Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 13. febrúar 2007, kl. 20:45:38 (4623)


133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[20:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka margt í þessari síðustu ræðu hv. þingmanns, sem var að mörgu leyti skemmtilegir orðfimleikar. Því í annarri hvorri setningu hrósaði hann mér og í hinni setningunni lastaði hann mig og ég vil þakka honum fyrir fyrri setningarnar sem ég nefndi.

Hann nefndi, ekki án ánægju, tillögur flokks síns á sprotaþingi. Um sumar þeirra getur hann lesið í framsöguræðu minni á sama sprotaþingi þannig að þær eru ekki allar nýjar. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir það sem hann sagði um þær breytingar sem orðið hafa í samfélaginu á síðustu árum.

Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram í þessari umræðu, að í frumvarpinu er ekki um það að ræða að knúin sé fram eða borin sé fram einhver stóriðjustefna. Það er ekki verið að ýta á hraða eða pressa neitt í þeim efnum. Hins vegar er stuðst við lögmætar fyrri ákvarðanir og bestu flokkun í fyrsta áfanga rammaáætlunar.

Menn spyrja mikið um stefnu ríkisstjórnarinnar og ég verð fyrir þeim vonbrigðum að í þeim spurningum er alltaf verið að spyrja um einhvers konar ráðstjórnarstefnu, einhvers konar samþjappaða stefnu ríkisins, einhvers konar forustustefnu og ríkisstefnu. En með m.a. atkvæðum samfylkingarmanna var ákveðið með lögum árið 2003 að breyta stjórnsýslunni á þessu sviði og reyna að laga það sem allra mest eftir því sem atvik leyfa að almennum viðskipta- og atvinnuskilmálum í þjóðfélaginu. Það var heillaspor og það ræður að sjálfsögðu töluverðu um viðbrögð okkar, stefnu og málflutning.

Ég held að það sé alvarlegt fyrir almenning, og ég held að ég verði að lýsa vonbrigðum mínum með það, að það kemur greinilega fram að menn trúa því að hér eigi að taka upp stopp/start-stefnu eða start/stopp-stefnu. Ég tala nú ekki um þegar það afbrigði kemur hér upp sem er stopp/stopp.

Ég var ekki að lýsa neinu vantrausti á íslenska hagkerfið eða íslenskt atvinnulíf. Ég held því fram að yfirleitt sé óheppilegt í hagstjórn í öllum hagkerfum að aðhyllast og framfylgja start/stopp-stefnu. Það að vera stöðugt að rykkja atvinnulífinu, ríkisfjármálum o.s.frv. í gír og úr veldur alvarlegum hiksta í hagkerfinu og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ég tel að það sé mjög háskalegt ef slíkt yrði tekið upp hér. Ég tel að almenningur eigi að taka vel eftir því sem hv. stjórnarandstæðingar hafa sagt um þetta í dag því það boðar ekki góðar tíðir ef þeir komast til valda.

Í því frumvarpi sem hér er til umræðu er boðuð hófsöm málamiðlun og skynsemi með þeim römmu skorðum sem eru í væntanlegri heildaráætlun og eru nú þegar í fyrsta áfanga rammaáætlunar. Þannig verður þetta, að því er ég ætla og vona, framvirk þjóðarsátt.