Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 16:01:05 (6142)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:01]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit hefur sú venja skapast að frumvörp til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins séu flutt sem þingmannafrumvörp, gjarnan af formönnum þingflokka eða formönnum stjórnmálaflokka. Þeirri venju er haldið. Við formenn stjórnarflokkanna flytjum þetta mál sem þingmannafrumvarp en um það er að öðru leyti ekkert sérstakt að segja. Það hefur enga sérstaka þýðingu.

Varðandi frumvarp það sem hv. þingmaður nefndi sem varðar núverandi 79. gr. stjórnarskrárinnar þá lét ég þess getið að ég gerði ráð fyrir að það gæti komið fram sem þingmannafrumvarp frá formönnum allra flokka. Það var rætt á fundi formanna flokkanna á fimmtudaginn var. Þá var lögð fram ný útgáfa af því frumvarpi. Ég veit ekki betur en að formenn allra flokka séu með það til vinsamlegrar athugunar.

Hvað varðar starfið í stjórnarskrárnefnd hyggst ég ekki munnhöggvast við hv. þingmann út af því en auðvitað hefði Sjálfstæðisflokknum ekki verið neitt að vanbúnaði að fallast á tillögu í nefndinni eins og þá sem hér er lögð fram í frumvarpsformi, ef samkomulag hefði verið um það. Málið snerist um að ná einhvers konar samkomulagi um tillöguna en það kom ekki fram af hálfu hv. þingmanns hvaða afstöðu hann hefur til málsins. Styður hann tillöguna eða gerir hann það ekki?