Réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 20:24:28 (5856)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál þó að ég heyri að hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í henni, hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, styðji ekki málið og kom það ekki á óvart. Maður heyrir það þegar þeir flytja ræður sínar að þeir eru eindregnir NATO-sinnar og er það ekki í fyrsta skipti sem það kemur fram. (ÖS: Þeir eru að breytast.) Þeir eru að breytast, er hér kallað fram í, en ég sé ekki mikil merki þess, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Framsóknarflokkurinn hefur stutt NATO-aðild og við höfum talið að með þeirri aðild byggjum við í samstarfi við aðra yfir mjög miklum varnarmætti, af því að samkvæmt hugmyndafræði NATO er árás á eitt ríki árás á þau öll. Í því felst geysilega mikill varnarmáttur sem er auðvitað afar mikilvægur fyrir lítið ríki eins og Ísland sem er án eigin herafla. NATO-samstarfið hefur því verið okkur mjög mikilvægt.

Varðandi samninginn sem við erum að ræða hér vil ég undirstrika að hann er ekki óþarfur eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og kannski sérstaklega hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, drógu fram af því að þessir samningar eru samstarfsforsenda. Það er alveg ljóst að sem NATO-ríki er eðlilegt að við séum með ákveðna umgerð um réttindi og réttarstöðu okkar samstarfsaðila. Stefna okkar í dag er sú að við viljum samstarf við önnur ríki á þessum vettvangi, fleiri NATO-ríki en Bandaríkin, og þess vegna er eðlilegt að tryggja þessum bandalagsþjóðum ákveðna réttarstöðu þegar þær koma hingað til lands til að taka þátt í æfingum og ekkert við það að athuga svo framarlega sem maður styður aðild að NATO. Ég veit að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað gera það ekki og þess vegna finna þeir þessum samningum allt til foráttu. (ÖS: Þeir eru að linast bæði í NATO og ESB.) (ÖJ: Heyrist þér það?) Varðandi æfingarnar er alveg ljóst að þær fara ekki fram hér nema í boði og með samþykki íslenskra stjórnvalda og stefnan er sú að vera í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar.

Varðandi friðargæsluna þá er orðin mýkri ásýnd á henni núna en áður, ég held að það fari ekki fram hjá neinum. Breytingar hafa orðið á áherslum, nálgunin er borgaralegri en við höfum kannski séð áður og verið er að reyna að laga kynjahlutföllin hvað varðar þátttöku í íslensku friðargæslunni. Með fullgildingu SOFA-samningsins og samningsins um samstarf í þágu friðar er íslenskum friðargæsluliðum tryggð sömu réttindi og sama réttarstaða hjá aðildarríkjunum að samstarfi í þágu friðar og þeirra eigin liðsafla er tryggður hér á landi með gildistöku þessa lagafrumvarps og fullgildingu Íslands á umræddum alþjóðasamningum. Hér er verið að tryggja réttarstöðu friðargæsluliða okkar. Í þessu felst ekki nein breytt stefnumótun. Hér er einungis um réttarstöðu friðargæsluliða okkar að ræða.

Virðulegur forseti. Ég á ekki von á því að ég breyti nokkuð afstöðu hv. þingmanna tveggja sem hér hafa talað. Þeir eru andsnúnir NATO, vilja leggja niður NATO eins og hér var sagt og telja NATO afar hættulegan félagsskap og ég er algerlega ósammála því. Ég tel að NATO hafi verið mjög mikilvægt fyrir Ísland og það er alveg ljóst að stefnan er sú að vera áfram í samstarfi við okkar helstu vina- og bandalagsþjóðir þannig að ég tel, virðulegi forseti, mikilvægt að utanríkismálanefnd fái þetta mál til umfjöllunar af því að það er forsendan fyrir því að við getum verið í nánu samstarfi við okkar vina- og bandalagsþjóðir.