Lögmenn

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:03:59 (5710)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

lögmenn.

653. mál
[11:03]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um lögmenn. Frumvarpið hefur að geyma tillögu til breytingar á einni grein á lögum um lögmenn, nr. 77/1998. Felur breytingin í sér að felld verði niður skylda lögmanns sem starfar á Evrópska efnahagssvæðinu til að njóta í þinghöldum aðstoðar lögmanns sem starfar hér á landi. Breytingarnar eru vegna athugasemdar Eftirlitsstofnunar EFTA. Bendir stofnunin á að þar sem aðila máls sé að íslenskum lögum heimilt að flytja mál sitt sjálfur sé óheimilt að takmarka rétt lögmanns á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu í þinghöldum til að hann njóti aðstoðar lögmanns sem starfar hér á landi. Byggir stofnunin álit sitt á dómi Evrópudómstólsins frá 25. febrúar 1988 í máli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gegn Þýskalandi þar sem sams konar álitamál var til meðferðar. Er því lagt til að umrædd skylda verði felld niður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.