Frumvarp til stjórnarskipunarlaga

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 10:41:28 (6033)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál. Það var á þeim grundvelli sem stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún væri reiðubúin til að lengja þingið og reiðubúin til samstarfs við ríkisstjórnina um að reyna að ná sátt á sama grundvelli og allir flokkarnir höfðu áður náð sátt um í auðlindanefndinni. Við höfðum líka náð sátt við Sjálfstæðisflokkinn í undirhópi stjórnarskrárnefndarinnar sem nú hefur illu heilli lokið störfum. Það var á þessum grundvelli sem okkar tilboð kom fram.

Við töldum að ríkisstjórnin mundi taka því fagnandi. Enginn veit það betur en hæstv. forsætisráðherra, sem hefur manna mesta reynslu af því að breyta stjórnarskrá, að það þarf að gera í samstöðu. Ég tel hins vegar, frú forseti, að allar hefðbundnar samskiptareglur hafi verið brotnar í þessu máli. Hæstv. formenn stjórnarflokkanna höfðu ekkert samráð um þetta og þegar þeir leggja síðan fram þetta frumvarp kemur í ljós að þar er um að ræða alvarlegt frávik frá fyrri samstöðu sem hafði náðst í auðlindanefndinni og líka innan hluta stjórnarskrárnefndarinnar. Öllu tali um óheilindi og sýndarmennsku vísa ég beint til föðurhúsanna, til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Enn einu sinni hefur Framsóknarflokkurinn orðið uppvís að því að láta plata sig, Sjálfstæðisflokkurinn beygir hann. Það er talað um að hér sé verið að brjóta í blað. (Gripið fram í.) Hvað sjáum við svo í skýringum með frumvarpinu? Þar stendur að samkvæmt þessu frumvarpi verði afnotaréttindi eins og fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda óhögguð. Það þýðir með öðrum orðum, frú forseti, að hér er verið að stjórnarskrárbinda óbreytt stjórnkerfi fiskveiða. Það eru öll heilindi Framsóknarflokksins, hann er að plata þjóðina. (Forseti hringir.)