Stuðningur við innrásina í Írak

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 15:20:46 (6130)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stuðningur við innrásina í Írak.

[15:20]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Enn á ný taka stjórnarandstæðingar upp þetta sama mál. Það liggur fyrir að ákvörðun var tekin af til þess bærum aðilum árið 2003 um að Íslendingar heimiluðu hér yfirflug, heimiluðu lendingar og veittu 300 millj. kr. framlag, á fjáraukalögum að mig minnir, til uppbyggingar í Írak. (Gripið fram í: 90 milljónir …) Allt hefur þetta legið fyrir um langa hríð og verið margrifjað upp. Þetta voru þær ákvarðanir sem teknar voru hér af hálfu íslenskra yfirvalda.

Um hvernig nákvæmlega var staðið að lista Bandaríkjastjórnar um hinar staðföstu þjóðir er mér ekki kunnugt. Satt að segja skiptir það harla litlu máli núna, árið 2007. Það liggur fyrir, eins og ég hef sagt hér í þessum ræðustól, að við létum það átölulaust af okkar hálfu að við værum í hópi þessara ríkja með Dönum og fjöldamörgum öðrum vina- og bandalagsþjóðum okkar í Evrópu, eins og Bretum og Spánverjum, og mörgum þjóðum í Mið- og Austur-Evrópu. Þessar staðreyndir liggja fyrir, virðulegi forseti.

Hvað vakir fyrir þingmanninum með því að vera að rifja þetta upp núna verður hann sjálfur að segja frá.