Frumvarp til stjórnarskipunarlaga

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 10:40:06 (6032)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég staðfesti frásögu og orð hæstv. forsætisráðherra í þessari umræðu hér áður. Fundur formanna stjórnmálaflokkanna í gær var einmitt til þess boðaður að bjóða samstarf og leita eftir möguleikum á því um afgreiðslu og umfjöllun um þetta mál. Auðvitað fara ekki fram efnislegar umræður um það nú og deilur og ágreiningur lögmanna er auðvitað alkunna frá því fyrir löngu og mun halda áfram lengi eftir að Alþingi hefur tekið ákvörðun um þetta mál þessu sinni.

Tilboð stjórnarandstæðinga frá því fyrir nokkrum dögum sem skýrt var frá, óundirbúið að því er virtist, var greinilega aðeins pólitískur plötusláttur og sýndarmennska til að koma illu til leiðar. Við héldum satt að segja að það væri efnisleg og málefnaleg aðstaða til samstarfs um þetta mál, um afgreiðslu þessarar tillögu. Það er greinilegt að stjórnarandstaðan er orðin uppvís að óheilindum í málinu, ég harma það mjög og vona að hún taki sig á.