Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007, kl. 18:01:13 (5553)


133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[18:01]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir þá elju og þrotlausu baráttu sem hún hefur sýnt með því að berjast fyrir þessu máli hér á þingi. Ég er sannfærð um að hún muni ná árangri í þessu máli. Við erum að tala um mannréttindamál, hvorki meira né minna. Heyrnarlausir og daufblindir eru ekki að biðja um nein forréttindi, þau eru að biðja um jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna eins og kostur er. Þau eru að biðja um að geta hjálpað sér sjálf í samfélaginu, notið skólagöngu og sótt sína vinnu, stundað tómstundastörf og fengið aðstoð við að gera sig skiljanleg í daglegum viðfangsefnum. Það er ótrúlegt að á árinu 2007 þurfi að setja í lög, eins og segir í þessu frumvarpi, að það sé óheimilt að neita heyrnarskertum eða daufblindum um skólavist. Hvílíkt og annað eins að á árinu 2007 þurfi að setja slík ákvæði inn í lög. Það er þó ljóst að það virðist þurfa.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir vitnaði í ýmsar reynslusögur hjá þeim sem hafa mátt þola skilningsleysi þjóðfélagsins í þessu máli. Meðal annars vitnaði hún í Önnu Jónu Lárusdóttur og bréf sem hún hefur, ef ég skildi hana rétt, sent öllum þingmönnum. Ég las það frá orði til orðs og ég held að það bréf hafi varla látið nokkurn þingmann ósnortinn. Manni svíður að þurfa að lesa, eins og þarna kom fram, hvað heyrnarlausir hafa mátt þola í æsku vegna skorts á þjónustu við heyrnarlausa. Þetta er ótrúleg lýsing á því óréttlæti sem þessi kona og örugglega margir aðrir hafa gengið í gegnum. Það er alveg ljóst að stjórnvöld eiga skuld að gjalda þessari konu og öðrum heyrnarlausum sem hafa mátt þola mikið óréttlæti og raunveruleg mannréttindabrot í gegnum tíðina vegna skorts á þjónustu við heyrnarlausa og vegna skilningsleysis á stöðu þeirra í þjóðfélaginu.

Nú er það svo, og það hefur komið skýrt fram í dag, að það er meiri hluti fyrir þessu máli í þinginu. Á frumvarpinu eru níu stjórnarliðar og formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur lýst yfir stuðningi við málið. Ég þori að fullyrða úr þessum ræðustól að hver einn og einn einasti í stjórnarandstöðunni er sammála þessu máli og mun greiða því atkvæði sitt og þótt ekki væru nema þessir níu þá til viðbótar sem eru úr stjórnarliðunum plús formaður þingflokks er góður meiri hluti fyrir þessu máli á þingi. Það væri að níðast hreinlega á lýðræðinu ef þetta mál yrði skilið eftir í nefnd. Ég skora á þingmenn að afgreiða málið út úr nefndinni þótt stutt lifi eftir af þessu þingi. Ég skora á þingmenn að sameinast um þetta mál og afgreiða það í lok kjörtímabilsins. Það væri þinginu til mikils sóma ef niðurstaðan yrði sú að við bærum gæfu til þess að ná saman í stjórn og stjórnarandstöðu um að gera þetta mál að lögum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að við hér inni og þjóðin öll, stjórnvöld, skuldum heyrnarlausum að gera þetta mál að lögum, bæta upp fyrir hvað heyrnarlausir hafa mátt þola í fortíðinni, hvað þeir hafa mátt líða vegna skilningsleysis stjórnvalda á þeirra málum.

Ég þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir ítarlega og góða greinargerð með þessu máli. Það er mjög sjaldgæft að þingmenn sem eiga stuttan stans inni á þingi flytji svona góð mál eins og þetta er úr garði gert, bæði lagatæknilega og eins með greinargerðinni, og mér finnst alveg til fyrirmyndar hvernig frá málinu er gengið og í hvernig búning það er sett. Framsaga hv. þingmanns var mjög áhugaverð og auðvitað átakanleg á köflum. Ég trúði vart mínum eigin eyrum þegar ég heyrði hv. þingmann segja hvaða framlag fer í túlkaþjónustu í gegnum þennan táknmálstúlkunarsjóð. Þetta eru ekki 10 millj. kr. Hvers lags er þetta? Að Alþingi Íslendinga — og á þessum árum sem ríkissjóður hefur verið útúrfullur af peningum — skuli leggja til ræfilslegar 10 millj. í táknmálstúlkunarsjóðinn og það eru 100 notendur að þessum sjóði sem þurfa auðvitað á margvíslegri aðstoð að halda til að geta athafnað sig í gegnum daglegt líf, sótt rétt sinn hér og þar í þjóðfélaginu og til þess að hjálpa sér sjálfir. Það eru sex túlkar, er hér upplýst, sem sinna þessari þjónustu fyrir 100 notendur. Þetta er alveg ótrúlegt og ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að þetta væri með þessum hætti. Það er auðvitað lágmark að nægilegir peningar verði settir í slíkan sjóð þannig að þeir sem á honum þurfa að halda geti sótt rétt sinn í gegnum sjóðinn.

