Skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007, kl. 10:48:56 (4760)


133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[10:48]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir að þessi umræða getur farið hér fram. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem þingið hefur tekið ákvörðun um að unnið skuli að. Það var með þingsályktun 3. júní sl. sem þingið fól ríkisstjórninni að koma á fót nefnd til að kanna gögn í vörslu opinberra aðila er vörðuðu öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991. Skyldi nefndin gera tillögu um aðgang fræðimanna að gögnunum. Í lögum nr. 127/2006 var síðan kveðið á um frjálsan aðgang nefndarinnar að öllum gögnum í vörslu stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands og skyldu opinberra starfsmanna til að svara öllum fyrirspurnum nefndarinnar óháð þagnarskyldu.

Skýrsla nefndarinnar liggur nú fyrir og er ástæða til að þakka fyrir það vandaða verk sem nefndin skilar af sér með skýrslunni. Tillaga nefndarinnar um stofnun öryggismálasafns er skynsamleg, og vafalaust að um hana tekst víðtæk sátt. Það er ljóst af niðurstöðum nefndarinnar að umfang þeirra skjala og gagna sem snerta öryggismál Íslands á umræddu tímabili er gríðarlegt, vel á annað þúsund hillumetra af gögnum er til að mynda að finna hjá utanríkisráðuneytinu og er áætlað að það taki nokkur ársverk að kanna og gera þau skjöl aðgengileg. Er þá ótalið það sem þegar er komið til vörslu hjá Þjóðskjalasafni en sem dæmi um umfangið og mögulegan kostnað er talið að það kunni að kosta allt að 20 milljónum að gera aðgengileg þau 45 vörubretti af gögnum sem afhent voru Þjóðskjalasafninu við einkavæðingu Pósts og síma.

Ég hygg að það sé óhætt að fullyrða að þegar þingmenn ræddu um mikilvægi þess að öll gögn sem vörðuðu innra og ytra öryggi landsins á kaldastríðsárunum yrðu gerð aðgengileg hafi engan órað fyrir því að um væri að ræða annað eins magn af skjölum. Nú, þegar því hefur verið svarað hvar gögnin er að finna og tillögur liggja fyrir um það hverjir skuli fá aðgang að þeim og með hvaða skilyrðum, þarf að ákveða hvernig við stöndum best að framkvæmd þess að gera skjölin og gögnin aðgengileg. Ég geng út frá því að hér á þinginu sé full samstaða um að tryggja fjármuni til verksins svo að umfang málsins eitt og sér verði ekki til þess að tefja frekari rannsókn skjalanna um of.

Ég leyfi mér að nota þetta tækifæri til að fagna því frumkvæði sem nefndin hefur tekið hvað varðar tillögur um aðgang annarra en fræðimanna að þeim gögnum sem hér er rætt um. Í skipunarbréfi nefndarinnar og ályktun Alþingis var ekki fjallað um aðgang annarra en fræðimanna en það er óumdeilanlega mikils virði að nefndin skuli hafa séð mikilvægi þess að jafnframt lægju fyrir tillögur um upplýsingarétt aðila að upplýsingum um sig sjálfa sem og um upplýsingarétt almennings. Um bæði þessi svið hefur mikið verið rætt í tengslum við þessi mál og fer vel á því að reglur um rétt allra þessara aðila séu settar samtímis.

Hæstv. forseti. Skrif sagnfræðinga á síðasta ári um öryggisráðstafanir stjórnvalda á kaldastríðsárunum urðu tilefni mjög líflegra og á köflum afar skrautlegra umræðna hér á þinginu. Allur vafi um hugsanlega starfshætti stjórnvalda á umræddu tímabili og skipulag þessara mála var almennt túlkaður á versta veg af stjórnarandstöðunni. Dómsúrskurðir frá árunum 1949–1968 um hleranir á grundvelli innra öryggis landsins á kaldastríðsárunum voru taldir skýr sönnun umfangsmikillar pólitískrar hlerunarstarfsemi þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu gegnt lykilhlutverki og njósnað skipulega um andstæðinga sína. Látið var að því liggja að umræddir dómsúrskurðir væru einungis toppurinn á ísjakanum, fleiri tilvik af sama meiði ættu eftir að finnast og gengið var út frá því sem vísu að hlerunarstarfsemi hlyti að hafa verið stunduð án dómsúrskurðar og það jafnvel fram að lokum kalda stríðsins, ef ekki lengur.

Nei, virðulegi forseti, með skýrslu nefndarinnar er raðað fyrstu púsluspilunum í þá mynd sem smám saman mun skýrast á næstu missirum eftir því sem frekar verður hægt að tryggja aðgengi að gögnum um þessi mál. Nú þegar liggur þó eftirfarandi fyrir varðandi hleranamálin:

Hleranir vegna innra öryggis landsins voru ekki stundaðar eftir árið 1968.

Engin dæmi eða aðrar sannanir hafa fundist um að hleranir hafi farið fram án undanfarandi dómsúrskurðar.

Framkvæmd hlerana var í afar föstum skorðum, og gögn sem urðu til við hleranir voru eingöngu notuð af lögreglu þar til þeim var eytt. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu nefndarinnar.

Þessar upplýsingar hljóta að vera helstu æsingamönnum umræðunnar um hleranir á kaldastríðsárunum mikil vonbrigði því að stóryrði þeirra hafa enga stoð í raunveruleikanum.