Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 20:50:14 (5416)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:50]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur verið að mörgu leyti áhugaverð umræða um frumvarp það sem lagt er fram af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra. Eftir framsögu hæstv. ráðherra spurði ég nokkurra spurninga í stuttu andsvari og ráðherra gerði tilraun til að svara spurningunum einnig í stuttu andsvari. En eins og ég sagði í fyrri ræðu minni taldi ég mig ekki hafa fengið svör við þeim spurningum sem ég lagði fram. Og eftir fyrri ræðu mína þar sem ég fór betur yfir málið og bætti talsvert í af spurningum átti ég von á að hæstv. ráðherra kæmi inn í umræðuna, að minnsta kosti í andsvari við mig og reyndi þá svara einhverju af því sem ég hafði lagt fram. En úr því að ráðherra virðist ætla að velja það að svara mér í ræðu en ekki í andsvari þá held ég að ég verði að nota tækifærið og leggja fram aðeins meira af spurningum um frumvarpið og einnig þau lög sem eru í gildi.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni átti ég erfitt með að koma auga á hvað það væri sem knýi á um lagabreytingu og benti á með rökum að þau ákvæði sem fram koma í greinum frumvarpsins, þó að eitthvað af þeim hnykkti betur á ákveðnum hlutum, þá sæi ég ekki betur en að heimildir væru í núverandi lögum til að gera allt það sem verið er að tala um að þessi lagabreyting ætti að ná fram.

Í almennum athugasemdum við frumvarpið segir að ráðast þurfi í þessa breytingu til að Verðlagsstofa geti ekki bara farið yfir samninga sem lagðir eru fram heldur líka fylgt því eftir að gert sé upp samkvæmt þeim samningum sem lagðir eru fram og gripið þá inn í ef það er ekki gert. Í athugasemdunum segir, með leyfi forseta:

„Til að fylgjast með því að útgerðarmenn geri upp við áhafnir í samræmi við samninga hefur Verðlagsstofa m.a. beitt úrtakskönnunum. Í því hefur verið fólgið mikilvægt aðhald fyrir þá sem hlut eiga að máli. Nokkur brögð munu þó hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð og hefur Verðlagsstofa ekki haft nægilega virk úrræði til að bregðast við þegar slík mál hafa komið upp. Það er því þörf á að Verðlagsstofa leggi meiri áherslu á að fylgjast með einstökum útgerðum, sem ástæða er til að ætla að geri ekki upp við áhafnir í samræmi við samninga og fái jafnframt virkari úrræði til að fylgja slíkum málum eftir. Lagafrumvarpi þessu er ætlað að bæta úr þeirri þörf. Verði frumvarpið að lögum mun Verðlagsstofu ekki aðeins vera heimilt og skylt að hafa eftirlit með að fullgildir samningar um fiskverð liggi fyrir heldur ber henni jafnframt, eftir því sem tilefni er til og mögulegt er, að hafa eftirlit með og fylgja því eftir að gert sé upp við skipverja samkvæmt þeim samningum.“

Þetta er sem sagt yfirlýstur tilgangur frumvarpsins. Í lögunum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Verðlagsstofa skiptaverðs skal afla ítarlegra gagna um fiskverð. Skal hún með skipulegum hætti vinna úr upplýsingunum sundurliðuð yfirlit um fiskverð miðað við einstök landsvæði, tiltekna viðskiptahætti og stærðar- og gæðaflokka. Stofan skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Þá skal stofan afla gagna um afurðaverð og horfur um þróun þess.“

Það segir fyrr í lögunum að Verðlagsstofa hafi meira að segja heimild til að semja við fagaðila um almenna öflun og úrvinnslu gagna. Ef einhver vandræði eru með það hjá Verðlagsstofu að vinna úr gögnum getur hún ráðið til þess verktaka og hefur til þess heimild samkvæmt lögunum.

Í 4. gr. segir: „Til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr. ber Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð.“ Það er því óumdeilt að hún getur krafist upplýsinga og hún á að fá þær.

