Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 14. febrúar 2007, kl. 13:51:41 (4698)


133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

486. mál
[13:51]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í Kyoto-bókuninni sem var samþykkt í desember 1997 var samþykkt að Íslendingar fengju að losa 10% meira af koldíoxíði á fyrsta skuldbindingatímabili Kyoto-bókunarinnar sem er frá 2008 til 2012, þ.e. 10% umfram losun á viðmiðunarárinu 1990.

Þessu til viðbótar var samþykkt með svokölluðu íslenska ákvæði árið 2001 sem er 14. samþykkt 7. aðildarríkjaþings rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, að Íslendingar mættu losa 1,6 milljónir tonna til viðbótar vegna iðnaðarferla. Það tekur að vísu líka til Mónakós og Liechtensteins.

Það sem ég vil vekja athygli á í þessu sambandi er að sú heimild tekur eingöngu til fyrsta skuldbindingatímabilsins. (Forseti hringir.) Það sem ég hef áhyggjur af er hvernig íslensk stjórnvöld ætla að bregðast við eftir 2012.