Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 14. febrúar 2007, kl. 13:55:08 (4700)


133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

486. mál
[13:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að vekja athygli á því að hv. þm. Mörður Árnason spurði um reglur, hvort ráðherra hygðist setja reglur um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Ég vísaði til reglna vegna stóriðjunnar til þessa frumvarps. Á þeim stutta tíma sem þessi dagskrárliður þingsins gerir ráð fyrir er ekki hægt að gera grein fyrir frumvarpinu, jafnvel þótt búið væri að dreifa því í þinginu. Þetta er ekki umræða um þetta frumvarp, hv. þingmaður spurði um reglurnar.

Það sem ég vil síðan árétta og taka undir með hv. þingmanni er að eftir 2012 er alveg óljóst hvaða losunarheimildir íslensk stjórnvöld muni hafa. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni líka, menn byrja ekki að ræða það 2012. Þess vegna hefur í þeim undirbúningi að viðræðum sem átt hefur sér stað öll áhersla verið lögð á það að viðræður hefjist þegar á yfirstandandi ári og eigi síðar en árið 2009.

Það er m.a. til þess að menn viti að hverju þeir ganga eftir að þessu fimm ára tímabili lýkur 2012. Frumvarpið sem ég hef þegar nefnt í þessari umræðu tekur einungis til losunarheimilda og reglna um úthlutun þessara losunarheimilda á tímabilinu 2008–2012 sem segir mikið um óvissuna sem tekur við að því tímabili loknu.