Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007, kl. 18:14:29 (5555)


133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[18:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem og breytingu á ýmsum lögum og ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir þessi frumvörp. Hér er tekið á mjög mikilvægu réttindamáli sem ég styð.

Mig langar þó til að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi horft til nýrrar tækni sem er að ryðja sér til rúms og ég hef kynnst persónulega af manneskju sem ég þekki, talgervla sem geta skilið talað mál og breytt því í ritað mál og sem geta breytt rituðu máli yfir í talað mál. Getur það ekki orðið lausn fyrir þennan hóp fólks eftir fimm eða tíu ár? Var það skoðað í þessu samhengi? Þeir eru miklu fleiri sem geta lesið íslensku af tölvuskjá eða hlustað á hana ef tölvan talar en þeir sem kunna táknmál. Ef hinn heyrnarlausi getur skrifað mál sitt niður í tölvu og tölvan talar geta allir Íslendingar skilið hann, og öfugt, ef tölvan skilur talað mál og breytir því í ritað gerist það sömuleiðis. Þessar tölvur eru sífellt að verða minni þannig að ég sé ekki annað en að það væri möguleiki.

Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni sem nefndi kerfisbreytingar, eins og t.d. þegar einhverjum dettur í hug að táknmálið sé ekki gott fyrir heyrnarlausa og það veldur ómældum hörmungum eins og hv. þingmaður lýsti í framsöguræðu sinni. Hið sama hef ég heyrt frá blindum, að þjónusta við blinda hafi látið mikið á sjá eftir að tekin var upp sú stefna að dreifa þeim á alla skóla í staðinn fyrir að hafa þá á einum stað þar sem hægt er að veita góða þjónustu. Ég held að það þurfi að hlusta miklu meira á öryrkja, hvort sem þeir eru blindir, heyrnarlausir eða eitthvað annað, og finna lausnir á vanda þeirra í samvinnu við þá.

Svo legg ég eindregið til að menn hverfi frá núverandi kerfi örorkumats sem byggir á því að líta á vangetu fólks. Hv. þingmaður gat þess í framsögu sinni að umhverfið hefði stöðugt verið að segja hinum heyrnarlausa að hann gæti ekki þetta og gæti ekki hitt. Ég vil að kerfið líti einmitt öfugt á þetta og spyrji: Hvað geturðu? Ekki: Hvað geturðu ekki?

Ég vil nefna að það er svo gleðilegt að á hinu háa Alþingi eru í dag einn blindur þingmaður og annar heyrnarlaus og þau væru algjörlega öryrkjar ef litið væri á vangetuna en geta skilað mjög góðu starfi — eins og þetta frumvarp ber vott um — þegar litið er á getuna. Ég held að við þurfum, allt þjóðfélagið, að fara að líta á getu öryrkja en ekki vangetuna. Þetta er einmitt það sjónarmið sem er uppi í þeirri nefnd sem forsætisráðherra skipaði, sú sem fjallar um málefni öryrkja og ég á sæti í.