Síðan segir í 5. gr. að við athugun einstakra mála geti Verðlagsstofan krafið fjöldann allan af aðilum um upplýsingar til að fylgjast með hvort farið hafi verið að samningum með fiskverð. Og hverjir eru það sem hún getur krafið um slíkar upplýsingar? Það eru allir sem koma að meðferð, sölu, vinnslu, fjármögnun, flutningi á aflanum sem um er að ræða. Í 5. gr. segir enn fremur:

„Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs“ — hún getur sem sagt tekið upp einstök mál og skoðað þau — „krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum“ — þ.e. öllum opinberum aðilum sem að málinu koma — „þar á meðal skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum, óháð þagnarskyldu þeirra.“

Það er ekki einu sinni bankaleynd sem gildir samkvæmt lögunum þannig að hún getur í rauninni fengið allar þær upplýsingar sem hún þarf til að fylgjast með því að samningar séu haldnir. Lögin setja þessa skyldu á herðar Verðlagsstofu skiptaverðs og því er spurningin þessi: Hefur Verðlagsstofan ekki farið að lögunum eins og þau eru? Hefur hún tamið sér einhverjar þær aðferðir eða þær útfærslur í sinni vinnu að hún komist ekki út úr þeim nema með því að búa til einhverjar breytingar á lögunum sem í raun eru kannski engar breytingar þegar upp er staðið? Getur verið að Verðlagsstofa sé búin að festa sig í því að hún megi bara taka einhverjar úrtakskannanir sem af handahófi eru ákvarðaðar þó að lögin segi að hún skuli meðal annars með slíkum könnunum sinna hlutverki sínu? En þá segja lögin líka að hún geti athugað einstök mál og farið ofan í þau. Getur verið að lögin hafi verið framkvæmd með þeim hætti að Verðlagsstofan hafi fest sig eingöngu í úrtakskönnunum og treystir sér einfaldlega ekki til að taka upp ný vinnubrögð þó að lögin heimili það nema að lögunum verði breytt á þann hátt sem hér er verið að gera?

Ég lýsti því yfir í fyrri ræðu minni og lýsi því yfir aftur að ég er tilbúinn til að leggja talsvert afl í að stoppa í göt ef þau eru fyrir hendi, en lýsi því jafnframt yfir að ég er ekki tilbúinn til að fara yfir og eyða tíma í frumvörp til að breyta lögum ef þau frumvörp eru eingöngu sett fram vegna þess að sá aðili sem átti að framfylgja gildandi lögum hafi ekki gert það með þeim hætti sem lögin kveða á um. Því síður er ég tilbúinn til að taka þátt í að afgreiða hér frumvarp eingöngu til þess að einhver tala um ákveðin lagafrumvörp frá ákveðnum ráðuneytum sé þokkaleg eða uppfylli einhvern kvóta sem menn eru að velta fyrir sér.

Er nauðsyn að ráðast í þessa breytingu og gera það með þeim hætti sem hér er verið að tala um? Eða er kannski nóg fyrir hæstv. ráðherra að ganga eingöngu fram og krefjast þess að lögin verði framkvæmd eins og þau hljóma?

Í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

„Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar“ — þarna er ekki verið að tala um samninga heldur bara uppgjörið á aflahlutnum — „í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar.“

Hvaða heimild vantar til þess að Verðlagsstofan taki mál til athugunar þegar grunur er uppi um að ekki sé gert upp miðað við samning sem lagður hefur verið fram? Mér er algjörlega ómögulegt að koma auga á nauðsyn þess að bæta í lögin eins og þau eru eða koma auga á að það skorti heimildir fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs til að gera það sem lögin heimila henni að gera.

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað þeim spurningum. Eins þætti mér vænt um það ef hv. formaður sjávarútvegsnefndar kæmi inn í umræðuna og lýsti því fyrir okkur hvaða álit hann hefur á þessu, því mér er ómögulegt að sjá til hvers er verið að breyta lögunum, herra forseti.