Vegrið

Miðvikudaginn 14. febrúar 2007, kl. 15:12:16 (4731)


133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vegrið.

292. mál
[15:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef haft orð á því áður að skemmtilegt er að fá tækifæri til þess að ræða í sölum Alþingis um hönnun vega. Hér er hver sérfræðingurinn af öðrum sem talar um þau málefni.

En spurt er: „Hafa samgönguyfirvöld einhver áform um að fjölga víravegriðum á þjóðvegum landsins og ef svo er, hver eru þau áform?“

Svar mitt er svohljóðandi: Vegagerðin hefur nýlega endurskoðað reglur um vegrið. Samkvæmt þeim reglum er vegriðsgerð valin með hliðsjón af styrkleikaflokki, vinnubreidd og slysahættu samkvæmt ÍST EN 1317-2.

Þróun víravegriða hefur verið mikil á síðari árum og er nú verið að framleiða víravegrið í sífellt hærri styrkleikaflokki. Víravegrið eru talin kostnaðarlega hagkvæm borið saman t.d. við bitavegrið í sambærilegum styrkleikaflokki.

Víravegrið dregur minna að sér snjó en aðrar vegriðsgerðir sem er víða kostur. Vegagerðin velur hagkvæmustu vegriðsgerðir hverju sinni sem uppfylla þær kröfur sem reglur Vegagerðarinnar gera ráð fyrir hverju sinni. Að þessu gefnu má ætla að notkun víravegriðs á vegakerfinu aukist á næstu árum.

Nýjar reglur um hvar skuli setja upp vegrið eru strangari en eldri reglur. Af því leiðir að þeim stöðum mun fjölga þar sem setja þarf upp vegrið til að uppfylla kröfur um það umferðaröryggi sem að er stefnt. Áætlanir eru um uppsetningu á víravegriðum í tengslum við endurbyggingu hringvegar þar sem það á við.

Í viðhaldi og lagfæringum á vegakerfinu er unnið eftir ákveðnu verklagi um lagfæringu slysastaða. Uppsetning vegriða er oft hluti af því verkefni. Áætlun um lagfæringu slysastaða er unnin á hverju ári.

Í annan stað er spurt: „Hvernig metur samgönguráðherra þá reynslu sem komin er af notkun þessara vegriða hér á landi?“

Svar mitt er svohljóðandi: Þar sem skammur tími er liðinn frá því Vegagerðin hóf að setja upp víravegrið er ekki hægt að fullyrða enn sem komið er hvernig þau muni reynast þegar til lengri tíma er litið.

Öll víravegrið hér á landi eru á 2+1 vegi. Sú reynsla sem Vegagerðin hefur af víravegriðum fram til þessa er í fullu samræmi við þær væntingar sem voru við þau bundin. Þessi gerð vegriða hefur víða reynst mjög vel. Má þar nefna sérstaklega lönd eins og Svíþjóð og Skotland.

Þessi gerð vegriða eru almennt talin mjög hagkvæm með tilliti til virkni og kostnaðar. Kostir sem Vegagerðin getur staðfest eru t.d. að snjókóf er minna við víravegriðin en við hefðbundin bitavegrið. Þá hafa þau ýmsa aðra kosti, ekki síst þann að þau skerða útsýni minna en önnur vegrið.

Fljótlegt er að gera við þessi vegrið og einnig að taka þau niður gerist þess þörf. Nokkrar ákeyrslur hafa orðið á víravegrið en það hafa í flestum tilfellum verið eignartjón eða minni háttar óhöpp. Samkvæmt upplýsingum okkar í ráðuneytinu er það einnig mat lögreglu að reynslan af víravegriði sé góð fram að þessu.

Atvik þar sem ætla má að slys á vélhjólamönnum verði hugsanlega vegna víravegriða eru hverfandi. Sé miðað við upplýsingar frá Svíþjóð þá er það svo. Upplýsingar frá Svíþjóð liggja fyrir frá 1999. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi hafa engin slys orðið á vélhjólamönnum þar sem víravegrið koma við sögu. Á Íslandi hefur verið lagt kapp á að gera víravegriðin sem öruggust. Stólparnir hafa m.a. verið hafðir þannig að sem minnst hætta skapist af árekstrum við þá.

Að lokum er rétt að endurtaka að víravegrið eru hagkvæmasta gerð vegriða. Má með því að nota þau setja upp vegrið á fleiri stöðum en ella væri. Þannig má bjarga fleirum fyrir þá takmörkuðu fjármuni sem ætlaðir eru til vegamála hverju sinni.

Niðurstaðan er sú að þar sem það á við er þetta góður kostur, og er að þróast. En ljóst er að það svæði sem er með svokölluð víravegriði á Hellisheiðinni, segja má að það sé þróunarverkefni og liggur fyrir að vegur af þeirri gerð sem þar er þyrfti að vera breiðari þegar um er að ræða 2+1 veg.