Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 21:56:43 (5426)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst þetta varðandi að stjórnarskrárbinda sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni, þá var eins og hæstv. ráðherra væri að ýja að því að einhverjir aðrir flokkar hefðu staðið gegn þessu í stjórnarskrárnefndinni. (Gripið fram í.) Að minnsta kosti voru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn búnir að skuldbinda sig til að þetta yrði gert að tillögu í stjórnarskrárnefnd. Nú hefur stjórnarskrárnefnd talið best að skila áliti og þar er ekki stafur um þetta. Hvaða flokkur var þá á móti þessu? Var Samfylkingin á móti því að það ætti að stjórnarskrárbinda þetta? Nei, það held ég ekki, þeir eru með þetta í stefnuskrá sinni. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er með þetta á stefnuskrá sinni. Frjálslyndi flokkurinn er með þetta á stefnuskrá sinni. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem meira að segja nýtti þetta inn í stjórnarsáttmálann, en samt er ekki hægt að koma þessu út í sameiginlegu áliti þessara flokka um brýnustu aðgerðir í breytingum á stjórnarskránni. Ég bara skil þetta ekki. Ekkert nema það að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru ráðnir í að svíkja þetta. Það trúir þessu enginn upp á þá, er það? Nei.

En varðandi hitt með lögreglumálin þá hefur verið ýjað að því að þarna sé verið að fremja lögbrot. Það hefur verið framið lögbrot því það er lögbrot að hýrudraga sjómenn, að skikka þá til að taka þátt í kvótakaupum eða kvótaleigu og taka það af kaupinu sínu. Það er lögbrot að mínu viti. Það er brot á þeim lögum sem hér eru sett og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hve oft hefur þetta orðið að lögreglumáli eða þekkir hæstv. ráðherra dæmi þess að það hafi verið kallað eftir þessu í sjávarútvegsnefnd, hve oft þetta hefur orðið að lögreglumáli? Mér finnst að við þurfum að vita það þegar við erum að gera svona lagabreytingar, hvað erum við að takast á við?