Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007, kl. 17:26:12 (5543)


133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka eins og aðrir hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir að flytja þetta mál. Mér er ákaflega minnisstætt þegar hv. þingmaður flutti málið hér í fyrsta skipti. Það var í fyrsta sinn sem ég sá ræðu hér í þingsalnum flutta með þeim hætti, og líkast til markaði það skref í þingsögunni því að það hafði ekki áður verið gert.

Mér er líka minnisstætt ýmislegt sem hún sagði á þeim tímapunkti sem rammaði mjög inn þá baráttu sem hún og sá hópur sem hún hefur af nokkrum þunga og krafti barist fyrir í þessum sölum og hefur staðið fyrir. Hún sagði þá að árás á tungumálið væri í reynd árás á þann sem talaði það. Mér er ákaflega minnisstæð tilvitnun sem hún flutti í norskan málvísindamann sem, ef ég man rétt, hét Terje Basilier sem sagði efnislega að ef maður viðurkennir tungumál einstaklings viðurkenni maður hann um leið en ef maður hafnar tungumáli viðkomandi er maður að hafna honum sem einstaklingi.

Þetta voru orð að sönnu sem greyptust í minni mitt vegna þess að mér fannst þau undirstrika vel þessa baráttu, en ég fann líka í henni ákveðinn samhljóm við sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Hvað var það, þegar við Íslendingar börðumst fyrir fullveldi, sem að lokum sannfærði umheiminn um að við hefðum tilverurétt sem samfélag? Það var barátta okkar fyrir því að fá á sínum tíma að tala tungumál okkar og að koma í veg fyrir að það væri niðurlægt og fótumtroðið eins og gert var hér um alda skeið. Að þessu leyti til má segja að það séu sömu línur sem leggja sig eftir því sem hægt er að kalla sjálfstæðisbaráttu þessa hóps og líka þeirrar baráttu sem við tókumst á hendur sem þjóð. Við börðumst fyrir nákvæmlega því sama og hv. þingmaður færir fram hér og það er jafnræði. Hv. þingmaður hefur sagt hér með nokkuð áhrifaríkum hætti að bráðabirgðalausnirnar dugi ekki lengur. Ég er alveg sammála því. Ég ætla ekki að áfellast hæstv. ríkisstjórn þó að ég gæti notað þetta til að skamma hana út og suður blóðugum skömmum eins og ég hef jafnan svo gaman af, frú forseti, og hún á skilið. Ég held að þetta sé mál sem að ýmsu leyti er okkur stjórnmálamönnum öllum til vansa. Ég hef sjálfur setið í ríkisstjórn og ber vafalítið minn bagga eða minn hluta af byrðum þeirrar sektar sem sannarlega má setja á stjórnvöld fyrir framkomu þeirra í garð þessa hóps en ef við höfnum bráðabirgðalausnum hljótum við að ráðast í lausnir sem eru varanlegar. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessi lagabálkur sem hér liggur fyrir er mikilvægt skref til þess að tryggja þá stöðu.

Ég verð að viðurkenna að mig rekur ekki minni til þess hvort í því bréfi frá Félagi heyrnarlausra sem þingflokkunum barst núna í vetur var rætt um stöðu táknmáls sem tungumáls gagnvart stjórnarskránni, en ég man hins vegar eftir því að árið 2003 var nokkuð um það rætt af hálfu félagsins að það þyrfti með einhverjum hætti að verja þetta tungumál, táknmálið, innan vébanda stjórnarskrárinnar og þá í tengslum líka við stöðu íslenskrar tungu. Muni ég rétt, sem er hugsanlegt að ég geri ekki því að ég er tekinn að hníga að aldri og minni mitt að bila stundum, af því að ég sit í stjórnarskrárnefnd hæstv. forsætisráðherra þá barst þangað erindi frá Félagi heyrnarlausra þar sem einmitt var lögð rík áhersla á það að stjórnarskráin tryggði stöðu íslenskrar tungu og samhliða því yrði einmitt táknmálið sem tungumál þessa hóps líka varið. Sú nefnd hefur eins og kom rækilega fram í umræðum í gær ekki lokið störfum. Ekki er mikil von til þess að hún ljúki því að fullu leyti á þessu vori en þetta er eitt af þeim málum sem liggja fyrir stjórnarskrárnefndinni og sem ég og áreiðanlega aðrir í henni munum taka til ítarlegrar skoðunar. Ég vil segja það alveg skýrt, frú forseti, í þessari umræðu að þingmenn Samfylkingarinnar styðja heils hugar þau mál sem hv. þingmaður hefur flutt. Nokkur okkar eru meðal flutningsmanna og það er enginn vafi á því að það mun ekki verða skortur á okkar atfylgi sem leiðir til þess að þetta mál nái ekki fram að ganga. Mér þætti auðvitað gott í þessari umræðu, þegar bæði fulltrúar Vinstri grænna, Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar hafa núna lýst yfir dyggum stuðningi við þetta mál að það kæmi fram af hálfu hv. þingmanna ríkisstjórnarinnar hvort þeir gera það. Við erum, held ég, öll meira og minna sammála efni þessara frumvarpa og sér í lagi stærra frumvarpsins sem hér liggur frammi sem flutningsmaður sjálf hefur sagt að megi skilgreina sem eins konar réttindaskrá hópsins. Ég held að það sé mjög mikilvægur grundvöllur undir það að koma á ástandi þar sem bráðabirgðalausnir ríkja ekki heldur varanlegar lausnir.

