Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins

Þriðjudaginn 20. febrúar 2007, kl. 16:03:07 (5130)


133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að það kæmi honum á óvart ef þetta stæðist ekki. Ég geri líka ráð fyrir að það hafi komið hæstv. ráðherra nokkuð á óvart að Landsvirkjun og Síminn féllust á að borga 80 millj. kr. í sekt fyrir ólöglegt athæfi hvað varðar samkeppnismál á Íslandi. Skyldi það nú ekki vera að þau ráð sem koma frá þeim ágæta manni, forstjóra Landsvirkjunar, geti reynst brigðul í fleiru en því? Greinilegt er að þaðan koma ráðin og þau hafa ekki reynst vel. Hæstv. ráðherra ætti að skoða sig vel um með það hvort yfirleitt eigi að hlaupa alveg strax eftir hugmyndum sem koma úr Landsvirkjun hvað varðar þessi málefni.

Það að menn vanti fjármuni til að tryggja rekstur Landsvirkjunar og finni ekki aðra leið en þessa til þess ætti a.m.k. að kveikja á æðimörgum perum hjá þeim manni, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem ber ábyrgð á samkeppnismálum í þessum geira. Þetta er það málefni sem ríkisstjórnin hefur borið fram og talað fyrir, að koma á virkri samkeppni á þeim markaði og það er ekki vandalaust. Það að hlaupa til og búa til einokunarfyrirtæki, svona gríðarlegan risa á þeim markaði eins og hér er ætlunin að gera, er í eðli sínu algerlega gegn þeim markmiðum sem voru boðuð. Það er undarlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki átta sig á því að hlutverk hans er að gæta hagsmuna, ekki bara Landsvirkjunar — nú er Landsvirkjun nefnilega komin til hæstv. fjármálaráðherra og nú hefur hæstv. ráðherra ekki kápuna á báðum öxlum í þessu — heldur á hann að gæta hagsmuna neytenda eins og hann átti reyndar að gera allan tímann.