Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins

Þriðjudaginn 20. febrúar 2007, kl. 13:48:41 (5101)


133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aumt er hlutskipti fjármálaráðherra hér að mæla fyrir enn einu skrefinu í einkavæðingu raforkukerfisins. Ég er hræddur um að Vestfirðingar fagni því ekkert sérstaklega eða klappi fyrir fjármálaráðherra þegar endanlega er verið að leggja Orkubú Vestfjarða sem sjálfstæða einingu niður, bæði hvað varðar dreifingu og orkuvinnslu og leggja það inn í Landsvirkjun. Ég held að þeir klappi ekki neitt ofboðslega. Ég kem nánar að því í ræðu minni á eftir.

Það sem ég ætlaði að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um er: Hvað verður um virkjunarréttinn sem þessi félög, hvort sem það er Rarik eða Orkubú Vestfjarða, hafa og renna nú inn í Landsvirkjun? Mér er hugsað til virkjunarréttarins í jökulánum í Skagafirði þar sem Rafmagnsveitur ríkisins á móti Kaupfélagi Skagfirðinga eiga virkjunarréttinn í Villinganesi og búið er að undirbúa allt til að virkja jökulárnar. Þar hafa þeir verið í samkeppni við Landsvirkjun sem líka hefur viljað fá virkjunarréttinn í jökulánum. Við erum alveg á móti því að þær verði virkjaðar, við viljum verja þær. Samkvæmt þessu fer virkjunarréttur Rafmagnsveitna ríkisins inn í Landsvirkjun og þá er sami aðilinn kominn með virkjunarréttinn sem nú hefur legið fyrir hvað varðar jökulárnar í Skagafirði og ógnunin gagnvart því að það verði virkjað enn meiri.

Er þetta rétt skilið hjá mér? Fer virkjunarréttur Rariks á jökulánum í Skagafirði nú inn í Landsvirkjun með þessum breytingum?