Réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 20:38:34 (5861)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mikill varnarmáttur er fólginn í því að vera í kompaníi með öflugustu herveldum heimsins, segir hæstv. ráðherra. Er okkur virkilega alveg sama hvað slík ríki gera, bara ef þau verja okkur? Þótt þau fremji mannréttindabrot, þótt þau fari með hernaði ólöglega gegn öðrum þjóðum, ef þau bara verja okkur? Þá er allt í lagi. Þetta er nú ekki hugsun sem mér þykir vera stór í sniðum.

Síðan er hitt að breytingar orðið hafi á áherslum í utanríkispólitík Íslendinga upp á síðkastið. Þetta er hugmynd sem Framsóknarflokkurinn er að reyna að koma inn með þjóðinni. Ég hafna þessu algerlega. Ég hef ekki orðið var við þær breyttu áherslur. Ekki urðum við vör við þær breyttu áherslur hjá Framsóknarflokknum við umræðuna í dag um Írak. Framsóknarflokkurinn er enn við sama heygarðshornið. Hann hefur fylgt árásargjarnasta forseta Bandaríkjanna í einu og öllu. Árásargjarnasta forseta Bandaríkjamanna um áratugaskeið hefur Framsóknarflokkurinn fylgt í einu og öllu.

Meira að segja þegar Saddam Hussein, harðstjórinn sá, var hengdur eins og hundur, sagði hæstv. utanríkisráðherra, einn af forsvarsmönnum Framsóknarflokksins, að við yrðum að virða ákvörðun sjálfstæðs ríkis. Þetta sama sjálfstæða ríki var ráðist á vorið 2003 af Bandaríkjamönnum með stuðningi Íslands. Eru menn ekki komnir pínulítið í mótsögn við sjálfa sig í röksemdafærslunni?

Síðan varðandi vinaþjóðirnar. Við erum vinaþjóð bandarísku þjóðarinnar og bresku þjóðarinnar. En við erum ekki vinir bandaríska herveldisins. (Forseti hringir.) Það er allt annar handleggur.