Breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 21:17:52 (5058)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn.

571. mál
[21:17]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 127/2006, um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Eins og með fyrri ákvarðanir er gerð grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Tilskipunin sem hér um ræðir snertir innri markaðinn og er ætlað að koma til móts við þörf m.a. hlutafélaga í mismunandi ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu til að hafa með sér samvinnu og sameinast, en lagalegir og stjórnsýslulegir erfiðleikar hafa haft áhrif á þessu sviði. Með tilskipuninni er hlutafélögum auðveldaður samruni milli landa, m.a. með tilliti til aðildar starfsmanna og í góðu samræmi við fyrra samkomulag á því sviði eins og greint er frá í tillögunni. Til að ákvæði tilskipunarinnar gildi þarf að koma til samruni hlutafélaga frá minnst tveimur EES-ríkjum, m.a. samlagshlutafélaga og jafnvel einkahlutafélaga. Ríkin geta ákveðið hvort tilskipunin nái einnig til samvinnufélaga. Þau geta og á grundvelli almannahagsmuna og með vissum skilyrðum lagst gegn samruna. Í tilskipuninni er m.a. að finna ákvæði um samrunaáætlun, rannsókn óháðs sérfræðings á henni, meiri hluta atkvæða á hluthafafundum í samrunafélögum, verndarráðstafanir til handa lánardrottnum og skýrslu um áhrif samruna á starfsmenn.

Viðskiptaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um samvinnufélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur sem ætlað er að innleiða þau ákvæði tilskipunarinnar sem snúa að viðskiptaráðuneytinu. Einnig er unnið að innleiðingu tilskipunarinnar í félagsmálaráðuneytinu en 16. gr. tilskipunarinnar heyrir undir það ráðuneyti.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þingsályktunartillögunni vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.