Hækkun raforkugjalda

Miðvikudaginn 28. febrúar 2007, kl. 13:40:43 (5637)


133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta stóra og mikla mál þó að það sé hér í spretthlaupi fyrirspurnatíma. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi að íbúar landsbyggðarinnar hefðu verið blekktir með þessari raforkulagatilskipun og frumvarpi. Það er sennilega alveg hárrétt. En það voru fleiri blekktir og það vorum við þingmenn, viljandi eða óviljandi af gögnum sem komu frá iðnaðarráðuneytinu sem m.a. sýndu það og sögðu svart á hvítu, eftir margar spurningar frá okkur og mikla vinnu í iðnaðarnefnd hjá þeim sem þar sátu undir forustu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að það yrði hugsanlega 1–2% hækkun á raforkukostnaði hjá íbúum landsbyggðarinnar. (Gripið fram í: Það létu nú ekki allir plata sig.)

Það hefur komið í ljós að þetta eru blekkingar og eins og ég segi viljandi eða óviljandi settar fram frá iðnaðarráðuneytinu. Staðreyndin er svo allt önnur. Hún var fögur fyrirsögnin á frumvarpinu: Frumvarp til laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Og það var fagurt sem fyrrverandi iðnaðarráðherra sagði þá m.a.:

„Sú jöfnun dreifingarkostnaðar raforku sem felst í frumvarpinu er mikilvæg til þess að jafna búsetuskilyrði í landinu.“

Hvað segir svo hæstv. iðnaðarráðherra í dag? Jú, að 25% íbúa hafi fengið hækkun, íbúar landsbyggðarinnar, íbúar í dreifbýli sem hafa fengið allt að 60% hækkun. Nú kemur hæstv. iðnaðarráðherra, formaður Framsóknarflokksins, og talar um að nú eigi að skipa starfshóp til að fara yfir málið.

Virðulegi forseti. Það þarf engan starfshóp í þetta. Það þarf heldur ekki að deila um gögnin vegna þess að nú höfum við reikninga sem fólk er að fá sem sýna þetta. Það þarf aðgerðir.

Að lokum, virðulegi forseti, þetta eru sannarlega kaldar kveðjur (Forseti hringir.) frá Framsóknarflokknum til íbúa í dreifbýli.