Ég held að þarft væri að heyra hvað hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins segja um þetta mál. Það eru nú einu sinni þeir sem fara með þetta mál, þ.e. þeir ráða úrslitum um hvort það nær fram að ganga. Hv. þingmaður gat þess að þingmönnum hefði fyrir skömmu borist bréf frá einni úr hennar hópi, Önnu Jónu Lárusdóttur. Það er hárrétt, mér barst það bréf og ég svaraði því fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar. Það bréf var ákaflega vel orðað en dapurleg lýsing á hlutskipti fólks sem er heyrnarskert, heyrnarlaust eða daufblint og sér í lagi rann mér til rifja sú lýsing sem þar kom fram á þeirri félagslegu einangrun og þeim skelfingum sem hún getur leitt yfir þá sem eru aldraðir í þessum hópi. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er ekki mjög langt síðan Íslendingar sem þessum annmörkum eru háðir brutust út úr þessari einangrun og hv. þingmaður lýsti því mjög vel hvernig þjóðfélagið skuldar þeim í reynd ákveðna möguleika á að ná upp því sem þeir hafa tapað, t.d. að því er varðar möguleika til að verða sér úti um menntun. Þetta var eitt af því sem bréfritarinn, Anna Jóna Lárusdóttir, skilgreindi fyrir okkur með ákaflega ítarlegum og sorglegum hætti, fannst mér. Það varð okkur í Samfylkingunni tilefni til þess að leggja fram fyrirspurn um það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að beita sér fyrir því að rjúfa hina félagslegu einangrun aldraðra og hvernig stefnu hún hygðist móta og hrinda í framkvæmd í því skyni. Þetta er ákaflega mikilvægt.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að í dag er það þannig að jafnvel sjö ára börn sem eru fötluð og geta ekki lesið og þurfa að læra blindraletur fá það ekki. Það virðist skorta fé, hafi ég skilið hv. þingmann rétt. Þetta er náttúrlega alveg skelfilegt að heyra, að það skuli vera þannig í þessu velferðarsamfélagi þar sem allt veður í lúxus og auðlegð að sjö ára barn skuli ekki geta orðið sér úti um grundvallarmenntun af því að ríkið sinnir ekki lögbundnum skyldum sínum til að leggja til fjármagn til að tryggja jafnræði af þessum toga. Það er átakanlegt þegar maður heyrir sögur af þessu tagi en það var alveg jafnátakanlegt, fannst mér, að fá þessar upplýsingar um hina félagslegu einangrun þeirra sem aldraðir eru.

Hv. þingmaður reifaði það skelfilega mál sem kom upp fyrir nokkrum árum í sambandi við Heyrnleysingjaskólann. Það var alveg skelfilegt mál. Hún rifjaði upp að þá hefði verið staðfest kynferðisleg misnotkun sem hún sagði að hefði verið sögusveimur í því samfélagi árum saman. Sá kvittur reyndist á rökum reistur, það var fótur undir þeirri sögu þegar menn gátu brotist út fyrir þann múr félagslegrar einangrunar sem umlukti þann hóp. Það kom í ljós að skelfilegir glæpir höfðu verið framdir á þeim tíma en mér er spurn, frú forseti: Hefur það mál verið hreinsað upp? Ég spyr vegna þess að við höfum á undanförnum vikum orðið áhorfandi að því að hér hafa komið upp mál sem tengjast Breiðavík og Byrginu þar sem líka hafa verið stofnanir sem hafa verið án ytra eftirlits þar sem skelfilegir hlutir hafa komið upp. Ef ég man rétt var þarna um að ræða rannsókn og í ljós kom að í a.m.k. fjórum tilvikum hafði verið framinn glæpur. Hvert var framhaldið á því? Þegar í ljós kemur að það er staðfesta fyrir þeim sögum sem þarna voru á sveimi var ráðist í að kanna þetta mál að öllu leyti og hreinsa það upp? Ég held ekki.

Á þeim tíma, muni ég rétt, var þeim sem voru þolendur í þessu tiltekna dómsmáli boðið upp á ákveðna þjónustu og áfallahjálp en spurningin er hvort þetta mál hefur, vegna þess að fáir hafa getað talað fyrir þennan hóp þangað til hv. þingmaður kom hingað, verið hreinsað upp með sama hætti og menn eru núna að ráðast í Byrgið og Breiðavík? Ég dreg það mjög í efa. Ef hv. þingmaður veit um það og getur svarað því væri mér þökk að því en að öðru leyti er þetta mál sem ætti að kanna af hálfu stjórnvalda.

Ég segi að lokum, frú forseti, að ég styð þetta mál heils hugar. Og ég styð það heils hugar að með einhverjum hætti fari menn í það sérstaklega að reyna að bæta fyrir það tjón sem ég vil segja að skilningsleysi samfélagsins hafi valdið þessum hópi. Hv. þingmaður hefur lýst því hér ítarlega hvernig þeim sem núna eru kannski komnir á miðjan aldur tókst að brjótast út úr þessari félagslegu einangrun sem bæling táknmálsins í 100 ár hér á landi leiddi til, hvernig þeim hefur ekki tekist að verða sér úti um framhaldsmenntun og það má segja, með góðum rökum, að samfélagið hafi svipt þá þeim möguleikum. Nú höfum við hins vegar tækifæri til að bæta fyrir það og það eiga menn að gera. Þetta mál er fínt, það stígur mikilvægt skref að jafnræði og það er það sem skiptir máli, jafnræðið. Það kann að kosta sitt en jafnræði er ómetanlegt, það er grundvallarregla og það er stjórnarskrárvarið.