Meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga

Miðvikudaginn 21. febrúar 2007, kl. 15:43:57 (5267)


133. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2007.

meðferðarúrræði fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga.

[15:43]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Eins og er um fleiri málefni velferðarkerfisins þá bera fleiri en eitt ráðuneyti ábyrgð á málefnum áfengis- og fíkniefnaneytenda. Slík ábyrgðarskipting milli ráðuneyta á málaflokkum getur komið í veg fyrir eðlilega samhæfingu á þjónustunni og að fjármagn nýtist á hagkvæmastan máta. Það getur einnig bitnað á skjólstæðingum þjónustunnar.

Á síðustu árum hafa verið gerðar úttektir og skýrslur um þjónustu við áfengis- og vímuefnaneytendur sem gefa glögga mynd af þeim vettvangi og hvar skórinn kreppir. Þetta var gert í kjölfar samþykktar beiðni um skýrslu um meðferðarstofnanir og síðan samþykkt þingsályktunartillögu um mótun heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana en hvort tveggja var að frumkvæði Einars K. Guðfinnssonar núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra. Áfengis- og vímuefnaneytendur eru fjölbreyttur hópur karla og kvenna á ýmsum aldri á mismunandi stigi sjúkdóms síns og með ólíkar þarfir. Styrkur íslenskra meðferðarstofnana er að þær eru aðgengilegar og bjóða upp á fjölbreytt úrræði sem eru til þess fallin að mæta þörfum þeirra. Hins vegar hlýtur það að vera sérstakt athugunarefni að á hverju ári fer 1,5% þjóðarinnar í meðferð vegna áfengis- og vímuefnavanda sem er mun hærra hlutfall en þekkist annars staðar.

Það er ljóst að það þarf að breyta ýmsum áherslum í starfi meðferðarstofnana. Færa þarf ábyrgð á málaflokknum á hendi eins ráðuneytis eða skýra betur ábyrgðaskiptingu milli þeirra til að tryggja yfirsýn og samhæfingu á þjónustunni. Það þarf að leggja aukna áherslu á meðferð á göngudeild á kostnað þjónustu sem felur í sér innlögn á stofnun og það þarf að tryggja áfram fjölbreytni í þjónustu en jafnframt er nauðsynlegt að gera þjónustusamninga við þá sjálfstæðu aðila sem tekið hafa að sér meðferð þessa fólks. Í þeim þarf að gera kröfur um faglega þjónustu og síðast en ekki síst verður að koma á samræmdu mati á gæðum og árangri þjónustunnar.