Hér var líka upplýst um stöðu túlkanna. Það eru bara konur sem útskrifast sem túlkar, ekki karlmenn og það segir þá sögu að þetta er greinilega ekki vel borgað. Það er kallað eftir því að starfsheiti þeirra verði lögverndað og auðvitað þarf að skoða það í framhaldinu.

Af því að talað er um 100 notendur vil ég segja að ég var að fá svar við fyrirspurn sem ég lagði fram til félagsmálaráðherra um m.a. stöðu daufblindra. Í því svari kemur fram að 62 einstaklingar séu daufblindir. Þetta er stór hópur. Þar af eru nokkur börn, og maður spyr: Hver er staða þessara daufblindu barna miðað við þá þjónustu sem hér er upplýst að heyrnarlausir og daufblindir fá? Svo að ég vitni aftur í bréf Önnu Jónu Lárusdóttur talar hún um aldrað heyrnarlaust fólk sem er mjög einangrað, þarf mikla hjálp og miklu betri þjónustu. Það þarf sérstaklega að skoða stöðu þess og það kemur einmitt fram í þessu svari til mín að af 62 daufblindum einstaklingum er stór hluti þeirra eldri en 70 ára, 46 manns. Hver er staða þessa fólks? Það hlýtur að vera mjög einangrað og þurfa á mikilli hjálp að halda.

Ég hef farið í gegnum þetta frumvarp. Auðvitað kostar peninga að uppfylla ákvæði þess. En lítum bara til þess hvað þessi stóri hópur hefur orðið af mikilli þjónustu sem hann hefur sannarlega átt rétt á og sem stjórnarskráin hefði átt að tryggja honum. Við erum að tala hér um jafnræði þannig að við skuldum hópnum þetta. Jafnvel þótt þetta kosti töluvert mikla peninga eigum við að sameinast um þetta verkefni.

Í frumvarpinu er kveðið á um að táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkunar. Þetta er grundvallaratriði til þess að heyrnarlausir geti lifað hér við bærileg mannréttindi og við jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna eins og kostur er. Hér segir í þessari ágætu greinargerð, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýnin í lagasetningunni er sú að táknmálið muni njóta sömu virðingar og önnur mál og að heyrnarlausum verði mögulegt að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á grundvelli laganna; að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi rétt til að ákveða hvert er móðurmál þeirra og aðrir viðurkenni og virði þá ákvörðun.“

Mér finnst ekki beðið um mikið hér, virðulegi forseti. Mér finnst að við eigum að standa saman að því að svara þessu kalli sem kemur frá heyrnarskertum sem borið er fram á Alþingi undir forustu hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur. Við eigum að verða við þessu kalli og samþykkja frumvarpið. Það er auðvitað grundvallaratriði til að viðurkenning íslensks táknmáls öðlist fullt gildi að efla táknmálsfræðinám og skapa heyrnarlausum og daufblindum fullnægjandi táknmálsþjónustu.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa miklu fleiri orð um málið. Ég skora á þingheim allan að sameinast um að þetta mál verði að lögum þótt stutt lifi eftir af þinginu. Þó að ég eigi ekki sæti í menntamálanefnd mun ég sannarlega leggja mitt af mörkum til að fylgjast með því að umræðan gleymist ekki um leið og við lokum dyrunum á eftir okkur í kvöld, heldur verði málið strax tekið upp í menntamálanefnd sem fær það til skoðunar. Ég heiti á alla þingmenn sem sitja í menntamálanefnd að fylgja málinu fast eftir á næsta fundi nefndarinnar og láta reyna á það hvort ekki næst samstaða um málið þannig að við getum öll í stjórn og stjórnarandstöðu sameinast um að gera þetta mál að lögum áður en þing fer heim. Það skuldum við þessum hópi sem mun öðlast rétt samkvæmt þessu frumvarpi ef að lögum verður.