstefnan hefur lagt á hvert og eitt íslenskt heimili vegna þess að menn réðu ekki við að halda efnahagslífinu í því horfi sem þeir settu sér, að hafa verðbólguna í 2,5% eða minna.

Menn verða að horfast í augu við afleiðingarnar af eigin stefnu og ríkisstjórnin verður að viðurkenna ábyrgð sína á þessu. Hún hlýtur að þurfa að svara íslenskum almenningi því hvað hún ætli að gera til að bæta mönnum þetta tjón. Því þetta er tjón, þetta er skaði á íslensk heimili sem er afleiðing af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Að hafa allt of mikið undir í efnahagslífinu þýðir þensla, það þýðir verðbólga, það þýðir tjón fyrir íslenskan almenning. Ríkisstjórnin og ráðherrarnir verða að axla ábyrgð á því.

Það er ekki nóg að axla ábyrgð með því að segjast hætta að gera það sem gert var vitlaust. Menn verða líka að svara því hvernig þeir ætli að axla ábyrgð á því þeir gerðu vitlaust. Hvernig ætla menn að bæta íslenskum heimilum þessar skuldir, virðulegi forseti? 100 milljarðar hvíla á íslenskum heimilum vegna þessarar efnahagsstefnu. Hver á að borga það? Ætlar ríkisstjórnin að koma með eitthvað til að létta þessum skuldum af heimilunum? Um það er spurt. Um það verður spurt í næstu kosningum.

Því það verður ekki spurt hvað menn gátu gert mikið og hvað menn gátu selt rafmagnið á lágu verði. Það verður spurt hvernig ríkisstjórnin geti bætt almenningi það tjón sem hún olli honum.

Ég vil svo, virðulegi forseti, aðeins víkja að því sem er framtíðarmúsíkin og lýst var í kynningu á málinu á þann veg að það að taka upp auðlindagjald og stofna auðlindasjóð væri grundvöllur fyrir þjóðarsátt um nýtingu auðlindarinnar. Ég vil þó fyrst segja að ég sé hvergi í frumvarpinu orðin auðlindagjald eða auðlindasjóður. Þannig að það er ekkert í frumvarpinu sem festir þá framtíðarsýn sem lýst var. Ekki orð um það.

Hins vegar get ég tekið undir að það er leið til þess að ná sátt um nýtingu auðlinda, að arðurinn af nýtingunni renni til fleiri en fárra, skulum við segja. Þessi yfirlýsing er reyndar líka yfirlýsing um það að ekki sé sátt um nýtingu sjávarauðlindarinnar vegna þess að þar er ekkert auðlindagjald sem nær neinu máli. Það er bara aðhlátursefni að nefna það sem útgerðarmenn greiða ríkinu árlega fyrir veiðiheimildir og það getur ekki gengið að auðlindagjald í orkunni verði með svipuðum hætti og í sjávarútveginum. Það verður aldrei nein þjóðarsátt um það.

Til þess að það verði einhver sátt um þessi mál, sem ég held að sé gerlegt, þá þarf að gæta að tvennu. Í fyrsta lagi að arðinum sé dreift þannig að það megi heita sanngjarnt. Það þýðir að almenningur fær að njóta góðs af því. Það þýðir líka að þeir sem búa við auðlindirnar njóti þeirra sérstaklega.

Við heyrum það sjónarmið norðan úr Þingeyjarsýslu sem mér finnst réttmætt, þótt það sé ekki einhlítt, að þeir leggist gegn nýtingu varmans, jarðhitans, í Þingeyjarsýslu ef orkan er ekki nýtt til atvinnusköpunar í þeirra héraði. Mér finnst sterk rök fyrir því og mér finnst að nýting auðlinda eigi að taka mið af því að arðinum sé skipt á milli þess svæðis þar sem orkan eða auðlindin er og þjóðarinnar allrar. Menn þurfa að skipta þessu á milli aðila. Það sama á auðvitað við um fiskimiðin. Ef menn gæta að þessu og svo hinu að þeir sem nýta borgi verð sem er í einhverju samræmi við þær tekjur sem menn hafa af nýtingunni þá ná menn sátt í málinu.

Nýting sjávarauðlindarinnar skilar um 130–140 milljörðum á ári. Það er ekki gefið upp og ekki tekið saman af stjórnvöldum hversu mikið menn greiða fyrir réttindin þar en þá upphæð má nálgast með þeim upplýsingum sem fyrir liggja um leigu og kaup. Ég mundi áætla að þeir sem nýta fiskimiðin væru að borga um 30–50 milljarða árlega fyrir réttinn, af þeim 130–140 milljörðum sem nýtingin skilar.

Ef við skoðum orkuauðlindina þá höfum við ákveðin dæmi fyrir okkur sem segja okkur eða sýna að þarna er líka um að ræða verðmæti upp á 10 eða 100 milljarða kr. Landeigendur við Jökulsána þar sem Kárahnjúkavirkjunin sækir afl sitt hafa höfðað mál til að fá viðurkenndan rétt sinn til að fá arð af nýtingunni. Þeir vilja að réttindin verði metið á 60 milljarða kr. Þeir gera kröfur til þess ef ég man rétt, að fá 15% af árlegum tekjum virkjunarinnar í sinn hlut fyrir réttindin.

Lítil virkjun var gerð í Fjarðará í Seyðisfirði og samningur til nokkurra áratuga. Þar var samið um að sá sem átti réttindin fengi 7,5% af árlegum tekjum virkjunarinnar fyrir réttindin. Þar var veitt á upphafsárum samningstímabilsins mun lægra afnotagjald eða auðlindagjald. En eftir að því tímabili lauk þá greiða þeir sem fá að nýta réttindin 10% af brúttótekjum virkjunarinnar til rétthafa.

Af þessum tveimur dæmum sjáum við því að nýting orkuauðlindanna skilar gríðarlegum peningum þegar fram í sækir þegar menn verða búnir að nýta alla þá orku sem áformað er að beisla á næstunni. Þess vegna mun skipta miklu máli hvernig menn ætla að skipta þeim arði.

Á að gefa hann til þeirra fyrirtækja sem reisa iðjuverin í formi lágra verða á raforkunni eins og menn gera í dag? Eða á að taka eðlilegt verð miðað við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar og taka arðinn inn og dreifa honum út með þeim hætti sem ég hef lýst?

Ef menn fara þá leið þá held ég að möguleiki sé á að ná þjóðarsátt um málið. En ég held að það verði aldrei þjóðarsátt um að selja raforku á afsláttarkjörum eins og menn hafa verið að gera á undanförnum árum, virðulegi forseti.