Mælendaskrá í athugasemdum

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 11:09:41 (6051)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:09]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi kem ég upp til þess að lýsa aðdáun minni á ummælum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem sýndi mikla sanngirni. Sanngirnin kom fram í því hvernig hann snupraði kaffibandalagið fyrir þær ósanngjörnu árásir sem það hefur haldið uppi gagnvart forseta þingsins. Það er mjög ómaklegt eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti svo réttilega á.

Það má líka segja að að mörgu leyti sé framganga stjórnarandstöðunnar óeðlileg varðandi það mál sem hér er gert að umtalsefni. Einn daginn er boðað til blaðamannafundar til að leggja áherslu á mikilvægi málsins og vilja til að koma því í gegn. Næsta dag er gengið vasklega fram í því að koma í veg fyrir að málið komist á dagskrá. Þetta er allur viljinn. Svo er það kórónað með því að í dag er brotið hér heiðursmannasamkomulag (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti vill áminna hv. þingmann um að ræða um fundarstjórn forseta.)

Já, nú er ég einmitt að koma að því að í dag er brotið heiðursmannasamkomulag. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að sú venja hefur skapast og það heiðursmannasamkomulag að þegar rætt er um störf þingsins er venjan sú að láta formenn þingflokka vita af því. Það var engin tilkynning um það til formanna þingflokka (Gripið fram í: Þetta er nú ómerkilegt.) að þetta stæði til. Þar með er vikið frá þessu heiðursmannasamkomulagi sem hefur verið gert, sem lýsir auðvitað því gjaldþroti sem er hjá stjórnarandstöðunni í þessu máli sem öðrum. (ÖJ: Ræddum við ekki saman fyrir þingfund?)