Íslensk alþjóðleg skipaskrá

Fimmtudaginn 08. mars 2007, kl. 19:25:57 (6021)


133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning ætla ég ekki fyrir fram að væna skipafélög sem koma til með að skrá skip sín hér á landi um að fara ekki eftir bestu kjarasamningum og skaffa sjómönnum sínum bestu kjör. Það væri engan veginn sanngjarnt að segja slíkt fyrir fram. Ég vona og trúi að skipafélög hafi þann metnað að þau búi starfsmönnum sínum sem best kjör, enda er það ljóst að starfsmenn sem búa við atvinnuöryggi og við góð kjör eru líka þeir starfsmenn sem skila bestum afköstum í starfi og hægt er að treysta þegar á reynir, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á.

Mér finnst bara tónninn í frumvarpinu um samkeppnisstöðuna snúa of mikið að kjörum sjómanna, að þau séu akkillesarhællinn í samkeppnisstöðunni. Ég kann ekki við hann, mér finnst hann bera þann keim. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða afslætti á sköttum á sjómönnum og útgerðum til íslenska ríkisins. Margfeldisáhrifin af því að kaupskipin séu skráð hér eru svo gríðarlega mikil þó að útgerðirnar fái að njóta skattaívilnana og gjaldaívilnana þannig að þær verði samkeppnishæfar og það verði tryggt að sjómennirnir búi við bestu starfskjör, réttindi og öryggi. Mér finnst það eiga að vera í fyrirrúmi í svona lagasetningu en ekki hvernig veikja megi réttarstöðu þeirra og þenja hana til ystu randa, frú forseti.